Færsluflokkur: Ferðalög

Ferðasaga frá Marocco

Ég er sem sagt búin að vera í Marocco með viðkomu á Spáni undanfarna 10 daga. Eitthvað sem ég mæli með að allir sem á annað borð hafa áhuga á einhverju meira framandi en baðströndunum á Costa del sol og golfvöllum í Florida reyni að upplifa. Sums staðar hafði maður á tilfinningunni að maður væri staddur í settinu á fyrstu Indiana Jones myndinni, þar hafði tíminn nánast staðið í stað síðan um miðja þar síðustu öld. Það eina sem benti til þess að við værum eitthvað nær samtímanum voru vespurnar sem menn keyrðu eins og bavíanar og skipti þá engu þótt gatan væri innan við tveggja metra breið með húsum á báðar hendur og full af gangandi fólki.

Umferðarmenningin, eða réttara sagt umferðarómenningin var alveg kafli út af fyrir sig. Umferðarreglur virtust bara vera svona til lauslegrar viðmiðunar og ekkert issjú að fara nákvæmlega eftir þeim. Jú, jú, flestir stoppuðu á rauðu ljósu en þar með er það upp talið. Hringtorg voru eitt allsherjar kaos þar sem menn keyrðu bara einhvernvegin og gangandi vegfarendur áttu gjarnan fótum fjör að launa ef þeir ætluðu sér yfir götu, og voru ekki einu sinni óhulltir á gangstéttunum þar sem ökuníðingar á vespum töldu sig alltaf eiga réttinn. Já og ekki má gleyma hestum og ösnum sem lulluðu með kerrur inn á milli bílanna. Í öllu þessu kraðaki var því flautan mikilvægasti hlutur hvers ökutækis.

Það var farið ansi víða í þessari ferð. M.a til borganna Fes, Casablanca, Marrakech og Rabat. Að ganga um elstu hluta þessara borga, Medínuna svokölluðu er upplifun út af fyrir sig og þá sérstakleg í Fes þar sem Medínan er svo til óbreytt frá því sem hún var á miðöldum. Þar er göturnar eitt risastórt völundarhús í allar áttir og sums staðar svo þröngar að ef maður rétti út hendurnar gat maður snert veggina báðu megin. Þarna ægir svo saman mönnum og skepnum og þar er hægt að kaupa handofin teppi, leðurtöskur, sútaðar gærur, notaðar klósettsetur, hænur á fæti, gerfitennur af ýmsum stærðum, krydd eftir vigt, óslægðan fisk, myndir af kónginum, úlfaldakjöt af nýslátruðu, gamlar ritvélar o.fl, o.fl. Og áður an þú veist af var búið að pranga einhverju af þessu inn á þig.

Þegar keyrt var á milli staða gat maður virt fyrir sér lífið í sveitunum út um bílgluggann. Það virtist aðallega ganga út á það að konurnar unnu á ökrunum meðan karlarnir sváfu undir tré eða sátu við eitthvað kaffihúsið og drukku te. Ég hef alla vega ekki séð svona mikið af iðjulausum karlmönnum á eins stuttum tíma síðan í Tyrklandi hérna um árið. Það var ekki laust við að maður heyrði öfundarandvarp frá sumum karlkyns ferðafélögunum.

Leigubílarnir í Marocco eru fyrirbæri sem vert er að minnast aðeins á. Það eru annars vegar svokallaðir "grand taxi" sem eru alltaf 20-30 ára gamlir Benzar og svo "petit taxi" sem eru álíka gamlir Fiat Uno eða svipaðir bílar. Munurinn á grand taxi og petit taxi er að sá fyrrnefndi má keyra fólk um allt en þeir síðarnefndu meiga ekki fara út fyrir borgamörk. Ef þú ætlar að taka grand taxi þá veifar þú einum slíkum og skiptir þá engu máli hvort það eru farþegar fyrir í honum eða ekki, það er hrúgað í kerruna þar til hæfilegum fjölda þarþega er náð sem eru 6 fyrir utan bílstjórann. Svo getur bæst við farangur sem getur verið nýslátraðar hænur í kvöldmatinn eða notaður stálvaskur sem fékkst á góðu verði á markaðnum. Svo er keyrt af stað. Petit taxinn tekur hins vegar ekki nema 4 farþega ásamt bílstjóra. En með þessu móti eru leigubílar ódýr ferðamáti og ef þú setur það ekkert fyrir þig að lenda kanski við hliðina á einhverjum sem hefur ekki farið í bað þann mánuðinn þá er þetta hið ágætasta fyrirkomulag.

Þó svo að Maroccoferðin hafi verið alveg mögnuð í alla staði þá var samt voða notalegt að slappa af í Jerez á Spáni í 2 daga í endann og fá eitthvað annað en cus cus að borða. Jerez er líka afskaplega krúttlegur og sjarmerandi bær með fullt af kaffihúsum og tapasstöðum og frægur fyrir sérrý framleiðslu. Þegar ég verð orðin nógu gömul til að kunna að meta sérrý þá ætla ég sko alveg örugglega að fara aftur til Jerez og heimsækja öll brugghúsin...tvisvar!


Túrismi

Nú er fólk sjálfsagt farið að spá í það hvert skal halda í sumarfríinu. Er það Kanarí 18. árið í röð, er það sumarhús í Danmörku eða á að taka áhættu og skella sér til Krítar? En hvernig væri bara að taka þetta með trompi og fara til Ríó eða Jóhannesaborgar? Þar er nefnilega hægt að fara í svolítið merkilegar skoðunarferðir um alverstu fátækrahverfi þessara borga í fylgd með innlendum leiðsögumanni sem sýnir feitum og pattaralegum vesturlandabúum á miðjum aldri aumust slömm viðkomandi borga. Og allt saman fyrir væna greiðslu auðvitað

En sitt sýnist hverjum um þessar slömm ferðir. Það eru þeir sem lýta á þetta sem hreina niðurlægingu fyrir íbúana. Eða hvernig fyndist okkur t.d að tvisvar á dag stoppaði rúta fyrir framan hjá okkur og út úr henni hrúguðust amerískir kallar og kellingar á sextugsaldri með gullhringi á hverjum fingri, rándýrar myndavélar um hálsinn og bótox þrútið andlit og byrjuðu að smella af okkur myndum í gríð og erg og ég tala nú ekki um ef við byggjum í bárujárnskofa og ættum bara einn umgang af fötum, þau sem við stæðum í? Svo færu allir upp í rútu aftur og stuttu seinn til síns heima á Palm Beach í einbýlishúsin sín. Ekki eitthvað sem okkur myndi langa til að upplifa geri ég ráð fyrir
Svo eru það hinir sem segja að þeir sem fari í þessar skoðunarferðir kaupi alltaf eitthvað af handverksfólkinu í hverfinu og komi jafnvel til með að gefa peninga til menntunar og uppbyggingar á svæðinu eftir að hafa séð fátæktina með eigin augum

Núna þegar allt er að fara til fjandans á Íslandi þá er ekki úr vegi að einhverjir framtakssamir aðilar fari að skoða þennan ferðamöguleika fyrir alvöru hér heima. Við eigum kanski ekki jafn slæm hverfi og þair þarna í Rio en það mætti bjóða ríkum Japönum eða Þjóðverjum upp á skoðunarferð um Fellahverfið og nágrenni. Því þó að Gullfoss og Geysir séu voða fínir staðir og allt það þá gefur það ekki alveg rétta mynd af Íslandi að sjá bara svoleiðis staði. Það mætti t.d taka rútu upp að Fellaskóla og fylgjast með vandræðaunglingum kveikja í ruslatunnum og brjóta nokkrar rúður. Síðan mætti ganga með hópinn um Unufellið og Æsufellið skoða yfirgefin verslunarhús og brotna póstkassa og jafnvel taka Pólska eða Tælenska íbúa hverfisins tali. Síðan mætti rölta um Vesturbergð og í Bakkana, bragða á heimabruggi og örbylgjupizzum og fylgjast með fjölskylduerjum eða handrukkurum að verki á meðan. Að lokum mætti staldra við á hverfispöbbnum Búálfinum og horfa á Leikfélag Fella- og Hóla flytja einþáttungana "Kerfið sveik mig" og "Síðasti sopinn í bænum" og hljómsveitin Búsbandið endaði svo á að taka nokkur Bubba lög.
Ég gæti bara vel trúað að þetta ætti eftir að verða gríðarlega vinsælt


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband