megrun fyrir allan peninginn

slimcof.jpgHver kannast ekki við að hafa einhverntíma farið í megrun? Eða í það minnsta í smá aðhald. Hjá sumum gengur það bara ljómandi vel en fyrir aðra er það álíka erfitt að missa nokkur kíló og það er fyrir íslenska Ædolstjörnu að meika það. Nánast ómögulegt! En af hverju er það?

Það er fyrir löngu vitað að til þess að skafa af sér spikið þarf maður bara að borða minna og hreyfa sig meira, hversu flókið getur það verið? Jú, vandinn er bara sá að þetta tekur allt tíma og voða margir hafa hvorki þolinmæði né viljastyrk til að borða brokkólí í 4 mánuði og þræla sér út í ræktinni á hverjum degi. Þetta er fólkið sem fellur fyrir öllum skyndilausnunum þó að það eigi að geta sagt sér sjálft að þær virka ekki.

Það er nefnilega til endalaust af allkonar drasli sem selt er í bílförmum til fólks sem telur sér trú um að það geti misst fleiri kíló mað því að nota megrunareyrnalokka, megrunarplástur, megrunararmbönd eða sett megrunarinnlegg í skóna sína. Svo ég tali nú ekki um megrunarsápuna sem þú átt að baða þig upp úr á hverjum degi og áður en þú veist af ertu orðin frá því að vera með svipað vaxtarlag og Gunnar Birgisson (undirhaka meðtalin) í það að líta út eins og Nicole Kidman. Allt sápunni að þakka.

Bumbubaninn er apparat sem margir eiga eflaust einhversstaðar í geymslunni. Með því að ýta einhverju plastdóti með handföngum upp að lafandi vömbinni í 20 mínútur á dag átti fólk að geta fengið sixpack sem hefði fengið Arnold Schwarznegger til að skammast sín. Og fyrir þá sem ekki einu sinni nenntu þessu þá var fundið upp apparat sem leyddi rafstraum í sérstakar blöðkur sem fólk festi svo á sig hér og þar. Rafstraumurinn átti svo að plata vöðvana til að halda að þú værir þvílíkt að taka á því þó þú værir í raun og veru bara liggjandi uppi í sófa að horfa á sjónvarpið og kílóin fuku án þess svo mikið sem þú svitnaðir einu sinni. Og tækið seldist eins og kaldur bjór á heitum sumardegi

Allar megrunarvörurnar sem þú átt að láta ofan í þig í staðinn fyrir mat er svo alveg sér kafli út af fyrir sig. Það eru til ótal tegundir af allskonar dufti sem á að hræra upp í vatni og enginn veit nákvæmlega hvað er í. Gæti þess vegna verið endurunnir pappakassar með vanillubragði eða þurrkað fiskihreystur. Svo eru það pillurnar sem á að taka fyrir máltíð sem eiga svo að belgjast út í maganum á þér og hey presto, þú hefur bara ekki lyst á svínarifjunum, frönsku kartöflunum og bananasplittinu sem þú ætlaðir að fara að borða.

Það hafa líka verið fundnir upp allskonar kúrar. Aitkins kúrinn væntanlega þekktastur þar sem að annað hvort léttist fólk eða endaði á spýtala með kransæðastíflu og of háan blóðþrýsting. Það er til kaffikúr þar sem þú átt að drekka sérstakan vítamínbættan kaffidrykk daginn út og inn og hreinlega horfa á kílóin hverfa. Ég meina hvernig er annað hægt þegar þú ert hæper af kaffidrykkju allan daginn, stanslaust á klósettinu og komin með hjartsláttartruflanir? Það eru til kúrar þar sem þú átt bara að borða blómkálssúpu eða harðsoðin egg eða borða bara sveppasoð á mánudögum og þriðjudögum en baunaspírur alla hina dagana

Það næst besta er þó megrunargaffallinn sem virkar þannig að þú mátt ekki stinga honum upp í þig fyrr en hann hefur gefið frá sér píphljóð þannig að þú nærð að tyggja hvern matarbita þrjátíu og tvisvar sinnum og þú borðar því ekki eins mikið. Það besta eru eflaust megrunargleraugun sem eru lituð gleraugu sem þú setur á þig þegar þú ferð að borða og eiga að hafa þau áhrif á heilastarfsemina að matarlystin minnkar. Það eru bara snillingar sem finna upp á svona hlutum!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd:  Íris Ásdísardóttir

Ég verð að fá mér bæði gaffalinn og gleraugun......verð flott við matarborðið og það besta er að hinir við matarborðið grennast væntanlega lika því þeir eru ekki að borða heldur að gá hvað gaffallinn gerir ef ég bít í hann of fljótt !!!

Ef hann gefur rafmagn verða borðgestirnir líka stöðugt að standa upp og ná í gleraugun mín...

Íris Ásdísardóttir, 17.3.2008 kl. 22:56

2 identicon

he he ...

En þú gleymdir alveg að minnast á megrunartyggjóið :)

Kveðja Inda

Inda (IP-tala skráð) 28.3.2008 kl. 10:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband