22.2.2008 | 22:13
Að ná sér í deit
Þar sem konudagurinn er á sunnudaginn og allt vaðandi í auglýsingum um gjafir sem eiginmenn geta glatt konurnar sínar með og þau síðan lifað saman til æfiloka umvafin ást og rómantík, þá datt mér í hug að koma hér með nokkur ráð til þeirra óhamingjusömu sála sem eru einhleypar og fá hvorki konfekt né köku ársins. Það er nefnilega ýmislegt hægt að gera til að ná sér í deit ef viljinn er fyrir hendi.
Klassíska íslenska aðferðin er auðvitað að hella sig fulla á einhverjum bar og bíða eftir að einhver þvoglumæltur karlmaður með fráhneppta skyrtuna og bindið á höfðinu geri hosur sínar grænar með pick-up línum eins og; "Þú veist að húðin er stæsta líffærið, nema ekki hjá mér" eða "Trúirðu á ást við fyrstu sýn eða þarf ég að koma aftur?". Þar sem að það er nauðsynlegt að vera a.m.k á 5. glasi í svona aðstæðum þá hentar þetta ekki öllum.
En það er engin ástæða til að örvænta, það eru til ýmsir staðir þar sem næla má í deit. Það má t.d skrá sig á allskonar námskeið. Það þarf þó að hafa í huga hvaða týpu af karlmanni verið er að sækjst eftir. Einhleypir karlmenn sem mæta á bútasaums- eða keramiknámskeið eru að öllum líkindum gay svo þú getur gleymt því að pikka einhvern upp þar. Að fara á fluguhnýtinganámskeið er strax skárra ef þú ert að leita að þessari þöglu, einbeittu týpu en ef þú ert að leita að hreinu testosteroni, þ.e einhverjum sem myndi massa bílinn þinn eða brjóta niður millivegg án þess að blikka þá ferðu á vinnuvélanámskeið. Og ef þú heillast af gáfuðu og nördalegu týpunni þá ferðu auðvitað á forritunarnámskeið
Ef námskeiðin eru ekki að heilla þá má alltaf reyna leikhúsin. Það er mesta furða hvað margir einhleypir karlmenn sækja leikhús. Þeir eru að vísu allir komnir vel yfir miðjan aldur og vilja konu sem hugsar um þá eins og móðir þeirra gerði en það getur bara verið krúttlegt. Í hlénu geturðu komið með einhver gáfuleg komment um sýninguna og vonast til að að fá boð í kakó og vöfflur að sýningu lokinni, jafnvel að hann gauki að þér ljóðabók með ljóðum eftir sjálfan sig og þó svo að eitthvert ljóðið hljómi á þessa leið:
- Þar sem eldarnir loga í innyflum mínum
- og hjarta mitt er sem kótiletta á kolagrilli
- þar mun ástin finna sér samastað
- og hugur minn ilma sem nýþvegin rúmföt á snúru.
- Eins og tveir götuvitar sem horfast í augu
- og hvor gefur hinum grænt ljós
- þannig mun ég að endingu finna þig
...þá er stranglega bannað að fara að hlæja!
Þeir sem nenna ekki að hanaga í leikhúsi geta reynt að fá sér hund og farið með hann út að ganga á stöðum þar sem hundaeigendur viðra seppana sína. Margir einhleypir karlmenn eiga hund. Þú getur fylgst með þegar þeir koma, ef viðkomandi lítur út fyrir að vera yngri en 35 og þú kemur hvorki auga á barnastól leikföng í bílnum þá er hann mjög líklega einhleypur. Reyndu að láta hundinn þinn hnusa að hundinum hans og komdu með einhver skemmtileg komment til að brjóta ísinn. Passaðu þig bara á því að hundurinn þinn sé ekki Chihuahua og hundurinn hans Doberman. Getur endað illa.
Verslunarferðin getur líka verið veiðiferð ef rétt er á spöðunum haldið. Farðu í 10-11 að kvöldi til og skimaðu eftir körlum sem eru að versla og þér líst vel á. Fjölskyldumenn eru ekki að versla á kvöldin, þeir eru heima að svæfa krakkana. Það eru því miklar líkur á að karlmaður sem er að versla á þessum tíma sólarhrings sé einhleypur. Skoðaðu laumulega hvað hann er að versla til að vera alveg viss. Ef það er snakkpoki, kippa af pilsner og pylsupakki í körfunnu þá er það alveg öruggt. Það má svo alltaf reyna að koma af stað einhverjum samræðum við kókkælinn
Ef allt þrýtur þá eru bílasölur á sunnudögum síðasti séns, það er að segja ef þér er sama þó að það fylgi börn með í pakkanum. Þangað mæta nefnilega allir helgarpabbarnir þegar þeir eru búnir að fara að gefa öndunum, skoða skipin og kaupa ís og þeim dettur ekkert annað í hug til að gera.
Nú, ef ekkert af þessu virkar þá ættirðu bara að halda áfram að reyna á einkamál.is
Athugasemdir
Ömurlegasta pikk-up línan sem ég hef fengið er " Jammm.....hénna....hva´segirru, ertu góð á súlunni ? "......við stóðum við barinn á "Borginni " og ég vék mér pent undan.
Hér er ljóð sem ég ætla að fara með þegar ég er búin að stara út um lúguna í von um túlípanabing á tilboði , 999.- kall stykkið
Ég er ein,
og of sein,
í ástarlestina....
one way ticket to the lonelytown
kalla ég út í myrkrið
ó, þú ást
mér brást !!!
En til þín sást
fjúka yfir hóla
bévaða ástarbóla...
get off me, get off !!!
Íris Ásdísardóttir, 22.2.2008 kl. 22:42
ég efast ekki um að Mál og menning hafi samband fljótlega og falist eftir fleiri ljóðum
Grumpa, 22.2.2008 kl. 22:47
emmm......nú er ég ekki kvenmaður en býst við að ráðin séu nokkuð góð :)
Góða helgi.
Lárus Gabríel Guðmundsson, 23.2.2008 kl. 00:46
Framúrskarandi ljóðagerð hjá ykkur báðum, ég mæli með því að þið gefið út sameiginlega ljóðabók fyrir næstu jól. Hún gæti heitið "Ástarvellingur" eða "Mín eina ástarhugsun" (og þá kannski bara innihaldið eitt ljóð, lesandunum til gleði) eða bókin gæti heitið "Ástarbókin sem fældi burt alla vini mína"
Thelma Ásdísardóttir, 24.2.2008 kl. 16:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.