hamingjan leynir sér ekki á Íslandi í dag

vikings.jpgVið Íslendingar höfum alltaf verið að springa úr hamingju. Forfeður okkar voru sérstaklega hamingjusamir yfir því að geta flust frá iðagrænum sveitum Noregs á rokrassgat norður í ballarhafi. Og ekki minnkaði hamingjan við það að skreppa í leiðinni til Írlands og pikka upp eins og eina eða tvær rjóðar og sællegar sveitastúlkur. Sögum fer þó ekki af þeirra hamingju.

Hér undu menn hag sínum hið besta og brostu út að eyrum meðan þeir drápu hvorn annan og alla húskarlana í hefndarvígum. Að frátalinni stuttri útrás til Grænlands og Vínlands sem ekki þótti borga sig á þeim tíma voru menn bara ánægðir hver í sinni sveit. Vopnin voru lögð til hliðar þar sem þau ryðguðu og skipin fúnuðu þar sem enginn nennti lengur að vera að rápa eitthvað til útlanada og útlendir kóngar þóttu ekki það merkilegur pappír lengur og voru auk þess hættir að skilja dróttkvæði.

Smávegis niðursveifla kom á hamingjustuðulinn á tímum móðuharðinda, nauðsynleg leiðrétting telja sumir, og óumflýjanlegur fórnarkostnaður að u.þ.b helmingur þjóðarinnar dræpist úr hor og vesöld. Þó var það ekki svo slæmt að þurfa að herða sultarólina aðeins því að á eftir kreppu kemur alltaf uppsveifla og menn gátu fljótt tekið gleði sína á ný. Tilgengnir sauðskinnsskór og þurrkað fiskiroð var heldur ekki sem verst og afskaplega próteinríkt.

Það voru svo Danir sem kynntu okkur fyrir alþjóðlegri verslun að nýju og við uppgötvuðum hvað það að versla gerir okkur hamingjusöm. Það var það sama þá og nú, við kaupum hreinlega allt. Skúli Magnússon reyndi svo að koma á fót iðnaði svo við gætum keypt okkar eigið dót en komst að því að íslendingar voru ekki þessar týpur sem nenntu að að vinna heilalausa 9-5 vinnu. En hey, við vorum hamingjusöm í okkar sveit með sauðfé á beit.

Þegar svo seinna stríðið brýst út og erlendir fjárfestar með tyggjó og nælonsokka í öllum vösum fara allt í einu að hrúga í okkur peningum fyrir að moka skurð þá hreinlega görgum við af gleði og þessi gleðivíma var svo mögnuð að við  tókum ekkert eftir því þegar Framsóknarflokkurinn byrjaði að draga okkur hægt og rólega aftur í tímann og var kominn með okkur langt aftur á síð miðaldir þegar við loksins rönkum við okkur og Evrópusambandið í dulargerfi EES kippir okkur inn í nútímann. Síðan hefur þetta allt verið eintóm blússandi hamingja, ja nema þú eigir stóran hlut í FL Group kanski.

 


mbl.is Fengu hamingjuna í arf frá víkingunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þór Sigurðsson

Snilldarfærsla :)

Takk fyrir hláturinn, þú bættir mína hamingju ;)

Þór Sigurðsson, 28.3.2008 kl. 21:52

2 Smámynd: Villi Asgeirsson

Íslandssagan í hnotskurn. Pottþétt færsla!

Villi Asgeirsson, 29.3.2008 kl. 11:16

3 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Það er engu við þetta að bæta. Flott og rétt.

Ævar Rafn Kjartansson, 29.3.2008 kl. 15:18

4 Smámynd: halkatla

halkatla, 31.3.2008 kl. 09:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband