22.9.2007 | 19:32
Uppskriftir
Þegar maður er farinn að skiptast á mataruppskriftum við vini sína í staðinn fyrir nýjustu djammsögurnar þá er maður formlega orðinn miðaldra. Auk þess sem "nýjustu" djammsögurnar hjá sumum eru síðan fyrir aldamót og ekki lengur sérlega ferskar. Það eru fjölskyldur og starfsframar sem þarf að sinna og allt í einu eru liðin 5 ár síðan viðkomandi sletti úr klaufunum síðast.
Hún Linda vinkona mín er lengi búin að suða í mér að fá eina eða tvær uppskriftir en ég hef þrjóskast við þar sem miðaldramennska er ekki alveg að heilla mig. En svona til að gera henni greiða þar sem hún er kjarnakona austur í sveit með fullt hús af börnum auk þess að vera í fullri vinnu, hugsa um garðinn, vera í kvenfélaginu kirkjukórnum og sóknarnefndinni og er núna eflaust að taka slátur og sjóða niður rabbabarasultu þá kemur þetta hér. Ég geri mér alveg grein fyrir því að það hafa ekki allir tíma til að grúska í matreiðslubókum svona milli þess að sitja á kaffihúsum, lesa skáldsögur, hlusta á tónlist, fara í gönguferðir eða eyða heilu kvöldunum í tölvunni þó ég hafi það. Þetta ætti því að gagnast öllu uppteknu fjölskyldufólki og þeim sem vilja nýta það mikla og góða hráefni sem hér er að finna
Austur í sveit er heldur ekki hægt að hlaupa út í búð ef það vantar eitthvað í matseldina hvað þá að slá bara öllu upp í kæruleysi og panta sér pizzu. Það þarf að hugsa fyrir öllu og þegar við bætist að það eru margir munnnar sem þarf að metta er gott að vera hin hagsýna húsmóðir. Uppskriftirnar taka því mið af því. Það var úr ýmsu að velja eins og uppskrift af Lúðubuffi, Sláturstöppu og Kartöflutertu. Njólajafning og Áfasúpu gæti líka komið sér vel að kunna að matreiða og sömu leiðis Hænu í hlaupi eða Hryggvöðva af hesti ef margir eru í mat. En hér koma þessar uppskriftir Linda mín:
Súrsuð júgur
Skerið júgrið í 2-4 hluta eftir stærð. Skerið upp í spenana og útvatnið júgrið í 1-2 daga. Skiptið oft um vatn til þess að ná mjólkinni úr. Sjóðið júgrið í 1-3 klst. og kælið. Suðutíminn ter eftir tegund og aldri skepnunnar. Súrsið júgrið í skyrmysu. Á sama hátt má sjóða og súrsa lungu og hrútspunga
Fótasulta
Svíðið kindafætur ohreinsið eins og svið. Takið klaufarnar af. Sjóðið fæturna fyrst í saltlausu vatni (vegna fótaolíunnar). Fleytið fótaolíuna ofan af vatninu, það er mjög góð feiti sem nota má í kökur en einnig í smyrsl. Saltið, þegar búið er að ná feitinni, og sjóðið þangað til hægt er að smeygja beinunum úr. Stórgripahausa, ærhausa er ágætt að hafa með í sultunni. Sjóðið beinin í soðinu í dálitla stund og síið þau síðan frá. Sjóðið soðið niður þar til það er hæfilega mikið á móts við kjötið sem á að hafa í sultuna. Látið kjötið út í og sjóðið í 5-10 mín. Ausið síðan sultunni í grunn föt og kælið. Skerið sultuna í bita og geymið í mysu
Verði ykkur að góðu!
Í spilaranum hér til hliðar eru svo nokkur matarlög
Bloggar | Breytt 23.9.2007 kl. 12:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
17.9.2007 | 22:02
sjónvarpið
Margir reka upp stór augu þegar þeir ætla að fara að ræða eitthvað við mig um sjónvarpsdagskrána og ég segi þeim að ég eigi ekki sjónvarp og hafi ekki átt lengi. "Hvað geri ég þá á kvöldin?" er spurt í forundran eins og það sé það eina sem standi fólki til boða.
Ég á 2 kanínur sem þurfa ást og umhyggju, ég fer á kaffihús (svona meðan Herr Flick lögreglustjóri lætur ekki loka þeim kl. 8 því þá á fólk að vera komið heim til sín), ég les, ég tek mikið af ljósmyndum og síðast en ekki síst sit ég fyrir framan Makkann minn og geri eitthvað skemmtilegt. Nei, ég er ekki í Counter strike eða að skoða sóðasíður á netinu. Tölvur eru ekki bara til þess að hanga á netinu eða myrða cyberskrýmsli í ofbeldisfullum tölvuleikjum. Reynið að vera skapandi! Fáið ykkur Illustrator eða Photoshop og farið að búa eitthvað til. En nei, það er eitthvað í sjónvarpinu sem má ekki missa af segir fólk
En hvað er svona merkilegt í sjónvarpinu að fólk getur setið yfir því frá kvöldmat að háttatíma kvöld eftir kvöld? Ég kíkti aðeins á dagskrána þessa viku og hér er smá brot.
Í Ríkiskassanum var m.a boðið upp á þetta:
"Fadderi ok faddera". Sænsk heimildamynd um Jonas Svenson, 85 ára gamlan harmónikkuleikara og fyrrum póstburðarmann í Uppsala og leit hans að Husqvarna harmónikku sem föðurbróðir hans tapaði á leiðinni milli Ullevalla og Sundsvall í maí árið 1956
"Útnáramótið í fótbolta" Lið Trékyllisvíkur mætir Dolla frá Hólmavík í 16 liða úrslitum en allir lekir mótsins verða sýndir beint og svo endursýndir að loknum fréttum alla daga vikunnar
"Baulaðu nú Búkolla mín" Dúddi Gunnsteinsson ræðir við Jónas fjósamann í Fárviðru á Ströndum um íslensku mjólkurkúna.
"Lúlli snigill skoðar heiminn" Fylgst með ferðum snigilsins Lúlla í heilan mánuð og hvernig hann á þeim tíma ferðast úr örygginu undir rifsberjarunnanum, yfir göngustíginn og í ný heimkynni í túlípanabeðinu.
Það var ekkert sem heillaði mig neitt sérstaklega við dagskrána í Ríkiskassanum svo ég kíkti á hvað frjálsu og óháðu fjölmiðlarnir höfðu upp á að bjóða.
"Ástir og örlög á kennarastofunni" Við höldum áfram að fylgjast með Janis handmenntakennara í St.Slum miðskólanum í Brooklyn og viðleitni hennar til að öðlast ástir Bobbys skólastjóra. Í síðasta þætti hafði Janis fengið nafnlausa ábendingu um það að Bobby væri jafnvl að hitta aðra manneskju. Hún fær Dolly bókhaldskennara í lið með sér til að komast til botns í þessu máli sem leiðir þær í Leather&Latex klúbbinn á Manhattan. 856. þáttur.
"NYPP blue" Vandaðir bandarískir spennuþættir sem fjalla um hið hættulega starf stöðumælavarða í New York
"Desperate midwives" Ljósmæður á bandarísku sjúkrahúsi heyja harða baráttu við flækta naflastrengi, óvænta keisaraskurði, sjálfumglaða fæðingarlækna og taugaveiklaða eiginmenn
"The Bachelorett:Alabama" Ný þáttaröð af þessum vandaða bandaríska raunveruleikaþætti. Mary Lou hefur komið sér fyrir á hinu glæsilega Golden Palace Trailer Park Hostel og tekur þar á móti vonbiðlum sínum. Valið á eftir að vera erfitt því allir eiga þeir Pick-up truck og marghleypu, enginn þeirra er nákyldur ættingi hennar og allir hafa þeir sínar eigin tennur. Að lokum verður það þó aðeins einn sem stendur uppi sem sigurvegari með síðustu Budweiser kippuna
"Dr.Bill" Í þessum vinsæla bandaríska spjallþætti ræðir bókmenntafræðingurinn Dr. Bill við gesti sína um mikilvægi þess að kunna að lesa og bendir þeim á hvar Bandaríkin er að finna á landakortinu. Hann svarar spurningum áhorfenda úti í sal um jafn margvísleg efni og hvað kjúklingar hafi marga fætur, hvað suðumark vatns er hátt og hvernig Hvíta húsið er á litinn. Uppáhaldsþáttur Georga W. Bush
Hér í spilaranum til hliðar eru svo nokkur "sjónvarps" lög
Bloggar | Breytt 18.9.2007 kl. 00:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
4.9.2007 | 23:19
Pylsur
Hér með er það ákveðið, ég ætla ALDREI að borða pylsur aftur! Og hvers vegna, svona fyrir utan það að þær eru með óhollari matvælum sem hægt er að setjaofan í sig? Ef þið lítið á myndina hér til hægri þá er þetta stækkuð mynd af innvolsinu í venjulegri vínarpylsu. Einstaklega girnilegt finnst ykkur ekki?! Get bara ekki beðið eftir að skúffa þessu lostæti niður með remolaði og steiktum þar sem hver munnbiti inniheldur jafn mikla fitu og 8 manna afrísk fjölskylda borðar yfir árið...eða ekki.
Eftir að hafa séð þessa mynd fór ég að grenslast fyrir um hvað væri eiginlega í pylsum. Og viti menn, kom ég ekki auga á innihaldslýsinguna prentaða í örlitlu letri aftan á límmiðann á pylsupökkunum. Með hjálp stækkunarglers gat ég lesið það sem þar stóð og ykkur til fróðleiks kemur innihaldslýsingin hér:
-vottur af gyltukjöti
-sauðaspik
-hakkaðir selsskrokkar
-18 gamlar ær
-kýrjúgur
-bananabris
-loðnumjöl
-hákarlalýsi
-amínónatríumsúlfat
-asbestusoxódíð
-herpisum nítrat
-fungus humongus
-rotvarnarefni
-sóttvarnarafni
-fúgavarnarefni
Og ég vil ekki vit hvað er í salamí og spægipylsu!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
22.8.2007 | 21:25
"Ástandið"
Alltaf öðru hverju kemur upp á yfirborðið umræðan um "ástandið" í
miðborginni. Þó ég hafi búið í umræddri miðborg síðastliðin 15 ár hef ég
ekki tekið sérstaklega eftir einhverri dramatískri breytingu á þessu
"ástandi" nema þá að margt hefur færst til betri vegar. Veitingastöðum
hefur stór fjölgað og á góðviðrisdögum situr fólk þar fyrir utan og nýtur
veðurblíðunnar (þ.e.a.s þegar Víneftirlitið er upptekið við kontórvinnuna).
Þegar ég flutti til Reykjavíkur 1984 var þessi sama miðborg steindauð eftir
kl. 6 á dagin á virkum dögum og um helgar breyttist hún í vígvöll á slaginu
kl. 3 á nóttunni þegar öllum var rutt út af skemmtistöðunum á sama tíma. En
einhverjum finnst samt að margt mætti betur fara og er það eflaust rétt,
það á alltaf að reyna að gera betur.
Borgarstjórinn kom eins og stormsveipur inn í þessa umræðu og fór fram á að
bjórkælinum í Vínbúðinni í Austurstræti yrði lokað og þar með væri
stórkostlegt vandamál úr sögunni.
Eftirfarandi samtal ku hafa verið hlerað óvart af einum ræstitækni
Ráðhússins sem var að skúra fyrir utan skrifstofu borgarstjórans:
"Við verðum að gera eitthvað í þessu með miðbæinn herra borgarstjóri, það
er neikvæð umfjöllun í gangi í þjóðfélaginu, ekki gott PR"
"Já rífum við hann bara ekki, það vantar alltaf fleiri verslunarmiðstöðvar
og bensínstöðvar. Fór með konunni í Kringluna um daginn, alveg voðalega
huggulegt"
"Við getum víst ekki rifið allt, því miður. Einhverjir
kommaafturhaldstittir vilja halda upp á þessa hænsnakofa. Ég var meira
svona að tala um ólætin um helgar"
"Lokum við þá ekki bara Þórskaffi"
"Þórskaffi er ekki til lengur, herra borgarstjóri"
"Hvað segirðu! Var það rifið"
"Nei, nei, það bara lokaði"
"Já þetta er auðvitað skríllinn sem hangir fyrir utan Klúbbinn"
"Uhumm....Klúbburinn lokaði fyrir 20 árum, herra borgarstjóri"
"Ja hérna hér! Var hann þá rifinn?"
"Hann brann"
"Já það virkar líka voða vel, ættum að gera meira af því. Punktaðu það hjá
þér Guðlaugur, brenna kofa."
"Ég heiti Sigurður, herra borgarstjóri"
"Já auðvitað, sé það núna. Þið eruð bara allir eitthvað svo líkir strákarnir"
.
.
.
.
"Hvað vorum við aftur að tala um?"
"Ástandið í miðbænum, herra borgarstjóri"
"Já einmitt. Lokum við ekki bara þessum skemmtistöðum. Þetta eru hvort eð
er allt subbubúllur uppfullar af óþjóðalýð og eiturlyfjapakki.Þetta fólk
kann ekki að meta góða og heiðarlega skemmtun nú til dags. Kann enginn
bridds lengur eða hvað?"
"Nei það má ekki"
"Heirðu væni minn, er það ég eða þú sem ert borgarstjóri hérna!"
"Nei ég meinti að það mætti ekki loka löglegri atvinnustarfsemi"
"Við flytjum þetta þá bara eitthvert annað, er ekki nóg af húsnæði uppi á
Höfða? Já og kanski Gunni Bigg vilji leyfa þessu að vera í Smiðjuhverfinu.
Hann er alla vega voðalega ánægður með staðinn sem Lettneska
þjóðdansafélagið rekur þar. Fer oft þangað segir hann."
"Ha?!"
"Já þarna Coldsinger"
"Þú meinar Goldfinger"
"Ekki segja mér hvað ég meina, Sigmundur. Ef ég vissi það ekki væri ég ekki
borgarstjóri"
"Það er Sigurður, herra borgarstjóri"
"Já hann líka"
"Jæja, ég má ekkert vera að þessu. Ég þarf að mála grindverk og svo þarf ég
að vera mættur vestur í bæ eftir hálftíma, það er verið að opna
samlokusjálfsala og ég verð auðvitað að vera viðstaddur. Já það er sko nóg
að gera þegar maður er borgarstjóri skal ég segja þér væni minn. Heyrðu,
þið reddið þessu bara strákarnir. Já og ef Björn Ingi spyr, þá er ég ekki
við."
Í spilaranum hér til hægri eru svo nokkur lög sem gætu átt við um "ástandið í miðborginni".
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.8.2007 | 15:57
Lögreglustjórinn
Eins og allir sem lesa DV vita þá er allt að fara til fjandans í miðbænum og glæpamenn, morðingjar og nauðgarar standa á hverju götuhorni og bíða eftir næsta fórnarlambi sem oftast eru gæðablóð og sakleysingjar úr Fellunum sem höfðu ekkert sér til saka unnið annað en að vera á leið til vinafólks í vesturbænum að spila bridds.
En nú má skríllinn fara að vara sig þar sem okkar virðulegi lögreglustjóri ætlar að láta óþjóðalýðinn finna til tevatnssins. Í nýjasta hefti Lögreglutíðinda er viðtal við Grana Geirsson lögreglustjóra og er hér smá úrdráttur
LT: Nú skrifaðir þú grein í Morgunblaðið þar sem skilja má að ástandið í miðborg Reykjavíkur sé verra en í Sódómu og Gomorru til samans, er það rétt?
GG: Ja, nú þekki ég ekki alla þessa bæi þarna á austfjörðunum en á Trékillisvík þar sem ég er alinn upp og starfaði sem lögreglustjóri áður en vinur minn dómsmálaráðherrann fékk mig í þetta starf þá þekktist ekki svona lagað og þar gátu allir lifað í sátt og samlyndi og enginn hafði ástæðu til að fara út eftir kl. 10 á kvöldin nema þá til að hleypa hundinum inn.
LT: En nú er Reykjavík aðeins fjölmennari en Trékyllisvík, er þetta raunhæfur samanburður?
GG: Við höfum líka fengið tölur erlendis frá, frá stöðum með svipaðan íbúafjölda. T.d voru einungis 5 líkamsárásir tilkynntar til yfirvalda í Vtíkaninu á öllu síðasta ári!
LT: Hefur það kanski ekki eitthvað með það að gera að það eru engir skemmtistaðir í Vatíkaninu og flestir íbúarnir eru prestar?
GG: Mér finnst engin ástæða til að hengja sig í einhverjum smáatriðum, tölurnar tala sínu máli
LT: Lögreglan hefur verið gagnrýnd fyrir það að vera lítt sýnileg í miðborginni, hverju svara þú því?
GG: Það er hörku puð að labba þarna fram og til baka, ég prufaði það sjálfur um daginn og ég varð bara dauðþreyttur og fékk hælsæri af spariskónum. Við erum líka fáliðaðir og þurfum að sinna mörgum áríðandi verkefnum. Hér hafa umhverfisverndarbullur vaðið uppi undanfarið og okkur ber skylda til að vernda samborgarana fyrir fólki sem gæti hlekkjað sig við staur þegar minnst varir eða tafið umferð í Grafarvoginum. Þetta er stórhættulegt fólk. Nú síðan þarf að sinna öryggi opinberra gesta því eins og við vitum er hryðjuverkaváin alltaf nærri. Aðstoðar skriffinskumálaráðherra Uzbekistan var hér í heimsókn um daginn og það þýddi 32 sérsveitar- og lögreglumenn í öryggisgæslu allan sólarhringinn í 5 daga. 8 bílar frá embættinu fylgdu honum á Gullfoss og Geysi og 5 öryggisverðir tryggðu öryggi eiginkonu hans í Kringlunni.
LT: Ertu með einhverja lausn á þessum vanda?
GG: Þar sem við í lögreglunni höfum bara nóg annað að gera en að hanga niðri í bæ um miðjar nætur og ekki einu sinni allir lögreglubílarnir eru með geislaspilara hvað þá þægileg sæti þá hef ég lagt til við borgarráð að öllum skemmtistöðum verði lokað á miðnætti og þeir fluttir upp á Höfða, bjórinn verði bannaður, kaffihús megi aðeins selja kaffi, útiveitingar verði bannaðar, Vínbúðinni í Austurstæti verði lokað enda stuðlar nærvera hennar bara að aukinni drykkju, sú þarfa og gagnmerka stofnun víneftirlitið verði elft til muna og að vinstri umferð verði tekin upp aftur
Að lokum fékk lögreglustjórinn að velja 5 uppáhalds lögin sín og eru þau í spilaranum hér til hliðar
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
30.7.2007 | 20:34
Sérvitringar
Það er margt bæði skondið og skemmtilegt á landsbyggðinni. Þar mæta ungir sem aldnir á ball með Geirmundi og skemmta sér konunglega saman og hafa gert í 40 ár, maður drekkur kók úr bauk og getur farið inneftir, ofanfyrir og úteftir. Þar fær líka fólk að vera skrýtið í friði og enginn kippir sér upp við smá sérvisku. Ég ætla að segja ykkur eina skemmtilega sögu. Þetta er af bónda norður í landi sem þykir sopinn ansi góður og átti það til að skvetta í sig við hin ýmsu tækifæri. Hann var þó ekki vandlátari en það að hann drakk oft spritt enda miklu ódýara en brennivínið og gerði nákvæmlega sama gagn. Hann var líka orðinn vanur sprittinu enda drukkið fleiri en eina og fleiri en tvær flöskur af þeim vökva í gegn um tíðina og fannst það orðið alls ekki sem verst. Einu sinni sem oftar bregður hann sér í nærliggjandi kaupstað til að versla eitt og annað og kippir með sér í leiðinni tveim lítersbrúsum af spritti. Þar sem hann er í samfloti með sveitunga sínum og þarf ekki að vesenast við að keyra sjálfur þá ákveður hann á leiðinni út úr bænum að fá sér smá lögg úr öðrum brúsanum, síðan smá í viðbót og aðeins meira og 10 mínútum seinna er hann kominn vel niður fyrir hálfan brúsa. Öllu saman skolar hann svo niður með einni maltflösku. Hann hefur þó varla rennt niður síðasta maltsopanum þegar eitthvað fer heldur betur að gerjast í maganum á karlinum og hann rétt nær að stinga hausnum út um bílgluggann áður en stór og mikil spýja sleppur út með tilheyrandi búkhljóðum. Bílstjórinn stoppar bílinn í ofboði og býst sjálfsagt við öðru eins. Okkar maður skrúfar þá bara rúðuna upp hinn rólegasti, þurrkar sér um munninn og segir si svona "Þetta er nú meiri bölvaður óþverrinn þetta malt!"
Í framhaldinu eru nokkur skrýtin og skemmtileg lög í spilaranum hér við hliðina
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
27.7.2007 | 01:12
Skemmtistaðir
Skemmtistaðir eru stór merkilegt fyrirbæri. Þar getur fólk komið saman í hópum og hagað sér eins og fífl ef því er að skipta og engum finnst það neitt sérstaklega athugavert. Þar sættir kvenfólk sig við að láta stara á sig og káfa á sér og er jafnvel til í að slengja brjóstunum framan í hvaða lúða sem er ef hann heldur á myndavél og allt kemur svo á netið daginn eftir. Oft að spá í hvort þessum dömum finnst það jafn sniðugt þá. Getur svo sem vel verið, ég er kanski bara svona old fashioned. Á skemmtistöðum finnst fólki ekkert að því að tapa sér á dansgólfinu og syngja hástöfum með gömlum Michael Jackson lögum og 2Unlimited eru bara cool
Orðatiltækið "allt er gott í hófi" á ekki við á þessum stöðum þar sem þykir ekki tiltöku mál að skvetta í sig eins og hálfri bjórtunnu ásamt öðru áfengi. Sjálfstjórn og sjálfsvirðing eru einhvernvegin ekki efst í huga margra þeirra sem sækja skemmtistaðina. Það er ekkert ömurlegra en gaurar sem hanga utan í hvaða pilsi sem þeir sjá og eru með það á hreinu að þeir séu gjörsamlega ómótstæðilegir þrátt fyrir að geta varla komið út úr sér gáfulegri setningum en "hvasegiru elsskan", eru orðnir glaseygðir og rauðir í framan með þrútin nef, hjólbeinóttir og innskeifir og búnir að týna skónum sínum eða eitthvað álíka. Kvenfólkið er svo oft ekkert skárra og eftir 12 Breezera finnst þeim svona gæjar sjálfsagt bara ómótstæðilegir! Að reyna að klöngrast um á háum hælum eftir 12 Breezera er líka alveg jafn ófoxy og maskari út að eyrum og D&G dressið gyrt oní nærbrækurnar að afta. Trúnó á kvennaklósettinu er líka alger martröð! Sérstaklega þegar 6 gellur eru búnar að loka sig inni á eina klósettinu á staðnum og helmingurinn af þeim er grenjandi og hinn helmingurinn í móðursýkikasti af því að kærastinn hafði talað við sína fyrrverandi í röð í bankanum fyrir 3 vikum síðan! Please, get a grip on yourself!!
Og hvað græðir fólk á þessu öllu saman? Jú, það endar heima með einhverjum sem það myndi ekki einu sinni vilja setjast við hliðina á í bíó undir venjulegum kringumstæðun, ekki einu sinni þó að væri búið að slökkva ljósin í salnum. Er hálf meðvitundarlaust af samkvæmisónotum (dannaða orðið yfir þynnku ) í sólarhring á eftir, hefur móðgað minnst 4 vinkonur í tilviki kvenna en verið laminn fyrir að rífa kjaft í tilviki karla, hefur eytt hálfum mánaðarlaunum á barnum, týnt skóm, símum, fötum, lyklum..., haltrar um í viku eftir að hafa dottið út úr leigubíl og lofar að gera þetta aldrei aftur. Það loforð er að vísu oftast gleymt um næstu helgi. Fólk sem sagt lærir aldrei!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
23.7.2007 | 00:15
Manowar
Ég átti afmæli um daginn, hélt smá teiti og fékk góða vini í heimsókn sem glöddu mig mjög með nærveru sinni og hlóðu mig gjöfum í tilefni dagsins. Þetta allt væri ekki í frásögur færandi nema hvað að ein af þessum gjöfum var nýja platan með Manowar sem hann Kiddi rokk dró upp úr pússi sínu og það á þreföldum vínyl! Mér datt því í framhaldi í hug að segja fólki aðeins frá þessari stórmerkilegu (og sumir myndu segja furðulegu) hljómsveit
Manowar tekur sitt heavy metal mjööög alvarlega og þeir eru alls ekkert að grínast. Sumir myndu samt segja að þeir hefðu horft á of margar Conan myndir, lesið og mörg Marvel blöð og farið í of marga Dungeons and Dragons leiki. Það má líka færa rök að því að einhverjir séu ekki tilbúnir að taka fullorðna menn alvarlega sem klæðast lendaskýlum og veifa plastsverðum og skýra lögin sín "Violence And Bloodshed", "Gods Made Heavy Metal" eða "All men play on 10".
Manowar eru búinir að útbreiða "true metal" eins og þeir vilja kalla það síðan 1980 og eru aldeilis ekki af baki dottnir samanber þessa nýju plötu sem heitir Gods of war. Þeir áttu lengi titilinn háværasta hljómsveit í heimi þar til einhverjir pappakassar sem kalla sig Gallows slógu það fyrir stuttu. Ég lýsi reyndar frati á það met og tel Manowar enn eiga heiðurinn þar sem þeir settu sitt hávaðamet á tónleikum en hinir í prufunarherbegi hjá einhverjum magnaraframleiðanda sem er auðvitað ekki the real thing. Þegar kemur að tónleikum eru Manowar í essinu sínu. Þar eru þeir kóngar í sínu ríki, í sínum leðurbrókum, nýkomnir úr ræktinni sólbrúnir og sællegir. Og þar er hálfkák ekki tekið til greina samanber þetta hávaðamet sem þeir höfðu m.a.s sjálfir þríbætt. Á tónleikum í Þýskalandi 2005 mættu þeir svo með 100 manna hljómsveit og 100 mann kór og flugeldasýningu sem enn er í minnum höfð sem part af the grand finale. Samanborið við þetta eru Metallica og San Fransisco dæmið álíka tilkomumikið og æfing hjá harmónikkufélaginu. Og þetta er ekki allt. Trommarinn var lengi með (og er kanski enn) trommusett sem var smíðað úr ryðfríu stáli! Yessiry Bob! Og haldiði að þetta sé allt? Ó nei! Á fyrstu plötunni er Orson Welles nokkurskonar sögumaður í einu laginu (Dark avenger, sem er hér í spilaranum til hliðar).
Manowar eru sannir karlmenn og sannir karlmenn syngja ekki um ástir og vín eða annað jafn ómerkilegt og hversdagslegt. Nei, þeir hugsa dýpra og velta fyrir sér dauðleikanum og tilgangi lífsins eins og eftirfarandi textabrot er til vitnis um
"Valhalla the gods await me
Open wide thy gates embrace me.
Great hall of the battle slain
With sword in hand.
All those who stand on shore
Raise high your hands to bid a last
farewell to the Viking land.
Death's chilling wind blows through my hair
I'm now immortal, I am there
I take my place by Odin's side
Eternal army in the sky.
I point my hatchet to the wind
I guard the gates and all within
Hear my sword sing, as I ride across the sky
Sworn by the sacred blood of Odin onward ride.
Valhalla the gods await me
Open wide thy gates embrace me.
Great hall of the battle slain
With sword in hand.
Behold the kingdom of the kings
Books of spells and magic rings
Endless knowledge, endless time
I scream the final battle cry."
í spilaranum hér til hliðar eru svo nokkrir sígildir Manowar slagarar lesendum til yndisauka
Látum bassafantinn og aðal manninn í Manowar, Joey DeMaio eiga síðasta orðið: "I believe in metal more than anybody you´ve ever met. And another thing, I´m prepered to die for metal. Are you?"
DEATH TO FALS METAL!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
15.7.2007 | 19:19
Klukk!
Ég hef tekið eftir að eitthvað klukk-æði gengur núna yfir bloggið og haldiði ekki að hún Maja Solla hafi smellt einu klukki á mig!
Maður á sem sagt að skrifa 8 hluti um sjálfan sig, klukka 8 bloggvini í sömu færslu og segja hver klukkaði mann líka. Það verður líka að skilja eftir einhvers konar klukk-komment í kommentakerfinu hjá ykkar fórnarlömbum. Ok?
Ég læt mér detta einhverjir í hug til að klukka hvort sem þeir verða 8 eða eitthvað færri
En hér eru 8 játningar:
1. Ég á ekki börn og myndi frekar gera heilaskurðaðgerð á sjálfri mér en að eignast svoleiðis
2. Ég gæti lifað á súkkulaði og ís, eingöngu
3. Mér finnst ABBA æði
4. Ég fer voða mikið eftir máltækinu "ekki gera í dag það sem hægt er að fresta til morguns"
5. Ég á ekki sjónvarp
6. Ég á ekki bíl og er "tæknilega" séð ekki með bílpróf þar sem ökuskírteinið mitt rann út fyrir meira en 10 árum síðan
7. Ég á meira áfengi uppi í skáp en boðið er upp á á meðal bar, samt drekk ég mjög sjaldan og hef ekki drukkið mig fulla í 15 ár. Finnst ég bara verða að eiga alla vega 8 tegundir af whiskey, alla mögulega líkjöra, romm og koníak o.fl. o.fl
8. Ég er trúleysingi
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.7.2007 | 13:00
Brækur
Hvenær ætla strákar eiginlega að fara að hætta að ganga um með buxurnar á hælunum?! Nú er þessi óskapnaður búinn að viðgangast allt of lengi en samt virðast þessir drengir ekki enn vera farnir að átta sig á að þeir eru langt frá því að vera svalir. Þvert á móti líta þeir út eins og hálfvitar með mis smekklegar og mis hreinar boxernærbuxur flaxandi upp fyrir buxnastrenginn. Eitt það mest fráhrindandi við karlmenn er að vera með engann rass og allt of stuttar lappir miðað við búkinn. Og hvað gera þessar brækur? Jú, rassinn hverfur undir nærbuxnapoka og lappirnar virðast álíka langar og á mörgæs. Mjög foxy!
Ekki nóg með að líta út eins og asnar heldur er þetta fjötur um fót í orðsins fyllstu merkingu. Ég hef séð unglinga reyna að stíga upp í strætó með buxnasternginn á lærunum. Svona eins og kona í allt of þröngu mínípilsi. Svo er líka örugglega heilmikil kúnst að labba svona án þess að missa allt niður um sig og að þurfa að beygja sig getur endað með ósköpum.
Strákar mínir, hysjiði nú upp um ykkur buxurnar. Þetta er bara asnalegt!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)