veislur

Ég lenti fyrir því um daginn að mér var boðið í brúðkaup og þar sem um náinn vin er að ræða sem er að fara að gifta sig þá sé ég fram á það að sleppa ekki. Annars er ég með ansi gott safn af afsökunum á reiðum höndum þegar einhverjum dettur í hug að bjóða mér í uppstrýluð samkvæmi þar sem maður þekkir næstum engann eins og giftingar, fermingar, afmæli hjá fjarskildum miðaldra ættingjum, útskriftir og þess háttar

a) nei ég verð í Kúala Lumpur þessa helgi
b) alltaf þennan dag verð ég að fægja silfrið
c) ég þarf að baða kanínurnar
d) ég verð örugglega með botnlangakast þennan dag
e) stjörnuspáin mín fyrir þennan dag lítur ekki vel út
f) en þið búið í Grafarvogi og ég rata svo hræðilega illa úti á landi
g) þetta er einmitt kvöldið sem ég var búin að lofa að taka lagið á söngskemmtun Hjálpræðishersins
o.s.frv, o.s.frv.............

Giftingaveislur eru líka svona veislur þar sem allir þurfa að standa upp og skála í tíma og ótíma og enn verra...halda ræður! Af hverju er ekki hægt að hafa þatta bara almennilegt partý, AC/DC á fóninum og allir í myljandi stuði? En nei, það þarf að búa til úr þessu eintóm leiðindi þar fyrir utan sem giftingaveislur geta endað með ósköpum ef fólk sem talar áður en það hugsar nær að opna munninn. Það er nefnilega ekki sama hvað er sagt í öllum þessum ræðum sem gestir þurfa að sitja undir.

Það er hefð að faðir brúðarinnar taki fyrstur til máls. Þó svo að honum líki ekki við brúðgumann er samt óþarfi að láta í ljós þá skoðun sína að hann telji tilvonandi tengdason varla geta hnítt skóreymar hjálparlaust, að hann sé nýbúinn að læra muninn á hægri og vinstri og að það sé alveg ástæða fyrir því að hann sé kallaður Valur vitlausi og beina að lokum þeirri spurningu til dóttur sinnar hvort hún hafi hugleitt að gerast nunna og voni jafnframt heitt og innilega að það eina sm þau geri saman tvö ein á kvöldin sé að bródera í klukkustrengi.

Næstur á mælendaskrá er gjarnan brúðguminn sjálfur. Þrátt fyrir mikið stress er ekki mælt með að hann hafi innbyrt meira en eins og eitt kampavínsglas áður en hann fer með sína ræðu. Það er heldur ekki mælt með að segja sögur úr steggjapartýinu og lýsingar á því hvað einn rússneski stripparinn var með fáránlega stór sílikonbrjóst en samt ótrúlega raunveruleg er meira en flestir vilja vita. Allra síst brúðurin. Hún vill heldur ekki vita að áður en þið kynntust varstu kallaður Jói höstler og kellingarnar voru alveg sjúkar á eftir þér og hvað þín tilvonandi sé nú heppin að þú valdir hana en ekki einhverja aðra. Þú varst nú einu sinn m.a.s með einni fyrrverandu Ungfrú Reykjavík og margföldum sigurvegara í blautbolakeppni Þjóðhátíðar í Eyjum

Næstur í röðinni er svaramaðurinn sem jafnframt er oftast náinn vinur brúðgumans. Og ef ekki er einhver sér valinn veislustjóri þá sinnir hann oft því hlutverki líka. Hann þarf að vera hnittinn og skemmtilegur og kemur gjarnan með skondnar sögur af brúðhjónunum. Hann má heldur ekki vera búinn að fá sér of mikið neðan í því og fara að telja upp fyrrverandi kærustur brúðgumans og lýsa í smáatriðum hvað þeir félagarnir voru að bralla á Hverfisbarnum hérna back in the days og þó svo að Jói vinur hans sé nú að fara að gifta sig þá þýði það ekki að þeir hætti að horfa saman á enska boltann alla laugardaga og spila pókar með vinnufélögunum á fimmtudögum og kíkja öðru hvoru út á lífið saman strákarnir. Hún hlýtur nú að eiga einhverjar vinkonur sem hún þarf að heimsækja og svona. Og þar sem hann Jói félagi sinn sé hvort eð er getulaus eftir slæma klamedíusýkingu fyrir nokkrum árum þá þurfi þau ekki að hafa neinar áhyggjur af einhverju barnastússi

Í giftingarveislum eru líka oft einhver skemmtiatriði. Þau þarf líka að velja af kostgæfni þannig að þau höfði til allra. Þó að þér finnist Böddi frændi þinn sjúklega fyndinn þegar hann tekur sig til og syngur frumsamndar klámvísur eða litla 5 ára systurdóttir þín hrikalega krúttleg að spila Ísbjarnarblús á blokkflautu þá er nokkuð gefið að einhverjir veislugestir eiga ekki eftir að kunna að meta það.

Er ekki bara best að fá Herbert Guðmundsson og málið er dautt?


« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 Smámynd: Ruth Ásdísardóttir

Hmm, á mér að hlakka til skemmtiatriðanna í mínu brúðkaupi á næsta ári eða á ég að fara undirbúa mig og vera í NIKE strigaskóm en ekki háum hælum?  

Ruth Ásdísardóttir, 22.5.2008 kl. 11:30

2 identicon

Ruth, við Grumpa erum búnar að funda 3svar út af almennu gríni í giftingunni þinni og svo höfum við tekið saman skýrslu sem inniheldur "300 næsti aðferðir til að gæsa vinkonu".

Olsen Olsen (IP-tala skráð) 22.5.2008 kl. 19:19

3 identicon

Má ég halda ræðu og fara með ástarljóð frá miðöldum og má Moira spila á blokkflautu og ....

linda (IP-tala skráð) 22.5.2008 kl. 23:18

4 Smámynd: Kristján Kristjánsson

Má ég lesa úr æfisögu Robert Mitchum?

Kristján Kristjánsson, 23.5.2008 kl. 18:49

5 identicon

Ég kem með ÖLL börnin mín........og mega þau ekki örugglega bjóða vinum sínum með?!!  Annars vorkenni ég þér ekki hætishót, Grumpa; við hin þurfum að þola þetta og finnst mér þú hafa sloppið allt of vel. Ég ætla að sækja þig í næstu fermingarveislu.......

Björg Ádísardóttir (IP-tala skráð) 26.5.2008 kl. 13:48

6 identicon

Er Grumpa ennþá í veizlunni? Var svona gaman?

Olsen Olsen (IP-tala skráð) 29.5.2008 kl. 14:10

7 identicon

Hey, guess what? Thegar vid hjonin giftum okkur hentum vid litla drengnum i pössun um kvöldid, heldum rjukandi party og forum svo bara i baeinn.

Ekkert vesen, engar skreytingar, bara kaffi hja tengdo eftir athöfnina og buid.

Hef ekki sed eftir veisluleysinu i eina minutu, enda finnst mer svalara ad halda stora veislu thegar hjon hafa nad einhverjum arum, kannski a 10 ara fresti eda eitthvad thannig...

Maja Solla (IP-tala skráð) 20.6.2008 kl. 19:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband