7.2.2008 | 21:13
Græðgi
Ég bý í húsi sem var byggt árið 1930 sem gerir það að eldgömlum fúahjalli sem réttast væri að rífa, að mati sumra. Húsið mitt er reyndar steinsteypt og hvorki einangrað með mó eða dagblöðum og með tvöfalt gler í gluggunum en ekki strekktar rolluvambir eins og formælrndur niðurrifs telja öll hús vera sem voru byggð fyrir 1960. Ég er heldur ekki með hænsni í kjallaranum og þarf ekki að hita upp með kolum.
Þetta hús var líka byggt af alúð og vandvirkni, því núna 78 árum seinna eru hvergi sprungur í veggjum, þakið lekur ekki, múrhúðin tollir ennþá öll á, frárennslið rennur í rétta átt, loftin eru ekki farin að síga og það hefur ekki þurft að skipta um neinar lagnir. Þetta er meira en hægt er að segja um mjög mörg hús sem hafa verið byggð á síðustu árum. Nú er það græðgin ein sem stjórnar verkinu. Gráðugir verktakar með ennþá gráðugri fjárfesta á bakinu ryðja burtu heilu hverfunum til að geta troðið þar niður risastórum og óhemju ljótum nýbyggingum sem ekki eru lengur teiknaðar af arkitektum sem jafnvel gætu haft snefil af áhuga á formfegurð og sens fyrir samhengi við það sem fyrir er, heldur af tæknifræðingum sem spá ekkert í svoleiðis prjál heldur er uppálagt að hámarka nýtingu og lágmarka kostnað no matter what. Síðan eru fluttir inn bílfarmar af Pólverjum til að hrúga öllu draslinu upp á sem skemmstum tíma fyrir sem minnstan pening og verktakinn og fjárfestirinn hlæja alla leið í bankann.
Þessi yfirgengilega græðgishugsun að vilja rífa allt sem fyrir er til að geta byggt MIKLU stærra er á góðri leið með að rústa ásýnd miðbæjarins. Það er búið að byggja einhvern óskapnað við Lindargötuna sem gefur orðinu Skuggahverfi nýja og ógnvekjandi merkingu. Það er gjörsamlega allt í nágrenninu í skugga af þessu monsteri. Skúlagatan er að verða sorgleg miniútgáfa af Amerískri iðnaðarborg og ofan á allt saman á að toða einhverju verslunarmiðstöðvarferlíki á miðjan Laugaveginn þar sem einhvar fjárfestirinn er núna búinn að kaupa fullt af húsum til þess eins að moka þeim í burtu og þarf væntanlega að byggja mikið og stórt til að fá ásættanlegan hagnað af öllu þessu brölti. Svo er þessi hroði sem er að spretta upp í Borgartúninu eins og risavaxin gorkúla og mun kaffæra allt í kring um sig og Höfði verður eins og krækiber í helvíti. Ég bíð bara eftir að hann verði fluttur upp í Árbæjarsafn til að rýma fyrir fleiri háhýsum.
Af hverju er ekki hægt að varðveita það sem fyrir er, gera það upp á vandaðan hátt og vinna í kring um það í stað þess að moka öllu í burtu eins og geðsjúkir skemdarvargar með mikilmennskubrjálæði? Reykjavík yrði þá eitthvað pínulítið sjarmerandi ennþá. Ég held að Borgartúnið eigi seint eftir að rata á póstkort
Það er líka komin ný skoðanakönnun. Endilega segið ykkar álit.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkur: Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:18 | Facebook
Athugasemdir
Ég gæti ekki verið meira sammála þér. Mér finnst að það þurfi að fara að passa sig á þessu nýbyggingaæði í Reykjavík. Viljum við vera eins og amerísk iðnaðarborg sem á engan mennigararf og allt sem er meira en 50 ára á að rífa til að byggja minningarmerki um seðlaveski einhverjar jakkafatalufsu sem elskar jeppann sinn meira en börnin sín? Miðbærinn er menningararfleifð okkar þar sem þarf að umgangast með virðingu.
Ruth Ásdísardóttir, 8.2.2008 kl. 10:37
Reykjavík sökkar, flytið á Seyðisfjörð, Stykkishólm eða Eyrarbakka þar sem fólki finnst ennþá vænt um gömul hús.
linda (IP-tala skráð) 8.2.2008 kl. 19:44
Ok, ég er greinilega ekki alveg að fylgjast með....ég hélt að 1986 væri liðið....er í alvörunni enn verið að eyðileggja það gamla fallega og byggja eitthvað nýmóðins klumpadrasl í staðinn ???? Ég er nokk viss um það að í kennslubókum í framtíðinni í sögu verður útskýringarmynd af gráðugum peningarpésa í ham, svona til að útskýra þennan klaufaskap í byggingarmálum.
Íris Ásdísardóttir, 8.2.2008 kl. 23:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.