Hingað og ekki lengra!

dipersNú er mér nóg boðið! Ég vil að það verði aftur leyfðar reykingar á kaffihúsum og það strax! Mér finnst reykingar frekar ógeðfelldur subbuskapur en maður verður bara að forgangsraða. Til að byrja með var ég afskaplega hamingjusöm að þurfa ekki að hafa eitthvað lið svælandi ofan í mig meðan ég var að drekka kaffið mitt og borða súkkulaðiköku með, en hvað fær maður í staðinn? Fólk með börn!!! Smokers come back, all is forgiven!

Ég var í fríi í dag (mánudag) og rölti í bæinn upp úr hádegi til að fá mér eitthvað í svanginn og það var sama hvaða kaffihúsi ég labbaði framhjá, allstaðar var barnavögnum parkerað fyrir utan í löngum bunum. Hafa þessar fæðingarorlofskerlingar ekkert annað að gera en að hanga og slúðra og þamba kaffi! Eiga þær ekki að vera heima og prjóna sokka eða eitthvað?

Ég skal koma hérna með tvö dæmi um hremmingar sem ég hef lent í nýlega. Fyrir ekki svo löngu hitti ég góða vinkonu mína á kaffihúsi. Það má segja að ég hafi verið að bjóða hættunni heim þar sem að ég vissi að hún tæki fjögurra ára dóttur sína með. En ég lét mig hafa það, alltaf gaman að hitta vini sína. Þetta byrjaði ósköp sakleysislega, barnið til friðs og borðaði matinn sinn tiltölulega þegjandi og hljóðalaust. En svo gerist það. Fyrst kemur gusa af kakói út um nefið á krakkanum, yfir borðið og ekki nóg með það þá var rétt búið að þrífa það upp þegar hálmelt samloka endaði á sama stað (þó ekki gegn um nefið sem betur fer). Ég þakkaði mínu sæla fyrir að sitja við hinn enda borðsins, sem ég hef reyndar að reglu þegar börn eru með í för. Maður getur aldrei verið viss um hvar maturinn endar sem sannaðist í þessu tilviki. Þar sem að um góða vinkonu mína til margra ára var að ræða þá hélt ég mínu jafnaðargeði og lét sem ekkert væri enda virtist hún ekkert kippa sér upp við þetta, hreinsaði jukkið bara upp og hélt samræðunum áfram eins og ekkert væri sjálfsagðara en slettur af hálfmeltum samlokum bleyttum í kakói út um allt. Svo fara þær mæðgur og ég sé fyrir mér rólegheit þar sem ég get klárað kaffið mitt og kíkt í blöðin. En nei, því var ekki að heilsa. Við hliðina á mér (þetta var á Hressó þar sem er langur bekkur með nokkrum borðum við einn vegginn) hafði hlammað sér niður fólk með tvo krakka. Annar var strákur sem gat ekki setið kyrr í 2 mínútur og var því stanslaust á einhverju ráfi fram og til baka og hitt var ungabarn. Haldiði svo ekki að þau hafi slengt hvítvoðungnum upp á bekkinn þarna við hliðina á mér og farið að skipta á kúkableyjunum bara rétt si svona meðan þau ræddu um hvað ætti að vera í kvöldmatinn! Finnst fólki bara alveg sjálfsagt að gera þetta nánast ofan í súpudiskunum hjá manni?! Svo þegar maður gefur þessu liði illt auga þá er maður bara orðin einhver Grímhildur Grimma sem étur börn í morgunmat

Núna reyni ég að fara bara út á kvöldin því þá ætti baranavagnaliðið að vera farið heim. Nema hvað, að ég var sem sagt í fríi í dag og rölti Laugaveginn og ákvað að fá mér síðbúinn löns í leiðinni. Inn á Sólon fer ég og viti menn, rétt eftir að ég er búin að panta koma einmitt svona tvær í fæðingarorlofi með ungabörnin með sér sem orga og grenja í kór. Mömmurnar kalla þetta að hjala og finnst það voðalega krúttlegt en þegar það yfirgnæfir samræður þá er það eitthvað allt annað. Og þarna sitja þær svo bara og spjalla meðan krakkarnir "hjala" út í eitt og geifla sig öðru hvoru framan í þau og segja eitthvað vússíbússídúddírú hvað sem þá á að þýða og krakkin tvíeflist í hjalinu og fer að frussa með því. Í svona tilvikum get ég ekki verið nógsamlega þakklát fyrir að iPod var fundinn upp. Í fullri vinsemd vil ég bara beina því til fólks sem fer með börnin sín á veitingastaði að það er ekki eitt í heiminum og það er til fullt af fólki sem finnst nákvæmlega ekkert krúttlegt við læti og hávaða hvað þá að horfa upp á bleyjuskiptingar og brjóstagjöf. Ég segi því eins og Umferðarráð, sýnum tillitssemi


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnheiður

Æj hehehe nei þau eru kannski ekki svo krúttleg þegar maður hefur ekki áhugann á þeim hahaha. En hinsvegar þessar bleiuskiptingar...hrollur..hef stundum lent í að fólk í heimsókn setur baneitraða kúkableiu í ruslið hjá mér. Mér finnst ég aldrei ætla að ná að ræsta út lyktina....

Ragnheiður , 26.11.2007 kl. 19:24

2 Smámynd:  Íris Ásdísardóttir

"Vússíbússídúddírú" þýðir - Nei sko !! Er þetta ekki kúkagretta í andliti þínu hjartans engillinn minn? ég á sæg af bleyjum heima, go nuts !!!

Íris Ásdísardóttir, 26.11.2007 kl. 22:53

3 identicon

Þegar Mini Monopoly er orðin heilbrigðisráðsfrú, og seinna þegar hún veður forsætisráðfrú, þá þýðir ekkert að hringja Grumpa mín. Þá man Monopoly eftir grettunum og fettunum yfir smá kakósulli, fingraförum á borðum, kúkalykt og öðrum "smáatriðum", nei, nei, þá er ekkert All is forgiven dæmi.

Monopoly (IP-tala skráð) 27.11.2007 kl. 10:14

4 Smámynd: halkatla

halkatla, 27.11.2007 kl. 13:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband