saga úr sveitinni

brennivin.jpgAfi minn var var alla sína tíð bóndi norður í Skagafirði og eins og gjarnan var með kalla á þeim tíma þá þótti honum sopinn góður. Amma mín var aftur á móti ekki jafn hrifin og vildi ekki hafa áfengi í sínum húsum. Hún hefur greinilega ráðið þannig að afi varð að finna einhverja leið til að geta fengið sér brjóstbirtu við og við en haldið um leið heimilisfriðinn. Honum datt því það snjallræði í hug að grafa smá holu í heybing í fjárhúshlöðunni og stinga þar inn brennivínspela til að hafa við hendina ef þorstinn kallaði.

Þetta gekk alveg ljómandi vel nema hvað einn daginn þegar synirnir á heimilinu (sem voru þá líklega á bilinu 10-12 ára) voru að gefa kindunum þá rekast þeir óvart á pelann. Þar sem að amma mín var eins og áður sagði ekki mikil áhugamanneskja um áfengisdrykkju þá vakti þessi forboðna vara mikla athygli og auðvitað varð að vita út á hvað allt þetta gekk. Því var laumast heim og máð í brúsa af kaffi og góðum slatta af innihaldi pelans bætt út í (þannig höfðu þeir séð kallana gera þetta á góðum stundum). Fyrstu soparnir voru víst ekki sérlega bragðgóðir en áfram héldu þeir að hella þessu í sig því þetta var of spennandi og of forboðið til að sleppa því.

Allt í einu fór svo áfengið að hafa áhrif (enda væntanlega ekki þurft mikið til) og þeir urðu grænir og bláir í framan og og allt sem hafði farið ofan í maga klukkutímana þar á undan vildi nú sem ólmast koma upp aftur. Og þar sem þeir sitja þarna undir hlöðuveggnum með brennivínspelann og útældir, orðnir hvítari en lík kemur þá ekki afi minn þar að. Hann stendur fyrir framan þá í smá stund og horfir á þá og segir svo: "Mikið helvíti eruð þið fullir, strákar." Síðan heldur hann bara sína leið og þetta var ekki rætt meir

Amma mín, sem þurfti svo að hjúkra sjúklingunum tók þessu ekki jafn vel. En brennivínspelinn fékk að vera í friði á sínum stað eftir þetta. 


ofmetið...

Beach_boys.jpgÉg er búin að skipta um skoðun, Bítlarnir eru bara næst ofmetnasta hljómsveit sögunnar. Sú ofmetnasta er tvímælalust Beach Boys.

Þar sem að ég vinn bara eðlilega langan vinnudag og á engin börn þá hef ég nógan tíma á kvöldin til að gera eitthvað skemmtilegt. Eitt af því er einmitt að hlusta á allskonar tónlist. Maður hefur í gegn um tíðina ekki komist hjá því að heyra ógrinnin öll af misgóðum Bítlalögum og hef ég aldrei fyllilega botnað í þessari blindu aðdáun. Það var ekki fyrr en undir lokin sem þeir gerðu nokkrar þokkalegar plötur og eiga frá þeim tíma eitt og eitt ljómandi fínt lag. En hvað er t.d merkilegt við She loves you yeah, yeah, yeah eða I want to hold your hand? Þetta er bara froða alveg eins og Bay City Rollers eða Take That er froða. Þetta var bara spurningin um að vera á réttum stað á réttum tíma og þeir duttu niður á formúlu sem gekk í unglingana sem skyndilega áttu orðið tíma og peninga til að eyða í afþreyingu.

Um daginn datt mér svo allt í einu í hug að fara að kynna mér Beach Boys nánar. Ef einhversstaðar er kosið um bestu plötur seinni ára þá sést Pet Sounds alltaf dúkka þar upp þannig að ég ákvað að hlusta loksins almennilega á hana í heild. Get ekki sagt að ég hafi orðið bergnumin. Þetta eru bara einhverjar æfingar í röddun og útsetningum og er bara flúr utan um frekar leim lagasmíðar. Svo ákvað ég að tékka á Smile, þessu "meistaraverki" sem legið hafði í geymslum Brians Wilson þar til fyrir stuttu og fékk að sögn fullorðna karlmenn til að vatna músum af hrifningu og tilfinningaþrunga. I´m sorry to say, en sú plata er jafn vel enn verri og hefði bara átt að vera ofan í skúffu áfram. Ég ákvað að gefa þeim einn séns enn og rúllaði í gegn nokkrum eldri plötum sem ég "fékk lánaðar" á veraldarvefnum. Jú, jú eitt og eitt krúttlegt surf lag en ekki nóg til að þessi hljómsveit ílengist í iPodinum.

Niðurstaðan úr þessari tónlistarrannsókn er því sú að Beach Boys sé ofmetnasta hljómsveit samtímans. Ég tek gott ABBA lag fram yfir þessa þá njóla anytime.


Iðnaðarmenn

carpenter.jpgHver kannast ekki við hryllingssögur af samskiptum sínum eða annara við iðnaðarmenn? Þegar taka þarf til hendinni á heimilinu þá er kostnaðurinn ekki stærsti höfuðverkurinn heldur það hvort iðnaðarmaðurinn sem fenginn var til verksins lætur yfir höfuð sjá sig það árið eða þá hort hann mæti galvaskur, aftengi hjá manni baðið og klóstttið og hverfi svo af yfirborði jarðar.

Það hræðilegasta af öllu er svo að þurfa að fá fleiri en einn iðnaðarmann til að klára eitthvað verk. Fyrst kemur múrarinn, lítur í kring um sig og fyrst píparinn er ekki mættur þá fer hann aftur. Þegar píparinn svo kemur 6 vikum seinna er múrarinn að vinna í 58. íbúða blokk í Kópavogi sem á að afhendast í næsta mánuði og hefur því engin tök á að sinna þér og þínu pínulitla baðherbergi. Mánuði seinna þegar þú hefur loksins náð að véla píparann til að tengja fyrir þig klósett og sturtuklefa með loforðum um að allt verði greitt á staðnum og að sjálfsögðu svart þá er múrarinn farinn í frí til Tælands og þú notast við óflísalagt baðherbergið næstu 8 vikurnar. Þá loksins gefstu upp og færð annan múrara til að klára. Sá lofar að koma strax eftir helgi en 3 vikum síðar hefur ekkert bólað á honum þrátt fyrir fögur fyrirheit og þú ferð að fyllast örvæntingu og ferð í alvöru að íhuga að kaupa þér bara nýja íbúð til að losna frá þessu. Múrari nr. tvö mætir þó að lokum og klárar verkið og þú grætur af gleði og heitir því að framkvæma aldri aftur nokkurn skapaðan hlut heima hjá þér. En þá er ekki allt búið, hálfu ári seinna mætir múrari nr. eitt og ætlar að fara að klára baðherbergið sem hann hafði tekið að sér að flísaleggja og verður alveg brjálaður þegar þú segir honum að þú hafir fengið annan í djobbið og hótar að fara með málið lengra.

Nú spyr ég ykkur iðnaðarmenn, fynnst ykkur hreinlega ekkert athugavert við þetta? Jú jú, það er eflaust mikið að gera en það er mikið að gera hjá fullt af öðru fólki en ekki hagar það sér svona. Spáðu bara í að þú þurfir að fara í uppskurð til að láta taka úr þér botnlangann. Þú mætir á spítalann en þá er svæfingalæknirinn ekki mættur svo það fara bara allir í mat á meðan og skilja þig eftir á skurðarborðinu. Einhvarntíma eftir hádegi þagar allir hafa skilað sér þá hefst skurðaðgerðin en það er varla búið að opna þig þegar skurðlæknirinn þarf að fara í símann en kemur svo bara ekkert aftur. Skurðurinn er því teypaður saman svona til bráðabyrgða svo innyflin á þér fari ekki að detta út því það næst ekki í annan skurðlækni til að klára. Tveim dögum seinna þegar þú ert farinn að kvarta hástöfum er loksins haldið áfram með aðgerðina þó það sé alveg brjálað að gera hjá skurðlækninum. Hann má því ekkert vera að því að sauma þig saman þegar búið er að rífa úr þér botnlangann þar sem það eru 3 nýrnaaðgerðir sem bíða og þurfa að klárast áður en viðkomandi sjúklingar fara í skaðabótamál við spítalann vegna tafa. Þú þarft því að bíða með opinn skurð fram yfir helgi þar sem enginn svarar símanum um helgar og á endanum er það læknanemi sem þarf að taka verklegt próf sem saumar þig saman. Þú þarft svo sjálfur að útskrifa þig þar sem enginn á þínum gangi virðist tala íslensku.

Ef þið haldið að ég sé að skrifa þetta bara út af því að píparinn sem ætlaði að koma fyrir 3 vikum er ekki ennþá mættur, þá er það ekki rétt


Ég fer ekki fet...og hananú!

villiÞað átti eflaust að vera gífurlega táknrænt og skapa óttablandna lotningu í hugum fólks að halda blaðamannafundinn um hið margrædda álitamál, fer hann eða fer hann ekki, í Arnarhreiðri þeirra Sjálfstæðismanna frekar en í Ráðhúsinu þar sem ekki virðist vera hægt að hafa hemil á skrílslátum. Það segir svo auðvitað allt um þennan klaufalega borgarstjórnarflokk og Vilhjálm "Hans" Klaufa forsvarsmann flokksins að geta ekki einu sinni riggað upp blaðamannafundi án þess að klúðra því. Á tímabili leit út fyrir að allt leystist upp í handalögmálum þar sem sumir áttu að fá að vera viðstaddir en aðrir ekki en áður höfðu hægri og vinstri höndin flúið um undirgöng í brimvarða bíla sem biðu þeirra til að lenda ekki í því að þurfa að svara blaðasnápunum. 

En þetta hafðist að lokum og fundur var settur. Fyrir þá sem misstu af þessu þá er hér smá úrdráttur

Blm: Muntu axla fulla ábyrgð á REY málinu og segja af þér?

Villi: Ég hef nú þegar axlað ábyrgð! Ég þurfti að hætta sem borgarstjóri, remember! Skila bílnum og skrifstofunni og allt! Fólk gerði grín að mér og ég er viðkvæmur maður og á erfitt með að taka svona gríni.

Blm: En nú ætlarðu að taka aftur við sem borgarstjóri eftir 1 ár, varla kallast það að axla ábyrgð?

Villi: Heyrðu væni minn, ég er eldri en tvævetur og veit hvað ábyrgð er!  Ég er einungis með þeirri ákvörðun að hugsa um hag og heilsu okkar ástsæla borgarstjóra og æskuvinar míns og skólabróður Ólafs R. Magnússonar

Blm: Það er Ólafur F.

Villi: Já og hans líka!

Blm: En þið voruð aldrei skólabræður

Villi: Ja sko ég var í skóla með fyrrverandi bróður hans..

Blm: Hvernig er hægt að vera fyrrverandi bróðir?

Villi: Ég er í fullum rétti að og hef fullt umboð til að..hérna,sko, eehhh.... svara þessu ekki!

Blm: Er þá Ólafur eitthvað tæpur til heilsunnar eftir allt saman?

Villi: Það er alltaf eins með ykkur blaðamennina, alltaf skulið þið ráðast á hundinn þar sem hann er stystur! Ófeigur er við hestaheilsu og t.d í morgun klæddi hann sig hjálparlaust.

Blm: Þú meina Ólafur

Villi: ekki þú vera að leggja mér orð í munn, væni minn. Ég hef fullt umboð til að segja allt sem ég ætla og ætla ekki að segja á þessum fundi!

Blm: En nýtur þú fulls stuðnings borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins?

Villi: Já tvímælalust. Ég hef rætt við fyrrverandi ritara skemmtinefndar flokksins og hann hefur sannfært mig um að allir innan flokksins standi að baki mér í þessum erfiðu og ósanngjörnu ofsóknum sem ég hef þurft að þola undanfarið. Hanna Bára og Gísli Baldur sendu mér t.d stuðningsyfirlýsingu hér áðan

Blm: Þú meinar Hanna Birna og Gísli Marteinn

Villi: Er það ég eða þú sem sit hér fyrir svörum?

Blm: Bíddu, talaðurðu ekki við þau á flokksfundinum áðan?

Villi: Hvaða flokksfundi?´

Blm: Nú sem var að ljúka hér í Valhöll

Villi: Var það? Ég er nú bara búinn að sitja einn og drekka kaffi og lesa Morgunblaðið hér í hádeginu. Ég skildi heldur ekkert í öllu þessu rápi inn og út um kjallaradyrnar. Jæja, en ég hef samt sem áður fullt umboð tið að veraða borgarstjóri aftur enda á ég það bara skilið

 

 

 


vinnuframlag

tiredworker.jpgVið íslendingar veltum okkur mikið upp úr vinnunni okkar og  það skiptir okkur voðalega miklu máli hvað þessi eða hinn gerir. Þegar við hittum fólk þá spyrjum við gjarnan fyrst hvernig viðkomandi hafi það og síðan hvort það sé ekki nóg að gera. Við vinnum þjóða lengstan vinnudag en skilum kanski ekki að sama skapi miklu vinnuframlagi per vinnustund. Við höngum nefnilega í vinnunni bara til að snapa okkur nokkra eftirvinnutíma þar sem dagvinnulaunin eru hreinlega ekki það merkileg hjá mörgum (það geta ekki allir unnið hjá fjármálafyrirtæki). Við þurfum líka að eignast allt og það ekki seinna en núna. Svo eru það þeir sem lifa í þeirri trú að þeir séu ómissandi og fyirtækið verði hreinlega óstrfhæft ef þeirra nýtur ekki við. Þetta eru yfirleitt karlmenn á miðjum aldri. Og þó það sé leitt að segja ykkur það strákar mínir, þá er ENGINN ómissandi.

Svo er það fólkið sem þarf alltaf að vera að skreppa. Það eru líka oftast karlmenn en þeir eru á öllum aldri. Þeim finnst það sjálfsagður réttur sinn að fara í klippingu, skreppa í byggingavöruverslun, kíkja á bílasölu eða stússast í bankanum allt á vinnutíma en passa sig þó alltaf á að eyða ekki matartímanum sínum í svona útréttingar. Annar hópur fólks sem fær ekki verðlaun fyrir viðveru er fólk með börn. Í því tilviki eru það konurnar sem þurfa að skreppa með krakkana til tannlæknis, ná í þau og keyra þeim hingað og þangað, mæta á foreldrafundi sem aldrei virðist vera hægt að halda nema milli 9 og 5 á virkum dögum, svo verður krakkinn veikur mörgum sinnum á hverju ári og oftast er það konan sem er þá heima (karlinn er auðvitað svo ómissandi í sinni vinnu), það eru vetrarfrí og starfsdagar og námsdagar og hvað allt þetta heitir og þá eru krakkarnir heima og einhvar þarf að hanga yfir þeim þar og leikskólinn er lokaður eða dagmamman í frí o.s.frv, o.s.frv. Listinn er endalaus. Svo er barnafólk meira og minna ósofið þannig að það gerir hvort eð er ósköp lítið af viti í vinnunni anyway. Þarna er líklega komin skýringin á lélegum vinnuafköstum okkar íslendinga. Og ég hef ekki einu sinni minnst á fæðingarorlofið!

Ef ég væri atvinnurekandi þá myndi ég bara ráða homma í vinnu. Þá væri viðkomandi algerlega laus við allt þetta ensalausa vesen sem er á barnaliðinu svo maður tali nú ekki um að missa fólk í fæðingarorlof heilu og hálfu árin. Vinnustaðurinn væri þá líka alltaf einstaklega snyrtilegur og það væri gjarnan nýbakað með kaffinu og maður þyrfti ALDREI að hlusta á raus um fótbolta eða bíla. Og ef maður þyrfti að fá álit á nýrri greiðslu eða nýjum skóm (því auðvitað nennir maður ekki að spyrja miðaldra kallana eða ósofna barnafólkið) þá fengi maður sérfræðiálit á staðnum.

Því segi ég, inn með hommana en út með barnafólkið!


Græðgi

SkulagataÉg bý í húsi sem var byggt árið 1930 sem gerir það að eldgömlum fúahjalli sem réttast væri að rífa, að mati sumra. Húsið mitt er reyndar steinsteypt og hvorki einangrað með mó eða dagblöðum og með tvöfalt gler í gluggunum en ekki strekktar rolluvambir eins og formælrndur niðurrifs telja öll hús vera sem voru byggð fyrir 1960. Ég er heldur ekki með hænsni í kjallaranum og þarf ekki að hita upp með kolum. 

Þetta hús var líka byggt af alúð og vandvirkni, því núna 78 árum seinna eru hvergi sprungur í veggjum, þakið lekur ekki, múrhúðin tollir ennþá öll á, frárennslið rennur í rétta átt, loftin eru ekki farin að síga og það hefur ekki þurft að skipta um neinar lagnir. Þetta er meira en hægt er að segja um mjög mörg hús sem hafa verið byggð á síðustu árum. Nú er það græðgin ein sem stjórnar verkinu. Gráðugir verktakar með ennþá gráðugri fjárfesta á bakinu ryðja burtu heilu hverfunum til að geta troðið þar niður risastórum og óhemju ljótum nýbyggingum sem ekki eru lengur teiknaðar af arkitektum sem jafnvel gætu haft snefil af áhuga á formfegurð og sens fyrir samhengi við það sem fyrir er, heldur af tæknifræðingum sem spá ekkert í svoleiðis prjál heldur er uppálagt að hámarka nýtingu og lágmarka kostnað no matter what. Síðan eru fluttir inn bílfarmar af Pólverjum til að hrúga öllu draslinu upp á sem skemmstum tíma fyrir sem minnstan pening og verktakinn og fjárfestirinn hlæja alla leið í bankann.

Þessi yfirgengilega græðgishugsun að vilja rífa allt sem fyrir er til að geta byggt MIKLU stærra er á góðri leið með að rústa ásýnd miðbæjarins. Það er búið að byggja einhvern óskapnað við Lindargötuna sem gefur orðinu Skuggahverfi nýja og ógnvekjandi merkingu. Það er gjörsamlega allt í nágrenninu í skugga af þessu monsteri. Skúlagatan er að verða sorgleg miniútgáfa af Amerískri iðnaðarborg og ofan á allt saman á að toða einhverju verslunarmiðstöðvarferlíki á miðjan Laugaveginn þar sem einhvar fjárfestirinn er núna búinn að kaupa fullt af húsum til þess eins að moka þeim í burtu og þarf væntanlega að byggja mikið og stórt til að fá ásættanlegan hagnað af öllu þessu brölti. Svo er þessi hroði sem er að spretta upp í Borgartúninu eins og risavaxin gorkúla og mun kaffæra allt í kring um sig og Höfði verður eins og krækiber í helvíti. Ég bíð bara eftir að hann verði fluttur upp í Árbæjarsafn til að rýma fyrir fleiri háhýsum.

Af hverju er ekki hægt að varðveita það sem fyrir er, gera það upp á vandaðan hátt og vinna í kring um það í stað þess að moka öllu í burtu eins og geðsjúkir skemdarvargar með mikilmennskubrjálæði? Reykjavík yrði þá eitthvað pínulítið sjarmerandi ennþá. Ég held að Borgartúnið eigi seint eftir að rata á póstkort

 

Það er líka komin ný skoðanakönnun. Endilega segið ykkar álit.


þorramatur

Þá er tími þorrablótanna runninn upp. Þessi undarlegi siður að safnast saman og borða kæstan og súran mat með tilheyrandi ólykt og sturta í sig brennivíni í leiðinni er rakinn til stúdenta í Kaupmannahöfn í kring um 1880. Þetta voru sem sagt háskólastúdentar með heimþrá og uppfullir af nostalgíu auk þess að vera alltaf til í gott fyllirí eins og stúdentum sæmir sem byrjuðu á þessu öllu saman. Svo var það einhver vert á Naustinu sem sá fram á lítinn bissness á þessum árstíma sem fékk þá snjöllu hugmynd að endurvekja þennan "þjóðlega" sið fyrir ekki svo mörgum áratugum síðan. Og hér sitjum við og slöfrum í okkur magálum og hrútspungum og látum eins og okkur finnist þetta alveg æðislega gott. Þetta er kanski maturinn sem var étinn á Þorranum hér á öldum áður þegar ekkert annað ætt var til en forfeður okkar átu líka fiskiroð, skinnbækur og skóna sína ef út í það er farið. Ég legg því til að það verði bætt í þorrabakkana pari af tilgengnum sauðskinsskóm. Táfýlan ætti líka vel við lyktina af því sem fyrir er í bakkanum. Síðan mætti hafa eftirlíkingu af gömlu handriti til að naga.

Þó að ég sé alin upp í sveit fyrir norðan þar sem svið og slátur voru oft á borðum þá get ég ekki sagt með góðri samvisku að mér þyki þetta eitthvað gríðarlegt gúrme og ég get heldur ekki sagt að ég gargi af gleði þegar tími þorrablótanna rennur upp. Það er sagt (og ég trúi því alveg) að maður byrji að borða matinn með augunum og ef maður horfir yfir þorrabakkann þá fæ ég nú ekki vatn í munninn. Það sem er ekki úldið og bæði lyktar og bragðast eins og frosið hland það er grátt á litinn með mysuslepjuna lekandi af því eða þá að það eru höfuð og útlimir af klaufdýrum með öllu nema hári. Undantekningin á þessu er svo sú að mér finnst fátt betra en kofareykt hangikjöt sem er náttúrulega bara kjöt sem er búið að hanga í reyk af rolluskít í 2 vikur og bragðast alveg jafn vel og það hljómar:) Það er líka annað sem mér finnst vera hin mesta sælkerafæða en það er reykt nautgripatunga. Þetta er ekki mikið á borðum svona almennt og hafa sumir vinir mínir því rekið upp stór augu þegar þeir hafa opnað hjá mér ísskápinn og í sakleysi sínu verið að ná sér í mjólk í kaffið og horft á risastóra beljutungu á disk.

Það er einmitt þorrablót í vinnunni hjá mér á morgun og ég er að hugsa um að beila. Er bara ekki að nenna að sitja uppi með draugfulla og illa lyktandi vinnufélaga af súrmatsáti, heilt kvöld.
Aftur á móti finnst mér svo bolludagurinn ljómandi skemmtilegur siður :)


vika 1

Jæja, þá er fyrsta vika nýs borgarstjórnarmeirihluta liðin og ekki hægt að segja annað en að aðal leikarar þessa grátbroslega farsa hafi farið á kostum. Stemmingin var kanski ekki alveg eins og nýji meirihlutinn hafði vonað. Í stað þess að ganga brosandi út í fallagan vetrardag undir fagnaðarhrópum og hamingjuóskum þá hrökklaðist hann undan bálreiðum borgarbúum og átti í vandræðum með að halda fyrsta fundinn sökum háværra mótmæla.

Varðhundar Sjálfstæðisflokksins kölluðu þetta auðvitað skríl því innan Flokksins tíðkast ekki að mótmæla þeim sem valdið hefur. Að trufla einhvarn fund er heldur ekki "árás á lýðræðið" eða hvað sem þetta var kallað. Þetta ER einmitt lýðræðið! Þú hefur fullan rétt á að láta í þér heyra ef þér er misboðið og það var svo sannarlega mörgum misboðið með þessum skrýpaleik. Og það er ekki eins og það séu daglegir viðburðir að fólk mæti og sé með háreisti á pöllum borgarstjórnar. Núna er kanski loksins komin kynslóð fólks sem lætur ekki gráðuga og siðblinda stjórnmálamenn vaða yfir sig eins og skítuga Ikea mottu sem á hvort sem er að fara að henda, svona eins og mín kynslóð og flestar þar á undan hafa endalaust gert. Ég vil benda þeim hneykslunargjörnu á að kynna sér hvernig stjórnmálin ganga fyrir sig í Frakklandi enda má segja að Frakkar hafi fundið upp þessa tegund af vestrænu lýðræði sem við erum svo stolt af að búa við (nema auðvitað þegar það hentar ekki, þá eru það bara skrílslæti). Þar fá stjórnmálamenn að heyra það óþvegið ef fólki líkar ekki eitthvað og þykir ekkert athugavert við það. Og ég vil líka benda stjórnmálamönnum á að hugleiða það í umboði hverra þeir hafa þetta vald. Þeir virðast oftast alveg steingleyma því nema nokkrum vikum fyrir kosningar þegar það ryfjast skyndilega upp og skríllinn verður háttvirtir kjósendur.

En aftur að blessaðri borgarstjórninni. Á endanum tókst að halda fundinum áfram og fóru menn í það á fullu að kjósa sjálfa sig í hin ýmsu ráð og nefndir enda var það auðvitað eini tilgangurinn með þessu öllu. Þegar kom svo að því að kjósa forseta borgarstjórnar var Óli F greyið orðinn eitthvað ringlaður og átti í mesta basli með að telja saman atkvæðin. Það fór því svo að Hanna Birna fékk 7, auðir voru 7 og Lína Langsokkur fékk eitt. Þegar þetta kom í ljós varð uppi fótur og fit og menn gláptu hver á annan í forundran. Farið var í saumana á atkvæðagreiðslunni og kom þá í ljós að það hafði gleymst að segja Óla ræflinum hvað hann ætti að kjósa þannig að hann fór á taugum og kaus bara það fyrsta sem honum datt í hug.
En þetta var bara byrjunin. Þegar öll bitastæðustu embættin voru komin í réttar hendur átti eftir að skipa í einhverjar nefndir sem ekki voru alveg eins spennandi þannig að nýji meirihlutinn hafði ekkert verið að spá voða mikið í það. Því kom það Lalla Johns verulega á óvart að hafa verið skipaður í vímuvarnarráð og ekki var Jón Pétursson einhleypur bifvélavirki hjá Stillingu síður hissa að vera skipaður formaður barnavernadarnefndar.
Þá var lagt til að flugvöllurinn færi fyrst en kæmi svo aftur, mislæg gatnamót á allar götur sem byrja á K, Laugavegshúsin keypt en seld svo aftur með afslætti þar sem kom í ljós að þau voru notuð, Strætókerfinu breytt eftir því í hvernig stuði Gísli Marteinn væri og Yoko Ono gerð að heiðurslistamanni Reykjavíkur
Segiði svo að málefnasamningurinn hafi ekki verið gott plagg!


Segiði svo að það gerist ekkert í Reykjavík!

08Já Reykjavík er sko staðurinn þar sem fjörið er í pólitíkinni. Óla F. greyinu verður það á einn daginn að gleyma að taka lyfin sín og og áður en hann rankar aftur við sér er búið að dubba hann upp sem borgarstjóra í nýju meirihlutasamstarfi! Að vísu gleymdist að athuga í öllu havaríinu hvort aðrir fulltrúar flokksins vildu vera með en það þurfti bara að drífa þetta af, það var landsleikur í sjónvarpinu og svona.

Og hver var svo ástæðan? Ja, Óla fannst sem baráttumálum Frjálslyndra hefði ekki verið gert nógu hátt undir höfði sem eru.....uhhh....uummm...hérna...já, niður með kvótakerfið, burt með útlendinga og flugvöllinn heim. Mjög göfug markmið allt saman auðvitað. Eitthvað líkaði honum heldur ekki hvað Bingi var kaupglaður fyrir kosningarnar. Óli hefur kanski ekki áttað sig á því að Bingi er í öðrum flokki og ætti því ekkert að vera að skipta sér að því hvað hann kaupir mörg sokkapör. Bingi er bara nútíma metrómaður sem vill vera fínn í tauinu og hvað er verið að gera veður út af 19 pörum af sokkum? Ég meina hver kannast ekki við að það hverfur alltaf annar sokkurinn í þvottavélinni og kanski var hann líka með fótsvepp, hvað veit maður? Og 27 skyrtur og 8 jakkaföt eru ekki mikið í amstri dagsins. Kanski var líka þvottavélin hans biluð og ekki lætur maður mömmu sína þvo af sér þegar maður er þrjátíuogeitthvað ára gamall (nema maður sé Þorsteinn Davíðsson auðvitað).

Sagt er að einstakur vinskpur Villa Vill og Óla F hafi verið kveikjan að þessu nýja meirihlutasamstarfi  og hef ég heyrt af manni sem var vitni af fundi þeirra tveggja þar sem þetta samstarf var útkljáð. Ég sel þetta að vísu ekki dýrara en ég keypti, en hvarjum á maður að trúa í dag?

Villi: Jæja Óli minn, þetta var nú meira klúðrið þarna um daginn en við vinirnir ættum nú að geta reddað því, er það ekki?

Óli F:eee....

Villi: Já, já Óli minn ég finn örugglega pilluglasið þitt einhversstaðar. En hvernig lýst þér á að verða borgarstjóri? Þú færð skrifstofu og einkaritara og ert boðinn í fullt af veislum, svaka stuð

Óli F: eee...

Villi: Já þá segjum við það. Allt klappað og klárt. Þú skrifar svo bara hérna undir. Nú finnurðu ekki gleraugun þín? Árans. En þetta er svo sem ekkert merkilegt sem stendur. Bara hvaða tegund nýji borgarstjórabíllinn á að vera og svona. Krakkarnir hérna í Valhöll slógu þessu inn fyrir mig, ég er orðinn hrikalega stirður í vélrituninni. Ég er nú eiginlega ekki búinn að lesa þetta sjálfur heldur, en hver þarf að lesa svona plögg þegar maður er orðinn borgarstjóri með aðstoðarmann sem gerir allt fyrir mann, ha?

Óli F: eee...

Villi: Fínt Óli minn. Bíddu, eru nokkuð fleiri en þú í þessum flokki? Ég meina fleiri sem þarf eitthvað að spjalla við? Það má auðvitað alltaf finna einhver þægileg innidjobb ef vantar. Krakkarnir redda því

Óli F: eee....

Villi: Jæja Óli minn best að drífa sig, krakkarnir bíða. Langar að fara að skipa sig í nefndir og allt þetta puð sem tilheyrir því að stjórna. Úps! Heldurðu að ég hafi ekki setið á pilluboxinu þínu allan tímann! Já og taktu bananann úr eyranu á þér Óli minn, ekki gott að láta sjá sig svoleiðis í sjónvarpi

Myndin hér til hægri er svo fyrsta opinbera myndin af nýja borgarstjóranum.


Davíðsson og dómaradjobbið

davidssonEf einhverjum kom hið minnsta á óvart hver var valinn í dómaradjobbið þarna fyrir norðan þá hefur sá hinn sami væntanlega gleymt því í hvaða landi hann býr. Svona er þetta bara hérna og hefur alltaf verið.

Árni Math segist auðvitað hafa valið besta manninn samkvæmt þeim meðmælum sem fyrir lágu og þeim forsendum sem gefnar voru (eftir á, segja illar tungur). Ég skoðaði auðvitað rökstuðninginn fyrir því að Davíðsson var talinn manna hæfastur og allt eru þetta góð og gegn rök. Fyrir þá sem ekki hafa lagt sig eftir því að kynna sér málið nægilega vel og ganga um með sleggjudóma um þennan öðlingsdreng sem Davíðsson eflaust er, þá eru hér helstu atriði.

Ráðherra telur Davíðsson greindan ungan mann sem lauk lögfræðinámi með ágæta einkunn, var duglegur að læra heima auk þess sem hann fór alltaf út með ruslið og ryksugaði herbergið sitt.  Hann starfaði á lögfræðistofu um skeið þar sem hann hafðu umsjón með útsendingum innheimtubréfa og innheimtu bókasafnsskulda. Með elju og þrautsegju vann hann sig upp í það að sjá um skiptingu dánarbúa og fórst það svo vel úr hendi að ekki eru dæmi um svo mikið sem einn óánægðan viðskiptavin. Frami hans innan lögfræðistofunnar hafði ekkert með það að gera að hún var rekin af góðvini og flokksbróður föður hans.

Það kom því ekki á óvart að fyrrum dóms- og kirkjumálaráðherra réði Davíðsson sem aðstoðarmann sinn og þeir sem halda því fram að það hafi einungis verið vegna þess að ráðherrann var góðvinur og flokksbróðir föður hans þá eru þeir hinir sömu haldnir illum hvötum. Þar sá Davíðsson um hin margvíslegu verkefni sem nýtast munu í starfi dómara. Hann hafði t.d umsjón með rauðvínspotti starfsmannafélags ráðuneytisins og þótti sanngjarn og heiðarlegur. Hann sá einnig um að kaupa meðlæti fyrir vikulega morgunfundi starfsfólks ráðuneytisins og kom jafnvel stundum sjálfur með heimabakað bakkelsi og var eftir því tekið að hann tók ekkert aukalega fyrir það.

Hann sat í hinum ýmsu nefndum og starfshópum á vegum ráðuneytisins. Var ritari nefndar sem fjallaði um  innréttingar og aðbúnað dómsala landsins og sá um að velja sófaáklæði og gluggatjöld. Hann stýrði starfshóp sem hafði það verkefni að setja saman stundatöflu fyrir lögregluskólann auk þess sem hann var Ríkislögreglustjóra innan handar með val á einkennisborðum og ermastrýpum og hann hafði það verkefni að sjá til þess að prestshempur bæru ávallt sama lit í öllum kirkjum landsins.

Davíðsson hefur auk þessa alls aflað sér margvíslegrar þekkingar og reynslu sem munu nýtast vel í starfi dómara. Hann þykir smekkmaður á hálstau, hefur lesið Sjálfstætt fólk tvisvar, var dómari í borðtennismótum nemendafélags MR, hefur lokið námskeiði í blómaskreytingum og skrautritun og síðast en ekki síst séð um akstur ellilífeyrisþega á kjörstað og var mál manna að öllum hafi honum tekist að koma inn í kjörklefann hversu farlama sem viðkomandi var og tók það jafnvel oft að sér sjálfur að krossa við á kjörseðlinum ef kjósandinn var gleraugnalaus eða eilítið of skjálfhentur. Hann telur það líka grundvallaratriði í lýðræðisþjóðfélagi að fólk neyti kosningaréttar síns og er boðinn og búinn til að aðstoða við að svo verði. Aldrei lét hann annasmat starf sitt í kjörstjórn Flokksins koma í veg fyrir að hann gæti rétt samborgurunum hjálparhönd.

Ég meina, hvað er svo málið?!

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband