Færsluflokkur: Spaugilegt

maðurinn sem varð ófrískur

ThomasBeatie.jpgMyndin hér til hliðar er af Thomas Beatie, sem er kominn 5 mánuði á leið og á von á stúlku ásamt sambýliskonu sinni til 10 ára, Nancy. Hjónaleysin eru að vonum afar hamingjusöm.

Til að skýra þetta aðeins þá hét Thomas Beatie, Tracy LaGondino þar til fyrir nokkrum árum síðan og bjó ásamt áðurnefndri sambýliskonu í ástríku sambandi á Hawaii. Þær vildu giftast eins og önnur ástfangin pör en það var víst ekki leyfilegt á Hawaii (og reyndar víðar) svo Tracy brá á það ráð að gangast undir kynskiptiaðgerð og breyta sér í Thomas til að geta gengið að eiga sína heittelskuðu.

Nú auðvitað vildu þær/þau eignast börn og þar sem andstaða við ættleiðingar samkynhneygðra hafði komið í veg fyrir það hingað til þá var ekki um annað að ræða en að búa til sitt eigið. En þá kom babb í bátinn. Nancy gat ekki eignat börn sökum sjúkdóms sem hún hafði átt við að stríða í æsku. Nú voru góð ráð dýr! En Thomas/Tracy er greinilega ekki manneskja sem lætur svo auðveldlega slá sig út af laginu. Hún hafði að vísu farið í hormónameðferð og látið taka af sér brjóstin, en meira hafði hún ekki látið taka. Þannig að Thomas kallinn skellti sér bara í næsta sæðisbanka og keypti góða skvettu af sæði og græjaði þetta bara heima í svefnherbergi, væntanlega með góðri hjálp frá Nancy sinni

Afraksturinn lét svo ekki á sér standa. Thomas kveðst líða mjög vel og vera hress og fullur sjálfsöryggis og finnst það ekki á nokkurn hátt bitna á karlmennsku sinni að ver kasóléttur, síður en svo. Vonum við bara að fjölskyldunni vegni vel í framtíðinni...nema þetta sé bara allt bölvuð þvæla!


saga úr sveitinni

brennivin.jpgAfi minn var var alla sína tíð bóndi norður í Skagafirði og eins og gjarnan var með kalla á þeim tíma þá þótti honum sopinn góður. Amma mín var aftur á móti ekki jafn hrifin og vildi ekki hafa áfengi í sínum húsum. Hún hefur greinilega ráðið þannig að afi varð að finna einhverja leið til að geta fengið sér brjóstbirtu við og við en haldið um leið heimilisfriðinn. Honum datt því það snjallræði í hug að grafa smá holu í heybing í fjárhúshlöðunni og stinga þar inn brennivínspela til að hafa við hendina ef þorstinn kallaði.

Þetta gekk alveg ljómandi vel nema hvað einn daginn þegar synirnir á heimilinu (sem voru þá líklega á bilinu 10-12 ára) voru að gefa kindunum þá rekast þeir óvart á pelann. Þar sem að amma mín var eins og áður sagði ekki mikil áhugamanneskja um áfengisdrykkju þá vakti þessi forboðna vara mikla athygli og auðvitað varð að vita út á hvað allt þetta gekk. Því var laumast heim og máð í brúsa af kaffi og góðum slatta af innihaldi pelans bætt út í (þannig höfðu þeir séð kallana gera þetta á góðum stundum). Fyrstu soparnir voru víst ekki sérlega bragðgóðir en áfram héldu þeir að hella þessu í sig því þetta var of spennandi og of forboðið til að sleppa því.

Allt í einu fór svo áfengið að hafa áhrif (enda væntanlega ekki þurft mikið til) og þeir urðu grænir og bláir í framan og og allt sem hafði farið ofan í maga klukkutímana þar á undan vildi nú sem ólmast koma upp aftur. Og þar sem þeir sitja þarna undir hlöðuveggnum með brennivínspelann og útældir, orðnir hvítari en lík kemur þá ekki afi minn þar að. Hann stendur fyrir framan þá í smá stund og horfir á þá og segir svo: "Mikið helvíti eruð þið fullir, strákar." Síðan heldur hann bara sína leið og þetta var ekki rætt meir

Amma mín, sem þurfti svo að hjúkra sjúklingunum tók þessu ekki jafn vel. En brennivínspelinn fékk að vera í friði á sínum stað eftir þetta. 


Segiði svo að það gerist ekkert í Reykjavík!

08Já Reykjavík er sko staðurinn þar sem fjörið er í pólitíkinni. Óla F. greyinu verður það á einn daginn að gleyma að taka lyfin sín og og áður en hann rankar aftur við sér er búið að dubba hann upp sem borgarstjóra í nýju meirihlutasamstarfi! Að vísu gleymdist að athuga í öllu havaríinu hvort aðrir fulltrúar flokksins vildu vera með en það þurfti bara að drífa þetta af, það var landsleikur í sjónvarpinu og svona.

Og hver var svo ástæðan? Ja, Óla fannst sem baráttumálum Frjálslyndra hefði ekki verið gert nógu hátt undir höfði sem eru.....uhhh....uummm...hérna...já, niður með kvótakerfið, burt með útlendinga og flugvöllinn heim. Mjög göfug markmið allt saman auðvitað. Eitthvað líkaði honum heldur ekki hvað Bingi var kaupglaður fyrir kosningarnar. Óli hefur kanski ekki áttað sig á því að Bingi er í öðrum flokki og ætti því ekkert að vera að skipta sér að því hvað hann kaupir mörg sokkapör. Bingi er bara nútíma metrómaður sem vill vera fínn í tauinu og hvað er verið að gera veður út af 19 pörum af sokkum? Ég meina hver kannast ekki við að það hverfur alltaf annar sokkurinn í þvottavélinni og kanski var hann líka með fótsvepp, hvað veit maður? Og 27 skyrtur og 8 jakkaföt eru ekki mikið í amstri dagsins. Kanski var líka þvottavélin hans biluð og ekki lætur maður mömmu sína þvo af sér þegar maður er þrjátíuogeitthvað ára gamall (nema maður sé Þorsteinn Davíðsson auðvitað).

Sagt er að einstakur vinskpur Villa Vill og Óla F hafi verið kveikjan að þessu nýja meirihlutasamstarfi  og hef ég heyrt af manni sem var vitni af fundi þeirra tveggja þar sem þetta samstarf var útkljáð. Ég sel þetta að vísu ekki dýrara en ég keypti, en hvarjum á maður að trúa í dag?

Villi: Jæja Óli minn, þetta var nú meira klúðrið þarna um daginn en við vinirnir ættum nú að geta reddað því, er það ekki?

Óli F:eee....

Villi: Já, já Óli minn ég finn örugglega pilluglasið þitt einhversstaðar. En hvernig lýst þér á að verða borgarstjóri? Þú færð skrifstofu og einkaritara og ert boðinn í fullt af veislum, svaka stuð

Óli F: eee...

Villi: Já þá segjum við það. Allt klappað og klárt. Þú skrifar svo bara hérna undir. Nú finnurðu ekki gleraugun þín? Árans. En þetta er svo sem ekkert merkilegt sem stendur. Bara hvaða tegund nýji borgarstjórabíllinn á að vera og svona. Krakkarnir hérna í Valhöll slógu þessu inn fyrir mig, ég er orðinn hrikalega stirður í vélrituninni. Ég er nú eiginlega ekki búinn að lesa þetta sjálfur heldur, en hver þarf að lesa svona plögg þegar maður er orðinn borgarstjóri með aðstoðarmann sem gerir allt fyrir mann, ha?

Óli F: eee...

Villi: Fínt Óli minn. Bíddu, eru nokkuð fleiri en þú í þessum flokki? Ég meina fleiri sem þarf eitthvað að spjalla við? Það má auðvitað alltaf finna einhver þægileg innidjobb ef vantar. Krakkarnir redda því

Óli F: eee....

Villi: Jæja Óli minn best að drífa sig, krakkarnir bíða. Langar að fara að skipa sig í nefndir og allt þetta puð sem tilheyrir því að stjórna. Úps! Heldurðu að ég hafi ekki setið á pilluboxinu þínu allan tímann! Já og taktu bananann úr eyranu á þér Óli minn, ekki gott að láta sjá sig svoleiðis í sjónvarpi

Myndin hér til hægri er svo fyrsta opinbera myndin af nýja borgarstjóranum.


Davíðsson og dómaradjobbið

davidssonEf einhverjum kom hið minnsta á óvart hver var valinn í dómaradjobbið þarna fyrir norðan þá hefur sá hinn sami væntanlega gleymt því í hvaða landi hann býr. Svona er þetta bara hérna og hefur alltaf verið.

Árni Math segist auðvitað hafa valið besta manninn samkvæmt þeim meðmælum sem fyrir lágu og þeim forsendum sem gefnar voru (eftir á, segja illar tungur). Ég skoðaði auðvitað rökstuðninginn fyrir því að Davíðsson var talinn manna hæfastur og allt eru þetta góð og gegn rök. Fyrir þá sem ekki hafa lagt sig eftir því að kynna sér málið nægilega vel og ganga um með sleggjudóma um þennan öðlingsdreng sem Davíðsson eflaust er, þá eru hér helstu atriði.

Ráðherra telur Davíðsson greindan ungan mann sem lauk lögfræðinámi með ágæta einkunn, var duglegur að læra heima auk þess sem hann fór alltaf út með ruslið og ryksugaði herbergið sitt.  Hann starfaði á lögfræðistofu um skeið þar sem hann hafðu umsjón með útsendingum innheimtubréfa og innheimtu bókasafnsskulda. Með elju og þrautsegju vann hann sig upp í það að sjá um skiptingu dánarbúa og fórst það svo vel úr hendi að ekki eru dæmi um svo mikið sem einn óánægðan viðskiptavin. Frami hans innan lögfræðistofunnar hafði ekkert með það að gera að hún var rekin af góðvini og flokksbróður föður hans.

Það kom því ekki á óvart að fyrrum dóms- og kirkjumálaráðherra réði Davíðsson sem aðstoðarmann sinn og þeir sem halda því fram að það hafi einungis verið vegna þess að ráðherrann var góðvinur og flokksbróðir föður hans þá eru þeir hinir sömu haldnir illum hvötum. Þar sá Davíðsson um hin margvíslegu verkefni sem nýtast munu í starfi dómara. Hann hafði t.d umsjón með rauðvínspotti starfsmannafélags ráðuneytisins og þótti sanngjarn og heiðarlegur. Hann sá einnig um að kaupa meðlæti fyrir vikulega morgunfundi starfsfólks ráðuneytisins og kom jafnvel stundum sjálfur með heimabakað bakkelsi og var eftir því tekið að hann tók ekkert aukalega fyrir það.

Hann sat í hinum ýmsu nefndum og starfshópum á vegum ráðuneytisins. Var ritari nefndar sem fjallaði um  innréttingar og aðbúnað dómsala landsins og sá um að velja sófaáklæði og gluggatjöld. Hann stýrði starfshóp sem hafði það verkefni að setja saman stundatöflu fyrir lögregluskólann auk þess sem hann var Ríkislögreglustjóra innan handar með val á einkennisborðum og ermastrýpum og hann hafði það verkefni að sjá til þess að prestshempur bæru ávallt sama lit í öllum kirkjum landsins.

Davíðsson hefur auk þessa alls aflað sér margvíslegrar þekkingar og reynslu sem munu nýtast vel í starfi dómara. Hann þykir smekkmaður á hálstau, hefur lesið Sjálfstætt fólk tvisvar, var dómari í borðtennismótum nemendafélags MR, hefur lokið námskeiði í blómaskreytingum og skrautritun og síðast en ekki síst séð um akstur ellilífeyrisþega á kjörstað og var mál manna að öllum hafi honum tekist að koma inn í kjörklefann hversu farlama sem viðkomandi var og tók það jafnvel oft að sér sjálfur að krossa við á kjörseðlinum ef kjósandinn var gleraugnalaus eða eilítið of skjálfhentur. Hann telur það líka grundvallaratriði í lýðræðisþjóðfélagi að fólk neyti kosningaréttar síns og er boðinn og búinn til að aðstoða við að svo verði. Aldrei lét hann annasmat starf sitt í kjörstjórn Flokksins koma í veg fyrir að hann gæti rétt samborgurunum hjálparhönd.

Ég meina, hvað er svo málið?!

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband