26.3.2008 | 14:42
á leið til fjandans
Eins og allir ættu að vita (nema kanski þeir sem vinna í Seðlabankanum) þá er allt að fara til fjandans hérna á Íslandi. Allt hækkar og hækkar og aumingja nýríka fólkið horfir á hlutabréfin sín hrynja í verði og er jafnvel alls ekkert svo ríkt lengur. Til að varpa aðeins ljósi á þessa þróun og grenslast fyrir um hvað er eiginlega í gangi þá er hér stutt viðtal við Seðlabankastjóra.
Blaðamaður (Blm.): Nú eru efnahagshorfur á Íslandi mjög slæmar. Vöruverð hækkar og gengið fellur. Hver er ástæðan?
Seðlabankastjóri (Sbk.stj.): Jú eftir mikla og þrotlausa rannsóknarvinnu síðustu mánuði komumst við af því að þetta er allt spákaupmönnum og þessháttar peningabröskurum að kenna. Eins og ég hef alltaf haldið fram þá er ekkert athugavert við peningastefnu mína...ég meina Seðlabankans.
Blm.: Og hvað er til ráða?
Sbk.stj: Nú auðvitað að hækka vextina. Vaxtahækkun er eins og Panódíl, virkar á allt. Og eins og hendi væri veifað hækkaði úrvalsvísitalan, þökk sé mér....okkur.
Blm: En nú segir Vilhjálmur Egilsson að vísitalan hefði hækkað hvort sem er vegna þróunar á erlendum mörkuðum og það eina sem gerist er að greiðslubyrði heimilanna eykst
Sbk.stj: Sko, Vilhjálmur Egilsson er líka bara vitleysingur og föðurlandssvikari í þokkabót og vill ganga í Evrópusambandið. Og svo er hann með uppsteyt og er hættur að vilja segja það sem ég segi honum að segja. Það var ekki svona upp á honum typpið þegar ég var forsætisráðherra!
Blm: Talandi um Evrópusambandið, er ekki kominn tími til að skoða upptöku ev....
Sbk.stj: Stoppaðu hér væni minn! Þú nefnir ekki þetta orð í mínum húsum. Árið 1989 ákvað ég að Ísland myndi aldrei ganga í þessi bölvuðu samtök og þar við situr og þarf ekki að ræða frekar
Blm: En nú hefur gífurlega margt breyst síðan 1989. Er ekki tími til að endurskoða þessa ákvörðun?
Sbk.stj: Var ég ekki að segja þér að ég hefði ákveðið þetta? Ertu ekkert að hlusta drengur?
Blm: Nú hafa margir bent á þann gríðarlega kostnað og óöryggi sem fylgir því að halda í krónuna?
Sbk.stj: Þeir aðilar tengjast allir Baugi og eins og allir ættu að vita kemur ekkert gott þaðan og ættu þeir menn að vera lokaðir í tukthúsi eins og ég fór fram á, á sínum tíma. Ótrúlegt hvernig tókst að klúðra því. En ég hef nægan tíma og það eru alltaf að losna dómarasæti sem þarf að skipa nýtt fólk í og ég vænti þess að allt það fólk sé jafn réttsýnt og ég
Blm: Það eru ýmis teikn á lofti um að gjaldþrot blasi við mörgum heimilum vegna gríðarlegs vaxtakostnaðar. Hafa menn í Seðlabankanum engar áhyggjur af því?
Sbk.stj: Ég veit ekkert um hvað aðrir eru að hugsa enda kemur það mér ekkert við. Ég verð bara að segja það að þetta er væll og amlóðaháttur. Hér er búið að vera góðæri til fjölda ára þökk sé mér og minni ríkisstjórn og hér þekkist ekki fátækt. Fólk þarf bara að vinna meira til að geta borgað hærri skatta til að fyrirtækin geti borgað lægri skatta og eigendur þeirra grætt meira. Það þarf bara að passa vel að launin hækki ekki því þá verður fólk latt. Þá fara þeir að fjárfesta og stofna fleiri fyrirtæki og fólk eins og þú sem annars sæti með sultardropa á nefinu í kjallarakytru við Bústaðaveginn getur unnið meira og keypt meira af fyrirtækjunum sem græða þá enn meira og allir eru hamingjusamir
Blm: Ha....
Sbk.stj: Veistu hreinlega ekkert um hagfræði?
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.