Kaupæði...eða ekki?

trufflurÉg var að koma heim frá útlöndum í dag. Nánar til tekið frá Heidelberg í Þýskalandi þar sem kompanýið hélt árshátíð með pompi og prakt. Ég komst þarna að því að ég er alveg hætt að nenna að djamma fram á nótt, finnst m.a.s fullt fólk í flestum tilvikum leiðinlegt og ég tala nú ekki um þegar það fer á trúnó og byrjar að dásama hundinn sinn! How boring is that?! En ég komst líka að því að það vantar algerlega í mig þetta eina sanna íslenska kaupæðisgen. Það eina sem ég keypti þessa 4 daga fyrir utan mat og drykk sem rann ljúflega niður á staðnum, var áfengi og súkkulaði. Ég hafði ekki einu sinni ástæðu til að fara inn í verslanir sem seldu eitthvað annað en áfengi og súkkulaði.

En áfengi er ekki bara áfengi og þess þá síður er súkkulaði bara súkkulaði. Ó nei! Maður lætur alls ekki hvað sem er ofan í sig, í þessum efnum eru gerðar kröfur hér á þessu heimili. Það eru liðnir þeir dagar þegar screwdriver og black russian þóttu hinir mestu eðaldrykkir og Lionbar og Siríuslengja aldeilis ljómandi fínt súkkulaði. Nú lítur maður ekki við öðru en 12 ára Single Malt Whisky og Chateau vínum frá Búrgúndí og maður hefur um leið uppgötvað listina að drekka áfengi bragðsins vegna en ekki áhrifanna. Þegar vinnufélagarnir voru hættir að nenna að vera dannaðir og svolgra í sig Mojito sem þeim þóttu örugglega ekki einu sinni góðir og voru komnir á 5. glas af vodka í kók ákvað ég að segja því partýinu lokið og horfði frakar á James Bond á þýsku áður en ég sofnaði. OK, það var líka verið að syngja og spila rútubílalög á kassagítar. That did it!

Súkkulaði er svo alveg sér kapítuli út af fyrir sig. Sælgæti eins og maður fær úti í sjoppu er ekki súkkulaði. Það er smjörlíkis og sykurjukk og maður kaupir ekki þannig þegar hægt er að þá belgískar kampavínstrufflur! Súkkulaði á ekki að háma í sig eins og soltinn grís að éta súrkál. Það á að borða rólega, lítið í einu og njóta hvers munnbita og að drekka gott kaffi með er punkturinn yfir i-ið. Þá vitiði það, það er til nóg af súkkulaði hér á þessum bæ...ennþá Wink

Talandi um ferðalög, hvernig í ósköpunum stendur á því að það hefur enginn hannað almennileg sæti í flugvélar! Það er komið árið 2007 og maður er ennþá að sitja í þessum ömurulega óþægilegu svamphlunkum sem flugvélaframleiðendur eru enn að bjóða farþegum sínum upp á. Það væri kanski hægt að horfa fram hjá óætum mat, engu fótaplássi, vondu lofti og helv. hávaða ef sætin væru almennileg! Findist fólki bara allt í lagi að kaupa nýja Toyotu og það væru nákvæmlega eins sæti í henni og í Corollu ' 68?!

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ruth Ásdísardóttir

Ég heyri að rokkæluferðir út til Evrópu eru liðnar hjá Grumpu!! :) En, það er nú alveg hið fínasta mál, og enn betra er að ég heyri á hún á fullt af eðal súkkulaði frá Evrópu. Hvað segirðu Grumpa mín, ertu laus á næstunni? :P

Ruth Ásdísardóttir, 5.11.2007 kl. 10:37

2 Smámynd: Grumpa

rokkæluferðir eru kanski ekki alveg liðin tíð, fór nefnilega í eina slíka í febrúar með tveim ungum mönnum sem höfðu mikinn áhuga á rokkælu...mjööög gaman!! maður þarf nefnilega aðeins að spá í félagsskapinn í ferðalaginu

...og jú, það er til nóg súkkulaði alla vega ennþá:)

Grumpa, 5.11.2007 kl. 12:46

3 identicon

Ég gæti varla verið meira sammála Grumpu hvað varðar viský, vín og súkkulaði.  Engin ástæða til að þamba eitthvert glundur eða úða í sig einhverjum hroða þegar hægt er að fá eðal- af þessu öllu. 

Við Monopoly hittumst fyrir skemmstu í Barcelona og þar var svo sem hægt að fá nóg af eðal víni.  Eini gallinn á samkundunni þar var að þjónarnir voru svo óskaplega duglegir að hreinsa glösin af borðunum að mannskapurinn náði varla að fá sér sopa með steikinni.  Grunsemdir vöknuðu um að þeir væru á svo óskaplega lélegum launum og fengju að sjálfsögðu ekkert þjórfé á svona fjölmennri árshátíð að þeir rykju með glösin á bak við og kláruðu veigarnar.  Í það minnsta var þjóninn okkar orðinn nett slompaður og náði að sletta sósunni hingað og þangað, aðallega ekki á diskana.  En þetta var mikið gaman engu að síður og Monopoly furðu spök að vera ekki með Mini Monopoly fasta við mjöðmina.  Held hún hafi ekki hringt heim nema einu sinni :-)

Londonia (IP-tala skráð) 6.11.2007 kl. 16:30

4 identicon

Þegar við Grumpa fórum í okkar fyrstu utanlandsferð saman fórum við með föt í Hagkaupspoka, 100 pund og tvenna kínaskó. Tveimur vikum seinna komum við heim. Önnur okkar kominn nýtt tattoo, höfðum þá farið á tónleika, drukkið okkur svo oft fullar að við gátum ekki talið það, farið til 8 landa og áttum samt afgang. En þá var manni sama þó maður hellti ódýrum vodka út á morgunkornið, hvort maður át mat eða ekki var aukaatriði, engum datt í hug að ræna mann því fólk hélt að við værum þjófar sjálfar og bezta súkkulaði í heimi var Mars Bar, því maður varð saddur svo lengi af því.

Monopoly (IP-tala skráð) 6.11.2007 kl. 20:08

5 Smámynd: Thelma Ásdísardóttir

Bíðið eftir mér!!!! Ekki klára allar trufflurnar, ég treysti því Grumpa að þú geymir nokkrar handa mér, þó að Ruth og Monopoly og fleiri eigi eftir að ryðjast í heimsókn :)

Thelma Ásdísardóttir, 6.11.2007 kl. 22:58

6 Smámynd:  Íris Ásdísardóttir

Það eru ekki til trufflur í sjoppunni hér á Eyrarbakka........bara Mars..

Íris Ásdísardóttir, 13.11.2007 kl. 23:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband