Færsluflokkur: Menning og listir

Þessi færsla er ekki um tölvuleiki...

barryEinhverjir virðast hafa tekið síðustu færslu um tölvuleiki óþarflega persónulega og þar sem að ég vil auðvitað ekki særa stolt neins þá lofa ég að tala aldrei um tölvuleiki aftur! Þess í stað ætla ég að segja ykkur aðeins frá Barry Manilow....

  Barry Manilow, eða Barry Alan Pincuseins og hann heitir réttu nafni er fæddur í Brooklyn þann 17. júní 1943 sem gerir þann merka mann sléttu ári eldri en lýðveldið okkar. Sem stráklingur lærði hann á hið þjóðlega hljóðfæri harmónikku og eftir að hafa spilað valsa og polka í nokkur ár auk þess að taka nokkra létta slagara á píanóið kom stóra breikið en það var að semja auglýsingastef fyrir McDonalds og KFC meðal annara.

Um svipað leyti kynntist hann söngkonunni Bette Midler og saman túruðu þau grimmt um alla helstu hommaklúbba New York borgar þar sem sólbrúni glókollurinn með gullkeðjurnar fangaði hug og hjörtu áheyrenda. Fyrsta sólóplatan lýtur svo dagsins ljós 1973. Hún heitir Barry Manilow I og innihldu smellinn víðfræga Mandy, sem reyndar er eftir einhvern Scott English og heitir Brandy. En Scott þessi hafði greinilega ekki sama sjarma og sex appeal og Barry þannig að hann er löngu týndur og tröllum gefinn en fær þó eflaust sendan reglulega vænan tékka sem höfundalaun og hefur því ekki yfir neinu að kvarta.

 Þarna var Barry strax búinn að finna fjölina sína og fer að dæla frá sér ballöðunum í gríð og erg og aðdáendahópurinn sem samanstendur að mestu leyti af konum á miðjum aldri og þar yfir stækkar hratt. Upp úr 1980 fór þó heldur að síga á ógæfuhliðina allt þar til okkar maður uppgötvar tribute plötur. Ekkert vesen við að semja lög eða suða í öðrum til að semja fyrir þig almennileg lög ef þú getur það ekki sjálfur, þú velur bara eitthvað skothelt sem allir þekkja eins og Bítlana eða Elton John, og vola þú selur milljónir.

Þetta hefur Barry sem sagt gert með góðum árangri og fyllir í kjölfarið hvern tónleikasalinn eftir annan þar sem hann situr við fligilinn í glimmergalla með blásið hárið og rúllar í gegn um Bridge over troubled waters og It never rains in Southern California eins og að drekka rándýrt kampavín og konurnar í salnum tárast af hrifningu.

Barry hefur ekki verið mikið í slúðurpressunni í gegn um tíðina þó svo að atvikið þarna um árið þegar hann braut á sér nefið með því að labba á vegg hafi vakið nokkra athygli. En poppstjörnur gera nú margt furðulegra en það og það var áður en Britney Spears fór að brillera. Þökk sé bótoxi, lýtalækningum og næringarráðgjöfum þá hefur kallinn haldið sér ótrúlega vel miðað við að hann sé kominn hátt á sjötugs aldur. Og nú geta aðdáendur kappans heldur betur kæst því 4. og 6. desember heldur hann tónleika í O2 Arena í London þar sem hann mun eflaust taka lög af metsöluplötunum The christmas gift of love og In the swing of christmas ásamt auðvitað öllum ballöðunum. Er ekki bara málið að fólk skelli sér á Barry Manilow um aðventuna?


Ferðasaga frá Marocco

Ég er sem sagt búin að vera í Marocco með viðkomu á Spáni undanfarna 10 daga. Eitthvað sem ég mæli með að allir sem á annað borð hafa áhuga á einhverju meira framandi en baðströndunum á Costa del sol og golfvöllum í Florida reyni að upplifa. Sums staðar hafði maður á tilfinningunni að maður væri staddur í settinu á fyrstu Indiana Jones myndinni, þar hafði tíminn nánast staðið í stað síðan um miðja þar síðustu öld. Það eina sem benti til þess að við værum eitthvað nær samtímanum voru vespurnar sem menn keyrðu eins og bavíanar og skipti þá engu þótt gatan væri innan við tveggja metra breið með húsum á báðar hendur og full af gangandi fólki.

Umferðarmenningin, eða réttara sagt umferðarómenningin var alveg kafli út af fyrir sig. Umferðarreglur virtust bara vera svona til lauslegrar viðmiðunar og ekkert issjú að fara nákvæmlega eftir þeim. Jú, jú, flestir stoppuðu á rauðu ljósu en þar með er það upp talið. Hringtorg voru eitt allsherjar kaos þar sem menn keyrðu bara einhvernvegin og gangandi vegfarendur áttu gjarnan fótum fjör að launa ef þeir ætluðu sér yfir götu, og voru ekki einu sinni óhulltir á gangstéttunum þar sem ökuníðingar á vespum töldu sig alltaf eiga réttinn. Já og ekki má gleyma hestum og ösnum sem lulluðu með kerrur inn á milli bílanna. Í öllu þessu kraðaki var því flautan mikilvægasti hlutur hvers ökutækis.

Það var farið ansi víða í þessari ferð. M.a til borganna Fes, Casablanca, Marrakech og Rabat. Að ganga um elstu hluta þessara borga, Medínuna svokölluðu er upplifun út af fyrir sig og þá sérstakleg í Fes þar sem Medínan er svo til óbreytt frá því sem hún var á miðöldum. Þar er göturnar eitt risastórt völundarhús í allar áttir og sums staðar svo þröngar að ef maður rétti út hendurnar gat maður snert veggina báðu megin. Þarna ægir svo saman mönnum og skepnum og þar er hægt að kaupa handofin teppi, leðurtöskur, sútaðar gærur, notaðar klósettsetur, hænur á fæti, gerfitennur af ýmsum stærðum, krydd eftir vigt, óslægðan fisk, myndir af kónginum, úlfaldakjöt af nýslátruðu, gamlar ritvélar o.fl, o.fl. Og áður an þú veist af var búið að pranga einhverju af þessu inn á þig.

Þegar keyrt var á milli staða gat maður virt fyrir sér lífið í sveitunum út um bílgluggann. Það virtist aðallega ganga út á það að konurnar unnu á ökrunum meðan karlarnir sváfu undir tré eða sátu við eitthvað kaffihúsið og drukku te. Ég hef alla vega ekki séð svona mikið af iðjulausum karlmönnum á eins stuttum tíma síðan í Tyrklandi hérna um árið. Það var ekki laust við að maður heyrði öfundarandvarp frá sumum karlkyns ferðafélögunum.

Leigubílarnir í Marocco eru fyrirbæri sem vert er að minnast aðeins á. Það eru annars vegar svokallaðir "grand taxi" sem eru alltaf 20-30 ára gamlir Benzar og svo "petit taxi" sem eru álíka gamlir Fiat Uno eða svipaðir bílar. Munurinn á grand taxi og petit taxi er að sá fyrrnefndi má keyra fólk um allt en þeir síðarnefndu meiga ekki fara út fyrir borgamörk. Ef þú ætlar að taka grand taxi þá veifar þú einum slíkum og skiptir þá engu máli hvort það eru farþegar fyrir í honum eða ekki, það er hrúgað í kerruna þar til hæfilegum fjölda þarþega er náð sem eru 6 fyrir utan bílstjórann. Svo getur bæst við farangur sem getur verið nýslátraðar hænur í kvöldmatinn eða notaður stálvaskur sem fékkst á góðu verði á markaðnum. Svo er keyrt af stað. Petit taxinn tekur hins vegar ekki nema 4 farþega ásamt bílstjóra. En með þessu móti eru leigubílar ódýr ferðamáti og ef þú setur það ekkert fyrir þig að lenda kanski við hliðina á einhverjum sem hefur ekki farið í bað þann mánuðinn þá er þetta hið ágætasta fyrirkomulag.

Þó svo að Maroccoferðin hafi verið alveg mögnuð í alla staði þá var samt voða notalegt að slappa af í Jerez á Spáni í 2 daga í endann og fá eitthvað annað en cus cus að borða. Jerez er líka afskaplega krúttlegur og sjarmerandi bær með fullt af kaffihúsum og tapasstöðum og frægur fyrir sérrý framleiðslu. Þegar ég verð orðin nógu gömul til að kunna að meta sérrý þá ætla ég sko alveg örugglega að fara aftur til Jerez og heimsækja öll brugghúsin...tvisvar!


Leningrad Cowboys

leningradcowboysÉg var að fá um daginn plötuna Zombies Paradise með snillingunum í Leningrad Cowboys.Fyrir þá sem ekki þekkja þá er þetta 10 manna stórsveit frá Finnlandi sem er búin að starfa í einhver 15 ár. Þeir eru hljómsveit allra landsmanna þarna í Finnlandi, svona svipað og Stuðmenn eru hér. Aðal munurinn er samt að Leningrad Cowboys er skemmtileg hljómsveit meðan við sitjum uppi með Stuðmenn sem verða leiðinlegri og sjálfumglaðari með hverju árinu.

Þessi plata, Zombies Paradise er tökulagaplata sem er afskaplega mikið "in" núna í seinni tíð að gara en Finnarnir geðþekku hafa reyndar alltaf haft slatta af tökulögum á efnisskránni og gáfu út fyrir nokkrum árum tökulagadisk þar sem kór Rauða hersins syngur með þeim vel valda slagara auk þess sem haldnir voru tvennir risatónleikar, í Helsinkiu og í Berlín (um 60.000 manns á hvorum stað) þar sem hljómsveitin kom fram ásamt 120 manna kór og hljómsveit frá Rauða hernum, afrískum bongótrommuleikurum, balkönskum þjóðdansaflokki og ég veit ekki hvað. Það skal þó skýrt tekið fram að þetta er enginn Ædol karókí væll, hér er rokkað verulega feitt!

Ekki nóg með það þá hafa þeir gert 3 bíómyndir, Leningrad Cowboys go Americam, Leningrad Cowboys meet Moses og LA without a map, leikstýrt af Aki og Mika Kaurismaki sem eru voða merkilegir leikstjórar að mér skilst.

Í spilaranum hér til hliðar eru nokkur lög af Zombies Paradise, þið kannist sjálfsagt strax við þessi lög nema kanski  You´re my soul, en það er úr smiðju vel greiddu snyrtimennanna í Modern Talking. Ég ákvað líka að smella með link á tvö vídeó, því  þar sem Leningrad Cowboys eru annars vegar þá er sjón sögu ríkari

Njótið vel!

http://youtube.com/watch?v=Y0vZwONKshU

http://youtube.com/watch?v=qKH63LKQBQc


sjónvarpið

343513SxBW_wMargir reka upp stór augu þegar þeir ætla að fara að ræða eitthvað við mig um sjónvarpsdagskrána og ég segi þeim að ég eigi ekki sjónvarp og hafi ekki átt lengi. "Hvað geri ég þá á kvöldin?" er spurt í forundran eins og það sé það eina sem standi fólki til boða.

 Ég á 2 kanínur sem þurfa ást og umhyggju, ég fer á kaffihús (svona meðan Herr Flick lögreglustjóri lætur ekki loka þeim kl. 8 því þá á fólk að vera komið heim til sín), ég les, ég tek mikið af ljósmyndum og síðast en ekki síst sit ég fyrir framan Makkann minn og geri eitthvað skemmtilegt. Nei, ég er ekki í Counter strike eða að skoða sóðasíður á netinu. Tölvur eru ekki bara til þess að hanga á netinu eða myrða cyberskrýmsli í ofbeldisfullum tölvuleikjum. Reynið að vera skapandi! Fáið ykkur Illustrator eða Photoshop og farið að búa eitthvað til. En nei, það er eitthvað í sjónvarpinu sem má ekki missa af segir fólk

En hvað er svona merkilegt í sjónvarpinu að fólk getur setið yfir því frá kvöldmat að háttatíma kvöld eftir kvöld? Ég kíkti aðeins á dagskrána þessa viku og hér er smá brot.

Í Ríkiskassanum var m.a boðið upp á þetta:  

"Fadderi ok faddera". Sænsk heimildamynd um Jonas Svenson, 85 ára gamlan harmónikkuleikara og fyrrum póstburðarmann í Uppsala og leit hans að Husqvarna harmónikku sem föðurbróðir hans tapaði á leiðinni milli Ullevalla og Sundsvall í maí árið 1956

"Útnáramótið í fótbolta" Lið Trékyllisvíkur mætir Dolla frá Hólmavík í 16 liða úrslitum en allir lekir mótsins verða sýndir beint og svo endursýndir að loknum fréttum alla daga vikunnar

"Baulaðu nú Búkolla mín" Dúddi Gunnsteinsson ræðir við Jónas fjósamann í Fárviðru á Ströndum um íslensku mjólkurkúna.

"Lúlli snigill skoðar heiminn" Fylgst með ferðum snigilsins Lúlla í heilan mánuð og hvernig hann á þeim tíma ferðast úr örygginu undir rifsberjarunnanum, yfir göngustíginn og í ný heimkynni í túlípanabeðinu.

Það var ekkert sem heillaði mig neitt sérstaklega við dagskrána í Ríkiskassanum svo ég kíkti á hvað frjálsu og óháðu fjölmiðlarnir höfðu upp á að bjóða.

"Ástir og örlög á kennarastofunni" Við höldum áfram að fylgjast með Janis handmenntakennara í St.Slum miðskólanum í Brooklyn og viðleitni hennar til að öðlast ástir Bobbys skólastjóra. Í síðasta þætti hafði Janis fengið nafnlausa ábendingu um það að Bobby væri jafnvl að hitta aðra manneskju. Hún  fær Dolly bókhaldskennara í lið með sér til að komast til botns í þessu máli sem leiðir þær í Leather&Latex klúbbinn á Manhattan. 856. þáttur.

"NYPP blue" Vandaðir bandarískir spennuþættir sem fjalla um hið hættulega starf stöðumælavarða í New York

"Desperate midwives" Ljósmæður á bandarísku sjúkrahúsi heyja harða baráttu við flækta naflastrengi, óvænta keisaraskurði, sjálfumglaða fæðingarlækna og taugaveiklaða eiginmenn

"The Bachelorett:Alabama" Ný þáttaröð af þessum vandaða bandaríska raunveruleikaþætti. Mary Lou hefur komið sér fyrir á hinu glæsilega Golden Palace Trailer Park Hostel og tekur þar á móti vonbiðlum sínum. Valið á eftir að vera erfitt því allir eiga þeir Pick-up truck og marghleypu, enginn þeirra er nákyldur ættingi hennar og allir hafa þeir sínar eigin tennur. Að lokum verður það þó aðeins einn sem stendur uppi sem sigurvegari með síðustu Budweiser kippuna

"Dr.Bill" Í þessum vinsæla bandaríska spjallþætti ræðir bókmenntafræðingurinn Dr. Bill við gesti sína um mikilvægi þess að kunna að lesa og bendir þeim á hvar Bandaríkin er að finna á landakortinu. Hann svarar spurningum áhorfenda úti í sal um jafn margvísleg efni og hvað kjúklingar hafi marga fætur, hvað suðumark vatns er hátt og hvernig Hvíta húsið er á litinn. Uppáhaldsþáttur Georga W. Bush

Hér í spilaranum til hliðar eru svo nokkur "sjónvarps" lög

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband