Uppskriftir

PeatitÞegar maður er farinn að skiptast á mataruppskriftum við vini sína í staðinn fyrir nýjustu djammsögurnar þá er maður formlega orðinn miðaldra. Auk þess sem "nýjustu" djammsögurnar hjá sumum eru síðan fyrir aldamót og ekki lengur sérlega ferskar. Það eru fjölskyldur og starfsframar sem þarf að sinna og allt í einu eru liðin 5 ár síðan viðkomandi sletti úr klaufunum síðast.

Hún Linda vinkona mín er lengi búin að suða í mér að fá eina eða tvær uppskriftir en ég hef þrjóskast við þar sem miðaldramennska er ekki alveg að heilla mig. En svona til að gera henni greiða þar sem hún er kjarnakona austur í sveit með fullt hús af börnum auk þess að vera í fullri vinnu, hugsa um garðinn, vera í kvenfélaginu kirkjukórnum og sóknarnefndinni og er núna eflaust að taka slátur og sjóða niður rabbabarasultu þá kemur þetta hér. Ég geri mér alveg grein fyrir því að það hafa ekki allir tíma til að grúska í matreiðslubókum svona milli þess að sitja á kaffihúsum, lesa skáldsögur, hlusta á tónlist, fara í gönguferðir eða eyða heilu kvöldunum í tölvunni þó ég hafi það. Þetta ætti því að gagnast öllu uppteknu fjölskyldufólki og þeim sem vilja nýta það mikla og góða hráefni sem hér er að finna

Austur í sveit er heldur ekki hægt að hlaupa út í búð ef það vantar eitthvað í matseldina hvað þá að slá bara öllu upp í kæruleysi og panta sér pizzu. Það þarf að hugsa fyrir öllu og þegar við bætist að það eru margir munnnar sem þarf að metta er gott að vera hin hagsýna húsmóðir. Uppskriftirnar taka því mið af því. Það var úr ýmsu að velja eins og uppskrift af Lúðubuffi, Sláturstöppu og Kartöflutertu. Njólajafning og Áfasúpu gæti líka komið sér vel að kunna að matreiða og sömu leiðis Hænu í hlaupi eða Hryggvöðva af hesti ef margir eru í mat. En hér koma þessar uppskriftir Linda mín:

Súrsuð júgur

Skerið júgrið í 2-4 hluta eftir stærð. Skerið upp í spenana og útvatnið júgrið í 1-2 daga. Skiptið oft um vatn til þess að ná mjólkinni úr. Sjóðið júgrið í 1-3 klst. og kælið. Suðutíminn ter eftir tegund og aldri skepnunnar. Súrsið júgrið í skyrmysu. Á sama hátt má sjóða og súrsa lungu og hrútspunga

 

Fótasulta

Svíðið kindafætur ohreinsið eins og svið. Takið klaufarnar af. Sjóðið fæturna fyrst í saltlausu vatni (vegna fótaolíunnar). Fleytið fótaolíuna ofan af vatninu, það er mjög góð feiti sem nota má í kökur en einnig í smyrsl. Saltið, þegar búið er að ná feitinni, og sjóðið þangað til hægt er að smeygja beinunum úr. Stórgripahausa, ærhausa er ágætt að hafa með í sultunni. Sjóðið beinin í soðinu í dálitla stund og síið þau síðan frá. Sjóðið soðið niður þar til það er hæfilega mikið á móts við kjötið sem á að hafa í sultuna. Látið kjötið út í og sjóðið í 5-10 mín. Ausið síðan sultunni í grunn föt og kælið. Skerið sultuna í bita og geymið í mysu

Verði ykkur að góðu!

Í spilaranum hér til hliðar eru svo nokkur matarlög

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd:  Íris Ásdísardóttir

Hefur Matarskrímslið nokkuð bankað uppá ?? Ef það gerist skaltu bara hlaupa hratt í burtu....gleymdu samt ekki að slökkva undir hellunum áður ef eitthvað er á stónni....:-)

Íris Ásdísardóttir, 23.9.2007 kl. 21:03

2 identicon

Flott þetta og með meltingarmúzik með er náttúrlega hrein snilld!!!

Kveðja úr

Flóahreppi

Ragnar Sigurjónsson (IP-tala skráð) 23.9.2007 kl. 23:58

3 identicon

Nammi, namm, en girnilegar uppskriftir.

Monopoly (IP-tala skráð) 26.9.2007 kl. 21:41

4 Smámynd: Linda Ásdísardóttir

Takk fyrir hugulsemina en ég ítreka að ég er EEEKKKKKIII í kvennfélaginu

Linda Ásdísardóttir, 26.9.2007 kl. 23:33

5 Smámynd: Thelma Ásdísardóttir

GRUMMMPPAAAA!!!!! Hvurn "Bíííbbb", ertu að klína þessu jukki á bloggið. Bjakk, bjakk, skirp, skirp, pfffifft....

Thelma Ásdísardóttir, 28.9.2007 kl. 15:14

6 Smámynd: Hveramær

Argg farðu nú að blogga stelpa !!! þessi uppskrift er orðin eitthvað svo OLDFASHION !! ....

Hveramær, 8.10.2007 kl. 13:46

7 identicon

Held að Grumpa sé í strætó að ræða mataruppskriftir við Thelmu.

Monopoly (IP-tala skráð) 9.10.2007 kl. 22:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband