Sérvitringar

lords_of_logistics_63Það er margt bæði skondið og skemmtilegt á landsbyggðinni. Þar mæta ungir sem aldnir á ball með Geirmundi og skemmta sér konunglega saman og hafa gert í 40 ár, maður drekkur kók úr bauk og getur farið inneftir, ofanfyrir og úteftir. Þar fær líka fólk að vera skrýtið í friði og enginn kippir sér upp við smá sérvisku. Ég ætla að segja ykkur eina skemmtilega sögu. Þetta er af bónda norður í landi sem þykir sopinn ansi góður og átti það til að skvetta í sig við hin ýmsu tækifæri. Hann var þó ekki vandlátari en það að hann drakk oft spritt enda miklu ódýara en brennivínið og gerði nákvæmlega sama gagn. Hann var líka orðinn vanur sprittinu enda drukkið fleiri en eina og fleiri en tvær flöskur af þeim vökva í gegn um tíðina og fannst það orðið alls ekki sem verst. Einu sinni sem oftar bregður hann sér í nærliggjandi kaupstað til að versla eitt og annað og kippir með sér í leiðinni tveim lítersbrúsum af spritti. Þar sem hann er í samfloti með sveitunga sínum og þarf ekki að vesenast við að keyra sjálfur þá ákveður hann á leiðinni út úr bænum að fá sér smá lögg úr öðrum brúsanum, síðan smá í viðbót og aðeins meira og 10 mínútum seinna er hann kominn vel niður fyrir hálfan brúsa. Öllu saman skolar hann svo niður með einni maltflösku. Hann hefur þó varla rennt niður síðasta maltsopanum þegar eitthvað fer heldur betur að gerjast í maganum á karlinum og hann rétt nær að stinga hausnum út um bílgluggann áður en stór og mikil spýja sleppur út með tilheyrandi búkhljóðum. Bílstjórinn stoppar bílinn í ofboði og býst sjálfsagt við öðru eins. Okkar maður skrúfar þá bara rúðuna upp hinn rólegasti, þurrkar sér um munninn og segir si svona "Þetta er nú meiri bölvaður óþverrinn þetta malt!"

Í framhaldinu eru nokkur skrýtin og skemmtileg lög í spilaranum hér við hliðina


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Malt útumallt! Ja hérna, þeir eru harðjaxlar margir þessir sveitungar.

Maja Solla (IP-tala skráð) 30.7.2007 kl. 20:55

2 Smámynd: Lauja

Snilldarsaga, ekki gat það verið sprittið sem olli þessu

Lauja, 30.7.2007 kl. 22:13

3 Smámynd: Thelma Ásdísardóttir

Ughh...ég fæ nú bara ónot í magann við að lesa þetta :-0

Thelma Ásdísardóttir, 31.7.2007 kl. 01:01

4 identicon

Einmitt þarna liggur munurinn á landsbyggðinni og höfuðborginni. Ef einhver skellir sér út í næturlíf stórborgarinnar á sá hinn sami á hættu að verða illa úti og ein æla á spariskóna er bara smámál. Hins vegar ef þú ert á ferli úti á landsbyggðinni er eina áhættan sem þú tekur sú að mæta þessum gamla bónda daginn sem hann álpaðist til að skella í sig einni malt.

Linda Ásdísardóttir (IP-tala skráð) 31.7.2007 kl. 11:57

5 Smámynd: Kristján Kristjánsson

Frábær saga. LOKSINS er Nitro kominn í spilarann! Ég var að spá í hvenar kæmi að því  

Kristján Kristjánsson, 31.7.2007 kl. 20:55

6 Smámynd: Ragnheiður

oj, ég þoli ekki lykt af malti og nú fann ég hana með færslunni. Þetta er svona lyktarfærsla hehehe

Ragnheiður , 2.8.2007 kl. 11:02

7 identicon

Í litla sjávarþorpinu sem ég eyddi æsku-sumarfríunum voru nokkrir svona eðal gaurar.  Einn lyktaði af kardimommudropum þannig að það var eins og hann gerði ekki annað en baka sandkökur :)  Annar gekk syngjandi um göturnar og amma sendi mig niður til að læsa útidyrahurðinni svo karlinn kæmi nú ekki syngjandi inn á mitt eldhúsgólf.

Og í þessu litla þorpi var sko líka hægt að fara uppeftir og niðreftir

Londonia (IP-tala skráð) 2.8.2007 kl. 13:57

8 identicon

Frábær saga, og dæmalaust skemmtileg lög í spilarunum þessa vikuna. Lagið Fluffy gefur orðatiltækinu "Gargandi snilld" nýja merkingu

Monopoly (IP-tala skráð) 5.8.2007 kl. 12:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband