29.3.2008 | 16:34
Ó Reykjavík, ó Reykjavík...
Það er ekki bara íslenskt efnahagskerfi sem er að fara til fjandans, Reykjavík er líka að fara til fjandans. Og þá sérstaklega miðbærinn.
Þetta byrjaði allt á einhverju grenji frá misvitrum pólitíkusum um að miðborgin væri í dauðategjunum meðan allt væri á blússandi siglingu í Kringlunni og Smáralindinni. Það þyrfti meiri uppbyggingu. Á þessum tíma hafði ég ekki tekið eftir neinum dauðategjum þó svo að ég byggi í miðbænum sjálf og geri enn. En vællinn varð meiri og meiri þannig að á endanum fóru borgaryfirvöld á taugum og áður en menn rönkuðu við sér var búið að leyfa niðurrif á hálfum Laugaveginum og góðum parti af Hverfisgötunni og Skuggahverfið var farið að líta út eins og í Amerískri stórborg. Eintómir forljótir, karakterlausir steypuklumpar gnæfandi yfir eitt og eitt eldra hús sem fyrir náð og miskun fékk að standa áfram.
Nú eru þessir sömu pólitíkusar og höfðu hvað hæst um "skelfilegt ástand miðborgarinnar" við völd í Reykjavík og útlitið á miðbænum hefur aldrei verið verra þau 15 ár sem ég hef búið þar. Harlem lítur betur út. Gráðugir verktakar og ennþá gráðugri fjárfestar virðast eiga annað hvert hús og það sem ekki hafði fengist leyfi til að rífa með því að sleikja upp pólitíkusana, það er látið grotna niður þannig að á endanum er ekki annað hægt að gera. Svo verður byggður einhver risastór óskapnaður úr stáli og gleri og að sjálfsögðu með 5 hæða bílakjallara því meiri bílaumferð í miðbæinn er einmitt það sem vantaði. Og fjárfestarnir hlæja alla leið í bankann
Núverandi borgarstjórn til varnar má þó benda á að það er eflaust erfitt að hafa borgarstjóra sem þjáist af félagsfælni og lætur helst ekki sjá sig þar sem fleiri en þrír koma saman. Auk þess sem maðurinn er með eindæmum hörundssár og gæti tekið það sem persónulega árás ef einhver spyrði hann hvað klukkan væri. En á móti má spyrja, ræður hann yfir höfuð einhverju?
Borgarstjóri númer 2, Vilhjálmur Þ, var ekki mjög mikið með á nótunum þegar hann fékk að vera aðal hérna um árið og hefur ekkert skánað síðan. Meikar jafn mikinn sens stundum og Sænski kokkurinn í Prúðuleikurunum. Restin af borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins er of upptekin við að skipa sjálf sig í þægileg embætti og dygga stuðningsmenn í nefndir og ráð og díla með alla skrilljarðana sem Orkuveitan á, til að hafa nokkurn tíma til að reka þetta batterí sem Reykjavíkurborg er. Á meðan fer allt hægt og rólega beina leið til fjandans.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Sammála þessu. Það er búið að vinna meiri skemmdarverk á miðbænum undanfarin fimm ár en á fimmtíu árum þar áður. Sáuð þið verktakann í fréttunum sem leifði rónunum að gista í gámnum? "Bara rífa þessa kofa þá lagast þetta". Þetta eru mennirnir sem ráðamenn borgarinna bukta sig og beyja fyrir. Grrrrr
Kristján Kristjánsson, 29.3.2008 kl. 17:57
Af hverju tökum við íbúar þessarar borgar tökum okkur ekkli til og hreinsum borgina okkar bara sjálf? Einn eftirmiddag?
Annars held ég að núverandi borgarstjóri sé bróðir Ragnars Reykás, hann skiptir jafn ört um skoðun og Reykás.
Olsen Olsesn (IP-tala skráð) 30.3.2008 kl. 18:40
Verð nú bara að segja að ég hef aldrei séð miðborg Reykjavíkur jafn sjúskaða og þegar ég kom heim á Frón um páskana. Verulega sorglegt... Og enn sorglegri er tilhugsunin um að öll gömlu húsin hverfi og einhverjir steypuglerstálkumbaldar komi í staðinn. Það er eins og gömlu húsin hafi fengið að drabbast niður af ásettu ráði, til að búa til afsökun fyrir niðurrifinu!!
Ég held svei mér þá að Ragnar Reykás væri skárri borgarstjóri en Binni&Pinni sem nú eru við stjórnvölinn!!
Londonia (IP-tala skráð) 3.4.2008 kl. 12:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.