Færsluflokkur: Matur og drykkur

megrun fyrir allan peninginn

slimcof.jpgHver kannast ekki við að hafa einhverntíma farið í megrun? Eða í það minnsta í smá aðhald. Hjá sumum gengur það bara ljómandi vel en fyrir aðra er það álíka erfitt að missa nokkur kíló og það er fyrir íslenska Ædolstjörnu að meika það. Nánast ómögulegt! En af hverju er það?

Það er fyrir löngu vitað að til þess að skafa af sér spikið þarf maður bara að borða minna og hreyfa sig meira, hversu flókið getur það verið? Jú, vandinn er bara sá að þetta tekur allt tíma og voða margir hafa hvorki þolinmæði né viljastyrk til að borða brokkólí í 4 mánuði og þræla sér út í ræktinni á hverjum degi. Þetta er fólkið sem fellur fyrir öllum skyndilausnunum þó að það eigi að geta sagt sér sjálft að þær virka ekki.

Það er nefnilega til endalaust af allkonar drasli sem selt er í bílförmum til fólks sem telur sér trú um að það geti misst fleiri kíló mað því að nota megrunareyrnalokka, megrunarplástur, megrunararmbönd eða sett megrunarinnlegg í skóna sína. Svo ég tali nú ekki um megrunarsápuna sem þú átt að baða þig upp úr á hverjum degi og áður en þú veist af ertu orðin frá því að vera með svipað vaxtarlag og Gunnar Birgisson (undirhaka meðtalin) í það að líta út eins og Nicole Kidman. Allt sápunni að þakka.

Bumbubaninn er apparat sem margir eiga eflaust einhversstaðar í geymslunni. Með því að ýta einhverju plastdóti með handföngum upp að lafandi vömbinni í 20 mínútur á dag átti fólk að geta fengið sixpack sem hefði fengið Arnold Schwarznegger til að skammast sín. Og fyrir þá sem ekki einu sinni nenntu þessu þá var fundið upp apparat sem leyddi rafstraum í sérstakar blöðkur sem fólk festi svo á sig hér og þar. Rafstraumurinn átti svo að plata vöðvana til að halda að þú værir þvílíkt að taka á því þó þú værir í raun og veru bara liggjandi uppi í sófa að horfa á sjónvarpið og kílóin fuku án þess svo mikið sem þú svitnaðir einu sinni. Og tækið seldist eins og kaldur bjór á heitum sumardegi

Allar megrunarvörurnar sem þú átt að láta ofan í þig í staðinn fyrir mat er svo alveg sér kafli út af fyrir sig. Það eru til ótal tegundir af allskonar dufti sem á að hræra upp í vatni og enginn veit nákvæmlega hvað er í. Gæti þess vegna verið endurunnir pappakassar með vanillubragði eða þurrkað fiskihreystur. Svo eru það pillurnar sem á að taka fyrir máltíð sem eiga svo að belgjast út í maganum á þér og hey presto, þú hefur bara ekki lyst á svínarifjunum, frönsku kartöflunum og bananasplittinu sem þú ætlaðir að fara að borða.

Það hafa líka verið fundnir upp allskonar kúrar. Aitkins kúrinn væntanlega þekktastur þar sem að annað hvort léttist fólk eða endaði á spýtala með kransæðastíflu og of háan blóðþrýsting. Það er til kaffikúr þar sem þú átt að drekka sérstakan vítamínbættan kaffidrykk daginn út og inn og hreinlega horfa á kílóin hverfa. Ég meina hvernig er annað hægt þegar þú ert hæper af kaffidrykkju allan daginn, stanslaust á klósettinu og komin með hjartsláttartruflanir? Það eru til kúrar þar sem þú átt bara að borða blómkálssúpu eða harðsoðin egg eða borða bara sveppasoð á mánudögum og þriðjudögum en baunaspírur alla hina dagana

Það næst besta er þó megrunargaffallinn sem virkar þannig að þú mátt ekki stinga honum upp í þig fyrr en hann hefur gefið frá sér píphljóð þannig að þú nærð að tyggja hvern matarbita þrjátíu og tvisvar sinnum og þú borðar því ekki eins mikið. Það besta eru eflaust megrunargleraugun sem eru lituð gleraugu sem þú setur á þig þegar þú ferð að borða og eiga að hafa þau áhrif á heilastarfsemina að matarlystin minnkar. Það eru bara snillingar sem finna upp á svona hlutum!


Þú ert það sem þú borðar

pylsa.jpgHver kannast ekki við umræðuna um ofvirkni og athyglisbrest? Börn í dag eru ekki lengur óþekktarormar og slugsar sem ekki hafa verið siðuð almennilega til af foreldrum sínum heldur eru þau með ofvirkni og athyglisbrest og gott ef ekki lesblindu líka. Það er sem sagt búið að gera þau að heilbrigðisvandamáli með tilheyrandi lyfjaáti og sérfræðimeðferðum í staðinn fyrir að kenna þeim einfalda mannasiði og að hegða sér skikkanlega. Leti og uppivöðslusemi eru svo afsökuð með því að aumingja barnið þjáist af ofvirkni og geti bara ekkert í þessu gert.

En það er ýmislegt hægt að gera annað en að troða í krakkann rítalíni. Til að byrja með er hægt að ala hann almennilega upp og kenna mannasiði en til þess þarf tíma og einbeittan vilja og oft á tíðum virðast foreldrar hafa hvorugt. Skólinn á að sjá um þetta. Annað sem myndi eflaust bæta ástandið á mörgum heimilum og í mörgum skólastofum er að gefa börnunum almennilegan mat. Það eru nefnilega gömul sannindi og ný að þú ert það sem þú borðar. Og þetta á reynadar ekki bera við um börn heldur hreinlega alla. Fólk nennir ekki orðið að elda mat frá grunni lengur, heldur er allt keypt tilbúið eða eitthvað unnið.

Vitið þið t.d hvað er í pylsum (sjá mynd hér til hliðar af innvolsinu í pylsu) eða örbylgjumat? Við erum endalaust að belgja okkur út af litarefnum, rotvarnarefnum, þráavarnarefnum, þykkingarefnum, bindiefnum, sýrum, sætuefnum, bragðaukandi efnum o.s.frv, o.s.frv. Næst þegar þið kaupið eitthvað tilbúið athugið á umbúðunum hvað það eru mörg E-efni í viðkomandi vöru. Ég er t.d með hérna fyrir framan mig dós af Coke Light og í henni eru E 150 sem er lirarefni, E 338 og E 339 sem eru sýrur, E 211 sem er rotvarnarefni og sætuefnið aspartam. þetta getur ekki verið hollt. Mér finnst líka alltaf skondið að sjá þegar því er slegið upp í auglýsingum að þessi eða hin matvaran sé fitusnauð. Gott og vel, en það er ekki minnst á hvað er mikill sykur í viðkomandi vöru og ef það er eitthvað sem við þurfum ekki á að halda að borða meira af þá er það sykur, ekki fita. Í einni lítilli fernu af Frissa Fríska sem fólk fóðrar börnin sín gjarnan á eru 20 gr. af sykri sem eru ca. 10 sykurmolar og í einni dós af Skólajógúrt eru 5 sykurmolar. Svo er fólk hissa á því að börnin séu snar vitlaus!

 Á mínum sokkabandsárum norður í landi var ekki svona mikið um unnin matvæli eins og er í dag og þar var eldað á hverju heimili nánast á hverjum degi (hina dagana voru afgangar). Hamborgarar og franskar voru sjaldan í boði og pizzuvæðingin hafði ekki yfirtakið allt enn og sælgæti var spari. Ég minnst þess heldur ekki að í minni grunnskólatíð hafi einhver átt við ofvirkni, athyglisbrest eða einhverjar geðraskanir að stríða. Stundar athyglisbrestur var oftast læknaður snarlega á staðnum með hótun um heimsókn til skólastjórans. Það voru vissulega alltaf einhverjir einn eða tveir óþekktargemlingar í hverjum bekk en enginn sem var óviðráðanlegur eða stjórnlaus og kennarar þurftu ekki að vera búnir að taka námskeið í sjálfsvarnaríþróttum til að komast í gegn um skólaárið.

 Hvernig væri nú að í staðinn fyrir að aumingjavæða fjöldann allan af grunnskólabörnum og moka í þau lyfjum að þeim væri bara gefið almennilega að borða?


þorramatur

Þá er tími þorrablótanna runninn upp. Þessi undarlegi siður að safnast saman og borða kæstan og súran mat með tilheyrandi ólykt og sturta í sig brennivíni í leiðinni er rakinn til stúdenta í Kaupmannahöfn í kring um 1880. Þetta voru sem sagt háskólastúdentar með heimþrá og uppfullir af nostalgíu auk þess að vera alltaf til í gott fyllirí eins og stúdentum sæmir sem byrjuðu á þessu öllu saman. Svo var það einhver vert á Naustinu sem sá fram á lítinn bissness á þessum árstíma sem fékk þá snjöllu hugmynd að endurvekja þennan "þjóðlega" sið fyrir ekki svo mörgum áratugum síðan. Og hér sitjum við og slöfrum í okkur magálum og hrútspungum og látum eins og okkur finnist þetta alveg æðislega gott. Þetta er kanski maturinn sem var étinn á Þorranum hér á öldum áður þegar ekkert annað ætt var til en forfeður okkar átu líka fiskiroð, skinnbækur og skóna sína ef út í það er farið. Ég legg því til að það verði bætt í þorrabakkana pari af tilgengnum sauðskinsskóm. Táfýlan ætti líka vel við lyktina af því sem fyrir er í bakkanum. Síðan mætti hafa eftirlíkingu af gömlu handriti til að naga.

Þó að ég sé alin upp í sveit fyrir norðan þar sem svið og slátur voru oft á borðum þá get ég ekki sagt með góðri samvisku að mér þyki þetta eitthvað gríðarlegt gúrme og ég get heldur ekki sagt að ég gargi af gleði þegar tími þorrablótanna rennur upp. Það er sagt (og ég trúi því alveg) að maður byrji að borða matinn með augunum og ef maður horfir yfir þorrabakkann þá fæ ég nú ekki vatn í munninn. Það sem er ekki úldið og bæði lyktar og bragðast eins og frosið hland það er grátt á litinn með mysuslepjuna lekandi af því eða þá að það eru höfuð og útlimir af klaufdýrum með öllu nema hári. Undantekningin á þessu er svo sú að mér finnst fátt betra en kofareykt hangikjöt sem er náttúrulega bara kjöt sem er búið að hanga í reyk af rolluskít í 2 vikur og bragðast alveg jafn vel og það hljómar:) Það er líka annað sem mér finnst vera hin mesta sælkerafæða en það er reykt nautgripatunga. Þetta er ekki mikið á borðum svona almennt og hafa sumir vinir mínir því rekið upp stór augu þegar þeir hafa opnað hjá mér ísskápinn og í sakleysi sínu verið að ná sér í mjólk í kaffið og horft á risastóra beljutungu á disk.

Það er einmitt þorrablót í vinnunni hjá mér á morgun og ég er að hugsa um að beila. Er bara ekki að nenna að sitja uppi með draugfulla og illa lyktandi vinnufélaga af súrmatsáti, heilt kvöld.
Aftur á móti finnst mér svo bolludagurinn ljómandi skemmtilegur siður :)


Hingað og ekki lengra!

dipersNú er mér nóg boðið! Ég vil að það verði aftur leyfðar reykingar á kaffihúsum og það strax! Mér finnst reykingar frekar ógeðfelldur subbuskapur en maður verður bara að forgangsraða. Til að byrja með var ég afskaplega hamingjusöm að þurfa ekki að hafa eitthvað lið svælandi ofan í mig meðan ég var að drekka kaffið mitt og borða súkkulaðiköku með, en hvað fær maður í staðinn? Fólk með börn!!! Smokers come back, all is forgiven!

Ég var í fríi í dag (mánudag) og rölti í bæinn upp úr hádegi til að fá mér eitthvað í svanginn og það var sama hvaða kaffihúsi ég labbaði framhjá, allstaðar var barnavögnum parkerað fyrir utan í löngum bunum. Hafa þessar fæðingarorlofskerlingar ekkert annað að gera en að hanga og slúðra og þamba kaffi! Eiga þær ekki að vera heima og prjóna sokka eða eitthvað?

Ég skal koma hérna með tvö dæmi um hremmingar sem ég hef lent í nýlega. Fyrir ekki svo löngu hitti ég góða vinkonu mína á kaffihúsi. Það má segja að ég hafi verið að bjóða hættunni heim þar sem að ég vissi að hún tæki fjögurra ára dóttur sína með. En ég lét mig hafa það, alltaf gaman að hitta vini sína. Þetta byrjaði ósköp sakleysislega, barnið til friðs og borðaði matinn sinn tiltölulega þegjandi og hljóðalaust. En svo gerist það. Fyrst kemur gusa af kakói út um nefið á krakkanum, yfir borðið og ekki nóg með það þá var rétt búið að þrífa það upp þegar hálmelt samloka endaði á sama stað (þó ekki gegn um nefið sem betur fer). Ég þakkaði mínu sæla fyrir að sitja við hinn enda borðsins, sem ég hef reyndar að reglu þegar börn eru með í för. Maður getur aldrei verið viss um hvar maturinn endar sem sannaðist í þessu tilviki. Þar sem að um góða vinkonu mína til margra ára var að ræða þá hélt ég mínu jafnaðargeði og lét sem ekkert væri enda virtist hún ekkert kippa sér upp við þetta, hreinsaði jukkið bara upp og hélt samræðunum áfram eins og ekkert væri sjálfsagðara en slettur af hálfmeltum samlokum bleyttum í kakói út um allt. Svo fara þær mæðgur og ég sé fyrir mér rólegheit þar sem ég get klárað kaffið mitt og kíkt í blöðin. En nei, því var ekki að heilsa. Við hliðina á mér (þetta var á Hressó þar sem er langur bekkur með nokkrum borðum við einn vegginn) hafði hlammað sér niður fólk með tvo krakka. Annar var strákur sem gat ekki setið kyrr í 2 mínútur og var því stanslaust á einhverju ráfi fram og til baka og hitt var ungabarn. Haldiði svo ekki að þau hafi slengt hvítvoðungnum upp á bekkinn þarna við hliðina á mér og farið að skipta á kúkableyjunum bara rétt si svona meðan þau ræddu um hvað ætti að vera í kvöldmatinn! Finnst fólki bara alveg sjálfsagt að gera þetta nánast ofan í súpudiskunum hjá manni?! Svo þegar maður gefur þessu liði illt auga þá er maður bara orðin einhver Grímhildur Grimma sem étur börn í morgunmat

Núna reyni ég að fara bara út á kvöldin því þá ætti baranavagnaliðið að vera farið heim. Nema hvað, að ég var sem sagt í fríi í dag og rölti Laugaveginn og ákvað að fá mér síðbúinn löns í leiðinni. Inn á Sólon fer ég og viti menn, rétt eftir að ég er búin að panta koma einmitt svona tvær í fæðingarorlofi með ungabörnin með sér sem orga og grenja í kór. Mömmurnar kalla þetta að hjala og finnst það voðalega krúttlegt en þegar það yfirgnæfir samræður þá er það eitthvað allt annað. Og þarna sitja þær svo bara og spjalla meðan krakkarnir "hjala" út í eitt og geifla sig öðru hvoru framan í þau og segja eitthvað vússíbússídúddírú hvað sem þá á að þýða og krakkin tvíeflist í hjalinu og fer að frussa með því. Í svona tilvikum get ég ekki verið nógsamlega þakklát fyrir að iPod var fundinn upp. Í fullri vinsemd vil ég bara beina því til fólks sem fer með börnin sín á veitingastaði að það er ekki eitt í heiminum og það er til fullt af fólki sem finnst nákvæmlega ekkert krúttlegt við læti og hávaða hvað þá að horfa upp á bleyjuskiptingar og brjóstagjöf. Ég segi því eins og Umferðarráð, sýnum tillitssemi


Kaupæði...eða ekki?

trufflurÉg var að koma heim frá útlöndum í dag. Nánar til tekið frá Heidelberg í Þýskalandi þar sem kompanýið hélt árshátíð með pompi og prakt. Ég komst þarna að því að ég er alveg hætt að nenna að djamma fram á nótt, finnst m.a.s fullt fólk í flestum tilvikum leiðinlegt og ég tala nú ekki um þegar það fer á trúnó og byrjar að dásama hundinn sinn! How boring is that?! En ég komst líka að því að það vantar algerlega í mig þetta eina sanna íslenska kaupæðisgen. Það eina sem ég keypti þessa 4 daga fyrir utan mat og drykk sem rann ljúflega niður á staðnum, var áfengi og súkkulaði. Ég hafði ekki einu sinni ástæðu til að fara inn í verslanir sem seldu eitthvað annað en áfengi og súkkulaði.

En áfengi er ekki bara áfengi og þess þá síður er súkkulaði bara súkkulaði. Ó nei! Maður lætur alls ekki hvað sem er ofan í sig, í þessum efnum eru gerðar kröfur hér á þessu heimili. Það eru liðnir þeir dagar þegar screwdriver og black russian þóttu hinir mestu eðaldrykkir og Lionbar og Siríuslengja aldeilis ljómandi fínt súkkulaði. Nú lítur maður ekki við öðru en 12 ára Single Malt Whisky og Chateau vínum frá Búrgúndí og maður hefur um leið uppgötvað listina að drekka áfengi bragðsins vegna en ekki áhrifanna. Þegar vinnufélagarnir voru hættir að nenna að vera dannaðir og svolgra í sig Mojito sem þeim þóttu örugglega ekki einu sinni góðir og voru komnir á 5. glas af vodka í kók ákvað ég að segja því partýinu lokið og horfði frakar á James Bond á þýsku áður en ég sofnaði. OK, það var líka verið að syngja og spila rútubílalög á kassagítar. That did it!

Súkkulaði er svo alveg sér kapítuli út af fyrir sig. Sælgæti eins og maður fær úti í sjoppu er ekki súkkulaði. Það er smjörlíkis og sykurjukk og maður kaupir ekki þannig þegar hægt er að þá belgískar kampavínstrufflur! Súkkulaði á ekki að háma í sig eins og soltinn grís að éta súrkál. Það á að borða rólega, lítið í einu og njóta hvers munnbita og að drekka gott kaffi með er punkturinn yfir i-ið. Þá vitiði það, það er til nóg af súkkulaði hér á þessum bæ...ennþá Wink

Talandi um ferðalög, hvernig í ósköpunum stendur á því að það hefur enginn hannað almennileg sæti í flugvélar! Það er komið árið 2007 og maður er ennþá að sitja í þessum ömurulega óþægilegu svamphlunkum sem flugvélaframleiðendur eru enn að bjóða farþegum sínum upp á. Það væri kanski hægt að horfa fram hjá óætum mat, engu fótaplássi, vondu lofti og helv. hávaða ef sætin væru almennileg! Findist fólki bara allt í lagi að kaupa nýja Toyotu og það væru nákvæmlega eins sæti í henni og í Corollu ' 68?!

 


Uppskriftir

PeatitÞegar maður er farinn að skiptast á mataruppskriftum við vini sína í staðinn fyrir nýjustu djammsögurnar þá er maður formlega orðinn miðaldra. Auk þess sem "nýjustu" djammsögurnar hjá sumum eru síðan fyrir aldamót og ekki lengur sérlega ferskar. Það eru fjölskyldur og starfsframar sem þarf að sinna og allt í einu eru liðin 5 ár síðan viðkomandi sletti úr klaufunum síðast.

Hún Linda vinkona mín er lengi búin að suða í mér að fá eina eða tvær uppskriftir en ég hef þrjóskast við þar sem miðaldramennska er ekki alveg að heilla mig. En svona til að gera henni greiða þar sem hún er kjarnakona austur í sveit með fullt hús af börnum auk þess að vera í fullri vinnu, hugsa um garðinn, vera í kvenfélaginu kirkjukórnum og sóknarnefndinni og er núna eflaust að taka slátur og sjóða niður rabbabarasultu þá kemur þetta hér. Ég geri mér alveg grein fyrir því að það hafa ekki allir tíma til að grúska í matreiðslubókum svona milli þess að sitja á kaffihúsum, lesa skáldsögur, hlusta á tónlist, fara í gönguferðir eða eyða heilu kvöldunum í tölvunni þó ég hafi það. Þetta ætti því að gagnast öllu uppteknu fjölskyldufólki og þeim sem vilja nýta það mikla og góða hráefni sem hér er að finna

Austur í sveit er heldur ekki hægt að hlaupa út í búð ef það vantar eitthvað í matseldina hvað þá að slá bara öllu upp í kæruleysi og panta sér pizzu. Það þarf að hugsa fyrir öllu og þegar við bætist að það eru margir munnnar sem þarf að metta er gott að vera hin hagsýna húsmóðir. Uppskriftirnar taka því mið af því. Það var úr ýmsu að velja eins og uppskrift af Lúðubuffi, Sláturstöppu og Kartöflutertu. Njólajafning og Áfasúpu gæti líka komið sér vel að kunna að matreiða og sömu leiðis Hænu í hlaupi eða Hryggvöðva af hesti ef margir eru í mat. En hér koma þessar uppskriftir Linda mín:

Súrsuð júgur

Skerið júgrið í 2-4 hluta eftir stærð. Skerið upp í spenana og útvatnið júgrið í 1-2 daga. Skiptið oft um vatn til þess að ná mjólkinni úr. Sjóðið júgrið í 1-3 klst. og kælið. Suðutíminn ter eftir tegund og aldri skepnunnar. Súrsið júgrið í skyrmysu. Á sama hátt má sjóða og súrsa lungu og hrútspunga

 

Fótasulta

Svíðið kindafætur ohreinsið eins og svið. Takið klaufarnar af. Sjóðið fæturna fyrst í saltlausu vatni (vegna fótaolíunnar). Fleytið fótaolíuna ofan af vatninu, það er mjög góð feiti sem nota má í kökur en einnig í smyrsl. Saltið, þegar búið er að ná feitinni, og sjóðið þangað til hægt er að smeygja beinunum úr. Stórgripahausa, ærhausa er ágætt að hafa með í sultunni. Sjóðið beinin í soðinu í dálitla stund og síið þau síðan frá. Sjóðið soðið niður þar til það er hæfilega mikið á móts við kjötið sem á að hafa í sultuna. Látið kjötið út í og sjóðið í 5-10 mín. Ausið síðan sultunni í grunn föt og kælið. Skerið sultuna í bita og geymið í mysu

Verði ykkur að góðu!

Í spilaranum hér til hliðar eru svo nokkur matarlög

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband