Kjánahrollur ársins

rangeroverÞað er gjarnan til siðs að líta yfir farinn veg um áramót og þar sem nú er fyrsti dagur nýs árs, allt lokað  og ég hef ekkert skárra að gera þá datt mér í hug að setja saman lista yfir það sem mér fannst með afbrigðum kjánalegt eða beinlínis fíflalegt á árinu. Þetta á þó aðeins við um atburði á opinberum vettvangi þannig að vinir mínir geta alveg andað rólega því ég mun ekki draga fram í dagsljósið nein asnastrik sem þeir kunna að hafa framkvæmt á árinu. En kíkjum á þetta.

1. Nýríka fólkið: Ég held að það sé ekkert jafn kjánalegt og nýríka liðið á svörtu Range Rover jeppunum sínum (Porche jeppar eru ekki lengur in). Dragandi einhverjar afdankaðar 80s poppstjörnur eða útbrunna íslenska gleðipoppara í snobbveislur og finnast það sjálft vera ógeðslega svalt. Ætlandi sér að kaupa heiminn fyrir peninga sem það á svo ekki til þegar öllu er á botninn hvolft. We are the icelandic útrás, you know! Þessi sem keypti þyrluna til að geta skroppið í bústaðinn um helgar og kíkt í síðdegiskaffi til mömmu úti í Eyjum toppar svo allt.

2. Dauði og upprisa hundsins Lúkasar: Móðursýkikast ársins var eflaust hysterían í kring um meint dráp á smáhundinum Lúkasi. Að vísu fannst líkið aldrei né nein sönnunargögn um verknaðinn en allt ætlaði samt um koll að keyra. Toppurinn á farsanum var svo þegar hundspottið birtist sprellifandi nokkru seinna. Ill meðferð á dýrum er auðvitað skelfileg og ætti ekki að lýðast en þegar sýnt var í Kopásþætti hroðaleg meðferð manns á hesti (og þar voru svo sannarlega sönnunargögn) þá man ég ekki til þess að fólkið sem sendi morðhótanir í allar áttir í Lúkasarmálinu hafi látið mikið fyrir sér fara. Er það kanski vegna þess að hestur er stór og klunnalegur og ekki hægt að klæða hann í fíflaleg föt og geyma í handtösku? Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem upp koma mál um illa meðferð á hrossum en einhvernvegin virðist öllum vera alveg sama og ekkert er að gert. Hestar eru bara ekki nógu krúttlegir til að "dýravinirnir" hafi áhuga á þeim

3. Villi Vill: Borgarstjórinn okkar fyrrverandi átti ekki gott ár. Hann virtist ekki vita neitt, ekki fylgjast með neinu, tala bara án þess að hugsa og vera almennt algerlega úti á þekju. Ekki bætti úr skák að borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins samanstóð af loftbelgjum úr Heimdalli sem umfram allt fannst þau sjálf  vera alveg frábær, allir aðrir óttalegir bjálfar sem ekki var orðum á eyðandi og ákvarðanataka um málefni borgarinnar eitthvað sem þau sáu alfarið um og engum öðrum kom við

4. Dómararáðningin: Er þetta ekki farið að ganga út fyrir allan þjófabálk? Þegar dómarafélagið efnir til fundar þá gæti það allt eins verið fjölskylduboð hjá Davíð Oddssyni. Hvenær losnum við við þennan mann og það heljartak sem hann virðist enn hafa á Sjálfstæðisflokknum? Var ekki nóg fyrir hann að koma sjálfum sér í þessa huggulegu innivinnu sem hann er í, þar sem hann getur skaffað sjálfum sér laun að vild auk þess sem hann sá til þess að hann verður ekki á flæðiskeri staddur þegar hann ákveður að fara á eftirlaun? Ætlar blá krumlan aldrei að losa kverkatakið?

5. Nýi lögreglustjórinn: Það er svo sem ágætt að vilja sanna sig í nýju djobbi en fyrr má nú rota en fótbrjóta. Það er líka svo sem ágætt að spígspora öðru hvoru niðri í bæ í sparigallanum með heila vakt í halarófu á eftir sér en gerir það einhverjum eitthvað gagn? Og hversu gáfulegar eru hugmyndir eins og að flytja skemmtistaði upp á höfða eða eitthvað þaðan af lengra til að losna við fólk úr miðbænum á nóttunni? Eftir því sem manni skilst þá er mikill skortur á lögreglumönnum og einhvernvegin hefði ég haldið að tíma þeirra væri betur varið í að rannsaka og koma frá sér öllum þeim mikla fjölda mála sem bíða þess að verða kláruð til að hægt sé að dæma í þeim ef ástæða væri til heldur en að eltast við fólk sem getur ekki haldið í sér. Er það eðlilegt að rannsókn á mjög alvarlegri líkamsárás sem framin var á manni sofandi inni á heimili hans sé enn ekki lokið, núna 8 mánuðum seinna eins og ég þekki persónulega dæmi um!? Hverslags vinnubrögð eru þetta eiginlega! Mér persónulega væri skítsama ef einhver myndi míga utan í húsið hjá mér um hverja helgi óáreittur ef það væri til þess að hraða rannsókn á einhverju ofbeldis- eða nauðgunarmáli sem rykfellur í skúffum á lögreglustöðinni því það eru allir úti að eltast við karlmenn með slappa samkvæmisblöðru

6. Jónína Ben og allt Baugsmálið eins og það leggur sig: Ja hverju er hægt að bæta við allan þann skrýpaleik?

7. Gunnar Birgisson: Hvenær ætla Kópavogsbúar að losa sig við þennan gjörspillta karldurg?

Ég vil svo enda á að óska öllum gleðilegs nýs árs


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

...því það eru allir úti að eltast við karlmenn með slappa samkvæmisblöðru...

Ansi góð samantekt hjá þér.

Jóna Á. Gísladóttir, 1.1.2008 kl. 17:09

2 Smámynd: Kristján Kristjánsson

Svo má bæta við það fólk sem finnst nýríka fólkið vera virkilega kúl og skilur ekki hvernig hægt er að gagnrýna þessa bjargvætti landsins.

Gleðilegt ár :-)

Kristján Kristjánsson, 1.1.2008 kl. 18:43

3 Smámynd:  Íris Ásdísardóttir

Óska þér og loðboltunum tveim ásamt fröken mjónu með klofnu tunguna Gleðilegs árs !! Og takk aftur fyrir dagatalið, hrein snilld !!

Sammála með hestinn, það er ekki hægt að setja hest í handtösku nema handtaskan sé stór.....og það sem meira skiptir máli, karlfíflið sem fer svona með dýr ætti skilið að vakna einn daginn með hefnigjarnan hest í rúminu sínu......svona eins og í The Godfather....nema að hesturinn verður ekki dauður.

Íris Ásdísardóttir, 3.1.2008 kl. 00:39

4 Smámynd: Ruth Ásdísardóttir

Takk fyrir annálinn! Og ég fer að kíkja í kaffi til þín, þar sem ég er nú orðin nágrannakonan þín!  Ég bíð líka þolinmóð eftir muffinskörfunni og welcome to the neighborhood heimsókn

Ruth Ásdísardóttir, 4.1.2008 kl. 10:53

5 Smámynd: Thelma Ásdísardóttir

Frábær pistill hjá þér :)

Thelma Ásdísardóttir, 5.1.2008 kl. 20:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband