19.2.2008 | 21:58
Hvernig verður maður dýrlingur
Ég var að sjá það í einu blaðinu í dag að Páfagarður hefur hert reglurnar um það hvað þarf til að einhver verði lýstur dýrlingur, þannig að fyrir áhugasama tilvonandi dýrlinga fer þetta að verða ansi strembið.
En hvað þarf maður að gera til að eiga séns á því að verða dýrlingur? Til að byrja með er gott að vera kaþólskur auk þess sem nauðsynlegt er að vera dauður og hafa verið það ansi lengi. Síðan þarf einhverjum biskupi að þykja þú nógu merkilegur pappír til að mæla með því við Páfagarð að það verði skoðað hvort þú eigir séns. þar er eitthvert ráð sem fer í gegn um allt lífshlaup þitt svo það er betra að byrja fyrr en seinna að vinna í sínum málum og gera engin asnastrik og ef þetta ráð kemst að þeirri niðurstöðu að þú hafir verið það mikil fyrirmynd annara kaþólskra manna að eftir verði tekið þá fer umsóknarferlið í enn nánari skoðun.
Þá þarf nefnilega að sýna fram á að þú hafir gert einhver kraftaverk. Reyndar ef þú hefur látið lífið fyrir trúna, t.d verið grýttur eða krossfestur eða étinn af ljónum svo klassísk dæmi séu tekin þá dugar það alveg. Hinir þurfa að hafa framkvæmt kraftaverk og helst fleiri en eitt. Þar sem ekki er mikið um það nú á seinni tímum að fólk gangi á vatni, lækni holdsveika eða breyti vatni í vín (þó ég þekki nú kall í sveitinni sem gat það, það eina sem hann þurfti ásmt vatninu var ger og sykur og eimingartæki en það má líklega ekki nota hjálpartæki) þá þarf að finna eitthvað annað sem hægt er að flokka undir kraftaverk. Og það þarf einhver að vitna um þetta kraftaverk, það er sem sagt ekki nóg að þú segir frá því að í gær hafir þú gefið blindum manni sjón og mettað 1000 með þrem pizzum og einum skammti af brauðstöngum. En þetta meiga vera svona óbein kraftaverk. T.d gefur það dýrlingastig ef móðir vitnar um það að ungur sonur hennar hafi gleypt heilan pakka af þaksaum og litla rafmagnsrakvél en eftir að hafa beðið fyrir barninu og heitið í leiðinni á þig þá gekk allt saman niður af drengnum og enginn skaði var skeður. Það dugar líka að þú birtist einhverjum í draumi og framkvæmir eitthvað góðverk. T.d að lækna viðkomandi af berklum eða sárasótt.
Ef kraftaverkin standast ýtrustu kröfur þá ertu í góðum málum og mátt eiga von á því að verða einn góðan veðurdag gerður að dýrlingi. Í versta falli verðurðu verndardýrlingur. Það er ekki alveg jafn flott og svona over all dýrlingur en svo sem allt í lagi samt. Verndardýrlingar eru, eins og nafnið gefur til kynna, verndarar einhvers eða einhverra. Verndardýrlingur bankastarfsmanna er t.d Bernardino af Feltre (sá hefur eflaust í nógu að snúast þessa dagana), verndardýrlingur barnlausra kvenna er Anna móðir Maríu, bensínafgreiðslumenn eiga sinn verndardýrling sem er Eligius og til stendur að útnefna St. Isidore frá Seville verndardýrling internetnotenda þar sem hann samndi fyrstu alfræðiorðabókina. Mér finnst þó hér freklega gengið fram hjá Lee Seun Seup sem hné niður á netkaffihúsi í Seul og lést þann 10. ágúst 2005 eftir að hafa spilað tölvuleiki samfleytt í 49 klukkustundir. Maðurinn dó fyrir málstaðinn, hvað þarf meira til?
Dýrlingur dagsins er svo heilög Belina af Troyes sem vann sér það til frægðar að hafa dáið í hárri elli sem hrein mey.
Þá er það bara að kýla á guðhræðsluna og byrja meinlætalífið og klikka ekki á kraftaverkunum
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Trúmál og siðferði | Facebook
Athugasemdir
Ekki öfunda ég Heilaga Belinu af hennar dýrleika !!!!
Monopoly (IP-tala skráð) 19.2.2008 kl. 23:07
Góð!
Kolgrima, 20.2.2008 kl. 13:31
ég hef engar áhyggjur af þessum reglum, páfinn á eftir að koma skríðandi til mín útaf öllum kraftaverkunum og meinlætunum sem ég iðka daginn út og inn
halkatla, 20.2.2008 kl. 13:34
Er hér heilu og hálfu dagana að reyna að framkvæma kraftaverk......finn bara engan með berkla....
Íris Ásdísardóttir, 22.2.2008 kl. 22:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.