Færsluflokkur: Íþróttir
5.3.2008 | 00:50
Það kostar peninga að leika sér
Ég hef alltaf dáðst að fólki sem hefur atvinnu af því að leika sér að sama skapi og það er ekki laust við að ég öfundi það svolítið líka. Nú er ég ekki að tala um íslenska fjárfesta heldur íþróttamenn. Það er m.a.s fullt af fólki sem fær ógeðslega mikið af peningum fyrir að leika sér fyrir framan aðra.
Ástæðan fyrir því að ég er að tala um þetta er að núna er verið að stækka Laugardalsvöllinn þar sem jafnvel einhverntíma í ófyrirséðri farmtíð, ef við erum heppin og látum okkur dreyma, munu vinnast glæstir sigrar á knattspyrnuvellinum. Það eina sem skyggir á gleði kanttspyrnuforkólfanna er nánasarháttur og væl í einhverjum skrifstofublókum hjá borginni sem eru að gera veður út af smávægilegri umframeyðslu. Til að skýra þetta mál er hér stutt viðtal við Geirmund Þórsteinsson aðstoðar gjaldkera hjá KSÍ
Blm: Nú hefur vinna við stækkun Laugardalsvallar farið 400 milljónum fram úr áætlun, hvernig skýrið þið það?
GÞ: Ja þessi áætlun var nú gerð í fyrra og er klárlega barn síns tíma og margt hefur breyst síðan þá
Blm: Eins og hvað?
GÞ: Tja, fyrir það fyrst er núna árið 2008 sem var klárlega ekki í fyrra og svo er bara allt orðið svo ferlega dýrt!
Blm: Nú eigum við fótboltalandslið sem getur ekki neitt, er einhver ástæða til að vera að púkka undir það?
GÞ: Við hjá KSÍ lítum svo á að nú sé leiðin bara upp á við, sérstaklega eftir frækinn 2-0 sigur á landsliði Tonga í vináttulandsleik nýverið.
Blm: En nú mættu leikmenn Tonga í strápilsum og voru berfættir auk þess sem þeir voru aðeins 10 í liðinu þar sem fundust ekki fleiri í landinu sem kunnu fótbolta
GÞ: Alltaf skulið þið fréttamennirnir þurfa að gera lítið úr afrekum okkar fræknasta íþróttafólks á erlendri grundu! T.d komst íslenskur skíðamaður heilu og höldnu niður brekku í stórsvigskeppni í Danmörku um daginn og ég minnist þess ekki að það hafi verið eytt mörgum orðum í það í fjölmiðlum
Blm: Þessi brekka var álíka brött og Arnarhóll
GÞ: Arnarhóll getur verið ansi brattur skal ég segja þér væni minn!
Blm: En aftur að vellinum, þykir það eðlilegt að helmingur áhorfendasvæðisins sé undirlagður undir VIP stúkur með 3 börum, lazy-boy stólum, prívat 4 stjörnu veitingastað, mini golfi, nuddi og sánaklefa?
GÞ: Við þurfum auðvitað að gera vel við okkar styrktaraðila, þessir bankakallar eru bara svo góðu vanir.
Blm: En hvað með að eyða 120 milljónum í að innrétta skrifstofur og fundaraðstöðu KSÍ þar sem er m.a 70 manna bíósalur, vísundaskinn á öllum stólum og koníaksstofa sem var sér innflutt í heilu lagi frá Búrgúndí?
GÞ: Við hjá KSÍ erum einfaldlega stórhuga og erum ekki að tjalda til einnar nætur
Blm: Og er það satt að það hafi gleymst að gera ráð fyrir kvennaklósettum og að blaðamannastúkan sé í gámi úti á bílastæði?
GÞ: Ja konan mín hefur nú nokkrum sinnum komið með mér á leiki og ég minnist þess ekki að hún hafi þurft að fara á klósettið
Blm: En nú hljóta að vera spilaðir einhverjir kvennalandsleikir enda íslenska kvennalandsliðið að gera góða hluti?
GÞ: Ha? Hvaða kvennalandslið?
Blm: Í fótbolta
GÞ: Nú, er það til?! Ja ekki er öll vitleysan eins segi ég nú bara! Áður en maður veit af eru þessar kellingar farnar að keyra vörubíla eða skipta sér af stjórnmálum!
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
29.10.2007 | 01:40
Íþróttir
Það er eitthvað voðalega mikið verið að velta sér upp úr afleitu gengi fótboltalandsliðsins núna. Fyrst lá það fyrir landsliði Uzbekistan, sem þótti frekar niðurlægjandi þar sem ekki er mikil hefð fyrir fótbolta þar í landi og þurfti t.d að útskýra það í löngu máli fyrir markverði liðsins að hann gæti ekki láta móður sína færa sér heita hænsnasúpu meðan á leiknum stóð auk þess sem vodkadrykkja leikmanna var líka bönnuð inni á vellinum þrátt fyrir hávær mótmæli. Dropinn sem fyllti mælinn var þó tap fyrir 10. bekk Valhúsaskóla í æfingaleik sem átti að vera til þess að auka sjálfstraust leikmanna þó reyndin hafi orðið allt önnur og snautlegt tap staðreynd. Þjálfarinn sá þó einhverja ljósa punkta í leik liðsins eins og t.d að allir leikmenn hefðu hlaupið eitthvað í leiknum og sparkað í boltann og nokkrir jafnvel skallað þó það geti ruglað vandaðri hárgreiðslu og dýrir eyrnalokkar gætu týnst. Þessi viðleitni þótti samt ekki nóg og þjálfarinn ekki endurráðinn.
Ósköp er það samt óréttlátt að þjólfararæfillinn taki alltaf á sig sökina ef illa gengur. Hvernig væri að leikmennirnir gerðu það líka? Það ætti því ekki bara að reka þjálfarann heldur hreinlega allt liðið eins og það leggur sig. Síðan yrði flutt inn nýtt lið frá Póllandi sem kæmi í staðinn fyrir þetta arfaslaka lið sem við sitjum uppi með núna. Sé ekki alveg af hverju Pólverjar ættu ekki að geta mannað fótboltalandsliðið eins og öll önnur djobb á Íslandi sem ekki eru unnin við skrifborð. Þeir eru líka miklu betri í fótbolta en við og KSÍ þyrfti að borga þeim miklu minna fyrir að spila. Það væri jafnvel hægt að leggja fyrir til að geta einn góðan veðurdag látið kvennalandsliðið fá einhverja aura. Tvær flugur í einu höggi.
Annað sem hægt væri að gera væri að hætta hreinlega að spá í þetta fótboltabrölt þar sem við eigum hvort sem er aldrei möguleika og snúa okkur meira að jaðaríþróttum sem fáir stunda eins og handbolta. Þar liggja tvímælalust okkar sóknarfæri. Á heimsvísu erum við nokkuð framarlega í handbolta enda stunda þá íþrótt álíka margir og þeir sem leggja stund á sundballett. Þar erum við því að keppa á jafnréttisgrundvelli þegar höfðatalan sígilda er höfð til viðmiðunar
Það eru margar svona íþróttagreinar sem hægt væri að leggja stund á með góðum árangri. Þar má nefna að mér var nýlega bent á að það er haldið heimsmeistaramót í eltingaleik sem er íþrótt sem við öll kunnum og gætum eflaust staðið okkur vel í. Heimsmeistarakeppnin í að fleyta kerlingar var haldin nýlega í Skotlandi þar sem sigurvegarinn náði að fleyta kerlingar heila 65 metra. Þetta gæti hentað vel hér enda nóg af vatni. Skurðasund gæti líka hentað vel Íslenskum aðstæðum. Svo er líka keppt í túnfiskkasti, reiptogi, ánamaðkatýnslu, geitaveðreiðum, sláturkeppakasti, að rúlla ostum niður brekku og svo kannast allir við hið fræga eiginkonuhlaup. Möguleikarnir eru óþrjótandi.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)