21.5.2008 | 08:54
Þessi færsla er ekki um tölvuleiki...
Einhverjir virðast hafa tekið síðustu færslu um tölvuleiki óþarflega persónulega og þar sem að ég vil auðvitað ekki særa stolt neins þá lofa ég að tala aldrei um tölvuleiki aftur! Þess í stað ætla ég að segja ykkur aðeins frá Barry Manilow....
Barry Manilow, eða Barry Alan Pincuseins og hann heitir réttu nafni er fæddur í Brooklyn þann 17. júní 1943 sem gerir þann merka mann sléttu ári eldri en lýðveldið okkar. Sem stráklingur lærði hann á hið þjóðlega hljóðfæri harmónikku og eftir að hafa spilað valsa og polka í nokkur ár auk þess að taka nokkra létta slagara á píanóið kom stóra breikið en það var að semja auglýsingastef fyrir McDonalds og KFC meðal annara.
Um svipað leyti kynntist hann söngkonunni Bette Midler og saman túruðu þau grimmt um alla helstu hommaklúbba New York borgar þar sem sólbrúni glókollurinn með gullkeðjurnar fangaði hug og hjörtu áheyrenda. Fyrsta sólóplatan lýtur svo dagsins ljós 1973. Hún heitir Barry Manilow I og innihldu smellinn víðfræga Mandy, sem reyndar er eftir einhvern Scott English og heitir Brandy. En Scott þessi hafði greinilega ekki sama sjarma og sex appeal og Barry þannig að hann er löngu týndur og tröllum gefinn en fær þó eflaust sendan reglulega vænan tékka sem höfundalaun og hefur því ekki yfir neinu að kvarta.
Þarna var Barry strax búinn að finna fjölina sína og fer að dæla frá sér ballöðunum í gríð og erg og aðdáendahópurinn sem samanstendur að mestu leyti af konum á miðjum aldri og þar yfir stækkar hratt. Upp úr 1980 fór þó heldur að síga á ógæfuhliðina allt þar til okkar maður uppgötvar tribute plötur. Ekkert vesen við að semja lög eða suða í öðrum til að semja fyrir þig almennileg lög ef þú getur það ekki sjálfur, þú velur bara eitthvað skothelt sem allir þekkja eins og Bítlana eða Elton John, og vola þú selur milljónir.
Þetta hefur Barry sem sagt gert með góðum árangri og fyllir í kjölfarið hvern tónleikasalinn eftir annan þar sem hann situr við fligilinn í glimmergalla með blásið hárið og rúllar í gegn um Bridge over troubled waters og It never rains in Southern California eins og að drekka rándýrt kampavín og konurnar í salnum tárast af hrifningu.
Barry hefur ekki verið mikið í slúðurpressunni í gegn um tíðina þó svo að atvikið þarna um árið þegar hann braut á sér nefið með því að labba á vegg hafi vakið nokkra athygli. En poppstjörnur gera nú margt furðulegra en það og það var áður en Britney Spears fór að brillera. Þökk sé bótoxi, lýtalækningum og næringarráðgjöfum þá hefur kallinn haldið sér ótrúlega vel miðað við að hann sé kominn hátt á sjötugs aldur. Og nú geta aðdáendur kappans heldur betur kæst því 4. og 6. desember heldur hann tónleika í O2 Arena í London þar sem hann mun eflaust taka lög af metsöluplötunum The christmas gift of love og In the swing of christmas ásamt auðvitað öllum ballöðunum. Er ekki bara málið að fólk skelli sér á Barry Manilow um aðventuna?
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Menning og listir, Tónlist | Breytt s.d. kl. 08:57 | Facebook
Athugasemdir
Ætli Barry Manilow spili tölvuleiki?
Olsen Olsen (IP-tala skráð) 21.5.2008 kl. 18:22
Fannst Barry Manilow æðislegur söngvari og hélt upp á mörg lögin hans í ,,gamla daga" ...
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 21.5.2008 kl. 19:34
Persónulega er ég hrifnari af Engilbert Humperdink...
Ingvar Valgeirsson, 21.5.2008 kl. 22:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.