7.11.2007 | 21:39
Fegrun og snyrting og smá heilræði...class of 1964
Konur árið 1964 höfðu ekki minni áhuga á útlitinu en konur í dag. Þær höfðu kanski ekki úr jafn miklu magni af snyrtivörum og fegrunarmeðölum að velja og til eru í dag og þurftu því stundum svolítið að bjarga sér sjálfar.
Í hinu merka blaði Eldhúsbókinni sem kom út á þessum árum (og kemur kanski enn?) eru mörg stórmerkileg húsráð og heilræði. Hér er t.d að finna aðferðir við að halda húðinni á andlitinu mjúkri og unglegri og allt mjög náttúruvænt. Þetta ættu allar konur að skoða:
"Egg, kartöflur og epli eru góð fyrir húðina. Eggjagríma er það besta sem þér getið gefið feitri andlitshúð. Stífþeytt eggjahvíta er blönduð nokkrum dropum af sítrónusafa og helmingur blöndunnar strokinn varlega yfir andlit og háls. Þegar hún er storknuð er hinn helmingurinn borinn á andlitið og hálsinn og svo loks þeytt eggjarauðan. Þegar gríman hefur haft sín tilætluð áhrif í stundarfjórðung, er hún þvegin af með volgu vatni.
Eplagríma er góð við slappri húð. Skerið epli í bita og sjóðið það með dálítilli mjólk í þykkan graut. Kælið og berið á andlit og háls og látið vera í 20 mínútur. Þvegið af með volgu vatni.
Kartöflugríma er góð við rauðri húð. Hrá, ný kartafla er skorin í örþunnar sneiðar sem lagðar eru á andlit og háls. Slappið svona af í 1/2 klst."
Ekki nóg með það að gefin séu þessi glimrandi góðu fegrunarráð þá er líka í blaðinu lesendadálkur þar sem leyst er út hinum ýmsu vandamálum húsmæðra þessa tíma. Dálkurinn þar sem fjallað var um vandamál unglinga vakti sérstaka athygli míona þar sem ég þekki til fólks sem hefur þurft að glíma við téð vandamál eða á eftir að fá þau í hausinn eftir ekki svo ýkja mörg ár.
Spurningarnar eru sumar hverjar óborganlegar. T.d spyr ein áhyggjufull móðir (eða kanski er það faðirinn í þessu tilviki): "16 ára sonur minn er ekki farinn að raka sig enn. Hann er einnig óvenju lágvaxinn. Nær hann eðlilegum þroska?" ...ja, ekki nema von að manneskjan spyrji! Ekki farinn að raka sig 16 ára! Jedúddamía!
Svo er það sumt sem breytist aldrei. Þessi kona hafði miklar áhyggjur af dóttur sinni og spyr: "Dóttir mín eyðir svo miklum tíma í dagdrauma um pilta og föt að hún er farin að vanrækja námið. Hvernig getur hún losað sig við þennan ósið sem sóar dýrmætum tíma?"
Svo eru það pabbarnir sem ætlast til að synirnir verði læknar eða lögfræðingar og það strax: "Maðurinn minn lítur svo á að ef sonur okkar ákveður sig ekki núna, eftir að hafa lokið gagnfræðaprófi þetta ár, hvað hann ætlar sér að verða, muni ekkert verða úr honum annað en landeyða. Hefur hann á réttu að standa?"
Að lokum er svo hér eitt húsráð sem eflaust á eftir að nýtast einhverjum: "Ef þið eigið peysu sem er orðin of lítil, en þið vilduð gjarnan stækka, þá getið þið sprett upp hliðarsaumnum og áfram ermasaumnum í hliðunum og bætt þar inn í annað hvort prjónaðri lengju sem fer vel við peysulitinn eða þá lituðum gömlum ullarsokk."
Í spilaranum hér til hliðar eru svo nokkur lög frá því merka ári 1964
Athugasemdir
Grumpa ég verð að fara komast í bókasafnið þitt :)
Thelma Ásdísardóttir, 8.11.2007 kl. 00:07
Búin að þeyta eggin, skera niður bötturnar og eplin eru að sjóða í pottinum......svo sjáum við bara hvað gerist.....slúbb, slúbb....
Íris Ásdísardóttir, 13.11.2007 kl. 23:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.