Færsluflokkur: Bloggar
1.1.2008 | 16:32
Kjánahrollur ársins
Það er gjarnan til siðs að líta yfir farinn veg um áramót og þar sem nú er fyrsti dagur nýs árs, allt lokað og ég hef ekkert skárra að gera þá datt mér í hug að setja saman lista yfir það sem mér fannst með afbrigðum kjánalegt eða beinlínis fíflalegt á árinu. Þetta á þó aðeins við um atburði á opinberum vettvangi þannig að vinir mínir geta alveg andað rólega því ég mun ekki draga fram í dagsljósið nein asnastrik sem þeir kunna að hafa framkvæmt á árinu. En kíkjum á þetta.
1. Nýríka fólkið: Ég held að það sé ekkert jafn kjánalegt og nýríka liðið á svörtu Range Rover jeppunum sínum (Porche jeppar eru ekki lengur in). Dragandi einhverjar afdankaðar 80s poppstjörnur eða útbrunna íslenska gleðipoppara í snobbveislur og finnast það sjálft vera ógeðslega svalt. Ætlandi sér að kaupa heiminn fyrir peninga sem það á svo ekki til þegar öllu er á botninn hvolft. We are the icelandic útrás, you know! Þessi sem keypti þyrluna til að geta skroppið í bústaðinn um helgar og kíkt í síðdegiskaffi til mömmu úti í Eyjum toppar svo allt.
2. Dauði og upprisa hundsins Lúkasar: Móðursýkikast ársins var eflaust hysterían í kring um meint dráp á smáhundinum Lúkasi. Að vísu fannst líkið aldrei né nein sönnunargögn um verknaðinn en allt ætlaði samt um koll að keyra. Toppurinn á farsanum var svo þegar hundspottið birtist sprellifandi nokkru seinna. Ill meðferð á dýrum er auðvitað skelfileg og ætti ekki að lýðast en þegar sýnt var í Kopásþætti hroðaleg meðferð manns á hesti (og þar voru svo sannarlega sönnunargögn) þá man ég ekki til þess að fólkið sem sendi morðhótanir í allar áttir í Lúkasarmálinu hafi látið mikið fyrir sér fara. Er það kanski vegna þess að hestur er stór og klunnalegur og ekki hægt að klæða hann í fíflaleg föt og geyma í handtösku? Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem upp koma mál um illa meðferð á hrossum en einhvernvegin virðist öllum vera alveg sama og ekkert er að gert. Hestar eru bara ekki nógu krúttlegir til að "dýravinirnir" hafi áhuga á þeim
3. Villi Vill: Borgarstjórinn okkar fyrrverandi átti ekki gott ár. Hann virtist ekki vita neitt, ekki fylgjast með neinu, tala bara án þess að hugsa og vera almennt algerlega úti á þekju. Ekki bætti úr skák að borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins samanstóð af loftbelgjum úr Heimdalli sem umfram allt fannst þau sjálf vera alveg frábær, allir aðrir óttalegir bjálfar sem ekki var orðum á eyðandi og ákvarðanataka um málefni borgarinnar eitthvað sem þau sáu alfarið um og engum öðrum kom við
4. Dómararáðningin: Er þetta ekki farið að ganga út fyrir allan þjófabálk? Þegar dómarafélagið efnir til fundar þá gæti það allt eins verið fjölskylduboð hjá Davíð Oddssyni. Hvenær losnum við við þennan mann og það heljartak sem hann virðist enn hafa á Sjálfstæðisflokknum? Var ekki nóg fyrir hann að koma sjálfum sér í þessa huggulegu innivinnu sem hann er í, þar sem hann getur skaffað sjálfum sér laun að vild auk þess sem hann sá til þess að hann verður ekki á flæðiskeri staddur þegar hann ákveður að fara á eftirlaun? Ætlar blá krumlan aldrei að losa kverkatakið?
5. Nýi lögreglustjórinn: Það er svo sem ágætt að vilja sanna sig í nýju djobbi en fyrr má nú rota en fótbrjóta. Það er líka svo sem ágætt að spígspora öðru hvoru niðri í bæ í sparigallanum með heila vakt í halarófu á eftir sér en gerir það einhverjum eitthvað gagn? Og hversu gáfulegar eru hugmyndir eins og að flytja skemmtistaði upp á höfða eða eitthvað þaðan af lengra til að losna við fólk úr miðbænum á nóttunni? Eftir því sem manni skilst þá er mikill skortur á lögreglumönnum og einhvernvegin hefði ég haldið að tíma þeirra væri betur varið í að rannsaka og koma frá sér öllum þeim mikla fjölda mála sem bíða þess að verða kláruð til að hægt sé að dæma í þeim ef ástæða væri til heldur en að eltast við fólk sem getur ekki haldið í sér. Er það eðlilegt að rannsókn á mjög alvarlegri líkamsárás sem framin var á manni sofandi inni á heimili hans sé enn ekki lokið, núna 8 mánuðum seinna eins og ég þekki persónulega dæmi um!? Hverslags vinnubrögð eru þetta eiginlega! Mér persónulega væri skítsama ef einhver myndi míga utan í húsið hjá mér um hverja helgi óáreittur ef það væri til þess að hraða rannsókn á einhverju ofbeldis- eða nauðgunarmáli sem rykfellur í skúffum á lögreglustöðinni því það eru allir úti að eltast við karlmenn með slappa samkvæmisblöðru
6. Jónína Ben og allt Baugsmálið eins og það leggur sig: Ja hverju er hægt að bæta við allan þann skrýpaleik?
7. Gunnar Birgisson: Hvenær ætla Kópavogsbúar að losa sig við þennan gjörspillta karldurg?
Ég vil svo enda á að óska öllum gleðilegs nýs árs
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
17.12.2007 | 19:17
vélsagarsvig
Ég var að fletta í gegn um fréttasíðurnar á netinu í dag, eins og ég geri gjarnan og rak meðal annars augun í þessa mynd. Fyrirsögnin er Björgvin lent í 57. sæti.
Þegar ég var þarna að renna yfir þetta þá sýnist mér eins og þessi ágæti skíðamaður haldi á vélsög. Ég fer strax að velta fyrir mér hvort þarna sé komin ný tegund af alpagreinum, vélsagarsvig. Það gæti t.d verið þannig að keppendur renndu sér niður fjallshlíð og reyndu í leiðinni að saga niður eins mörg grenitré og þeir gætu á sem skemmstum tíma. Eða þá að tveir og tveir renndu sér niður brekkuna í einu og mættu beita allskonar brögðum til að komast á undan í mark eins og að saga sundur skíðastafina hjá andstæðingnum. Það mætti líka hugsa sér þetta sem skemmtilega viðbót við skíðagöngu. Þú gengur 10 km. og einhversstaðar á leiðinni áttu að saga niður 20 eldiviðarbúta, kveikja upp í arni og grilla pylsu. Mér persónulega finnst t.d þessi hefðbundna skíðaganga hræðilega einhæf og óáhugaverð og alveg kominn tími til að poppa hana aðeins upp. Það flottasta væri þó vélsagarstökk þar sem keppendur ættu í stökkinu að reyna að saga í æðardúnskodda sem skotið væri að þeim.
Reyndar gildir það um margar fleiri íþróttagreinar en skíðaíþróttir að vera voðalega leim og alls ekki up to date. Sjáiði t.d golf. Hvað er það að rölta eftir einhverju túni í rólegheitum og pota í leiðinni kúlu ofan í holu með priki og hafa til þess allan tíma í heiminum. Hér vantar augljóslega meiri aksjón. Því ætti golf að vera þannig að tveir og tveir keppa í einu með sitt hvora kúluna og markmiðið er að koma sinni kúlu í holuna á sem skemmstum tíma. Leyfilegt væri að tækla andstæðinginn og samstuð öxl í öxl væri líka leyft. Þá mætti bregða kylfunni fyrir fætur andstæðingsins en þó væri bannað eð berja fólk með henni. Það þyrfti líka að komast yfir ýmsar hindranir og þá er ég ekki að tala um nokkrar aumingjalegar sandgryfjur. Það mætti frekar hugsa sér að keppendur þyrftu að jafnhatta 60 kílóum, blás upp miðlungs stóra vindsæng, drekka 2 lítra af vatni og blanda Pina Colada á leið sinni í mark. Íþróttir eiga að vera skemmtilegar áhorfs. Það er bara ekkert skemmtilegt við miðaldra kalla klædda eins og fifl, í göngutúr
And now for something compleately different...
Hér er ykkur til ánægju og yndisauka vídeó þar sem nýjasta ædolið mitt, Hank Williams III tekur þekktan slagara ásamt einu fashion victim og tveim gamalmennum
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
5.12.2007 | 22:15
Erum við að verða vitlausari?
Ég er alltaf að sjá öðru hvoru einhverjar kannanir og rannsóknir sem sýna fram á það að við erum á góðri leið meða að verða ekki bera ólæs heldur plein vitlaus líka.
Við erum hætt að kunna að reikna, en ég meina hver þarf þess, til hvers voru reiknivélar eiginlega fundnar upp? Náttúrufræðiþekking er í tómu tjóni og þar er kanski skýringin á því að okkur er skít sama um náttúruna í kring um okkur. Við förum hvort sem er allt, og þá meina ég ALLT, á bíl og það er ekki hægt að vera að góna eitthvað í kringum sig við aksturinn. Bílastæðið við Smáralindina er líka lásí dæmi um fallega náttúru. Og svo kunnum við varla að lesa lengur. Við getum kanski stautað okkur fram úr einföldum texta eins og Jólagjafahandbók Kringlunnar, enda mikið af myndum sem skýra sig sjálfar. En flóknari hlutir eins og reifari fær heilann í fólki til að snúast í hringi enda bíða bara allir eftir bíómyndinni.
En nú höfum við alla þessa fínu skóla, segja kanski einhverjir. Jú jú, það er fullt af skólum. Það þarf bara að vera kennt eitthvað af viti í þeim og foreldrarnir þurfa víst líka eitthvað örlítið að ýta undir menningarlegt uppeldi afkvæmanna þó mörgum finnist það til of mikils ætlast enda annar hver krakki með ofvirkni og athyglisbrest ofan á misþroska og lesblindu. Venjulegir skólar eins grunnskólar eða menntaskólar hefa heldur ekki þótt mjög smart lengi og hefur ekki þótt neitt sérstök ástæða til að púkka upp á þá að hálfu menntamálayfirvalda. Það eru háskólarnir sem eru hip og kúl þar sem önnin kostar 800.000 kall og allir eiga garanteraða vinnu í banka á eftir. Öll viljum við jú vinna í banka, er það ekki? Það er nóg af Pólverjum og Tælendingum til að gera allt þetta erfiða og leiðinlega eins og að byggja húsin sem við búum í eða sjá um afa okkar og ömmur sem við erum löngu búin að skutla á elliheimili því við erum svo bissí að meika það í útrásinni.
Það þykir t.d voða fínt hjá fyrirtækjum að styrkja einhvern háskólann og að sama skapi þykir það traustvekjandi ef stjórnmálaflokkar ná að státa af eins og einum háskólarektor á framboðslista hjá sér. Það er því varla lengur til sá bréfaskóli sem ekki er orðinn á háskólastigi. Ég bíð bara eftir að Stöðumælavarðaskólinn verði að háskóla og menn geti orðið MBA í stöðumælavörslu. Ekkert jafnast á við fínan titil þó hann sé byggður á lausamöl. Það er þó alltaf hægt að hugga sig við það, að það er hægt að næla sér í feit embætti þó maður sé ekki eitthvað séní eins og gott dæmi frá Ameríku sannar. Það þarf bara að míngla við rétta fólkið og að það séu fleiri sem eru vitlausari en maður sjálfur
Ofan á allt saman erum við svo að verða eins og Ameríkanar í vaxtarlaginu. Ekki furða þó við séum svona ógeðslega hamingjusöm!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
26.11.2007 | 18:01
Hingað og ekki lengra!
Nú er mér nóg boðið! Ég vil að það verði aftur leyfðar reykingar á kaffihúsum og það strax! Mér finnst reykingar frekar ógeðfelldur subbuskapur en maður verður bara að forgangsraða. Til að byrja með var ég afskaplega hamingjusöm að þurfa ekki að hafa eitthvað lið svælandi ofan í mig meðan ég var að drekka kaffið mitt og borða súkkulaðiköku með, en hvað fær maður í staðinn? Fólk með börn!!! Smokers come back, all is forgiven!
Ég var í fríi í dag (mánudag) og rölti í bæinn upp úr hádegi til að fá mér eitthvað í svanginn og það var sama hvaða kaffihúsi ég labbaði framhjá, allstaðar var barnavögnum parkerað fyrir utan í löngum bunum. Hafa þessar fæðingarorlofskerlingar ekkert annað að gera en að hanga og slúðra og þamba kaffi! Eiga þær ekki að vera heima og prjóna sokka eða eitthvað?
Ég skal koma hérna með tvö dæmi um hremmingar sem ég hef lent í nýlega. Fyrir ekki svo löngu hitti ég góða vinkonu mína á kaffihúsi. Það má segja að ég hafi verið að bjóða hættunni heim þar sem að ég vissi að hún tæki fjögurra ára dóttur sína með. En ég lét mig hafa það, alltaf gaman að hitta vini sína. Þetta byrjaði ósköp sakleysislega, barnið til friðs og borðaði matinn sinn tiltölulega þegjandi og hljóðalaust. En svo gerist það. Fyrst kemur gusa af kakói út um nefið á krakkanum, yfir borðið og ekki nóg með það þá var rétt búið að þrífa það upp þegar hálmelt samloka endaði á sama stað (þó ekki gegn um nefið sem betur fer). Ég þakkaði mínu sæla fyrir að sitja við hinn enda borðsins, sem ég hef reyndar að reglu þegar börn eru með í för. Maður getur aldrei verið viss um hvar maturinn endar sem sannaðist í þessu tilviki. Þar sem að um góða vinkonu mína til margra ára var að ræða þá hélt ég mínu jafnaðargeði og lét sem ekkert væri enda virtist hún ekkert kippa sér upp við þetta, hreinsaði jukkið bara upp og hélt samræðunum áfram eins og ekkert væri sjálfsagðara en slettur af hálfmeltum samlokum bleyttum í kakói út um allt. Svo fara þær mæðgur og ég sé fyrir mér rólegheit þar sem ég get klárað kaffið mitt og kíkt í blöðin. En nei, því var ekki að heilsa. Við hliðina á mér (þetta var á Hressó þar sem er langur bekkur með nokkrum borðum við einn vegginn) hafði hlammað sér niður fólk með tvo krakka. Annar var strákur sem gat ekki setið kyrr í 2 mínútur og var því stanslaust á einhverju ráfi fram og til baka og hitt var ungabarn. Haldiði svo ekki að þau hafi slengt hvítvoðungnum upp á bekkinn þarna við hliðina á mér og farið að skipta á kúkableyjunum bara rétt si svona meðan þau ræddu um hvað ætti að vera í kvöldmatinn! Finnst fólki bara alveg sjálfsagt að gera þetta nánast ofan í súpudiskunum hjá manni?! Svo þegar maður gefur þessu liði illt auga þá er maður bara orðin einhver Grímhildur Grimma sem étur börn í morgunmat
Núna reyni ég að fara bara út á kvöldin því þá ætti baranavagnaliðið að vera farið heim. Nema hvað, að ég var sem sagt í fríi í dag og rölti Laugaveginn og ákvað að fá mér síðbúinn löns í leiðinni. Inn á Sólon fer ég og viti menn, rétt eftir að ég er búin að panta koma einmitt svona tvær í fæðingarorlofi með ungabörnin með sér sem orga og grenja í kór. Mömmurnar kalla þetta að hjala og finnst það voðalega krúttlegt en þegar það yfirgnæfir samræður þá er það eitthvað allt annað. Og þarna sitja þær svo bara og spjalla meðan krakkarnir "hjala" út í eitt og geifla sig öðru hvoru framan í þau og segja eitthvað vússíbússídúddírú hvað sem þá á að þýða og krakkin tvíeflist í hjalinu og fer að frussa með því. Í svona tilvikum get ég ekki verið nógsamlega þakklát fyrir að iPod var fundinn upp. Í fullri vinsemd vil ég bara beina því til fólks sem fer með börnin sín á veitingastaði að það er ekki eitt í heiminum og það er til fullt af fólki sem finnst nákvæmlega ekkert krúttlegt við læti og hávaða hvað þá að horfa upp á bleyjuskiptingar og brjóstagjöf. Ég segi því eins og Umferðarráð, sýnum tillitssemi
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
7.11.2007 | 21:39
Fegrun og snyrting og smá heilræði...class of 1964
Konur árið 1964 höfðu ekki minni áhuga á útlitinu en konur í dag. Þær höfðu kanski ekki úr jafn miklu magni af snyrtivörum og fegrunarmeðölum að velja og til eru í dag og þurftu því stundum svolítið að bjarga sér sjálfar.
Í hinu merka blaði Eldhúsbókinni sem kom út á þessum árum (og kemur kanski enn?) eru mörg stórmerkileg húsráð og heilræði. Hér er t.d að finna aðferðir við að halda húðinni á andlitinu mjúkri og unglegri og allt mjög náttúruvænt. Þetta ættu allar konur að skoða:
"Egg, kartöflur og epli eru góð fyrir húðina. Eggjagríma er það besta sem þér getið gefið feitri andlitshúð. Stífþeytt eggjahvíta er blönduð nokkrum dropum af sítrónusafa og helmingur blöndunnar strokinn varlega yfir andlit og háls. Þegar hún er storknuð er hinn helmingurinn borinn á andlitið og hálsinn og svo loks þeytt eggjarauðan. Þegar gríman hefur haft sín tilætluð áhrif í stundarfjórðung, er hún þvegin af með volgu vatni.
Eplagríma er góð við slappri húð. Skerið epli í bita og sjóðið það með dálítilli mjólk í þykkan graut. Kælið og berið á andlit og háls og látið vera í 20 mínútur. Þvegið af með volgu vatni.
Kartöflugríma er góð við rauðri húð. Hrá, ný kartafla er skorin í örþunnar sneiðar sem lagðar eru á andlit og háls. Slappið svona af í 1/2 klst."
Ekki nóg með það að gefin séu þessi glimrandi góðu fegrunarráð þá er líka í blaðinu lesendadálkur þar sem leyst er út hinum ýmsu vandamálum húsmæðra þessa tíma. Dálkurinn þar sem fjallað var um vandamál unglinga vakti sérstaka athygli míona þar sem ég þekki til fólks sem hefur þurft að glíma við téð vandamál eða á eftir að fá þau í hausinn eftir ekki svo ýkja mörg ár.
Spurningarnar eru sumar hverjar óborganlegar. T.d spyr ein áhyggjufull móðir (eða kanski er það faðirinn í þessu tilviki): "16 ára sonur minn er ekki farinn að raka sig enn. Hann er einnig óvenju lágvaxinn. Nær hann eðlilegum þroska?" ...ja, ekki nema von að manneskjan spyrji! Ekki farinn að raka sig 16 ára! Jedúddamía!
Svo er það sumt sem breytist aldrei. Þessi kona hafði miklar áhyggjur af dóttur sinni og spyr: "Dóttir mín eyðir svo miklum tíma í dagdrauma um pilta og föt að hún er farin að vanrækja námið. Hvernig getur hún losað sig við þennan ósið sem sóar dýrmætum tíma?"
Svo eru það pabbarnir sem ætlast til að synirnir verði læknar eða lögfræðingar og það strax: "Maðurinn minn lítur svo á að ef sonur okkar ákveður sig ekki núna, eftir að hafa lokið gagnfræðaprófi þetta ár, hvað hann ætlar sér að verða, muni ekkert verða úr honum annað en landeyða. Hefur hann á réttu að standa?"
Að lokum er svo hér eitt húsráð sem eflaust á eftir að nýtast einhverjum: "Ef þið eigið peysu sem er orðin of lítil, en þið vilduð gjarnan stækka, þá getið þið sprett upp hliðarsaumnum og áfram ermasaumnum í hliðunum og bætt þar inn í annað hvort prjónaðri lengju sem fer vel við peysulitinn eða þá lituðum gömlum ullarsokk."
Í spilaranum hér til hliðar eru svo nokkur lög frá því merka ári 1964
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.11.2007 | 23:28
Kaupæði...eða ekki?
Ég var að koma heim frá útlöndum í dag. Nánar til tekið frá Heidelberg í Þýskalandi þar sem kompanýið hélt árshátíð með pompi og prakt. Ég komst þarna að því að ég er alveg hætt að nenna að djamma fram á nótt, finnst m.a.s fullt fólk í flestum tilvikum leiðinlegt og ég tala nú ekki um þegar það fer á trúnó og byrjar að dásama hundinn sinn! How boring is that?! En ég komst líka að því að það vantar algerlega í mig þetta eina sanna íslenska kaupæðisgen. Það eina sem ég keypti þessa 4 daga fyrir utan mat og drykk sem rann ljúflega niður á staðnum, var áfengi og súkkulaði. Ég hafði ekki einu sinni ástæðu til að fara inn í verslanir sem seldu eitthvað annað en áfengi og súkkulaði.
En áfengi er ekki bara áfengi og þess þá síður er súkkulaði bara súkkulaði. Ó nei! Maður lætur alls ekki hvað sem er ofan í sig, í þessum efnum eru gerðar kröfur hér á þessu heimili. Það eru liðnir þeir dagar þegar screwdriver og black russian þóttu hinir mestu eðaldrykkir og Lionbar og Siríuslengja aldeilis ljómandi fínt súkkulaði. Nú lítur maður ekki við öðru en 12 ára Single Malt Whisky og Chateau vínum frá Búrgúndí og maður hefur um leið uppgötvað listina að drekka áfengi bragðsins vegna en ekki áhrifanna. Þegar vinnufélagarnir voru hættir að nenna að vera dannaðir og svolgra í sig Mojito sem þeim þóttu örugglega ekki einu sinni góðir og voru komnir á 5. glas af vodka í kók ákvað ég að segja því partýinu lokið og horfði frakar á James Bond á þýsku áður en ég sofnaði. OK, það var líka verið að syngja og spila rútubílalög á kassagítar. That did it!
Súkkulaði er svo alveg sér kapítuli út af fyrir sig. Sælgæti eins og maður fær úti í sjoppu er ekki súkkulaði. Það er smjörlíkis og sykurjukk og maður kaupir ekki þannig þegar hægt er að þá belgískar kampavínstrufflur! Súkkulaði á ekki að háma í sig eins og soltinn grís að éta súrkál. Það á að borða rólega, lítið í einu og njóta hvers munnbita og að drekka gott kaffi með er punkturinn yfir i-ið. Þá vitiði það, það er til nóg af súkkulaði hér á þessum bæ...ennþá
Talandi um ferðalög, hvernig í ósköpunum stendur á því að það hefur enginn hannað almennileg sæti í flugvélar! Það er komið árið 2007 og maður er ennþá að sitja í þessum ömurulega óþægilegu svamphlunkum sem flugvélaframleiðendur eru enn að bjóða farþegum sínum upp á. Það væri kanski hægt að horfa fram hjá óætum mat, engu fótaplássi, vondu lofti og helv. hávaða ef sætin væru almennileg! Findist fólki bara allt í lagi að kaupa nýja Toyotu og það væru nákvæmlega eins sæti í henni og í Corollu ' 68?!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
30.10.2007 | 23:26
Leningrad Cowboys
Ég var að fá um daginn plötuna Zombies Paradise með snillingunum í Leningrad Cowboys.Fyrir þá sem ekki þekkja þá er þetta 10 manna stórsveit frá Finnlandi sem er búin að starfa í einhver 15 ár. Þeir eru hljómsveit allra landsmanna þarna í Finnlandi, svona svipað og Stuðmenn eru hér. Aðal munurinn er samt að Leningrad Cowboys er skemmtileg hljómsveit meðan við sitjum uppi með Stuðmenn sem verða leiðinlegri og sjálfumglaðari með hverju árinu.
Þessi plata, Zombies Paradise er tökulagaplata sem er afskaplega mikið "in" núna í seinni tíð að gara en Finnarnir geðþekku hafa reyndar alltaf haft slatta af tökulögum á efnisskránni og gáfu út fyrir nokkrum árum tökulagadisk þar sem kór Rauða hersins syngur með þeim vel valda slagara auk þess sem haldnir voru tvennir risatónleikar, í Helsinkiu og í Berlín (um 60.000 manns á hvorum stað) þar sem hljómsveitin kom fram ásamt 120 manna kór og hljómsveit frá Rauða hernum, afrískum bongótrommuleikurum, balkönskum þjóðdansaflokki og ég veit ekki hvað. Það skal þó skýrt tekið fram að þetta er enginn Ædol karókí væll, hér er rokkað verulega feitt!
Ekki nóg með það þá hafa þeir gert 3 bíómyndir, Leningrad Cowboys go Americam, Leningrad Cowboys meet Moses og LA without a map, leikstýrt af Aki og Mika Kaurismaki sem eru voða merkilegir leikstjórar að mér skilst.
Í spilaranum hér til hliðar eru nokkur lög af Zombies Paradise, þið kannist sjálfsagt strax við þessi lög nema kanski You´re my soul, en það er úr smiðju vel greiddu snyrtimennanna í Modern Talking. Ég ákvað líka að smella með link á tvö vídeó, því þar sem Leningrad Cowboys eru annars vegar þá er sjón sögu ríkari
Njótið vel!
http://youtube.com/watch?v=Y0vZwONKshU
http://youtube.com/watch?v=qKH63LKQBQc
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.10.2007 | 01:40
Íþróttir
Það er eitthvað voðalega mikið verið að velta sér upp úr afleitu gengi fótboltalandsliðsins núna. Fyrst lá það fyrir landsliði Uzbekistan, sem þótti frekar niðurlægjandi þar sem ekki er mikil hefð fyrir fótbolta þar í landi og þurfti t.d að útskýra það í löngu máli fyrir markverði liðsins að hann gæti ekki láta móður sína færa sér heita hænsnasúpu meðan á leiknum stóð auk þess sem vodkadrykkja leikmanna var líka bönnuð inni á vellinum þrátt fyrir hávær mótmæli. Dropinn sem fyllti mælinn var þó tap fyrir 10. bekk Valhúsaskóla í æfingaleik sem átti að vera til þess að auka sjálfstraust leikmanna þó reyndin hafi orðið allt önnur og snautlegt tap staðreynd. Þjálfarinn sá þó einhverja ljósa punkta í leik liðsins eins og t.d að allir leikmenn hefðu hlaupið eitthvað í leiknum og sparkað í boltann og nokkrir jafnvel skallað þó það geti ruglað vandaðri hárgreiðslu og dýrir eyrnalokkar gætu týnst. Þessi viðleitni þótti samt ekki nóg og þjálfarinn ekki endurráðinn.
Ósköp er það samt óréttlátt að þjólfararæfillinn taki alltaf á sig sökina ef illa gengur. Hvernig væri að leikmennirnir gerðu það líka? Það ætti því ekki bara að reka þjálfarann heldur hreinlega allt liðið eins og það leggur sig. Síðan yrði flutt inn nýtt lið frá Póllandi sem kæmi í staðinn fyrir þetta arfaslaka lið sem við sitjum uppi með núna. Sé ekki alveg af hverju Pólverjar ættu ekki að geta mannað fótboltalandsliðið eins og öll önnur djobb á Íslandi sem ekki eru unnin við skrifborð. Þeir eru líka miklu betri í fótbolta en við og KSÍ þyrfti að borga þeim miklu minna fyrir að spila. Það væri jafnvel hægt að leggja fyrir til að geta einn góðan veðurdag látið kvennalandsliðið fá einhverja aura. Tvær flugur í einu höggi.
Annað sem hægt væri að gera væri að hætta hreinlega að spá í þetta fótboltabrölt þar sem við eigum hvort sem er aldrei möguleika og snúa okkur meira að jaðaríþróttum sem fáir stunda eins og handbolta. Þar liggja tvímælalust okkar sóknarfæri. Á heimsvísu erum við nokkuð framarlega í handbolta enda stunda þá íþrótt álíka margir og þeir sem leggja stund á sundballett. Þar erum við því að keppa á jafnréttisgrundvelli þegar höfðatalan sígilda er höfð til viðmiðunar
Það eru margar svona íþróttagreinar sem hægt væri að leggja stund á með góðum árangri. Þar má nefna að mér var nýlega bent á að það er haldið heimsmeistaramót í eltingaleik sem er íþrótt sem við öll kunnum og gætum eflaust staðið okkur vel í. Heimsmeistarakeppnin í að fleyta kerlingar var haldin nýlega í Skotlandi þar sem sigurvegarinn náði að fleyta kerlingar heila 65 metra. Þetta gæti hentað vel hér enda nóg af vatni. Skurðasund gæti líka hentað vel Íslenskum aðstæðum. Svo er líka keppt í túnfiskkasti, reiptogi, ánamaðkatýnslu, geitaveðreiðum, sláturkeppakasti, að rúlla ostum niður brekku og svo kannast allir við hið fræga eiginkonuhlaup. Möguleikarnir eru óþrjótandi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
16.10.2007 | 22:27
"ég veit ekkert!"
Um fátt er nú meira rætt þessa dagana en hasarinn í Ráðhúsinu og kanski að bera í bakkafullan lækinn að ætla að bæta einhverju við alla þá umræðu. Menn virðast skiptast nokkuð í tvö horn varðandi það hvort þeir trúi því að fyrrverandi borgarstjóri hafi ekkert vitað neitt um hvað var í gangi eða að hann sé ekki að segja allan sannleikann. Til að varpa smá ljósi á allt þetta mál er hér glænýtt viðtal við fyrrum borgarstjóra þar sem hann er spurður út í þetta allt saman.
Blaðamaður: Byrjum á þessum margumrædda fundi sem var haldinn heima hjá þér þar sem Bjarni og félagar mættu til að ræða þennan samruna
Fyrrum borgarstjóri: Ég áttaði mig bara alls ekkert á því að þetta væri einhver fundur, hélt bara að þeir væru að kíkja í kaffi og kanski taka í spil á eftir.
Blm: En ræddu þeir ekki um REI, GGE og OR?
F.Bstj: Æi ég á það til að rugla þessu öllu saman. Hvernig er hægt að muna þetta allt! REI, GGE, BSRB, VSOP, USB, CCR eða HSÍ! Svo töluðu þeir svo mikið að ég varð hreinlega syfjaður og það má vel vera að ég hafi dottað eins og eitt augnarblik.
Blm: Forstjóri REI segist hafa sýnt þér uppkast af samningi þess efnis að hið sameinaða félag REI og GGE, TMR (Take the Money and Run, group) öðlist einkaleyfi á notkun vatns á Íslandi "until hell freezes over" eins og segir í fréttatikynningu og enginn hafi leyfi til að þvo bílinn, vökva garðinn né fara í bað án þess að greiða TMR þóknun fyrir. Fannst þér þetta eðlilegar kröfur?
F.Bstj: Ég kannast alls ekki við að þetta hafi staðið í þessum samningi. Ég las þetta plagg vel og vandlega yfir og þó svo að það hafi verið á latínu þá skildi ég mæta vel allt sem þar stóð enda dúxaði ég í latínu í TBR á sínum tíma
Blm: Þú meinar MR?
F.Bstj: Já, þar líka
Blm: En hvað stóð þá í þessum samningi?
F.Bstj: Það var bara eitthvað verið að tala um að Bjarni, Hannes og Kristinn og nokkrir kunningjar þeirra gætu fengið fólk lánað frá Orkuveitunni til að ditta að einu og öðru fyrir þá þegar þeir væru í útlöndum, það er víst alltaf svo mikið að gera hjá þessum kaupsýslumönnum.
Blm: Hvað meinarðu með að ditta að?
F.Bstj: Ja svona tæma úr heita pottinum og þrífa útigrillin. Það eru menn frá Orkuveitunni á ferðinni út um allan bæ hvort eð er svo ég sá ekkert athugavert við að lána þá í eitthvað svona smálegt. Og svo koma þessir menn í bakið á mér og segja að ég hafi gefið loforð fyrir því að allir starfsmenn Orkuveitunnar vinni einungis fyrir þá næstu 99 árin. Þetta stóð aldrei í þessu plaggi sem ég sá! Reyndar var líka eitthvað talað þar um að samningar þyrftu að ganga jafn hratt og örugglega og það tæki þrjár kýr að hekla kjötfars og vitneskjan væri best geymd djúpri píparaskoru en ég viðurkenni fúslega að þekkja ekki öll þessi nýmóðins orðatiltæki. En þetta stóð þarna svart á hvítu enda latína mitt annað tungumál og talaði ég hana lengi vel á sunnudögum
Blm: Burt séð frá þessum samningi þá þykir mörgum óeðlilegt hvað margir auðmenn tengdir tveim stjórnmálaflokkum eiga stóra hluti í REI og GGE.
F.Bstj: Ég vissi ekkert um það! Ég sá þarna einhver nöfn á blaði og hélt bara að það væri verið að sýna mér gestalistann í partýið hjá Yoko Ono.
Blm. Kom það þér á óvart að Björn Ingi skuli hafa slitið meirihlutasamstarfinu svona snögglega?
F.Bstj: Mér leið eins og Sesari eftir að Brútus sló hann í höfuðuð með golfkylfunni forðum
Blm: Hann stakk hann í bakið með rýting
F.Bstj: Hugsa sér! Að ráðast aftur á slasaðann manninn sem gat enga björg sér veitt. Einmitt eins og Ingibjörn hefur hagað sér!
Blm: Þú meinar Björn Ingi
F.Bstj: Já gat svo sem verið að þeir væru tveir! Framsóknarflokkurinn er greinilega stærri en ég hélt!
Hér í spilaranum við hliðina eru svo nokkur lög tileinkuð borgarstjóranum fyrrverandi
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
22.9.2007 | 19:32
Uppskriftir
Þegar maður er farinn að skiptast á mataruppskriftum við vini sína í staðinn fyrir nýjustu djammsögurnar þá er maður formlega orðinn miðaldra. Auk þess sem "nýjustu" djammsögurnar hjá sumum eru síðan fyrir aldamót og ekki lengur sérlega ferskar. Það eru fjölskyldur og starfsframar sem þarf að sinna og allt í einu eru liðin 5 ár síðan viðkomandi sletti úr klaufunum síðast.
Hún Linda vinkona mín er lengi búin að suða í mér að fá eina eða tvær uppskriftir en ég hef þrjóskast við þar sem miðaldramennska er ekki alveg að heilla mig. En svona til að gera henni greiða þar sem hún er kjarnakona austur í sveit með fullt hús af börnum auk þess að vera í fullri vinnu, hugsa um garðinn, vera í kvenfélaginu kirkjukórnum og sóknarnefndinni og er núna eflaust að taka slátur og sjóða niður rabbabarasultu þá kemur þetta hér. Ég geri mér alveg grein fyrir því að það hafa ekki allir tíma til að grúska í matreiðslubókum svona milli þess að sitja á kaffihúsum, lesa skáldsögur, hlusta á tónlist, fara í gönguferðir eða eyða heilu kvöldunum í tölvunni þó ég hafi það. Þetta ætti því að gagnast öllu uppteknu fjölskyldufólki og þeim sem vilja nýta það mikla og góða hráefni sem hér er að finna
Austur í sveit er heldur ekki hægt að hlaupa út í búð ef það vantar eitthvað í matseldina hvað þá að slá bara öllu upp í kæruleysi og panta sér pizzu. Það þarf að hugsa fyrir öllu og þegar við bætist að það eru margir munnnar sem þarf að metta er gott að vera hin hagsýna húsmóðir. Uppskriftirnar taka því mið af því. Það var úr ýmsu að velja eins og uppskrift af Lúðubuffi, Sláturstöppu og Kartöflutertu. Njólajafning og Áfasúpu gæti líka komið sér vel að kunna að matreiða og sömu leiðis Hænu í hlaupi eða Hryggvöðva af hesti ef margir eru í mat. En hér koma þessar uppskriftir Linda mín:
Súrsuð júgur
Skerið júgrið í 2-4 hluta eftir stærð. Skerið upp í spenana og útvatnið júgrið í 1-2 daga. Skiptið oft um vatn til þess að ná mjólkinni úr. Sjóðið júgrið í 1-3 klst. og kælið. Suðutíminn ter eftir tegund og aldri skepnunnar. Súrsið júgrið í skyrmysu. Á sama hátt má sjóða og súrsa lungu og hrútspunga
Fótasulta
Svíðið kindafætur ohreinsið eins og svið. Takið klaufarnar af. Sjóðið fæturna fyrst í saltlausu vatni (vegna fótaolíunnar). Fleytið fótaolíuna ofan af vatninu, það er mjög góð feiti sem nota má í kökur en einnig í smyrsl. Saltið, þegar búið er að ná feitinni, og sjóðið þangað til hægt er að smeygja beinunum úr. Stórgripahausa, ærhausa er ágætt að hafa með í sultunni. Sjóðið beinin í soðinu í dálitla stund og síið þau síðan frá. Sjóðið soðið niður þar til það er hæfilega mikið á móts við kjötið sem á að hafa í sultuna. Látið kjötið út í og sjóðið í 5-10 mín. Ausið síðan sultunni í grunn föt og kælið. Skerið sultuna í bita og geymið í mysu
Verði ykkur að góðu!
Í spilaranum hér til hliðar eru svo nokkur matarlög
Bloggar | Breytt 23.9.2007 kl. 12:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)