Davíðsson og dómaradjobbið

davidssonEf einhverjum kom hið minnsta á óvart hver var valinn í dómaradjobbið þarna fyrir norðan þá hefur sá hinn sami væntanlega gleymt því í hvaða landi hann býr. Svona er þetta bara hérna og hefur alltaf verið.

Árni Math segist auðvitað hafa valið besta manninn samkvæmt þeim meðmælum sem fyrir lágu og þeim forsendum sem gefnar voru (eftir á, segja illar tungur). Ég skoðaði auðvitað rökstuðninginn fyrir því að Davíðsson var talinn manna hæfastur og allt eru þetta góð og gegn rök. Fyrir þá sem ekki hafa lagt sig eftir því að kynna sér málið nægilega vel og ganga um með sleggjudóma um þennan öðlingsdreng sem Davíðsson eflaust er, þá eru hér helstu atriði.

Ráðherra telur Davíðsson greindan ungan mann sem lauk lögfræðinámi með ágæta einkunn, var duglegur að læra heima auk þess sem hann fór alltaf út með ruslið og ryksugaði herbergið sitt.  Hann starfaði á lögfræðistofu um skeið þar sem hann hafðu umsjón með útsendingum innheimtubréfa og innheimtu bókasafnsskulda. Með elju og þrautsegju vann hann sig upp í það að sjá um skiptingu dánarbúa og fórst það svo vel úr hendi að ekki eru dæmi um svo mikið sem einn óánægðan viðskiptavin. Frami hans innan lögfræðistofunnar hafði ekkert með það að gera að hún var rekin af góðvini og flokksbróður föður hans.

Það kom því ekki á óvart að fyrrum dóms- og kirkjumálaráðherra réði Davíðsson sem aðstoðarmann sinn og þeir sem halda því fram að það hafi einungis verið vegna þess að ráðherrann var góðvinur og flokksbróðir föður hans þá eru þeir hinir sömu haldnir illum hvötum. Þar sá Davíðsson um hin margvíslegu verkefni sem nýtast munu í starfi dómara. Hann hafði t.d umsjón með rauðvínspotti starfsmannafélags ráðuneytisins og þótti sanngjarn og heiðarlegur. Hann sá einnig um að kaupa meðlæti fyrir vikulega morgunfundi starfsfólks ráðuneytisins og kom jafnvel stundum sjálfur með heimabakað bakkelsi og var eftir því tekið að hann tók ekkert aukalega fyrir það.

Hann sat í hinum ýmsu nefndum og starfshópum á vegum ráðuneytisins. Var ritari nefndar sem fjallaði um  innréttingar og aðbúnað dómsala landsins og sá um að velja sófaáklæði og gluggatjöld. Hann stýrði starfshóp sem hafði það verkefni að setja saman stundatöflu fyrir lögregluskólann auk þess sem hann var Ríkislögreglustjóra innan handar með val á einkennisborðum og ermastrýpum og hann hafði það verkefni að sjá til þess að prestshempur bæru ávallt sama lit í öllum kirkjum landsins.

Davíðsson hefur auk þessa alls aflað sér margvíslegrar þekkingar og reynslu sem munu nýtast vel í starfi dómara. Hann þykir smekkmaður á hálstau, hefur lesið Sjálfstætt fólk tvisvar, var dómari í borðtennismótum nemendafélags MR, hefur lokið námskeiði í blómaskreytingum og skrautritun og síðast en ekki síst séð um akstur ellilífeyrisþega á kjörstað og var mál manna að öllum hafi honum tekist að koma inn í kjörklefann hversu farlama sem viðkomandi var og tók það jafnvel oft að sér sjálfur að krossa við á kjörseðlinum ef kjósandinn var gleraugnalaus eða eilítið of skjálfhentur. Hann telur það líka grundvallaratriði í lýðræðisþjóðfélagi að fólk neyti kosningaréttar síns og er boðinn og búinn til að aðstoða við að svo verði. Aldrei lét hann annasmat starf sitt í kjörstjórn Flokksins koma í veg fyrir að hann gæti rétt samborgurunum hjálparhönd.

Ég meina, hvað er svo málið?!

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján Kristjánsson

Það er óskiljanlegt að það skuli vera sett útá þessa embættisveitingu :-o

Kristján Kristjánsson, 10.1.2008 kl. 20:59

2 Smámynd:  Íris Ásdísardóttir

Sko bara duglega strákinn !! Ég vissi að Davíð vinur minn myndi ekki klikka á uppeldinu frekar en nokkru öðru. :-)

Íris Ásdísardóttir, 10.1.2008 kl. 21:40

3 Smámynd: Thelma Ásdísardóttir

Obbobbobb...þar sem koma tveir dúskar, þar er bull....

Thelma Ásdísardóttir, 11.1.2008 kl. 12:23

4 identicon

Hér er Davíð,

Um Davíð

Frá Davíð

Til Þorsteins Davíðssonar

Monopoly (IP-tala skráð) 13.1.2008 kl. 17:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband