loksins það sem vantaði fyrir nútíma konur!

dauckas.jpgÞað er margt sem nútíma konan þarf að eiga. Hún þarf líkamsræktarkort til að hafa réttu línurnar, fallegt heimili, góðan bíl, sérhannaðar innréttingar samkvæmt Feng Shui staðli, rándýrar snyrtivörur í bílfömum, furðulega útlítandi fatnað eftir íslenska hönnuði, eitthvað af börnum og þá helst barnfóstru líka (því hver hefur tíma til að sinna þeim nú til dags?), góða vinnu til að borga fyrir allt saman eða þá kall sem er í góðri vinnu og borgar .

Það eru margir hlutir framleiddir með þarfir kvenna sérstaklega í huga enda konur gjarnan með afbrigðum kaupglaðar. Hvar væru t.d súkkulaðiframleiðendur staddir í dag ef þeir hefðu ekki konur til að kaupa næstum alla framleiðsluna? Þetta væri bara smáiðnaður. Það eru búðir eftir búðir troðfullar af kjólum og pinnahælaskóm sem allt er keypt af konum fyrir utan að inn slæðist einn og einn karlmaður í vonlausri leit að einhverri flík á konuna sína sem hún á ekki eftir að skila þar sem hún er of stór, of víð, of græn, of þykk, of síð, of gegnsæ, of lík einhverju sem einhver annar á, of ódýr, of glyðruleg.......

Nú hafa Rússar loksins sett á markaðinn endurbætta og kvenvænni útgáfu af vörutegund sem hingað til hefur helst höfðað til karla, en það er gamli góði vodkinn. Dauckas vodkinn er eitthvað sem nútíma konan má ekki láta sig vanta. Hann fæst með lime, vanillu og möndlubragði og er tilvalinn til að dreypa á eftir erfiðan dag í vinnunni eða í saumaklúbbnum. Hvað jafnast á við sushi, hreðkusalat og staup af vodka? Eftir ræktina er hægt að fá sér skyrbúst og skola því niður með vanilluvodka on the rocks. Ef börnin eru óþæg og neita að læra heima má alltaf róa taugarnar með tvöföldum möndluvodka út í kaffið því hvað er verra fyrir litlu krílin en taugatrekkt móðir að reyna að halda uppi aga? Í leiðinlegum veislum eins og t.d fermingarveislum má svo alltaf rífa upp stemminguna með vodkasjúss með kransakökunni.

Dauckas vodkinn er drykkur hinnar vel menntuðu, sjálfstæðu konu öfugt við aðrar tegundir sem tengjast frekar þessum sífullu, sjúskuðu, fjórgiftu, 8 barna mæðrum í félagsmálaíbúðum í Fellahverfinu. Dauckas hefur stíl og elegans líkt og tilvonandi kaupendur. Þetta er ekki vodki til að blanda út í goslaust, volgt kók og drekka úr plastglasi í eftirpartýi á þriðjudegi og finna engan mun þótt einhver hafi drepið í sígarettunni sinni í glasinu. Nútíma konan velur vandaða vöru. Hún velur Dauckas


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Skál í boðinu

Monopoly (IP-tala skráð) 19.3.2008 kl. 19:38

2 Smámynd: Ruth Ásdísardóttir

Nú, en hvað með okkur konurnar sem drekkum ekki? Kannski erum við þá ekki nægilegar konur í okkur.... :) Gleðilega páska annars og ég vona að þú hafir haft það rosalega gott!! :)

Ruth Ásdísardóttir, 24.3.2008 kl. 12:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband