Monsters of rock

Motley_CrueKiddi var á blogginu sínu að minnast á ferðina sem hann fór með Eddunni ´83 á Donington festivalið. Ég fór ekki í þá frægu ferð heldur fór ég árið eftir í stórum hópi rokkaðdáenda að sjá m.a AC/DC, Motley Crue, Van Halen og Accept. Allt svakalega heit bönd á þeim tíma og þóttu Motley Crue alveg sérstaklega svalir eins og sjá má á þessari mynd.

Í þeirri ferð voru m.a rauðhærði víkingurinn sjálfur Eiki Hauks sem fararstjóri, Hlöddi og Siggi úr Centaur, Pálmi Sigurhjartar, Einar Jóns gítarleikari, Kiddi og Björg sem ég átti að deila herbergi með þessa daga sem við gistum í London og nokkrir rokkhundar frá Sauðárkróki. Þar var mikil rokkbylgja í gangi og m.a starfræktur metalklúbbur eins og var í gangi í bænum á þessum tíma. Klúbburinn í Reykjavík hét Skarr (sem þýðir sverð á forníslensku, mjög svalt) og merki klúbbsins var stórt og mikið sverð eins og eru í hasarteiknimyndum. Klúbburinn á Króknum hét hins vegar Lubbi og merki hans var lítil fígúra, svona eins og kafloðinn Barbapabbi með rafmagnsgítar. Það eru nú takmörk fyrir hvað hægt er að taka sjálfan sig alvarlega LoL

Ég vissi reyndar ekki þá að með Björgu í kaupunum fylgdu bæði Thelma og Linda systur hennar sem komu á móts við hópinn eftir Interrail ferð um Evrópu og áttu auðvitað ekki bót fyrir boruna á sér til að kaupa hótelgistingu svo þær plöntuðu sér bara á herbergisgólfið hjá okkur Bjöggu og allt í góðu með það eða þar til Linda fór að versla sér tískufatnað. En meira um það á eftir.

Ferðaskrifstofan sem planaði ferðina hefur greinilega ekki verið með allar staðreyndir á hreinu. Hótelið sem við vorum sett á, White House Hotel var nefnilega voðalega fínt hótel með marmara í lobbýinu og uppáklæddan dyravörð. Ég held þeim hafi lítið litist á blikuna þegar 40 síðhærðir rokkarar í leðurjökkum og gallavestum birtust! Hvað þá þegar 40 síðhærðir góðglaðir, sveittir og illa lyktandi rokkara  þrömmuðu inn á moldugum skónum eftir að hafa eytt heilum laugardegi í að flösuþeyta og drekka ómælt magn af bjór á Donington. En herbergin voru stór og fín og veitti ekki af þar sem troða þurfti inn svona 20 manns ef að gott partý var í gangi í viðkomandi herbergi. Ástæðan fyrir því að okkur var ekki öllum hent út og hurðinni læst og lyklinum hent var líklegast sú að ég efast um að veltan á barnum hafi nokkurntíma verið meiri í sögu hótelsins.

Ég minntist áðan á Lindu og verslunarferð sem seint gleymist. Linda hefur alltaf verið svolítill hippi í sér. Gengið í mussum og mokkasíum með skrautlega klúta og kringlótt sólgleraugu a la Janis Joplin og lengi átti hún forlát brúnan leðurhatt sem var ómissandi hluti af lookinu. Í London er hægt að kaupa nánast allt og einn daginn þegar ég kem inn í herbergið finn ég undarlega lykt. Ekki bara þessa venjulegu af flötum bjór, skítugum sokkum og hálfétnum hamborgurum heldur eitthvað svona meira eins og ég sé komin inn í fjárhús eða eitthvað. Þegar ég svo opna fataskápinn sé ég hvað veldur þessum fnyk. Linda hafði sem sagt fundið þetta forláta gæruvesti á einhverjum flóamarkaðnum og talið sig hafa himinn höndum tekið. Í þessari flík gekk hún hin stoltasta og stóð slétt á sama þó hún lyktaði eins og ný rúin rolla.

Ég er búin að fara á mörg festivöl um dagana en þetta var það fyrsta sem ég fór á og líka í fyrsta skiptið sem ég fór til útlanda þannig að Donington ´84 er alveg sérstaklega minnisstætt. Og gaman var það maður!!!!!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta var í þá gömlu góðu daga þegar allir gátu drukkið kvöld eftir kvöld án þess að þurfa að leggjast inn á heilsuhælið í Hveragerði á eftir og ef valið stóð á milli máltíðar eða bjór var valið ALDREI erfitt.

Drífa Sig (IP-tala skráð) 1.4.2007 kl. 19:46

2 identicon

Enda er bjór fullur af B vítamíni og telst þ.a.l. heilsufæði

Londonia (IP-tala skráð) 3.4.2007 kl. 21:59

3 identicon

Já, þeir sem fóru með Eddunni ´83 urðu hipparokkarar and ´84 liðið fíluðu W.A.S.P og leiddust að lokum út í amerískt tussurokk sem gekk að lokum að heavyrokkinu dauðu....

Um gæruna að segja kom hún frá Afganainstan, óhreinuð beint af kindinni og henni var hent þegar ég sá ekki lengur þörf fyrir að hneyksla vini mína. Synd hennar er þörf núna

linda (IP-tala skráð) 4.4.2007 kl. 22:51

4 Smámynd: Thelma Ásdísardóttir

Sko Linda! Í fyrsta lagi var engin hippi um borð í Eddunni nema ÞÚ. Við hin fylgdum öll rokkinu og metalinu eins og það sveiflaðist með árunum. Og hvað þessa gæru varðar þá fannstu hjá þér mikla þörf til að stríða vinum þínum með því að klæðast þessari ullarflækju í mörg ár!!!! Ég er viss um að þú ert enn að laumast með hana einhver staðar heima hjá þér :)

Annars voru þessar Donington ferðir alveg æðislegar, mjög minnistæðar.

Thelma Ásdísardóttir, 10.4.2007 kl. 15:03

5 identicon

Er Grumpa í kosningakóma?  Liggur hún í djúpu dái og gæludýrin hennar svelta heilu hungri?  Eða hefur orðaflaumur núverandi, tilvonandi og tilvonandi fyrrverandi stjórnmálamanna sogið frá henni alla andagift?  Hvar er hún?

Londonia (IP-tala skráð) 13.4.2007 kl. 14:11

6 identicon

Grumpa ég veit að þú ert vakandi farðu nú að blogga. Hvað varstu að gera á Spáni?

Linda Ásdísardóttir (IP-tala skráð) 23.4.2007 kl. 23:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband