Björk

Eftir því sem Kiddi segir er nýja platan með Björk að gera stormandi lukku úti í hinum stóra heimi (og ekki lýgur hann) Wink Þar sem það er stundum hlustað á Rás 2 á mínum vinnustað þá hef ég heyrt slatta af lögunum og mörg þeirra eru hinar fínustu lagasmíðar. Það eru bara útsetningarnar sem eru ekki minn tebolli. Call me old fashioned en hvað er málið með undirspil sem samanstendur af ýskri, surgi  og prumphljóðum framleiddum í tölvu?! Eflaust mjög frumlegt en fyrir fólk eins og mig sem finnst venjuleg hljóðfæri ennþá nokkuð skemmtileg apparöt þá er þetta frekar pirrandi

En Björk má vera skrítin. Þetta þætti líklega ekki alveg jafn hip og kúl ef nýja platan með Sálinni væri svona.


Útlendingar

Ég er búin að komast að því að við Íslendingar getum verið óttalegir hræsnarar og skítapakk þó við sjálf séum sannfærð um að við séum Guðs útvalda þjóð. Eins sorglegt og það nú er þá virðast peningar skipta öllu í þessu litla þjóðfélagi okkar. Enginn er maður með mönnum nema eiga hús upp á 150 millur, hlut í minnst 5 útrásarfyrirtækjum og geta boðið upp á útbrunnar stórstjörnur í veislum. Það er öllum orðið skít sama um náungann og þykir það orðið meira hip og cool að hreykja sér af eigin ríkidæmi með hömlulausum fjáraustri í eigin hégóma en að láta eitthvað af hendi rakna til þeirra sem minna meiga sín.
Þeir sem eru lægst settir í þjóðfélagsstiganum á Íslandi í dag eru útlendingarnir sem koma hingað til að vinna og lifa í voninni um betra líf fyrir sig og sína. Erfiðustu og verst borguðu störfin eru unnin af útlendingum svo við getum setið í fínu jeppunum okkar og skutlast í bústaðinn eða veiðiferðina um helgar. Og kunnum við að meta þetta framlag? Nei, því miður. Við lítum niður á þessa gesti okkar og komum oft illa fram við þá auk þess sem heill stjórnmálaflokkur byggir tilvist sína á hatri í þeirra garð. Hér eru Pólskir verkamenn sem hýstir eru í iðnaðarhúsnæði við ömurlegar aðstæður út um allan bæ svo ekki sé minnst á þá sem eru látnir dúsa í gámum og eru svo rukkaðir um tugir þúsunda fyrir "húsnæðið". Sorglegasta dæmið af öllu eru auðvitað vinnubúðirnar fyrir austan þar sem öllum virðist vera sama um aðbúnað og hollustuhætti svo framarlega sem það kemst ekki í blöðin.
Ég legg til að við hugsum alvarlega okkar gang nema auðvitað að okkur finnist þetta bara alveg í fínu lagi

Monsters of rock

Motley_CrueKiddi var á blogginu sínu að minnast á ferðina sem hann fór með Eddunni ´83 á Donington festivalið. Ég fór ekki í þá frægu ferð heldur fór ég árið eftir í stórum hópi rokkaðdáenda að sjá m.a AC/DC, Motley Crue, Van Halen og Accept. Allt svakalega heit bönd á þeim tíma og þóttu Motley Crue alveg sérstaklega svalir eins og sjá má á þessari mynd.

Í þeirri ferð voru m.a rauðhærði víkingurinn sjálfur Eiki Hauks sem fararstjóri, Hlöddi og Siggi úr Centaur, Pálmi Sigurhjartar, Einar Jóns gítarleikari, Kiddi og Björg sem ég átti að deila herbergi með þessa daga sem við gistum í London og nokkrir rokkhundar frá Sauðárkróki. Þar var mikil rokkbylgja í gangi og m.a starfræktur metalklúbbur eins og var í gangi í bænum á þessum tíma. Klúbburinn í Reykjavík hét Skarr (sem þýðir sverð á forníslensku, mjög svalt) og merki klúbbsins var stórt og mikið sverð eins og eru í hasarteiknimyndum. Klúbburinn á Króknum hét hins vegar Lubbi og merki hans var lítil fígúra, svona eins og kafloðinn Barbapabbi með rafmagnsgítar. Það eru nú takmörk fyrir hvað hægt er að taka sjálfan sig alvarlega LoL

Ég vissi reyndar ekki þá að með Björgu í kaupunum fylgdu bæði Thelma og Linda systur hennar sem komu á móts við hópinn eftir Interrail ferð um Evrópu og áttu auðvitað ekki bót fyrir boruna á sér til að kaupa hótelgistingu svo þær plöntuðu sér bara á herbergisgólfið hjá okkur Bjöggu og allt í góðu með það eða þar til Linda fór að versla sér tískufatnað. En meira um það á eftir.

Ferðaskrifstofan sem planaði ferðina hefur greinilega ekki verið með allar staðreyndir á hreinu. Hótelið sem við vorum sett á, White House Hotel var nefnilega voðalega fínt hótel með marmara í lobbýinu og uppáklæddan dyravörð. Ég held þeim hafi lítið litist á blikuna þegar 40 síðhærðir rokkarar í leðurjökkum og gallavestum birtust! Hvað þá þegar 40 síðhærðir góðglaðir, sveittir og illa lyktandi rokkara  þrömmuðu inn á moldugum skónum eftir að hafa eytt heilum laugardegi í að flösuþeyta og drekka ómælt magn af bjór á Donington. En herbergin voru stór og fín og veitti ekki af þar sem troða þurfti inn svona 20 manns ef að gott partý var í gangi í viðkomandi herbergi. Ástæðan fyrir því að okkur var ekki öllum hent út og hurðinni læst og lyklinum hent var líklegast sú að ég efast um að veltan á barnum hafi nokkurntíma verið meiri í sögu hótelsins.

Ég minntist áðan á Lindu og verslunarferð sem seint gleymist. Linda hefur alltaf verið svolítill hippi í sér. Gengið í mussum og mokkasíum með skrautlega klúta og kringlótt sólgleraugu a la Janis Joplin og lengi átti hún forlát brúnan leðurhatt sem var ómissandi hluti af lookinu. Í London er hægt að kaupa nánast allt og einn daginn þegar ég kem inn í herbergið finn ég undarlega lykt. Ekki bara þessa venjulegu af flötum bjór, skítugum sokkum og hálfétnum hamborgurum heldur eitthvað svona meira eins og ég sé komin inn í fjárhús eða eitthvað. Þegar ég svo opna fataskápinn sé ég hvað veldur þessum fnyk. Linda hafði sem sagt fundið þetta forláta gæruvesti á einhverjum flóamarkaðnum og talið sig hafa himinn höndum tekið. Í þessari flík gekk hún hin stoltasta og stóð slétt á sama þó hún lyktaði eins og ný rúin rolla.

Ég er búin að fara á mörg festivöl um dagana en þetta var það fyrsta sem ég fór á og líka í fyrsta skiptið sem ég fór til útlanda þannig að Donington ´84 er alveg sérstaklega minnisstætt. Og gaman var það maður!!!!!


London!

Ferðasagan frá London er hér:
http://grumpenhofen.blogspot.com/

Alvarlega bloggið?

Þar sem ég hef stofnað þetta blogg væri kanski ekki svo vitlaust að skrifa eitthvað, eða hvað? Þar sem ég er nú þegar með annað blogg í gangi (sjá tengilinn "The other me" hér til hliðar) var ég að hugsa um að hafa þetta eitthvað öðruvísi. Djúpar pólitískar pælingar, hugrenningar um hnattvæðinguna eða gáfulegar athugasemdir um Kafka eða James Joyce...ZZZZZZZZZZ...... En hey, það er örugglega nóg af fólki sem nennir því svo ég ætla að halda mig við eitthvað skemmtilegt. Það slæðist kanski smá pólitík hér inn þar sem kjarnakonan hún Thelma er á leiðinni á þing fyrir Vinstri hreyfinguna Bleika Fíla auk þess sem ég hef mjög ákveðnar skoðanir á mönnum og málefnum.

Það eru eflaust margir sem ekki hafa enn gert upp við sig hvað þeir ætla að kjósa í komandi kosningum. Ég fór því á stúfana og kynnti mér stefnuskrá flokkanna. Byrjum á Vinstribandalaginu:
Þar segir meðal annars að Vinstrihreyfingin Bleikir Fílar ætli að beita sér fyrir jafnrétti og bræðralagi, ást og umhyggju ásamt almennri fegurð að innan sem utan. Þá mun Vinstrihryfingin Fjólublátt Ljós við Barinn beita sér fyrir því að ekki verði framar skert hár á höfði einnar einustu þúfu á Íslandi og litlu sætu trén og blómin fái að vaxa og dafna í friði fyrir alþjóðlegum auðhringjum sem hafa mannhatur og skemmdarfísn eina að leiðarljósi. Einnig mun Vinstrihreyfingin Rauðir Hundar leitast við að jafna hlut karla og kvenna og með það að leiðarljósi verða karlar skikkaðir til að ganga um á háum hælum, þvo þvott og fara með börnin í stórmarkaði síðdegis á föstudögum. Vinstrihreyfingin Purpla Haze mun heldur ekki skorast undan ábyrgð þegar kemur að utanríkismálum og hefur ákveðið að senda fulltrúa á næstu Júróvisjónkeppni.
Næst verður það Frjálslýndi flokkurinn svona áður en hann gufar upp.

Ég var í London um daginn. Mikið fjör og mikið gaman (meira um það á "The other me" mjög bráðlega). Ég rak m.a nefið inn á einn eða tvo pöbba og allsstaðar var verið að sýna krikket enda heimsmeistaramót í gangi. En ég spyr bara si svona, skilur einhver þessa íþrótt? OK, ég hef fattað það að aðal atriðið er að einn í öðru liðinu kastar kúlu og reynir að hitta í eitthvað prik en einn úr hinu liðinu reynir að slá kúluna í burtu. En hvað gera þá allir hinir?? Sitja upp í stúku og drekka te og borða kex? Og hver getur tekið íþrótt alvarlega þer sem er ekki stoppað í stutt leikhlé heldur farið í mat og kaffi og þar sem dómarinn er klæddur eins afgreiðslumaður í fiskbúð?
Svo er það stigagjöfin. Tók eitt dæmi úr þessari keppni:
Bangladesh: 96-3 ( 17.3 overs )
Bermuda: 94-9 ( 21.0 overs )
Hvor vann??


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband