saga úr sveitinni

brennivin.jpgAfi minn var var alla sína tíð bóndi norður í Skagafirði og eins og gjarnan var með kalla á þeim tíma þá þótti honum sopinn góður. Amma mín var aftur á móti ekki jafn hrifin og vildi ekki hafa áfengi í sínum húsum. Hún hefur greinilega ráðið þannig að afi varð að finna einhverja leið til að geta fengið sér brjóstbirtu við og við en haldið um leið heimilisfriðinn. Honum datt því það snjallræði í hug að grafa smá holu í heybing í fjárhúshlöðunni og stinga þar inn brennivínspela til að hafa við hendina ef þorstinn kallaði.

Þetta gekk alveg ljómandi vel nema hvað einn daginn þegar synirnir á heimilinu (sem voru þá líklega á bilinu 10-12 ára) voru að gefa kindunum þá rekast þeir óvart á pelann. Þar sem að amma mín var eins og áður sagði ekki mikil áhugamanneskja um áfengisdrykkju þá vakti þessi forboðna vara mikla athygli og auðvitað varð að vita út á hvað allt þetta gekk. Því var laumast heim og máð í brúsa af kaffi og góðum slatta af innihaldi pelans bætt út í (þannig höfðu þeir séð kallana gera þetta á góðum stundum). Fyrstu soparnir voru víst ekki sérlega bragðgóðir en áfram héldu þeir að hella þessu í sig því þetta var of spennandi og of forboðið til að sleppa því.

Allt í einu fór svo áfengið að hafa áhrif (enda væntanlega ekki þurft mikið til) og þeir urðu grænir og bláir í framan og og allt sem hafði farið ofan í maga klukkutímana þar á undan vildi nú sem ólmast koma upp aftur. Og þar sem þeir sitja þarna undir hlöðuveggnum með brennivínspelann og útældir, orðnir hvítari en lík kemur þá ekki afi minn þar að. Hann stendur fyrir framan þá í smá stund og horfir á þá og segir svo: "Mikið helvíti eruð þið fullir, strákar." Síðan heldur hann bara sína leið og þetta var ekki rætt meir

Amma mín, sem þurfti svo að hjúkra sjúklingunum tók þessu ekki jafn vel. En brennivínspelinn fékk að vera í friði á sínum stað eftir þetta. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd:  Íris Ásdísardóttir

Má vænta að annar þessara drengja sé Pabbi Grumpu ?

Íris Ásdísardóttir, 16.2.2008 kl. 02:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband