Færsluflokkur: Lífstíll
24.2.2008 | 22:59
Þú ert það sem þú borðar
Hver kannast ekki við umræðuna um ofvirkni og athyglisbrest? Börn í dag eru ekki lengur óþekktarormar og slugsar sem ekki hafa verið siðuð almennilega til af foreldrum sínum heldur eru þau með ofvirkni og athyglisbrest og gott ef ekki lesblindu líka. Það er sem sagt búið að gera þau að heilbrigðisvandamáli með tilheyrandi lyfjaáti og sérfræðimeðferðum í staðinn fyrir að kenna þeim einfalda mannasiði og að hegða sér skikkanlega. Leti og uppivöðslusemi eru svo afsökuð með því að aumingja barnið þjáist af ofvirkni og geti bara ekkert í þessu gert.
En það er ýmislegt hægt að gera annað en að troða í krakkann rítalíni. Til að byrja með er hægt að ala hann almennilega upp og kenna mannasiði en til þess þarf tíma og einbeittan vilja og oft á tíðum virðast foreldrar hafa hvorugt. Skólinn á að sjá um þetta. Annað sem myndi eflaust bæta ástandið á mörgum heimilum og í mörgum skólastofum er að gefa börnunum almennilegan mat. Það eru nefnilega gömul sannindi og ný að þú ert það sem þú borðar. Og þetta á reynadar ekki bera við um börn heldur hreinlega alla. Fólk nennir ekki orðið að elda mat frá grunni lengur, heldur er allt keypt tilbúið eða eitthvað unnið.
Vitið þið t.d hvað er í pylsum (sjá mynd hér til hliðar af innvolsinu í pylsu) eða örbylgjumat? Við erum endalaust að belgja okkur út af litarefnum, rotvarnarefnum, þráavarnarefnum, þykkingarefnum, bindiefnum, sýrum, sætuefnum, bragðaukandi efnum o.s.frv, o.s.frv. Næst þegar þið kaupið eitthvað tilbúið athugið á umbúðunum hvað það eru mörg E-efni í viðkomandi vöru. Ég er t.d með hérna fyrir framan mig dós af Coke Light og í henni eru E 150 sem er lirarefni, E 338 og E 339 sem eru sýrur, E 211 sem er rotvarnarefni og sætuefnið aspartam. þetta getur ekki verið hollt. Mér finnst líka alltaf skondið að sjá þegar því er slegið upp í auglýsingum að þessi eða hin matvaran sé fitusnauð. Gott og vel, en það er ekki minnst á hvað er mikill sykur í viðkomandi vöru og ef það er eitthvað sem við þurfum ekki á að halda að borða meira af þá er það sykur, ekki fita. Í einni lítilli fernu af Frissa Fríska sem fólk fóðrar börnin sín gjarnan á eru 20 gr. af sykri sem eru ca. 10 sykurmolar og í einni dós af Skólajógúrt eru 5 sykurmolar. Svo er fólk hissa á því að börnin séu snar vitlaus!
Á mínum sokkabandsárum norður í landi var ekki svona mikið um unnin matvæli eins og er í dag og þar var eldað á hverju heimili nánast á hverjum degi (hina dagana voru afgangar). Hamborgarar og franskar voru sjaldan í boði og pizzuvæðingin hafði ekki yfirtakið allt enn og sælgæti var spari. Ég minnst þess heldur ekki að í minni grunnskólatíð hafi einhver átt við ofvirkni, athyglisbrest eða einhverjar geðraskanir að stríða. Stundar athyglisbrestur var oftast læknaður snarlega á staðnum með hótun um heimsókn til skólastjórans. Það voru vissulega alltaf einhverjir einn eða tveir óþekktargemlingar í hverjum bekk en enginn sem var óviðráðanlegur eða stjórnlaus og kennarar þurftu ekki að vera búnir að taka námskeið í sjálfsvarnaríþróttum til að komast í gegn um skólaárið.
Hvernig væri nú að í staðinn fyrir að aumingjavæða fjöldann allan af grunnskólabörnum og moka í þau lyfjum að þeim væri bara gefið almennilega að borða?
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
21.2.2008 | 01:27
Þú gætir haft það verra...
Það eru margir sem sífellt nöldra og tuða yfir vinnunni sinni. Hvað hún sé nú leiðinleg og einhæf og erfið og heilsuspillandi og mannskemmandi og hver veit hvað. Svo ekki sé minnst á hvað kaupið sé lélegt og vinnutíminn langur. Ég hélt reyndar að nú orðið væru það Pólverjar sem sinntu öllum þeim störfum sem þessi lýsing ætti við en það kann að vera misjafnt hvað fólki finnst erfitt og heilsuspillandi. Einhverjum finnst kanski erfitt að tapa 700 millum í hlutabréfabraski meðan aðrir gera það með brosi á vör og fá feitan starfslokasamning fyrir ómakið
En þið sem finnst þið vera í ömurlegu djobbi getið mörg hver huggað ykkur við það að það er til ýmislegt verra en það sem þið þurfið að gera. Kyngreinir á kjúklingabúi er t.d varla mjög eftirsóknarvert starf en það er samt sem áður starf sem einhver þarf að sinna. Það felst sem sagt í því að skoða upp í afturendann á hænuungum til að komast að því hvers kyns þeir eru því t.d eggjabú hefur lítið með fjöldann allan af hönum að gera. Þeir eru væntanlega bara étnir.
Ef þú vinnur hjá svitalyktareyðisframleiðanda gæti starf þitt verið að þefa af mis sveittum handarkrikum allan daginn til að fylgjast með gæðum framleiðslunnar.
Vísindarannsóknir á hvölum er eitthvað sem við könnumst við. Hér eru þeir bara drepnur og innvolsið skoðað í rólegheitum. Hjá siðaðri þjóðum eru ekki eins brútal aðferðir notaðar heldur er hvalaskít safnað og hann skoðaður gaumgæfilega. Og það er sem sagt til fólk sem vinnur við að veiða upp hvalaskít
Að vera vísindamaður er fancy djobb en vísindastörf eru æði misjöfn. Fornleifafræði þekkja allir en það er líka til nýleifafræði ("garbology") sem felst í því að gramsa í ruslatunnum og ruslahaugum til að rannsaka t.d neyslumynstur fólks. Slíkar rannsóknir hafa til að mynda sýnt fram á það að bleyjur er um 2% af venjulegum ruslahaug meðan 45% er ýmiskonar pappír og að pylsa getur geymst í vel þjöppuðum ruslahaug í allt að 25 ár án þess að rotna að fullu. Einnig að það er samhengi á milli kattaeignar (þ.e losunar á kattaúrgangi) og lesturs á Séð og Heyrt
Að gelda fíla í dýragörðum er líka starf sem þarf að sinna því ógeltir fílar eins og önnur karldýr, geta verið viðskotaillir og önugir. En þar sem fílaeystu er aðeins á stærð við fótbolta en fíllinn sjálfur all mikið stærri og erfitt að komast að þeim þá er þetta ekki starf fyrir hvern sem er.
Starf ræstitæknis þykir ekki spennandi nú til dags en að vera ræstitæknir í líkhúsi þar sem framkvæmdar eru krufningar er líklega mest óspennandi af öllu nema þú sért týpan sem finnst spennandi að finna alltaf eitthvað nýtt í ruslinu, ef ekki búta af rifbeinum eða afskurð af húð þá bita af lifur eða eitt eyra eða tvö. Viðkvæmni fyrir blóði og öðrum líkamsvessum gengur heldur ekki í því starfi.
Þannig að þið sem kvartið undan vinnunni ykkar takiði gleði ykkar á ný, þetta gæti nefnilega verið miklu verra
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
14.2.2008 | 23:23
saga úr sveitinni
Afi minn var var alla sína tíð bóndi norður í Skagafirði og eins og gjarnan var með kalla á þeim tíma þá þótti honum sopinn góður. Amma mín var aftur á móti ekki jafn hrifin og vildi ekki hafa áfengi í sínum húsum. Hún hefur greinilega ráðið þannig að afi varð að finna einhverja leið til að geta fengið sér brjóstbirtu við og við en haldið um leið heimilisfriðinn. Honum datt því það snjallræði í hug að grafa smá holu í heybing í fjárhúshlöðunni og stinga þar inn brennivínspela til að hafa við hendina ef þorstinn kallaði.
Þetta gekk alveg ljómandi vel nema hvað einn daginn þegar synirnir á heimilinu (sem voru þá líklega á bilinu 10-12 ára) voru að gefa kindunum þá rekast þeir óvart á pelann. Þar sem að amma mín var eins og áður sagði ekki mikil áhugamanneskja um áfengisdrykkju þá vakti þessi forboðna vara mikla athygli og auðvitað varð að vita út á hvað allt þetta gekk. Því var laumast heim og máð í brúsa af kaffi og góðum slatta af innihaldi pelans bætt út í (þannig höfðu þeir séð kallana gera þetta á góðum stundum). Fyrstu soparnir voru víst ekki sérlega bragðgóðir en áfram héldu þeir að hella þessu í sig því þetta var of spennandi og of forboðið til að sleppa því.
Allt í einu fór svo áfengið að hafa áhrif (enda væntanlega ekki þurft mikið til) og þeir urðu grænir og bláir í framan og og allt sem hafði farið ofan í maga klukkutímana þar á undan vildi nú sem ólmast koma upp aftur. Og þar sem þeir sitja þarna undir hlöðuveggnum með brennivínspelann og útældir, orðnir hvítari en lík kemur þá ekki afi minn þar að. Hann stendur fyrir framan þá í smá stund og horfir á þá og segir svo: "Mikið helvíti eruð þið fullir, strákar." Síðan heldur hann bara sína leið og þetta var ekki rætt meir
Amma mín, sem þurfti svo að hjúkra sjúklingunum tók þessu ekki jafn vel. En brennivínspelinn fékk að vera í friði á sínum stað eftir þetta.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.2.2008 | 20:05
Iðnaðarmenn
Hver kannast ekki við hryllingssögur af samskiptum sínum eða annara við iðnaðarmenn? Þegar taka þarf til hendinni á heimilinu þá er kostnaðurinn ekki stærsti höfuðverkurinn heldur það hvort iðnaðarmaðurinn sem fenginn var til verksins lætur yfir höfuð sjá sig það árið eða þá hort hann mæti galvaskur, aftengi hjá manni baðið og klóstttið og hverfi svo af yfirborði jarðar.
Það hræðilegasta af öllu er svo að þurfa að fá fleiri en einn iðnaðarmann til að klára eitthvað verk. Fyrst kemur múrarinn, lítur í kring um sig og fyrst píparinn er ekki mættur þá fer hann aftur. Þegar píparinn svo kemur 6 vikum seinna er múrarinn að vinna í 58. íbúða blokk í Kópavogi sem á að afhendast í næsta mánuði og hefur því engin tök á að sinna þér og þínu pínulitla baðherbergi. Mánuði seinna þegar þú hefur loksins náð að véla píparann til að tengja fyrir þig klósett og sturtuklefa með loforðum um að allt verði greitt á staðnum og að sjálfsögðu svart þá er múrarinn farinn í frí til Tælands og þú notast við óflísalagt baðherbergið næstu 8 vikurnar. Þá loksins gefstu upp og færð annan múrara til að klára. Sá lofar að koma strax eftir helgi en 3 vikum síðar hefur ekkert bólað á honum þrátt fyrir fögur fyrirheit og þú ferð að fyllast örvæntingu og ferð í alvöru að íhuga að kaupa þér bara nýja íbúð til að losna frá þessu. Múrari nr. tvö mætir þó að lokum og klárar verkið og þú grætur af gleði og heitir því að framkvæma aldri aftur nokkurn skapaðan hlut heima hjá þér. En þá er ekki allt búið, hálfu ári seinna mætir múrari nr. eitt og ætlar að fara að klára baðherbergið sem hann hafði tekið að sér að flísaleggja og verður alveg brjálaður þegar þú segir honum að þú hafir fengið annan í djobbið og hótar að fara með málið lengra.
Nú spyr ég ykkur iðnaðarmenn, fynnst ykkur hreinlega ekkert athugavert við þetta? Jú jú, það er eflaust mikið að gera en það er mikið að gera hjá fullt af öðru fólki en ekki hagar það sér svona. Spáðu bara í að þú þurfir að fara í uppskurð til að láta taka úr þér botnlangann. Þú mætir á spítalann en þá er svæfingalæknirinn ekki mættur svo það fara bara allir í mat á meðan og skilja þig eftir á skurðarborðinu. Einhvarntíma eftir hádegi þagar allir hafa skilað sér þá hefst skurðaðgerðin en það er varla búið að opna þig þegar skurðlæknirinn þarf að fara í símann en kemur svo bara ekkert aftur. Skurðurinn er því teypaður saman svona til bráðabyrgða svo innyflin á þér fari ekki að detta út því það næst ekki í annan skurðlækni til að klára. Tveim dögum seinna þegar þú ert farinn að kvarta hástöfum er loksins haldið áfram með aðgerðina þó það sé alveg brjálað að gera hjá skurðlækninum. Hann má því ekkert vera að því að sauma þig saman þegar búið er að rífa úr þér botnlangann þar sem það eru 3 nýrnaaðgerðir sem bíða og þurfa að klárast áður en viðkomandi sjúklingar fara í skaðabótamál við spítalann vegna tafa. Þú þarft því að bíða með opinn skurð fram yfir helgi þar sem enginn svarar símanum um helgar og á endanum er það læknanemi sem þarf að taka verklegt próf sem saumar þig saman. Þú þarft svo sjálfur að útskrifa þig þar sem enginn á þínum gangi virðist tala íslensku.
Ef þið haldið að ég sé að skrifa þetta bara út af því að píparinn sem ætlaði að koma fyrir 3 vikum er ekki ennþá mættur, þá er það ekki rétt
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.2.2008 | 19:42
vinnuframlag
Við íslendingar veltum okkur mikið upp úr vinnunni okkar og það skiptir okkur voðalega miklu máli hvað þessi eða hinn gerir. Þegar við hittum fólk þá spyrjum við gjarnan fyrst hvernig viðkomandi hafi það og síðan hvort það sé ekki nóg að gera. Við vinnum þjóða lengstan vinnudag en skilum kanski ekki að sama skapi miklu vinnuframlagi per vinnustund. Við höngum nefnilega í vinnunni bara til að snapa okkur nokkra eftirvinnutíma þar sem dagvinnulaunin eru hreinlega ekki það merkileg hjá mörgum (það geta ekki allir unnið hjá fjármálafyrirtæki). Við þurfum líka að eignast allt og það ekki seinna en núna. Svo eru það þeir sem lifa í þeirri trú að þeir séu ómissandi og fyirtækið verði hreinlega óstrfhæft ef þeirra nýtur ekki við. Þetta eru yfirleitt karlmenn á miðjum aldri. Og þó það sé leitt að segja ykkur það strákar mínir, þá er ENGINN ómissandi.
Svo er það fólkið sem þarf alltaf að vera að skreppa. Það eru líka oftast karlmenn en þeir eru á öllum aldri. Þeim finnst það sjálfsagður réttur sinn að fara í klippingu, skreppa í byggingavöruverslun, kíkja á bílasölu eða stússast í bankanum allt á vinnutíma en passa sig þó alltaf á að eyða ekki matartímanum sínum í svona útréttingar. Annar hópur fólks sem fær ekki verðlaun fyrir viðveru er fólk með börn. Í því tilviki eru það konurnar sem þurfa að skreppa með krakkana til tannlæknis, ná í þau og keyra þeim hingað og þangað, mæta á foreldrafundi sem aldrei virðist vera hægt að halda nema milli 9 og 5 á virkum dögum, svo verður krakkinn veikur mörgum sinnum á hverju ári og oftast er það konan sem er þá heima (karlinn er auðvitað svo ómissandi í sinni vinnu), það eru vetrarfrí og starfsdagar og námsdagar og hvað allt þetta heitir og þá eru krakkarnir heima og einhvar þarf að hanga yfir þeim þar og leikskólinn er lokaður eða dagmamman í frí o.s.frv, o.s.frv. Listinn er endalaus. Svo er barnafólk meira og minna ósofið þannig að það gerir hvort eð er ósköp lítið af viti í vinnunni anyway. Þarna er líklega komin skýringin á lélegum vinnuafköstum okkar íslendinga. Og ég hef ekki einu sinni minnst á fæðingarorlofið!
Ef ég væri atvinnurekandi þá myndi ég bara ráða homma í vinnu. Þá væri viðkomandi algerlega laus við allt þetta ensalausa vesen sem er á barnaliðinu svo maður tali nú ekki um að missa fólk í fæðingarorlof heilu og hálfu árin. Vinnustaðurinn væri þá líka alltaf einstaklega snyrtilegur og það væri gjarnan nýbakað með kaffinu og maður þyrfti ALDREI að hlusta á raus um fótbolta eða bíla. Og ef maður þyrfti að fá álit á nýrri greiðslu eða nýjum skóm (því auðvitað nennir maður ekki að spyrja miðaldra kallana eða ósofna barnafólkið) þá fengi maður sérfræðiálit á staðnum.
Því segi ég, inn með hommana en út með barnafólkið!
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.2.2008 | 00:49
þorramatur
Þá er tími þorrablótanna runninn upp. Þessi undarlegi siður að safnast saman og borða kæstan og súran mat með tilheyrandi ólykt og sturta í sig brennivíni í leiðinni er rakinn til stúdenta í Kaupmannahöfn í kring um 1880. Þetta voru sem sagt háskólastúdentar með heimþrá og uppfullir af nostalgíu auk þess að vera alltaf til í gott fyllirí eins og stúdentum sæmir sem byrjuðu á þessu öllu saman. Svo var það einhver vert á Naustinu sem sá fram á lítinn bissness á þessum árstíma sem fékk þá snjöllu hugmynd að endurvekja þennan "þjóðlega" sið fyrir ekki svo mörgum áratugum síðan. Og hér sitjum við og slöfrum í okkur magálum og hrútspungum og látum eins og okkur finnist þetta alveg æðislega gott. Þetta er kanski maturinn sem var étinn á Þorranum hér á öldum áður þegar ekkert annað ætt var til en forfeður okkar átu líka fiskiroð, skinnbækur og skóna sína ef út í það er farið. Ég legg því til að það verði bætt í þorrabakkana pari af tilgengnum sauðskinsskóm. Táfýlan ætti líka vel við lyktina af því sem fyrir er í bakkanum. Síðan mætti hafa eftirlíkingu af gömlu handriti til að naga.
Þó að ég sé alin upp í sveit fyrir norðan þar sem svið og slátur voru oft á borðum þá get ég ekki sagt með góðri samvisku að mér þyki þetta eitthvað gríðarlegt gúrme og ég get heldur ekki sagt að ég gargi af gleði þegar tími þorrablótanna rennur upp. Það er sagt (og ég trúi því alveg) að maður byrji að borða matinn með augunum og ef maður horfir yfir þorrabakkann þá fæ ég nú ekki vatn í munninn. Það sem er ekki úldið og bæði lyktar og bragðast eins og frosið hland það er grátt á litinn með mysuslepjuna lekandi af því eða þá að það eru höfuð og útlimir af klaufdýrum með öllu nema hári. Undantekningin á þessu er svo sú að mér finnst fátt betra en kofareykt hangikjöt sem er náttúrulega bara kjöt sem er búið að hanga í reyk af rolluskít í 2 vikur og bragðast alveg jafn vel og það hljómar:) Það er líka annað sem mér finnst vera hin mesta sælkerafæða en það er reykt nautgripatunga. Þetta er ekki mikið á borðum svona almennt og hafa sumir vinir mínir því rekið upp stór augu þegar þeir hafa opnað hjá mér ísskápinn og í sakleysi sínu verið að ná sér í mjólk í kaffið og horft á risastóra beljutungu á disk.
Það er einmitt þorrablót í vinnunni hjá mér á morgun og ég er að hugsa um að beila. Er bara ekki að nenna að sitja uppi með draugfulla og illa lyktandi vinnufélaga af súrmatsáti, heilt kvöld.
Aftur á móti finnst mér svo bolludagurinn ljómandi skemmtilegur siður :)
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
4.11.2007 | 23:28
Kaupæði...eða ekki?
Ég var að koma heim frá útlöndum í dag. Nánar til tekið frá Heidelberg í Þýskalandi þar sem kompanýið hélt árshátíð með pompi og prakt. Ég komst þarna að því að ég er alveg hætt að nenna að djamma fram á nótt, finnst m.a.s fullt fólk í flestum tilvikum leiðinlegt og ég tala nú ekki um þegar það fer á trúnó og byrjar að dásama hundinn sinn! How boring is that?! En ég komst líka að því að það vantar algerlega í mig þetta eina sanna íslenska kaupæðisgen. Það eina sem ég keypti þessa 4 daga fyrir utan mat og drykk sem rann ljúflega niður á staðnum, var áfengi og súkkulaði. Ég hafði ekki einu sinni ástæðu til að fara inn í verslanir sem seldu eitthvað annað en áfengi og súkkulaði.
En áfengi er ekki bara áfengi og þess þá síður er súkkulaði bara súkkulaði. Ó nei! Maður lætur alls ekki hvað sem er ofan í sig, í þessum efnum eru gerðar kröfur hér á þessu heimili. Það eru liðnir þeir dagar þegar screwdriver og black russian þóttu hinir mestu eðaldrykkir og Lionbar og Siríuslengja aldeilis ljómandi fínt súkkulaði. Nú lítur maður ekki við öðru en 12 ára Single Malt Whisky og Chateau vínum frá Búrgúndí og maður hefur um leið uppgötvað listina að drekka áfengi bragðsins vegna en ekki áhrifanna. Þegar vinnufélagarnir voru hættir að nenna að vera dannaðir og svolgra í sig Mojito sem þeim þóttu örugglega ekki einu sinni góðir og voru komnir á 5. glas af vodka í kók ákvað ég að segja því partýinu lokið og horfði frakar á James Bond á þýsku áður en ég sofnaði. OK, það var líka verið að syngja og spila rútubílalög á kassagítar. That did it!
Súkkulaði er svo alveg sér kapítuli út af fyrir sig. Sælgæti eins og maður fær úti í sjoppu er ekki súkkulaði. Það er smjörlíkis og sykurjukk og maður kaupir ekki þannig þegar hægt er að þá belgískar kampavínstrufflur! Súkkulaði á ekki að háma í sig eins og soltinn grís að éta súrkál. Það á að borða rólega, lítið í einu og njóta hvers munnbita og að drekka gott kaffi með er punkturinn yfir i-ið. Þá vitiði það, það er til nóg af súkkulaði hér á þessum bæ...ennþá
Talandi um ferðalög, hvernig í ósköpunum stendur á því að það hefur enginn hannað almennileg sæti í flugvélar! Það er komið árið 2007 og maður er ennþá að sitja í þessum ömurulega óþægilegu svamphlunkum sem flugvélaframleiðendur eru enn að bjóða farþegum sínum upp á. Það væri kanski hægt að horfa fram hjá óætum mat, engu fótaplássi, vondu lofti og helv. hávaða ef sætin væru almennileg! Findist fólki bara allt í lagi að kaupa nýja Toyotu og það væru nákvæmlega eins sæti í henni og í Corollu ' 68?!
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
22.9.2007 | 19:32
Uppskriftir
Þegar maður er farinn að skiptast á mataruppskriftum við vini sína í staðinn fyrir nýjustu djammsögurnar þá er maður formlega orðinn miðaldra. Auk þess sem "nýjustu" djammsögurnar hjá sumum eru síðan fyrir aldamót og ekki lengur sérlega ferskar. Það eru fjölskyldur og starfsframar sem þarf að sinna og allt í einu eru liðin 5 ár síðan viðkomandi sletti úr klaufunum síðast.
Hún Linda vinkona mín er lengi búin að suða í mér að fá eina eða tvær uppskriftir en ég hef þrjóskast við þar sem miðaldramennska er ekki alveg að heilla mig. En svona til að gera henni greiða þar sem hún er kjarnakona austur í sveit með fullt hús af börnum auk þess að vera í fullri vinnu, hugsa um garðinn, vera í kvenfélaginu kirkjukórnum og sóknarnefndinni og er núna eflaust að taka slátur og sjóða niður rabbabarasultu þá kemur þetta hér. Ég geri mér alveg grein fyrir því að það hafa ekki allir tíma til að grúska í matreiðslubókum svona milli þess að sitja á kaffihúsum, lesa skáldsögur, hlusta á tónlist, fara í gönguferðir eða eyða heilu kvöldunum í tölvunni þó ég hafi það. Þetta ætti því að gagnast öllu uppteknu fjölskyldufólki og þeim sem vilja nýta það mikla og góða hráefni sem hér er að finna
Austur í sveit er heldur ekki hægt að hlaupa út í búð ef það vantar eitthvað í matseldina hvað þá að slá bara öllu upp í kæruleysi og panta sér pizzu. Það þarf að hugsa fyrir öllu og þegar við bætist að það eru margir munnnar sem þarf að metta er gott að vera hin hagsýna húsmóðir. Uppskriftirnar taka því mið af því. Það var úr ýmsu að velja eins og uppskrift af Lúðubuffi, Sláturstöppu og Kartöflutertu. Njólajafning og Áfasúpu gæti líka komið sér vel að kunna að matreiða og sömu leiðis Hænu í hlaupi eða Hryggvöðva af hesti ef margir eru í mat. En hér koma þessar uppskriftir Linda mín:
Súrsuð júgur
Skerið júgrið í 2-4 hluta eftir stærð. Skerið upp í spenana og útvatnið júgrið í 1-2 daga. Skiptið oft um vatn til þess að ná mjólkinni úr. Sjóðið júgrið í 1-3 klst. og kælið. Suðutíminn ter eftir tegund og aldri skepnunnar. Súrsið júgrið í skyrmysu. Á sama hátt má sjóða og súrsa lungu og hrútspunga
Fótasulta
Svíðið kindafætur ohreinsið eins og svið. Takið klaufarnar af. Sjóðið fæturna fyrst í saltlausu vatni (vegna fótaolíunnar). Fleytið fótaolíuna ofan af vatninu, það er mjög góð feiti sem nota má í kökur en einnig í smyrsl. Saltið, þegar búið er að ná feitinni, og sjóðið þangað til hægt er að smeygja beinunum úr. Stórgripahausa, ærhausa er ágætt að hafa með í sultunni. Sjóðið beinin í soðinu í dálitla stund og síið þau síðan frá. Sjóðið soðið niður þar til það er hæfilega mikið á móts við kjötið sem á að hafa í sultuna. Látið kjötið út í og sjóðið í 5-10 mín. Ausið síðan sultunni í grunn föt og kælið. Skerið sultuna í bita og geymið í mysu
Verði ykkur að góðu!
Í spilaranum hér til hliðar eru svo nokkur matarlög
Lífstíll | Breytt 23.9.2007 kl. 12:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
27.7.2007 | 01:12
Skemmtistaðir
Skemmtistaðir eru stór merkilegt fyrirbæri. Þar getur fólk komið saman í hópum og hagað sér eins og fífl ef því er að skipta og engum finnst það neitt sérstaklega athugavert. Þar sættir kvenfólk sig við að láta stara á sig og káfa á sér og er jafnvel til í að slengja brjóstunum framan í hvaða lúða sem er ef hann heldur á myndavél og allt kemur svo á netið daginn eftir. Oft að spá í hvort þessum dömum finnst það jafn sniðugt þá. Getur svo sem vel verið, ég er kanski bara svona old fashioned. Á skemmtistöðum finnst fólki ekkert að því að tapa sér á dansgólfinu og syngja hástöfum með gömlum Michael Jackson lögum og 2Unlimited eru bara cool
Orðatiltækið "allt er gott í hófi" á ekki við á þessum stöðum þar sem þykir ekki tiltöku mál að skvetta í sig eins og hálfri bjórtunnu ásamt öðru áfengi. Sjálfstjórn og sjálfsvirðing eru einhvernvegin ekki efst í huga margra þeirra sem sækja skemmtistaðina. Það er ekkert ömurlegra en gaurar sem hanga utan í hvaða pilsi sem þeir sjá og eru með það á hreinu að þeir séu gjörsamlega ómótstæðilegir þrátt fyrir að geta varla komið út úr sér gáfulegri setningum en "hvasegiru elsskan", eru orðnir glaseygðir og rauðir í framan með þrútin nef, hjólbeinóttir og innskeifir og búnir að týna skónum sínum eða eitthvað álíka. Kvenfólkið er svo oft ekkert skárra og eftir 12 Breezera finnst þeim svona gæjar sjálfsagt bara ómótstæðilegir! Að reyna að klöngrast um á háum hælum eftir 12 Breezera er líka alveg jafn ófoxy og maskari út að eyrum og D&G dressið gyrt oní nærbrækurnar að afta. Trúnó á kvennaklósettinu er líka alger martröð! Sérstaklega þegar 6 gellur eru búnar að loka sig inni á eina klósettinu á staðnum og helmingurinn af þeim er grenjandi og hinn helmingurinn í móðursýkikasti af því að kærastinn hafði talað við sína fyrrverandi í röð í bankanum fyrir 3 vikum síðan! Please, get a grip on yourself!!
Og hvað græðir fólk á þessu öllu saman? Jú, það endar heima með einhverjum sem það myndi ekki einu sinni vilja setjast við hliðina á í bíó undir venjulegum kringumstæðun, ekki einu sinni þó að væri búið að slökkva ljósin í salnum. Er hálf meðvitundarlaust af samkvæmisónotum (dannaða orðið yfir þynnku ) í sólarhring á eftir, hefur móðgað minnst 4 vinkonur í tilviki kvenna en verið laminn fyrir að rífa kjaft í tilviki karla, hefur eytt hálfum mánaðarlaunum á barnum, týnt skóm, símum, fötum, lyklum..., haltrar um í viku eftir að hafa dottið út úr leigubíl og lofar að gera þetta aldrei aftur. Það loforð er að vísu oftast gleymt um næstu helgi. Fólk sem sagt lærir aldrei!
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 01:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)