Ég mótmæli líka!

Við íslendingar virðumst loksins hafa uppgötvað mótmæli, og það með stæl. Tími úlpuklæddra menntaskólanema og eftirleguhippa, hangandi í nepjunni með sultardropa á nefinu fyrir utan Stjórnarráðið, með spjöld að mótmæla túnfiskveiðum í Kyrrahafi er liðinn. Það tekur enginn mark á svoleiðis, það þarf aksjón. Þetta föttuðu atvinnubílstjórar og síðan hafa fleiri bæst í hóp þeirra sem mótmæla með látum svo eftir er tekið
Þar sem ég á ekki bíl þá er mér slétt sama hvað bensínið kostar þó svo að ég skilji vel að þeir sem hafa akstur bíla að atvinnu séu ekki sérlega hamingjusamir með verðið. Aftur á móti vorkenni ég jeppaliðinu nákvæmlega ekki neitt. Fáið ykkur sparneytnari bíla! Það þarf ekki jeppa til að komast á milli borgarhluta í Reykjavík! Nú og fyrst þið eruð á svona dýrum og flottum jeppum þá hljótið þið að vera svo ógeðslega rík að ykkur munar ekkert um að kaupa bensín fyrir 50 þúsund kall á viku, nema þetta sé þessi alræmdi íslenski flottræfilsháttur að finnast svaka fínt að spila sig einhvern þvílíkan spaða. En nóg um það.

Þar sem að ég á ekki bíl eins og ég sagði áðan þá hef ég enga ástæðu til að mótmæla háu bensínverði. Ég nenni heldur aldrei í bíó þannig að hátt bíómiðaverð kemur ekkert við budduna hjá mér. Ólympíueldurinn kemur heldur ekki hingað þannig að ekki get ég mótmælt mannréttindabrotum í Kína með því að reyna að ráðast á kindilberann og sparka í sköflunginn á honum. Ég fór því að velta fyrir mér hverju ég gæti mótmælt, svona til að vera með í mótmælabylgjunni.

Það er orðið hálf þreytt að mótmæla ríkisstjórninni eða borgarstjórninni sérstaklega þar sem hvorug gerir nokkurn skapaðan hlut yfir höfuð annað en að vera bara þarna. Ég gæti samt reynt að planta mér fyrir framan Seðlabankann til að mótmæla vaxtaokri og skvett skyrir á Davíð Oddsson í hvert skipti sem hann labbaði fram hjá. Ég gæti reynt að brjótast inn á skrifstofur Arkitektafélagsins og krotað slagorð á veggi til að láta í ljós þá skoðun mína að mér finnst vera komið meira en nóg af ljótum húsum í Reykjavík. Lærðu þessir menn allir í Austur-Þýskalandi eða hvað! Það er líka full ástæða til að mótmæla einhæfum flugvélamat. Hversu lengi á eiginlega að bjóða okkur upp á eggjahræru og soðna skinku? Var gerður samningur við eggjahræru og skinkuframleiðanad til 200 ára? Og talandi um flugvélar, hvenær verður þessum ömurlega óþægilegu svamphlunkum eiginlega skipt út fyrir almennileg sæti? Halló! Það er 2008 og það eru samskonar sæti í flugvélum í dag og voru í flugvélinni hjá Wright bræðrum!

Þar sem ég er komin út í frekar persónuleg mótmæli hér þá vil ég líka nota tækifærið og mótmæla ömurlegum mat sem fólki er boðið upp á, á okurprís í vegasjoppum landsins. Það er list að gera jafn vonda hamborgara. Ég mótmæli líka harðlega þeim útvarpsstöðvum sem hafa tekið upp þann ósið að vera með íþróttaþætti á dagskrá á vinnutíma. Maður er í vinnunni og vill hafa góða tónlist til að stytta sér stundir en ekki einhvern gjammandi íþróttafréttamann að velta sér upp úr því hvort United hefði ekki átt að fá víti þegar Bobby Jones braut á Billy Bob með því að klípa hann í rassinn og fer svo í löngu máli yfir gang mála í leik Galgopa frá Stöðvarfirði og Lubba frá Hólmavík í utandeildarbikarkeppninni í fótbolta.

Ég er líka alveg búin að fá nóg af fólki með organdi börn á kaffihúsum þar sem maður vill njóta kaffibollans og súkkulaðikökunnar í friði og spekt. Af hverju eruði ekki á McDonalds eða í Smáralindinni?! Ég vil líka mótmæla því að mér sé boðið í brúðkaup og fermingarveislur og fólk skal ekki einu sinni voga sér að fá þá hugmynd að bjóða mér í barnaafmæli eða skýrnarveislur. það verður geymt en ekki gleymt!

Að lokum vil ég svo mótmæla harðlega okur verði á hágæða súkkulaði. Það er hægt að fá eitthvað sykur og smjörlíkisjukk með gerfibragðefnum og svo mörgum E númerum að þau komast ekki fyrir á umbúðunum, í öllum sjoppum á viðráðanlegu verði en lítill kassi af belgískum kampavínstrufflum kostar 1.500 kall! Hverslags ósvífni er þetta!

Spurningin er svo bara hvort löggan byrjar á að lemja mig með kilfum eða úðar fyrst á mig piparúða þegar ég læt til skara skríða.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Finnst BARA fyndið að menntasnobbarar landsins hafi hrósað ungu fólki fyrir að taka lýðræði í sínar hendur og fara út á götur og mótmæla, þó það hafi bara verið að mótmæla verði á bíómiðum!!!!. Þegar sama UNGA fólk fer niður í bæ um helgar eru það einmitt sömu menntasnobbarar sem kvarta undan skríl sem veður út um allt, æðir út á allar götur og ber enga virðingu fyrir eigum annarra. En þetta var sko lýðræðisleg aðgerð þarna á gatnamótum Kringlumýrabrautar og Miklubrautar. Einmitt, og ég er drottningin af Viðey.

Olsen Olsen (IP-tala skráð) 27.4.2008 kl. 21:20

2 identicon

Eins og ávallt tekur ein tískan við af annarri.  Mér sýndist þegar ég kom heim um páskana (og hef sennilega nefnt hér áður) að nýjast tískan væri að vopnast spreybrúsa og spreyja 'listaverk' á allt sem fyrir verður.  Spurning hvort að mótmæli hafi tekið við sem næsta 'tíska' - veit ekki hvort er heimskulegra, spreytískan eða mótmæli gegn háu bíómiðaverði!!!

Londonia (IP-tala skráð) 29.4.2008 kl. 15:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband