1.2.2008 | 00:49
þorramatur
Þá er tími þorrablótanna runninn upp. Þessi undarlegi siður að safnast saman og borða kæstan og súran mat með tilheyrandi ólykt og sturta í sig brennivíni í leiðinni er rakinn til stúdenta í Kaupmannahöfn í kring um 1880. Þetta voru sem sagt háskólastúdentar með heimþrá og uppfullir af nostalgíu auk þess að vera alltaf til í gott fyllirí eins og stúdentum sæmir sem byrjuðu á þessu öllu saman. Svo var það einhver vert á Naustinu sem sá fram á lítinn bissness á þessum árstíma sem fékk þá snjöllu hugmynd að endurvekja þennan "þjóðlega" sið fyrir ekki svo mörgum áratugum síðan. Og hér sitjum við og slöfrum í okkur magálum og hrútspungum og látum eins og okkur finnist þetta alveg æðislega gott. Þetta er kanski maturinn sem var étinn á Þorranum hér á öldum áður þegar ekkert annað ætt var til en forfeður okkar átu líka fiskiroð, skinnbækur og skóna sína ef út í það er farið. Ég legg því til að það verði bætt í þorrabakkana pari af tilgengnum sauðskinsskóm. Táfýlan ætti líka vel við lyktina af því sem fyrir er í bakkanum. Síðan mætti hafa eftirlíkingu af gömlu handriti til að naga.
Þó að ég sé alin upp í sveit fyrir norðan þar sem svið og slátur voru oft á borðum þá get ég ekki sagt með góðri samvisku að mér þyki þetta eitthvað gríðarlegt gúrme og ég get heldur ekki sagt að ég gargi af gleði þegar tími þorrablótanna rennur upp. Það er sagt (og ég trúi því alveg) að maður byrji að borða matinn með augunum og ef maður horfir yfir þorrabakkann þá fæ ég nú ekki vatn í munninn. Það sem er ekki úldið og bæði lyktar og bragðast eins og frosið hland það er grátt á litinn með mysuslepjuna lekandi af því eða þá að það eru höfuð og útlimir af klaufdýrum með öllu nema hári. Undantekningin á þessu er svo sú að mér finnst fátt betra en kofareykt hangikjöt sem er náttúrulega bara kjöt sem er búið að hanga í reyk af rolluskít í 2 vikur og bragðast alveg jafn vel og það hljómar:) Það er líka annað sem mér finnst vera hin mesta sælkerafæða en það er reykt nautgripatunga. Þetta er ekki mikið á borðum svona almennt og hafa sumir vinir mínir því rekið upp stór augu þegar þeir hafa opnað hjá mér ísskápinn og í sakleysi sínu verið að ná sér í mjólk í kaffið og horft á risastóra beljutungu á disk.
Það er einmitt þorrablót í vinnunni hjá mér á morgun og ég er að hugsa um að beila. Er bara ekki að nenna að sitja uppi með draugfulla og illa lyktandi vinnufélaga af súrmatsáti, heilt kvöld.
Aftur á móti finnst mér svo bolludagurinn ljómandi skemmtilegur siður :)
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Lífstíll, Matur og drykkur | Facebook
Athugasemdir
Mikið rosalega er ég sammála þér !! Ég get ekki einu sinni borðað við sama borð ef þessi úldni óbjóður er fyrir framan mig, skiptir engu þó mér byðist steik með öllu tilheyrandi......þetta er jafn óhugnarlegt og lystdeifandi og Hannibal Lecter....
Íris Ásdísardóttir, 4.2.2008 kl. 21:19
Ætla að skella mér á Þorrablót í vinnunni, að vísu ætla ég að mæta aðeins of seint, svona eins og fyrirsæturnar gera í matarboðunum: Nei, æi, missti ég af matnum. Sorry, tók svo langan tíma að taka mig til. Strákarnir í vinnunni ætla nebbbbblilega að sýna glímu og hvaða miðaldra einhleypa kona með réttu ráði vill missa af vöðvastælum íslenskum verkfræðingum í spandexsokkabuxum einum fata
Monopoly (IP-tala skráð) 5.2.2008 kl. 21:55
Góður og hollur Íslenskur matur !
Jú víst er það rétt að maður borðar fyst með augunum, síðan likt,bragð,magi...
Ragnar Sigurjónsson (IP-tala skráð) 6.2.2008 kl. 10:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.