Hvaða karlmaður vill ekki svona?

Porsche_kitchen_17313a.jpgMyndin hér til hliðar er af nýja Porsche Poggenphol P'7340 eldhúsinu og er eflaust draumur hvers karlmanns að hafa eitt slíkt. Porsche er fyrirtæki sem horfir til framtíðar og lætur sér því ekki nægja að framleiða bíla heldur eru þeir með undir sínum merkjum úr, farsíma, kaffivélar og nú síðast heilt eldhús, hvorki meira né minna. Eins og sést á myndinni er þetta ákaflega stíliserað og mínimalískt og eins og sést líka þá hefur enginn karlmaður enn komið inn í þetta eldhús sem er þarna á myndinni þar sem allt er enn ákaflega snyrtilegt og hreint.

En hvað er það við þetta eldhús sem á að höfða frekar til karlmanna en t.d IKEA gerir? Til að byrja með eru sérstakt efni í öllum ytri flötum sem er sérstaklega hannað til að hrinda frá sér óhreynindum þannig að 5 vikna gamlir tómatsósublettir hreinsast auðveldlega af og sömu leiðis glasaför og kaffislettur. Innbyggði ísskápurinn rúmar 48 bjórdósir og það eru sérstök hólf þar sem hægt er að geyma hálfétnar pizzur og pylsupakka. Annað þarf í raun ekki að komast þar fyrir. Örbylgjuofninn er sérstaklega hannaður til að hita upp Thai take-away á sem skemmstum tíma auk þess sem í honum er sérstök krús sem til að hita upp kalt kaffi án þess að sjóða það. Innbyggt 48 tommu flatskjásjónvarp fylgir þessu eldhúsi auk Playstation tölvu

Engin þörf þótti vera á eldavél en þess í stað var hægt að nýta plássið undir extra stóran vask sem rúmar minnst 20 daga notkun af óhreynu leirtaui. Honum fylgir auk þess sérstakt lok sem hægt er að smella yfir hann ef gesti ber að garði og er það alveg loftþétt þannig að það heldur inni allri óæskilegri lykt ef um viðkvæma aðila er að ræða eins og aldraðar frænkur. Vaskurinn er einnig það stór að með góðu móti mætti nota hann til að baða heimilishundinn, hamfletta 12 gæsir í einu eða þrífa vél úr Ford Mustang ´68.

Þó vaskurinn sé merkileg hönnun þá er hann ekki það sem framleiðendurnir eru stoltastir af. Það mun nefnilega vera innbyggða þvottavélin. Hún er þeim kostum gædd að skynja muninn á ljósum og dökkum þvotti þar sem oft getur reynst erfitt að finna út úr því þegar verið er að setja í vélina um leið og verið er að horfa t.d á fótbolta í sjónvarpinu, og ekki nóg með það heldur getur hún flokkað í sundur þvott eftir litum eftir að hann hefur verið settur í vélina og fært hann í þar til gert hólf þar sem hann blandast ekki öðrum þvotti. Það eina sem þarf að passa er að tæma hólfið minnst einu sinni í mánuði. Það er auk þess bara ein hitastilling og eitt þvottakerfi. Rúsínan í pylsuendanum er svo að þvottavélin er búin sérstakri sugu sem getur sogað upp af eldhúsgólfinu allt smærra tau eins og óhreina sokk, nærföt og skyrtur og fer það þá beint inn í vélina.

Framleiðendurnir vonast til að þetta glæsilega eldhús eigi eftir að slá í gegn meðal karlmanna enda hannað algerlega eftir þeirra þörfum. Þeir munu svo vera með í hönnun bílskúr fyrir konur þar sem gert er ráð fyrir parketlögðu gólfi, 6 fataskápum, mátunarherbergi ef þörf er á að skipta um föt á síðustu stundu, 3ja sæta leðursófa, símatengi sem hægt er að tengja allt að 4 síma við og baðherbergi með freyðibaði. Nú er verið að finna út úr því hvað á að gera við bílinn


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hana nú, þar kom að því...

Maja Solla (IP-tala skráð) 26.2.2008 kl. 19:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband