17.9.2007 | 22:02
sjónvarpið
Margir reka upp stór augu þegar þeir ætla að fara að ræða eitthvað við mig um sjónvarpsdagskrána og ég segi þeim að ég eigi ekki sjónvarp og hafi ekki átt lengi. "Hvað geri ég þá á kvöldin?" er spurt í forundran eins og það sé það eina sem standi fólki til boða.
Ég á 2 kanínur sem þurfa ást og umhyggju, ég fer á kaffihús (svona meðan Herr Flick lögreglustjóri lætur ekki loka þeim kl. 8 því þá á fólk að vera komið heim til sín), ég les, ég tek mikið af ljósmyndum og síðast en ekki síst sit ég fyrir framan Makkann minn og geri eitthvað skemmtilegt. Nei, ég er ekki í Counter strike eða að skoða sóðasíður á netinu. Tölvur eru ekki bara til þess að hanga á netinu eða myrða cyberskrýmsli í ofbeldisfullum tölvuleikjum. Reynið að vera skapandi! Fáið ykkur Illustrator eða Photoshop og farið að búa eitthvað til. En nei, það er eitthvað í sjónvarpinu sem má ekki missa af segir fólk
En hvað er svona merkilegt í sjónvarpinu að fólk getur setið yfir því frá kvöldmat að háttatíma kvöld eftir kvöld? Ég kíkti aðeins á dagskrána þessa viku og hér er smá brot.
Í Ríkiskassanum var m.a boðið upp á þetta:
"Fadderi ok faddera". Sænsk heimildamynd um Jonas Svenson, 85 ára gamlan harmónikkuleikara og fyrrum póstburðarmann í Uppsala og leit hans að Husqvarna harmónikku sem föðurbróðir hans tapaði á leiðinni milli Ullevalla og Sundsvall í maí árið 1956
"Útnáramótið í fótbolta" Lið Trékyllisvíkur mætir Dolla frá Hólmavík í 16 liða úrslitum en allir lekir mótsins verða sýndir beint og svo endursýndir að loknum fréttum alla daga vikunnar
"Baulaðu nú Búkolla mín" Dúddi Gunnsteinsson ræðir við Jónas fjósamann í Fárviðru á Ströndum um íslensku mjólkurkúna.
"Lúlli snigill skoðar heiminn" Fylgst með ferðum snigilsins Lúlla í heilan mánuð og hvernig hann á þeim tíma ferðast úr örygginu undir rifsberjarunnanum, yfir göngustíginn og í ný heimkynni í túlípanabeðinu.
Það var ekkert sem heillaði mig neitt sérstaklega við dagskrána í Ríkiskassanum svo ég kíkti á hvað frjálsu og óháðu fjölmiðlarnir höfðu upp á að bjóða.
"Ástir og örlög á kennarastofunni" Við höldum áfram að fylgjast með Janis handmenntakennara í St.Slum miðskólanum í Brooklyn og viðleitni hennar til að öðlast ástir Bobbys skólastjóra. Í síðasta þætti hafði Janis fengið nafnlausa ábendingu um það að Bobby væri jafnvl að hitta aðra manneskju. Hún fær Dolly bókhaldskennara í lið með sér til að komast til botns í þessu máli sem leiðir þær í Leather&Latex klúbbinn á Manhattan. 856. þáttur.
"NYPP blue" Vandaðir bandarískir spennuþættir sem fjalla um hið hættulega starf stöðumælavarða í New York
"Desperate midwives" Ljósmæður á bandarísku sjúkrahúsi heyja harða baráttu við flækta naflastrengi, óvænta keisaraskurði, sjálfumglaða fæðingarlækna og taugaveiklaða eiginmenn
"The Bachelorett:Alabama" Ný þáttaröð af þessum vandaða bandaríska raunveruleikaþætti. Mary Lou hefur komið sér fyrir á hinu glæsilega Golden Palace Trailer Park Hostel og tekur þar á móti vonbiðlum sínum. Valið á eftir að vera erfitt því allir eiga þeir Pick-up truck og marghleypu, enginn þeirra er nákyldur ættingi hennar og allir hafa þeir sínar eigin tennur. Að lokum verður það þó aðeins einn sem stendur uppi sem sigurvegari með síðustu Budweiser kippuna
"Dr.Bill" Í þessum vinsæla bandaríska spjallþætti ræðir bókmenntafræðingurinn Dr. Bill við gesti sína um mikilvægi þess að kunna að lesa og bendir þeim á hvar Bandaríkin er að finna á landakortinu. Hann svarar spurningum áhorfenda úti í sal um jafn margvísleg efni og hvað kjúklingar hafi marga fætur, hvað suðumark vatns er hátt og hvernig Hvíta húsið er á litinn. Uppáhaldsþáttur Georga W. Bush
Hér í spilaranum til hliðar eru svo nokkur "sjónvarps" lög
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Menning og listir, Sjónvarp | Breytt 18.9.2007 kl. 00:07 | Facebook
Athugasemdir
Ég á nú sjónvarp en ég horfi lítið sem ekkert á það og er ekki viðræðuhæf þegar að samræðum um sjónvarpsefni og dagskrá. Fæ einmitt ansi oft svona viðbrögð um hvað í fjáranum ég geti gert annað við tíma minn en að liggja yfir sjónvarpinu.
Þá segi ég það með þér, fikta í tölvunni, skissubókinni, myndavélinni eða lesa góða bók. Svo margt annað betra hægt að gera en að sóa tímanum í lélega dagskrárgerð.
Ragga (IP-tala skráð) 18.9.2007 kl. 07:11
Mig langar að sjá DR. Bill! Hljómar mjög vel!
Ruth Ásdísardóttir, 18.9.2007 kl. 13:44
The Bachelorett:Alabama - það verður minn þáttur
Monopoly (IP-tala skráð) 18.9.2007 kl. 21:36
Þá ætla ég að fá " Lúlli snigill skoðar heiminn ". Það hljómar eitthvað svo mikið krúttípútt !!
Íris Ásdísardóttir, 18.9.2007 kl. 22:30
Segji það sama. Mitt sjónvarp er notað fyrir DVD. Er alger auli þegar umræður snúast um sjónvarpsefni. Hef aldrei séð Idol þátt og hvað þetta heitir nú allt saman.
Kristján Kristjánsson, 18.9.2007 kl. 22:52
Það vantar greinilega stórskemmtilegan þátt sem RÚV hlýtur að kaupa fljótlega af BBC. Það eru tónleikaútsendingar sinfóníuhljómsveitar ellilífeyrisþega sem eru sýndir á besta tíma hér í Englandi, á BBC2 öll laugardagskvöld kl. 20:00. Fátt skemmtilegra en að HORFA á klassíska tónlist leikna, það munar öllu... ekki nóg að HLUSTA bara t.d. í útvarpinu.
Londonia (IP-tala skráð) 19.9.2007 kl. 18:36
Þú ættir að fá starf sem dagskrárstjóri... eða sem þáttargerðarmaður. Frábærar hugmyndir hjá þér Grumpa.
Linda Ásdísardóttir, 19.9.2007 kl. 22:03
Hehehe, þú ert ágæt.
Maja Solla (IP-tala skráð) 21.9.2007 kl. 21:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.