Færsluflokkur: Tónlist

Þessi færsla er ekki um tölvuleiki...

barryEinhverjir virðast hafa tekið síðustu færslu um tölvuleiki óþarflega persónulega og þar sem að ég vil auðvitað ekki særa stolt neins þá lofa ég að tala aldrei um tölvuleiki aftur! Þess í stað ætla ég að segja ykkur aðeins frá Barry Manilow....

  Barry Manilow, eða Barry Alan Pincuseins og hann heitir réttu nafni er fæddur í Brooklyn þann 17. júní 1943 sem gerir þann merka mann sléttu ári eldri en lýðveldið okkar. Sem stráklingur lærði hann á hið þjóðlega hljóðfæri harmónikku og eftir að hafa spilað valsa og polka í nokkur ár auk þess að taka nokkra létta slagara á píanóið kom stóra breikið en það var að semja auglýsingastef fyrir McDonalds og KFC meðal annara.

Um svipað leyti kynntist hann söngkonunni Bette Midler og saman túruðu þau grimmt um alla helstu hommaklúbba New York borgar þar sem sólbrúni glókollurinn með gullkeðjurnar fangaði hug og hjörtu áheyrenda. Fyrsta sólóplatan lýtur svo dagsins ljós 1973. Hún heitir Barry Manilow I og innihldu smellinn víðfræga Mandy, sem reyndar er eftir einhvern Scott English og heitir Brandy. En Scott þessi hafði greinilega ekki sama sjarma og sex appeal og Barry þannig að hann er löngu týndur og tröllum gefinn en fær þó eflaust sendan reglulega vænan tékka sem höfundalaun og hefur því ekki yfir neinu að kvarta.

 Þarna var Barry strax búinn að finna fjölina sína og fer að dæla frá sér ballöðunum í gríð og erg og aðdáendahópurinn sem samanstendur að mestu leyti af konum á miðjum aldri og þar yfir stækkar hratt. Upp úr 1980 fór þó heldur að síga á ógæfuhliðina allt þar til okkar maður uppgötvar tribute plötur. Ekkert vesen við að semja lög eða suða í öðrum til að semja fyrir þig almennileg lög ef þú getur það ekki sjálfur, þú velur bara eitthvað skothelt sem allir þekkja eins og Bítlana eða Elton John, og vola þú selur milljónir.

Þetta hefur Barry sem sagt gert með góðum árangri og fyllir í kjölfarið hvern tónleikasalinn eftir annan þar sem hann situr við fligilinn í glimmergalla með blásið hárið og rúllar í gegn um Bridge over troubled waters og It never rains in Southern California eins og að drekka rándýrt kampavín og konurnar í salnum tárast af hrifningu.

Barry hefur ekki verið mikið í slúðurpressunni í gegn um tíðina þó svo að atvikið þarna um árið þegar hann braut á sér nefið með því að labba á vegg hafi vakið nokkra athygli. En poppstjörnur gera nú margt furðulegra en það og það var áður en Britney Spears fór að brillera. Þökk sé bótoxi, lýtalækningum og næringarráðgjöfum þá hefur kallinn haldið sér ótrúlega vel miðað við að hann sé kominn hátt á sjötugs aldur. Og nú geta aðdáendur kappans heldur betur kæst því 4. og 6. desember heldur hann tónleika í O2 Arena í London þar sem hann mun eflaust taka lög af metsöluplötunum The christmas gift of love og In the swing of christmas ásamt auðvitað öllum ballöðunum. Er ekki bara málið að fólk skelli sér á Barry Manilow um aðventuna?


Eurotrash

Ég hef ekkert verið að tjá mig um Júróvisjón hingað til enda ekki heyrt neitt af þessum lögum, eða þar til í kvöld. Ég sá fram á það að ég yrði nákvæmlega ekkert með í umræðunum næstu dagana ef ég hefði ekki horft á öll ósköpin og þar sem ég legg það heldur ekki í vana minn að tala um það sem ég veit ekkert um (ég starfa nefnilega ekki sem stjórnmálamaður) þá lagði ég á mig þessa rannsóknarvinnu.
Það ryfjaðist upp fyrir mér strax á fyrstu mínútunum af hverju ég hef ekki lagt mig neitt sérstaklega eftir því að fylgjast með þessari keppni undanfarin ár, þegar flutt var syrpa af gömlum Júróvisíonslögurum. Helmingurinn af lögunum hljómaði eins og þau væru eftir Geirmund Valtýsson og vekja eflaust góða stemmingu á sveitaballi í Miðgarði. Hinn helmingurinn var eins og Þorvaldur Bjarni hefði annað hvort samið þau eða útsett þar sem allt sem hann kemur nálægt hljómar eins. Og hverjum öðrum en RÚV dettur í hug að láta mann sem gæti verið ný kominn af þorrablóti á Ströndunum og ennþá í gúmmístígvélunum og hefði fram að þessu haft atvinnu af að stýra landbúnaðarsýningum kynna svona galmúrshow?
En hvernig voru svo lögin?
Lag 1. Þorsteinn Olgeirsson. Late 80's Elton John rip off. Og late 80´s var mjög vont tímabil hjá Elton John. Og af hverju þurfa lúðrablásarar alltaf að vera eins og fífl?
Lag 2. Páll Rósinkrans. Týpískt Sálarlag með einhverju gospel tvisti. Svona allir-saman-nú viðlag og á eftir að slá í gegn hjá Hvítasunnusöfnuðinum. Kosið af eldri konum sem finnst hann Páll svo góður drengur
Lag 3. Eurobandið. Europop í sinnu bestu eða verstu mynd, eftir því hvernig litið er á það. Á eftir að hljóma á diskótekunum í Búlagaríu og Rússlandi þar sem Europopið er það heitasta í dag. Verður líka eflaust blastað á næstu Gay Pride
Lag 4.Ragnheiður Gröndal. Höfundur þessa lags hefur horft á allt of mikið af söngleikjum í gegn um tíðina og dreymir dagdrauma um frægð og frama á Broadway. Ég var búin að gleyma hvernig þetta lag var 2 mínútum eftir að það kláraðist
Lag 5. Mercedes club. Ef það væri 1991 og allir væru enn að fara á raveklúbba og hakka í sig E pillur þá væri þetta lag kanski eitthvað í takt við tímann. Held m.a.s að þetta sé of yesterday fyrir Rússana og Búlgarina. Söngkonan hefur heldur ekki verið valin út frá sönghæfileikum heldur örugglaga af því að hún leit best út í latexdressinu. Tvímælalust kjánahrollur kvöldsins.
Lag 6. Baggalútur. Æji, óskaplega er þetta mikið þúfnapopp. Þetta er jafn íslenskt og Hvannarrótarbrennivín og kæst skata og höfðar nákvæmlega jafn mikið til annara þjóða og þær "ágætu" afurðir. Rétti staðurinn fyrir þetta lag er Kringlukráin á laugardagskvöldi
Lag 7. Birgitta og Magni. Álíka tilþrifamikið lag og blautir ullarsokkar og jafn minnisstætt og síðasta klósettferð. Og í hverju var Birgitta eiginlega? Designer rjúpnavesti?!
Lag 8. Dr. Spock. Líklega skásta lagið í keppninni en ekki merkileg lagasmíð. Verðlaun fyrir bestu búningana. Fyrirmynd Dr. Spock er augljóslega Mike Patton og Mr. Bungle og er langt um betri

70´s

Annað kvöld mun gleði- og menningarklúbburinn Whisky a-go-go halda árshátíð. Þar verður snædd skagfirsk villibráð ásamt því að dreypt verður á whisky af ýmsum tegundum. Og þá er ég ekki að tala um eitthvað blendad sull eins og Grant´s eða  Johnnie Walker heldur single malt af dýrari sortinni. Whisky er nefnilega ekki bara whisky.

Anyway, þar sem að ég er gestgjafi á þessari árshátíð þá ætla ég að brydda upp á samkvæmisleik sem að í þessu tilviki er pop quiz, þar sem meðlimir klúbbsins eru ekki bara áhugamenn um þennan eðal mjöð heldur líka miklir áhugamenn um tónlist. Og auðvitað sem ég spurningarnar sjálf og verða þær svona hæfilega kvikindislegar. Í leit að góðum spurningum fór ég að grúska aðeins bókum og á netinu og þá sérstaklega í doðranti sem heitir Rock&Pop year by year og er nákvæmlega það sem segir á umbúðunum, þ.e farið yfir það merkasta í tónlistarsögunni ár fyrir ár frá 1950-2002. Í gegn um tíðina þá hef ég komist á þá skoðun að toppurinn í tónlistarsköpun í heiminum hafi verið frá ´68-´76 og þá sérstaklega árin ´71-´74. Og eftir að hafa legið yfir þessari bók nokkur kvöld þá hef ég sannfærst enn betur. Tökum bara árið 1973 sem dæmi. Í þessari bók er að finna lista yfir topplögin í UK og USA hverja viku fyrir sig. Þar má finna þar lög eins og You´re so vain m/Carly Simon, Superstition m/Stevie Wonder, Frankenstein m/Edgar Winter Group, Angie m/Rolling Stones, Cum on feel the noize m/Slade, Rubber bullets m/10cc, Killing me softly m/Robertu Flack og svo mætti lengi telja. Miðað við þetta eru vinsælustu lögin í dag tómt sorp.

Höldum okkur við 1973 og skoðum nokkrar plötur sem komu út þetta ár. Lynyrd Skynyrd, Queen og Aerosmith gáfu út sínar fyrstu plötur, Innervisions með Stevie Wander kom út þetta ár, einnig Don´t shoot me I´m only the piano player og Goodbye yellow brick road m/Elton John, Aladdin Sane m/David Bowie, Dark side of the moon m/Pink Floyd, Houses of the holy m/Led Zeppelin, Raw Power m/Iggy Pop & The Stooges, Mind games m/John Lennon, Burnin m/Bob Marley, Greetings from Asbury Park m/Bruce Springsteen, New York Dolls m/samnefndri hljómsveit, Sabbath Bloody Sabbath m/Black Sabbath, Sweet freedom m/Uriah Heep, Tubular bells m/Mike Oldfield, Brothers and sisters m/Allman Brothers Band, Fresh m/Sly & the family Stone, Tres hombres m/ZZ Top, Berlin m/Lou Reed, Desperado m/Eagles...o.sfrv, o.s.frv. Og þetta er bara 1 ár!

Í spilaranum hér til hliðar eru svo nokkur glimrandi fín 70´s lög

 

 


ofmetið...

Beach_boys.jpgÉg er búin að skipta um skoðun, Bítlarnir eru bara næst ofmetnasta hljómsveit sögunnar. Sú ofmetnasta er tvímælalust Beach Boys.

Þar sem að ég vinn bara eðlilega langan vinnudag og á engin börn þá hef ég nógan tíma á kvöldin til að gera eitthvað skemmtilegt. Eitt af því er einmitt að hlusta á allskonar tónlist. Maður hefur í gegn um tíðina ekki komist hjá því að heyra ógrinnin öll af misgóðum Bítlalögum og hef ég aldrei fyllilega botnað í þessari blindu aðdáun. Það var ekki fyrr en undir lokin sem þeir gerðu nokkrar þokkalegar plötur og eiga frá þeim tíma eitt og eitt ljómandi fínt lag. En hvað er t.d merkilegt við She loves you yeah, yeah, yeah eða I want to hold your hand? Þetta er bara froða alveg eins og Bay City Rollers eða Take That er froða. Þetta var bara spurningin um að vera á réttum stað á réttum tíma og þeir duttu niður á formúlu sem gekk í unglingana sem skyndilega áttu orðið tíma og peninga til að eyða í afþreyingu.

Um daginn datt mér svo allt í einu í hug að fara að kynna mér Beach Boys nánar. Ef einhversstaðar er kosið um bestu plötur seinni ára þá sést Pet Sounds alltaf dúkka þar upp þannig að ég ákvað að hlusta loksins almennilega á hana í heild. Get ekki sagt að ég hafi orðið bergnumin. Þetta eru bara einhverjar æfingar í röddun og útsetningum og er bara flúr utan um frekar leim lagasmíðar. Svo ákvað ég að tékka á Smile, þessu "meistaraverki" sem legið hafði í geymslum Brians Wilson þar til fyrir stuttu og fékk að sögn fullorðna karlmenn til að vatna músum af hrifningu og tilfinningaþrunga. I´m sorry to say, en sú plata er jafn vel enn verri og hefði bara átt að vera ofan í skúffu áfram. Ég ákvað að gefa þeim einn séns enn og rúllaði í gegn nokkrum eldri plötum sem ég "fékk lánaðar" á veraldarvefnum. Jú, jú eitt og eitt krúttlegt surf lag en ekki nóg til að þessi hljómsveit ílengist í iPodinum.

Niðurstaðan úr þessari tónlistarrannsókn er því sú að Beach Boys sé ofmetnasta hljómsveit samtímans. Ég tek gott ABBA lag fram yfir þessa þá njóla anytime.


Hank Williams III

hankiiiÉg verð víst að játa eitt hér og nú...ég er farin að hlusta á kántrý! Ok, ok...en áður en vinir mínir hlaupa í símann og hringja á fólk í hvítum sloppum til að flytja mig út við Sundin blá þá verð ég að útskýra þetta aðeins nánar. Ég hlusta nefnilega ekki á hvaða kántrý sem er. Reyndar hlusta ég bara á eitt kántrý og það er kántrýið hans Hank Williams III. Hank Williams III er nefnilega snillingur!

Það er heldur ekki þannig að ég hafi bara vaknað upp einn daginn og fundist ég orðin eitthvað hræðilega miðaldra og ákveðið í framhaldi af því að hætta þessu rokkbulli og fara að hlusta á kántrý og dansa línudans ásamt því að hekla pottaleppa og kaupa mér gráa dragt. Nei aldeilis ekki. Hank III er nefnilega enginn venjulegur kántrýgaur þó hann sé sonarsonur þess fræga kántrýbolta Hank Williams sr. Hank III spilar nefnilega líka rokk og kántrýið hans er kallað hellbilly og hann er töffari inn að beini.

Hann var í Superjoint Ritual með Phil Anselmo þar sem hann spilaði á bassa, í Arson Anthem líka með Anselmo (á gítar) og Mike D úr Eyehetegod þar sem hann spilar á trommur, í Assjack sem er hardcor pönkband og svo er hann í  stónerbandi með einhverjum úr High on Fire. Svo kemur kántrýið ofan á þetta allt saman og hann er að spila svona 200 tónleika á ári. Tónleikarnir eru þannig að fyrst er klukkutíma kántrýsett, svo 20 mín. af hellbilly sem er einhverskonar pönkkántrý og svo er klukkutími af pönk og metalkeyrslu og einhvernvegin fær hann þetta allt til að virka.

Hér í spilaranum til hægri eru nokkur lög með Hank III  og hér að neðan eru svo 3 vídeó. Næstu tónleikar sem ég fer á verða með Hank Williams III !!

 

 


Leningrad Cowboys

leningradcowboysÉg var að fá um daginn plötuna Zombies Paradise með snillingunum í Leningrad Cowboys.Fyrir þá sem ekki þekkja þá er þetta 10 manna stórsveit frá Finnlandi sem er búin að starfa í einhver 15 ár. Þeir eru hljómsveit allra landsmanna þarna í Finnlandi, svona svipað og Stuðmenn eru hér. Aðal munurinn er samt að Leningrad Cowboys er skemmtileg hljómsveit meðan við sitjum uppi með Stuðmenn sem verða leiðinlegri og sjálfumglaðari með hverju árinu.

Þessi plata, Zombies Paradise er tökulagaplata sem er afskaplega mikið "in" núna í seinni tíð að gara en Finnarnir geðþekku hafa reyndar alltaf haft slatta af tökulögum á efnisskránni og gáfu út fyrir nokkrum árum tökulagadisk þar sem kór Rauða hersins syngur með þeim vel valda slagara auk þess sem haldnir voru tvennir risatónleikar, í Helsinkiu og í Berlín (um 60.000 manns á hvorum stað) þar sem hljómsveitin kom fram ásamt 120 manna kór og hljómsveit frá Rauða hernum, afrískum bongótrommuleikurum, balkönskum þjóðdansaflokki og ég veit ekki hvað. Það skal þó skýrt tekið fram að þetta er enginn Ædol karókí væll, hér er rokkað verulega feitt!

Ekki nóg með það þá hafa þeir gert 3 bíómyndir, Leningrad Cowboys go Americam, Leningrad Cowboys meet Moses og LA without a map, leikstýrt af Aki og Mika Kaurismaki sem eru voða merkilegir leikstjórar að mér skilst.

Í spilaranum hér til hliðar eru nokkur lög af Zombies Paradise, þið kannist sjálfsagt strax við þessi lög nema kanski  You´re my soul, en það er úr smiðju vel greiddu snyrtimennanna í Modern Talking. Ég ákvað líka að smella með link á tvö vídeó, því  þar sem Leningrad Cowboys eru annars vegar þá er sjón sögu ríkari

Njótið vel!

http://youtube.com/watch?v=Y0vZwONKshU

http://youtube.com/watch?v=qKH63LKQBQc


Manowar

manowarÉg átti afmæli um daginn, hélt smá teiti og fékk góða vini í heimsókn sem glöddu mig mjög með nærveru sinni og hlóðu mig gjöfum í tilefni dagsins. Þetta allt væri ekki í frásögur færandi nema hvað að ein af þessum gjöfum var nýja platan með Manowar sem hann Kiddi rokk dró upp úr pússi sínu og það á þreföldum vínyl! Mér datt því í framhaldi í hug að segja fólki aðeins frá þessari stórmerkilegu (og sumir myndu segja furðulegu) hljómsveit

Manowar tekur sitt heavy metal mjööög alvarlega og þeir eru alls ekkert að grínast. Sumir myndu samt segja að þeir hefðu horft á of margar Conan myndir, lesið og mörg Marvel blöð og farið í of marga Dungeons and Dragons leiki. Það má líka færa rök að því að einhverjir séu ekki tilbúnir að taka fullorðna menn alvarlega sem klæðast lendaskýlum og veifa plastsverðum og skýra lögin sín "Violence And Bloodshed", "Gods Made Heavy Metal" eða "All men play on 10".

Manowar eru búinir að útbreiða "true metal" eins og þeir vilja kalla það síðan 1980 og eru aldeilis ekki af baki dottnir samanber þessa nýju plötu sem heitir Gods of war. Þeir áttu lengi titilinn háværasta hljómsveit í heimi þar til einhverjir pappakassar sem kalla sig Gallows slógu það fyrir stuttu. Ég lýsi reyndar frati á það met og tel Manowar enn eiga heiðurinn þar sem þeir settu sitt hávaðamet á tónleikum en hinir í prufunarherbegi hjá einhverjum magnaraframleiðanda sem er auðvitað ekki the real thing. Þegar kemur að tónleikum eru Manowar í essinu sínu. Þar eru þeir kóngar í sínu ríki, í sínum leðurbrókum, nýkomnir úr ræktinni sólbrúnir og sællegir. Og þar er hálfkák ekki tekið til greina samanber þetta hávaðamet sem þeir höfðu m.a.s sjálfir þríbætt. Á tónleikum í Þýskalandi 2005 mættu þeir svo með 100 manna hljómsveit og 100 mann kór og flugeldasýningu sem enn er í minnum höfð sem part af the grand finale. Samanborið við þetta eru Metallica og San Fransisco dæmið álíka tilkomumikið og æfing hjá harmónikkufélaginu. Og þetta er ekki allt. Trommarinn var lengi með (og er kanski enn) trommusett sem var smíðað úr ryðfríu stáli! Yessiry Bob! Og haldiði að þetta sé allt? Ó nei! Á fyrstu plötunni  er Orson Welles nokkurskonar sögumaður í einu laginu (Dark avenger, sem er hér í spilaranum til hliðar).

Manowar eru sannir karlmenn og sannir karlmenn syngja ekki um ástir og vín eða annað jafn ómerkilegt og hversdagslegt. Nei, þeir hugsa dýpra og velta fyrir sér dauðleikanum og tilgangi lífsins eins og eftirfarandi textabrot er til vitnis um

"Valhalla the gods await me
Open wide thy gates embrace me.
Great hall of the battle slain
With sword in hand.
All those who stand on shore
Raise high your hands to bid a last
farewell to the Viking land.
Death's chilling wind blows through my hair
I'm now immortal, I am there
I take my place by Odin's side
Eternal army in the sky.
I point my hatchet to the wind
I guard the gates and all within
Hear my sword sing, as I ride across the sky
Sworn by the sacred blood of Odin onward ride.
Valhalla the gods await me
Open wide thy gates embrace me.
Great hall of the battle slain
With sword in hand.
Behold the kingdom of the kings
Books of spells and magic rings
Endless knowledge, endless time
I scream the final battle cry."

í spilaranum hér til hliðar eru svo nokkrir sígildir Manowar slagarar lesendum til yndisauka

Látum bassafantinn og aðal manninn í Manowar, Joey DeMaio eiga síðasta orðið: "I believe in metal more than anybody you´ve ever met. And another thing, I´m prepered to die for metal. Are you?"

DEATH TO FALS METAL!

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband