Þú ert það sem þú borðar

pylsa.jpgHver kannast ekki við umræðuna um ofvirkni og athyglisbrest? Börn í dag eru ekki lengur óþekktarormar og slugsar sem ekki hafa verið siðuð almennilega til af foreldrum sínum heldur eru þau með ofvirkni og athyglisbrest og gott ef ekki lesblindu líka. Það er sem sagt búið að gera þau að heilbrigðisvandamáli með tilheyrandi lyfjaáti og sérfræðimeðferðum í staðinn fyrir að kenna þeim einfalda mannasiði og að hegða sér skikkanlega. Leti og uppivöðslusemi eru svo afsökuð með því að aumingja barnið þjáist af ofvirkni og geti bara ekkert í þessu gert.

En það er ýmislegt hægt að gera annað en að troða í krakkann rítalíni. Til að byrja með er hægt að ala hann almennilega upp og kenna mannasiði en til þess þarf tíma og einbeittan vilja og oft á tíðum virðast foreldrar hafa hvorugt. Skólinn á að sjá um þetta. Annað sem myndi eflaust bæta ástandið á mörgum heimilum og í mörgum skólastofum er að gefa börnunum almennilegan mat. Það eru nefnilega gömul sannindi og ný að þú ert það sem þú borðar. Og þetta á reynadar ekki bera við um börn heldur hreinlega alla. Fólk nennir ekki orðið að elda mat frá grunni lengur, heldur er allt keypt tilbúið eða eitthvað unnið.

Vitið þið t.d hvað er í pylsum (sjá mynd hér til hliðar af innvolsinu í pylsu) eða örbylgjumat? Við erum endalaust að belgja okkur út af litarefnum, rotvarnarefnum, þráavarnarefnum, þykkingarefnum, bindiefnum, sýrum, sætuefnum, bragðaukandi efnum o.s.frv, o.s.frv. Næst þegar þið kaupið eitthvað tilbúið athugið á umbúðunum hvað það eru mörg E-efni í viðkomandi vöru. Ég er t.d með hérna fyrir framan mig dós af Coke Light og í henni eru E 150 sem er lirarefni, E 338 og E 339 sem eru sýrur, E 211 sem er rotvarnarefni og sætuefnið aspartam. þetta getur ekki verið hollt. Mér finnst líka alltaf skondið að sjá þegar því er slegið upp í auglýsingum að þessi eða hin matvaran sé fitusnauð. Gott og vel, en það er ekki minnst á hvað er mikill sykur í viðkomandi vöru og ef það er eitthvað sem við þurfum ekki á að halda að borða meira af þá er það sykur, ekki fita. Í einni lítilli fernu af Frissa Fríska sem fólk fóðrar börnin sín gjarnan á eru 20 gr. af sykri sem eru ca. 10 sykurmolar og í einni dós af Skólajógúrt eru 5 sykurmolar. Svo er fólk hissa á því að börnin séu snar vitlaus!

 Á mínum sokkabandsárum norður í landi var ekki svona mikið um unnin matvæli eins og er í dag og þar var eldað á hverju heimili nánast á hverjum degi (hina dagana voru afgangar). Hamborgarar og franskar voru sjaldan í boði og pizzuvæðingin hafði ekki yfirtakið allt enn og sælgæti var spari. Ég minnst þess heldur ekki að í minni grunnskólatíð hafi einhver átt við ofvirkni, athyglisbrest eða einhverjar geðraskanir að stríða. Stundar athyglisbrestur var oftast læknaður snarlega á staðnum með hótun um heimsókn til skólastjórans. Það voru vissulega alltaf einhverjir einn eða tveir óþekktargemlingar í hverjum bekk en enginn sem var óviðráðanlegur eða stjórnlaus og kennarar þurftu ekki að vera búnir að taka námskeið í sjálfsvarnaríþróttum til að komast í gegn um skólaárið.

 Hvernig væri nú að í staðinn fyrir að aumingjavæða fjöldann allan af grunnskólabörnum og moka í þau lyfjum að þeim væri bara gefið almennilega að borða?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Þó ekki hafi verið farið að gera þessar greiningar fyrr en seinni hluta seinustu aldar er ekki þar með sagt að þetta hafi ekki verið til.

Í þættinum Mannamáli á Stöð 2 í kvöld kom fram að Lalli Jones værði lesblindur, ofvirkur og með athyglisbrest. Í fangelsum er hærra hlutfall með þessi einkenni en utan múranna.

Er ekki betra að greina þetta áður en skaðinn er skeður, þannig að mögulegt sé að meðhöndla vandann og hugsanlega fyrirbyggja að einhverjir lendi útaf sporinu?

Að fullyrða að þetta snúist bara um matarræði lýsir vanþekkingu. Vissulega skiptir matarræði máli, en ef það væri svo einfalt að það dygði til þá væri lífið auðveldara en það er.

Eigðu góðar stundir

Kristjana Bjarnadóttir, 24.2.2008 kl. 23:13

2 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Sæl Lovísa!

Margt til í þessu hjá þér varðandi E-efnin, en sannleikurinn er nú sá að nú orðið er afskaplega erfitt að forðast þessi efni alfarið, þau hafa orði algengari með tímanum ekki síst vegna útlutnings og krafa um geynsluþol o.fl. Þá eru þau nú orði í miklu fleiri vörum sem við neytum auk þeirra sem endilega beint er af börnunum. Öll kjötvara til dæmis meira og minna sprautuð og vatnsbætt.

Hvað varðar þessar pælingar hjá þér um orsök eða afleiðingar í mótun barna og uppeldi þeirra, þá eru þær ekki alveg út í bláin, t.d. varðandi þá staðreynd t.d. að neysla barna hérlendis á nenfdu lyfi hefur verið mjög mikil, meiri en m.a. á hinum norðurlöndunum.

Aftur á móti hefur greining og þekking aukist gríðarlega í meðferð á vandamálum barna og þú mátt ekki gera of lítið úr því. Sem dæmi voru bæði les- og skrifblinda vart þekkt fyrirbæri og kennarar vissu hreinlega ekki hvernig taka átti á þeim nemendum sem stautuðu endalaust og stömuðu og hlutu háðsglósur fyrir af hálfu skólafélaganna! Oftar en ekki voru því þessir krakkar þeir óþægustu og það nægði því miður alls ekki bara að hóta þeim skólastjóranum eða senda þá til hans!

Magnús Geir Guðmundsson, 27.2.2008 kl. 21:24

3 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Þarna vantaði hjá mér að fyrir svona 20-25 árum var Les- og skrifblinda nær óþekkt fyrirbæri, sem í dag er staðreynd að stór hópur fólks þjáist af!

Magnús Geir Guðmundsson, 27.2.2008 kl. 21:28

4 identicon

Þar kom að því... fólk er loksins farið að taka Grumpu alvarlega!!

Londonia (IP-tala skráð) 28.2.2008 kl. 16:46

5 Smámynd: Grumpa

Bíddu frú Londonía!!! Ertu að segja að þú takir mig ekki alvarlega???

Grumpa, 2.3.2008 kl. 15:02

6 identicon

Elsku Grumpa mín - ég hef tekið þig svo alvarlega að minnstu munaði að ég væri rekin úr vinnu hér um árið... Man nú ekki alveg hvers vegna en það hafði eitthvað með pistil um Davíð Oddsson og mikinn sjálfsstæðismann sem sat við hliðina á mér í vinnunni.  Ég meinti að FLEIRA fólk væri farið að taka þig alvarlega :)

Londonia (IP-tala skráð) 3.3.2008 kl. 23:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband