Færsluflokkur: Bloggar

veislur

Ég lenti fyrir því um daginn að mér var boðið í brúðkaup og þar sem um náinn vin er að ræða sem er að fara að gifta sig þá sé ég fram á það að sleppa ekki. Annars er ég með ansi gott safn af afsökunum á reiðum höndum þegar einhverjum dettur í hug að bjóða mér í uppstrýluð samkvæmi þar sem maður þekkir næstum engann eins og giftingar, fermingar, afmæli hjá fjarskildum miðaldra ættingjum, útskriftir og þess háttar

a) nei ég verð í Kúala Lumpur þessa helgi
b) alltaf þennan dag verð ég að fægja silfrið
c) ég þarf að baða kanínurnar
d) ég verð örugglega með botnlangakast þennan dag
e) stjörnuspáin mín fyrir þennan dag lítur ekki vel út
f) en þið búið í Grafarvogi og ég rata svo hræðilega illa úti á landi
g) þetta er einmitt kvöldið sem ég var búin að lofa að taka lagið á söngskemmtun Hjálpræðishersins
o.s.frv, o.s.frv.............

Giftingaveislur eru líka svona veislur þar sem allir þurfa að standa upp og skála í tíma og ótíma og enn verra...halda ræður! Af hverju er ekki hægt að hafa þatta bara almennilegt partý, AC/DC á fóninum og allir í myljandi stuði? En nei, það þarf að búa til úr þessu eintóm leiðindi þar fyrir utan sem giftingaveislur geta endað með ósköpum ef fólk sem talar áður en það hugsar nær að opna munninn. Það er nefnilega ekki sama hvað er sagt í öllum þessum ræðum sem gestir þurfa að sitja undir.

Það er hefð að faðir brúðarinnar taki fyrstur til máls. Þó svo að honum líki ekki við brúðgumann er samt óþarfi að láta í ljós þá skoðun sína að hann telji tilvonandi tengdason varla geta hnítt skóreymar hjálparlaust, að hann sé nýbúinn að læra muninn á hægri og vinstri og að það sé alveg ástæða fyrir því að hann sé kallaður Valur vitlausi og beina að lokum þeirri spurningu til dóttur sinnar hvort hún hafi hugleitt að gerast nunna og voni jafnframt heitt og innilega að það eina sm þau geri saman tvö ein á kvöldin sé að bródera í klukkustrengi.

Næstur á mælendaskrá er gjarnan brúðguminn sjálfur. Þrátt fyrir mikið stress er ekki mælt með að hann hafi innbyrt meira en eins og eitt kampavínsglas áður en hann fer með sína ræðu. Það er heldur ekki mælt með að segja sögur úr steggjapartýinu og lýsingar á því hvað einn rússneski stripparinn var með fáránlega stór sílikonbrjóst en samt ótrúlega raunveruleg er meira en flestir vilja vita. Allra síst brúðurin. Hún vill heldur ekki vita að áður en þið kynntust varstu kallaður Jói höstler og kellingarnar voru alveg sjúkar á eftir þér og hvað þín tilvonandi sé nú heppin að þú valdir hana en ekki einhverja aðra. Þú varst nú einu sinn m.a.s með einni fyrrverandu Ungfrú Reykjavík og margföldum sigurvegara í blautbolakeppni Þjóðhátíðar í Eyjum

Næstur í röðinni er svaramaðurinn sem jafnframt er oftast náinn vinur brúðgumans. Og ef ekki er einhver sér valinn veislustjóri þá sinnir hann oft því hlutverki líka. Hann þarf að vera hnittinn og skemmtilegur og kemur gjarnan með skondnar sögur af brúðhjónunum. Hann má heldur ekki vera búinn að fá sér of mikið neðan í því og fara að telja upp fyrrverandi kærustur brúðgumans og lýsa í smáatriðum hvað þeir félagarnir voru að bralla á Hverfisbarnum hérna back in the days og þó svo að Jói vinur hans sé nú að fara að gifta sig þá þýði það ekki að þeir hætti að horfa saman á enska boltann alla laugardaga og spila pókar með vinnufélögunum á fimmtudögum og kíkja öðru hvoru út á lífið saman strákarnir. Hún hlýtur nú að eiga einhverjar vinkonur sem hún þarf að heimsækja og svona. Og þar sem hann Jói félagi sinn sé hvort eð er getulaus eftir slæma klamedíusýkingu fyrir nokkrum árum þá þurfi þau ekki að hafa neinar áhyggjur af einhverju barnastússi

Í giftingarveislum eru líka oft einhver skemmtiatriði. Þau þarf líka að velja af kostgæfni þannig að þau höfði til allra. Þó að þér finnist Böddi frændi þinn sjúklega fyndinn þegar hann tekur sig til og syngur frumsamndar klámvísur eða litla 5 ára systurdóttir þín hrikalega krúttleg að spila Ísbjarnarblús á blokkflautu þá er nokkuð gefið að einhverjir veislugestir eiga ekki eftir að kunna að meta það.

Er ekki bara best að fá Herbert Guðmundsson og málið er dautt?


Þessi færsla er ekki um tölvuleiki...

barryEinhverjir virðast hafa tekið síðustu færslu um tölvuleiki óþarflega persónulega og þar sem að ég vil auðvitað ekki særa stolt neins þá lofa ég að tala aldrei um tölvuleiki aftur! Þess í stað ætla ég að segja ykkur aðeins frá Barry Manilow....

  Barry Manilow, eða Barry Alan Pincuseins og hann heitir réttu nafni er fæddur í Brooklyn þann 17. júní 1943 sem gerir þann merka mann sléttu ári eldri en lýðveldið okkar. Sem stráklingur lærði hann á hið þjóðlega hljóðfæri harmónikku og eftir að hafa spilað valsa og polka í nokkur ár auk þess að taka nokkra létta slagara á píanóið kom stóra breikið en það var að semja auglýsingastef fyrir McDonalds og KFC meðal annara.

Um svipað leyti kynntist hann söngkonunni Bette Midler og saman túruðu þau grimmt um alla helstu hommaklúbba New York borgar þar sem sólbrúni glókollurinn með gullkeðjurnar fangaði hug og hjörtu áheyrenda. Fyrsta sólóplatan lýtur svo dagsins ljós 1973. Hún heitir Barry Manilow I og innihldu smellinn víðfræga Mandy, sem reyndar er eftir einhvern Scott English og heitir Brandy. En Scott þessi hafði greinilega ekki sama sjarma og sex appeal og Barry þannig að hann er löngu týndur og tröllum gefinn en fær þó eflaust sendan reglulega vænan tékka sem höfundalaun og hefur því ekki yfir neinu að kvarta.

 Þarna var Barry strax búinn að finna fjölina sína og fer að dæla frá sér ballöðunum í gríð og erg og aðdáendahópurinn sem samanstendur að mestu leyti af konum á miðjum aldri og þar yfir stækkar hratt. Upp úr 1980 fór þó heldur að síga á ógæfuhliðina allt þar til okkar maður uppgötvar tribute plötur. Ekkert vesen við að semja lög eða suða í öðrum til að semja fyrir þig almennileg lög ef þú getur það ekki sjálfur, þú velur bara eitthvað skothelt sem allir þekkja eins og Bítlana eða Elton John, og vola þú selur milljónir.

Þetta hefur Barry sem sagt gert með góðum árangri og fyllir í kjölfarið hvern tónleikasalinn eftir annan þar sem hann situr við fligilinn í glimmergalla með blásið hárið og rúllar í gegn um Bridge over troubled waters og It never rains in Southern California eins og að drekka rándýrt kampavín og konurnar í salnum tárast af hrifningu.

Barry hefur ekki verið mikið í slúðurpressunni í gegn um tíðina þó svo að atvikið þarna um árið þegar hann braut á sér nefið með því að labba á vegg hafi vakið nokkra athygli. En poppstjörnur gera nú margt furðulegra en það og það var áður en Britney Spears fór að brillera. Þökk sé bótoxi, lýtalækningum og næringarráðgjöfum þá hefur kallinn haldið sér ótrúlega vel miðað við að hann sé kominn hátt á sjötugs aldur. Og nú geta aðdáendur kappans heldur betur kæst því 4. og 6. desember heldur hann tónleika í O2 Arena í London þar sem hann mun eflaust taka lög af metsöluplötunum The christmas gift of love og In the swing of christmas ásamt auðvitað öllum ballöðunum. Er ekki bara málið að fólk skelli sér á Barry Manilow um aðventuna?


Tölvuleikir fyrir alla

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að fólk sem hangir í tölvuleikjum
a) þurfi að hvíla heilann og slökkvi því á honum á meðan og leyfi frumhvötunum að taka stjórnina,
b) sé að fá útrás fyrir innbyrgða ofbeldishneygð. Í stað þess að lumbra á saklausum borgurum, keyra niður gamalmenni í göngugrindum og limlesta stöðumælaverði in real life þá er það gert í einhverjum tölvuleik
c) séu þunglyndir unglingsstrákar með minnimáttarkennd, táfýlu, frjálslegan vindgang, bóluvandamál og yfirgengilegar áhyggjur af því hvað þeir eru snautlega vaxnir niður miðað við hunkin á klámsíðunum sem þeir skoða milli þess sem þeir spila tölvuleiki og éta pizzur
d) menn á þrítugs og fertugs aldri sem eiga ekkert líf og eru enn að velta fyrir sér af hverju kærastan dömpaði þeim

Ég verð reyndar að viðurkenna að ég hef aldrei á æfinni spilað tölvuleik væntanlega vegna þess að ég hef enga þolinmæði í að finna út nýjar og nýjar aðferðir til að myrða geimskrýmsli eða skæruliða til að geta klárað leikinn. Þetta er svona svipað og þegar ég ætlaði að læra á gítar. Þegar ég gat ekki spilað Smoke on the water eftir 10 mínútur þá missti ég þolinmæðina og gafst upp. En ég hef heldur ekki búið í helli undanfarin ár þannig að ég veit svo sem út á hvað þetta gengur. Þó að blóðugt ofbeldi sé alltaf vænlegt til vinsælda og nöfn eins og Killzone, World of warcraft, Army of two og fleira uppbyggilegt hringi bjöllum hjá mörgum þá er þetta nú ekki allt þannig.

Það eru allskonar íþróttanördaleikir líka og krúttlegir leikir með hoppandi apaköttum og syngjandi mörgæsum. En það vantar fleiri einhverja svona frumlega leiki eins og þennan pissuleik sem minnst er á í fréttinni. Hvernig væri t.d leikur sem gengi út á það að þú ert að keyra risastóran valtara og ert að elta bleika og blá hnoðra sem snúast í hringi og syngja Júróvisjónlög. Þú átt að reyna að keyra yfir sem flesta en þeir eiga að reyna að drepa þig með því að kyrkja þig með grænum spandexbuxum eða stinga úr þér augun með hælaháum skóm. Þú getur hins vegar unnið þér inn aukavopn sem eru fjarstýrð garðsláttuvél, vampýrumótorhjól og mannætubrauðrist. Aðal vopnið sem vinnur leikinn samstundist ef þú nærð í það, er svo málhaltur borgarstjóri sem talar í svo mikla hringavitleysu að hnoðrarnir missa vitið og springa í loft upp.
Þarna er búið að sameina krúttlegu hliðina og ofbeldið og ná þannig að höfða til ólíkra hópa tölvuleikjanörda þannig að ég sé ekki annað en að þessi leikur eigi eftir að verða instant hit


mbl.is Frumlegur tölvuleikur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Homo erectus extinctus

Nú er illa komið fyrir karlmönnum þessa heims. Það er nefnilega allt útlit fyrir að eftir nokkur ár (125.000 eða svo) verði karlskepnan útdautt fyrirbæri, svona eins og Geirfuglinn. Það er að segja ef ekkert verður að gert til hjálpar.

Það sem greinir karla frá konum er þessi Y litningur sem karlarnir hafa og nánast eini tilgangur þessa litnings er að framleiða sæði til að tegundin geti nú fjölgað sér. Nú er hins vegar svo komið að ófrjósemi karla eykst stöðugt, um 7% allra karlmanna eru ófrjóir og stór hluti þeirra sem þó enn gagnast eitthvað við barnatilbúning eiga í mestu vandræðum með að standa sig í stykkinu sökum arfgengra galla í þessum blessaða Y litningi. Af sömu orsökum verða innlagnir í sæðisbanka rírari með hverju árinu.

En hvcað er til ráða og af hverju eru það bara karlar sem eiga á hættu að deyja út en ekki allt mannkyn sökum getuleysis? Jú, vísindamenn hafa fundið aðferð til að vinna sæði úr beinmerg sem hægt er að frjóvga egg kvenna með (það er allt í fína með framleiðsluna þar) en (og það stórt EN) ekki aðeins úr beinmerg karla heldur alveg eins úr beinmerg kvenna. Það er því fræðilegur möguleiki, og þess verður eflaust ekki langt að bíða að börn eigi bókstaflega tvær mæður.

Til að bæta gráu ofan á svart fyrir framtíðarhorfur karlmanna þá eru það sífellt fleiri konur sem kjósa að ala upp börn án þess að karlmaður komi þar nokkuð nærri. Annað hvort lasbísk pör eða einhleypar gagnkynhneigðar konur sem velja það fjölskyldumunstur fram yfir hefðbundna sambúð (nú eða þá konur sem kjósa að sleppa því algerlega að eignast börn og eru ósköp sáttar við það). Rannsóknir hafa líka sýnt fram á að ef konur sjá fram á það að geta séð sér og sínum farborða með góðu móti án þess að vera í hefðbundnu hjónabandi eða sambúð, auk þess sem þær sjá um stóran hluta allra heimilisstarfa hvort eða er þá eru þær mun líklegri til að velja að búa einar eða með annari konu. Engir skítugir sokkar út um allt, setan alltaf niðri á klósettinu, báðir aðilar full færir um að stjórna þvottavél, helgarnar ekki undirlagðar í fótbolta eða formúlugláp með félögunum sem virðast geta fátt annað en sulla niður bjór og pizzu, ropa og klóra sér í rassinum og það er hlustað á þig þegar þú talar. Ef að svo við bætist sá möguleiki að geta eignast börn án íhlutunar karlmann þá er held ég fokið í flest skjól.

Þróunin á vesturlöndum er líka sú að konur eru orðnar duglegri en karlar að afla sér menntunar og með betri menntun koma oftast betri laun. Því er að vaxa úr grasi kynslóð stelpna sem áttar sig á því að þær geta gert betur en strákarnir. Og svo ég vitni í grein sem ég las um þessi mál: "it is impossible to predict how the male sex will react to a world where “effortless achievement” is no longer their right"

Ég sé því fyrir mér friðsælan og réttlátan heim án ofbeldis og perraskapar, þar sem konur stjórna og lifa saman í sátt og samlyndi...eftir svona 125.000 ár :)


Stóra gasmálið

Fáir atburðir hafa í seinni tíð vakið jafn mikil viðbrögð og Stóra gasmálið, eða atvikið þarna á Suðurlandsveginum þegar löggan fór á taugum og byrjaði að úða piparúða á allt sem hreyfðist, eða öllu heldur á allt sem hreyfðist ekki. Forsvarsmenn lögreglunnar hafa verið fámálir um þennan atburð og því er forvitnilegt að heyra hvað lögreglustjórinn í Reykjavík, Herr Flick hefur um þetta mál að segja. Hér er glóðvolgt viðtal.

Blaðamaður (Blm.): Voru þetta ekki allt of harkaleg viðbrögð að hálfu lögreglunnar?

Lögreglustjóri (Lögr.stj.): Nei alls ekki. Þetta varðaði við þjóðaröryggi. Þarna var að safnast saman alls konar lýður með skrýlslæti. Ekki bara þessir bílstjóradurgar sem kunna hvort sem er ekki að keyra og eru stórhættulegir í umferðinni, étandi rækjusamlokur, talandi í símann og skafandi smurolíu undan nöglunum á sér, allt á meðan þeir þjösnast á 120 eftir Bústaðaveginum með fullan pallinn af stórgrýti, heldur líka ofstopafullir menntaskólanemar og umhverfisverndarsinnar. Það hljóta allir að sjá í hvers konar voða stefndi ef við hefðum ekki gripið í taumana

Blm.: En hvaða ástæðu hafði lögreglan til að mæta þarna grá fyrir járnum þar sem engin ástæða hafði þótt fram að þessu til að beita mótmælendur ofbeldi?

Lögr.stj.: Ja....bara!

Blm.: Bara!? Bara er ekkert svar!

Lögr.stj.: Víst! Ef ég segi það!

Blm.: Heyrðu mig nú! Þá skrifa ég bara að þú hafir sagt að allir sem voru þarna væru hálfvitar sem áttu það skilið að vera lamdir í hausinn og....

Lögr.stj.: Rólegur maður! getum við haft þetta off the record?

Blm.: Jú ætli það ekki, þetta fer alla vega ekkert voða langt...kanski..

Lögr.stj.: Ja sko, strákarnir í Sérsveitinni voru búnir að biðja um að fá að prófa smá dót sem þeir áttu og höfðu voða lítið getað notað.

Blm.: Dót?!

Lögr.stj.: Já þegar nýju búningarni komu í vetur þá fengu þeir nýjar græjur eins og þessa flottu skildi og miklu betri kilfur og handjárn. Allt sérpantað frá ameríku, nýjustu týpurnar. Já svo hafa þeir aldrei getað notað piparúða í svona miklu magni áður, það dugar yfirleitt bara smá gusa á þetta sífulla, mígandi lið í miðbænum um helgar. Þeir hafa líka verið mjög duglegir að æfa sig eftir að þeir heyrðu því fleigt að það ætti að koma upp leyniþjónustu og heimavarnarliði. Þeir vildu bara sýna dómsmálaráðherra að þeir væru starfinu vaxnir. Bara svekkjandi að stuðbyssurnar voru ekki komnar

Blm.: En ekki á að halda svona áfram eftir þau hörðu viðbrögð sem komið hafa fram?

Lögr.stj.: Í mínu ungdæmi þótti ekkert athugavert við smá hörku, það sýnir bara hver ræður. En það eru einhverjir metrómenn og kellingar sem vilja að farnar verði aðrar leiðir. Ætli maður gefi því ekki séns þó ég viti alveg að það virkar ekki að taka á ofbeldisbullum með silkihönskum

Blm.: Og hvaða leiðir eru það?

Lögr.stj.: Næst verður Lögreglukórinn sendur á vettvang og mun taka nokkur vel valin lög eins og Brennið þið vitar og Hamraborgina. Ef það dugar ekki til að stökkva mönnum á flótta þá mun Leikfélag lögreglumanna stíga fram og taka nokkra kafla úr Hamlet og Gullna hliðinu. Þá ættu nú flestir að vera búnir að gefast upp. Neiðarúrræðið er svo að senda félaga úr Hvítasunnusöfnuðinum á vettvang til að fara með Biblíutilvitnanir og leggja út frá einhverju guðspjallinu og taka svo nokkur hress lög í lokin. Svo verður öllum boðið upp á spæld egg


Ég mótmæli líka!

Við íslendingar virðumst loksins hafa uppgötvað mótmæli, og það með stæl. Tími úlpuklæddra menntaskólanema og eftirleguhippa, hangandi í nepjunni með sultardropa á nefinu fyrir utan Stjórnarráðið, með spjöld að mótmæla túnfiskveiðum í Kyrrahafi er liðinn. Það tekur enginn mark á svoleiðis, það þarf aksjón. Þetta föttuðu atvinnubílstjórar og síðan hafa fleiri bæst í hóp þeirra sem mótmæla með látum svo eftir er tekið
Þar sem ég á ekki bíl þá er mér slétt sama hvað bensínið kostar þó svo að ég skilji vel að þeir sem hafa akstur bíla að atvinnu séu ekki sérlega hamingjusamir með verðið. Aftur á móti vorkenni ég jeppaliðinu nákvæmlega ekki neitt. Fáið ykkur sparneytnari bíla! Það þarf ekki jeppa til að komast á milli borgarhluta í Reykjavík! Nú og fyrst þið eruð á svona dýrum og flottum jeppum þá hljótið þið að vera svo ógeðslega rík að ykkur munar ekkert um að kaupa bensín fyrir 50 þúsund kall á viku, nema þetta sé þessi alræmdi íslenski flottræfilsháttur að finnast svaka fínt að spila sig einhvern þvílíkan spaða. En nóg um það.

Þar sem að ég á ekki bíl eins og ég sagði áðan þá hef ég enga ástæðu til að mótmæla háu bensínverði. Ég nenni heldur aldrei í bíó þannig að hátt bíómiðaverð kemur ekkert við budduna hjá mér. Ólympíueldurinn kemur heldur ekki hingað þannig að ekki get ég mótmælt mannréttindabrotum í Kína með því að reyna að ráðast á kindilberann og sparka í sköflunginn á honum. Ég fór því að velta fyrir mér hverju ég gæti mótmælt, svona til að vera með í mótmælabylgjunni.

Það er orðið hálf þreytt að mótmæla ríkisstjórninni eða borgarstjórninni sérstaklega þar sem hvorug gerir nokkurn skapaðan hlut yfir höfuð annað en að vera bara þarna. Ég gæti samt reynt að planta mér fyrir framan Seðlabankann til að mótmæla vaxtaokri og skvett skyrir á Davíð Oddsson í hvert skipti sem hann labbaði fram hjá. Ég gæti reynt að brjótast inn á skrifstofur Arkitektafélagsins og krotað slagorð á veggi til að láta í ljós þá skoðun mína að mér finnst vera komið meira en nóg af ljótum húsum í Reykjavík. Lærðu þessir menn allir í Austur-Þýskalandi eða hvað! Það er líka full ástæða til að mótmæla einhæfum flugvélamat. Hversu lengi á eiginlega að bjóða okkur upp á eggjahræru og soðna skinku? Var gerður samningur við eggjahræru og skinkuframleiðanad til 200 ára? Og talandi um flugvélar, hvenær verður þessum ömurlega óþægilegu svamphlunkum eiginlega skipt út fyrir almennileg sæti? Halló! Það er 2008 og það eru samskonar sæti í flugvélum í dag og voru í flugvélinni hjá Wright bræðrum!

Þar sem ég er komin út í frekar persónuleg mótmæli hér þá vil ég líka nota tækifærið og mótmæla ömurlegum mat sem fólki er boðið upp á, á okurprís í vegasjoppum landsins. Það er list að gera jafn vonda hamborgara. Ég mótmæli líka harðlega þeim útvarpsstöðvum sem hafa tekið upp þann ósið að vera með íþróttaþætti á dagskrá á vinnutíma. Maður er í vinnunni og vill hafa góða tónlist til að stytta sér stundir en ekki einhvern gjammandi íþróttafréttamann að velta sér upp úr því hvort United hefði ekki átt að fá víti þegar Bobby Jones braut á Billy Bob með því að klípa hann í rassinn og fer svo í löngu máli yfir gang mála í leik Galgopa frá Stöðvarfirði og Lubba frá Hólmavík í utandeildarbikarkeppninni í fótbolta.

Ég er líka alveg búin að fá nóg af fólki með organdi börn á kaffihúsum þar sem maður vill njóta kaffibollans og súkkulaðikökunnar í friði og spekt. Af hverju eruði ekki á McDonalds eða í Smáralindinni?! Ég vil líka mótmæla því að mér sé boðið í brúðkaup og fermingarveislur og fólk skal ekki einu sinni voga sér að fá þá hugmynd að bjóða mér í barnaafmæli eða skýrnarveislur. það verður geymt en ekki gleymt!

Að lokum vil ég svo mótmæla harðlega okur verði á hágæða súkkulaði. Það er hægt að fá eitthvað sykur og smjörlíkisjukk með gerfibragðefnum og svo mörgum E númerum að þau komast ekki fyrir á umbúðunum, í öllum sjoppum á viðráðanlegu verði en lítill kassi af belgískum kampavínstrufflum kostar 1.500 kall! Hverslags ósvífni er þetta!

Spurningin er svo bara hvort löggan byrjar á að lemja mig með kilfum eða úðar fyrst á mig piparúða þegar ég læt til skara skríða.


Ferðasaga frá Marocco

Ég er sem sagt búin að vera í Marocco með viðkomu á Spáni undanfarna 10 daga. Eitthvað sem ég mæli með að allir sem á annað borð hafa áhuga á einhverju meira framandi en baðströndunum á Costa del sol og golfvöllum í Florida reyni að upplifa. Sums staðar hafði maður á tilfinningunni að maður væri staddur í settinu á fyrstu Indiana Jones myndinni, þar hafði tíminn nánast staðið í stað síðan um miðja þar síðustu öld. Það eina sem benti til þess að við værum eitthvað nær samtímanum voru vespurnar sem menn keyrðu eins og bavíanar og skipti þá engu þótt gatan væri innan við tveggja metra breið með húsum á báðar hendur og full af gangandi fólki.

Umferðarmenningin, eða réttara sagt umferðarómenningin var alveg kafli út af fyrir sig. Umferðarreglur virtust bara vera svona til lauslegrar viðmiðunar og ekkert issjú að fara nákvæmlega eftir þeim. Jú, jú, flestir stoppuðu á rauðu ljósu en þar með er það upp talið. Hringtorg voru eitt allsherjar kaos þar sem menn keyrðu bara einhvernvegin og gangandi vegfarendur áttu gjarnan fótum fjör að launa ef þeir ætluðu sér yfir götu, og voru ekki einu sinni óhulltir á gangstéttunum þar sem ökuníðingar á vespum töldu sig alltaf eiga réttinn. Já og ekki má gleyma hestum og ösnum sem lulluðu með kerrur inn á milli bílanna. Í öllu þessu kraðaki var því flautan mikilvægasti hlutur hvers ökutækis.

Það var farið ansi víða í þessari ferð. M.a til borganna Fes, Casablanca, Marrakech og Rabat. Að ganga um elstu hluta þessara borga, Medínuna svokölluðu er upplifun út af fyrir sig og þá sérstakleg í Fes þar sem Medínan er svo til óbreytt frá því sem hún var á miðöldum. Þar er göturnar eitt risastórt völundarhús í allar áttir og sums staðar svo þröngar að ef maður rétti út hendurnar gat maður snert veggina báðu megin. Þarna ægir svo saman mönnum og skepnum og þar er hægt að kaupa handofin teppi, leðurtöskur, sútaðar gærur, notaðar klósettsetur, hænur á fæti, gerfitennur af ýmsum stærðum, krydd eftir vigt, óslægðan fisk, myndir af kónginum, úlfaldakjöt af nýslátruðu, gamlar ritvélar o.fl, o.fl. Og áður an þú veist af var búið að pranga einhverju af þessu inn á þig.

Þegar keyrt var á milli staða gat maður virt fyrir sér lífið í sveitunum út um bílgluggann. Það virtist aðallega ganga út á það að konurnar unnu á ökrunum meðan karlarnir sváfu undir tré eða sátu við eitthvað kaffihúsið og drukku te. Ég hef alla vega ekki séð svona mikið af iðjulausum karlmönnum á eins stuttum tíma síðan í Tyrklandi hérna um árið. Það var ekki laust við að maður heyrði öfundarandvarp frá sumum karlkyns ferðafélögunum.

Leigubílarnir í Marocco eru fyrirbæri sem vert er að minnast aðeins á. Það eru annars vegar svokallaðir "grand taxi" sem eru alltaf 20-30 ára gamlir Benzar og svo "petit taxi" sem eru álíka gamlir Fiat Uno eða svipaðir bílar. Munurinn á grand taxi og petit taxi er að sá fyrrnefndi má keyra fólk um allt en þeir síðarnefndu meiga ekki fara út fyrir borgamörk. Ef þú ætlar að taka grand taxi þá veifar þú einum slíkum og skiptir þá engu máli hvort það eru farþegar fyrir í honum eða ekki, það er hrúgað í kerruna þar til hæfilegum fjölda þarþega er náð sem eru 6 fyrir utan bílstjórann. Svo getur bæst við farangur sem getur verið nýslátraðar hænur í kvöldmatinn eða notaður stálvaskur sem fékkst á góðu verði á markaðnum. Svo er keyrt af stað. Petit taxinn tekur hins vegar ekki nema 4 farþega ásamt bílstjóra. En með þessu móti eru leigubílar ódýr ferðamáti og ef þú setur það ekkert fyrir þig að lenda kanski við hliðina á einhverjum sem hefur ekki farið í bað þann mánuðinn þá er þetta hið ágætasta fyrirkomulag.

Þó svo að Maroccoferðin hafi verið alveg mögnuð í alla staði þá var samt voða notalegt að slappa af í Jerez á Spáni í 2 daga í endann og fá eitthvað annað en cus cus að borða. Jerez er líka afskaplega krúttlegur og sjarmerandi bær með fullt af kaffihúsum og tapasstöðum og frægur fyrir sérrý framleiðslu. Þegar ég verð orðin nógu gömul til að kunna að meta sérrý þá ætla ég sko alveg örugglega að fara aftur til Jerez og heimsækja öll brugghúsin...tvisvar!


Við erum þá alla vega seif í 6 vikur...

Eftir að Kaninn fór og hætti að passa upp á okkur hefur auðvitað verið stór varasamt að lifa á Íslandi. Við hérna algerlega varnarlaus norður í ballarhafi. Við hefðum getað verið hernumin rétt si svona. Það hefðu getað komið útsendarar frá uuuhhh...uummm....hérna....sjáum nú til.....já, bara einhverju landi sem alltaf er að hertaka önnur lönd eins og...uummmm...hérna.....já, hver man ekki eftir innrásinnu í Pólland hérna um árið? Það mættu bara menn á skriðdrekum og Pólverjar voru bara alveg lost. Og svo héldu þessir menn bara áfram og réðust inn í hvert landið eftir annað. Og af hverju var það? Jú, menn pössuðu sig ekki nógu vel.

Hver veit hvað Al-Kaída eru að bralla? Eða Rússneska mafían? Nú eða þá Hells Angels, stór hættulegt fólk. Palestínumenn, femínistar, Rauðu Kmerarnir, Fídel Castro, Bleiku Bastarnir, Spænski Ransóknarrétturinn, Fjögur fræknu, Brakúla greifi...listinn er endalaus. Við meigum ekki láta friðarspilla og ofbeldisbullur eins og Falun Gong komast upp með óspektir þannig að hrikti í stoðum samfélagsins. Ég meina, hver þplir leikfimi í slow motion til lengdar? Við þurfum vernd og ekkert múður meðan afturhaldskommar og kellingar koma í veg fyrir að hér verði stofnaður alvöru her að erlendri fyrirmynd.

Dómsmálaráðherra hefur löngum talað fyrir daufum eyrum þegar kemur að umræðunni um íslenskan her en hefur á lymskulegan hátt, með aðstoð vinar síns Ríkislögreglustjóra tekist að koma upp vísi að her með allar græjur, byssur, júníform, lambhúshettur og alla helstu frasana úr Law & order á hreinu. Við getum þakkað víkingasveitinni og hennar vasklegu framgöngu að hassreykingar á heimavistum virðulegra skólastofnana úti á landi heyra nú sögunni til, að skemmtanalífið í Keflavík er orðið án mikilla óeirða og að drukknir heimilisfeður sem hóta að skjóta konuna og heimilisköttinn með snæri eru handasmaðir og færðir í fangageymslur í járnum...svona þegar þeir hafa vaknað.

Nú hefur forsætisráðherra tilkynnt að loksins sjái fyrir endann á varnarleysinu þar sem franskir dátar ætla að koma hingað í næsta mánuði og verja okkur með kjafti og klóm í 6 vikur. Ég verð samt að viðurkenna að ég er mun spenntari fyrir þeim frönsku en þeim amerísku sem hér voru fyrir. Ég sé fyrir mér huggulega unga menn með alpahúfur í vel hönnuðum einkennisbúningum sem hafa smekk fyrir góðum vínum og ostum og eru fágaðir og kurteisir. Annað en krúnurakaðir fyrirrennarar þeirra með mottu og sítt að aftan, vaxnir eins og Grétar Mar fyrir garnastyttingu hámandi í sig hamborgara fljótandi í majonesi og franskar kartöflur, júmbó stærð. Og haldandi að Ástralía sé bær í Texas og Bulgaria sé átröskunarsjúkdómur. Þegar Frakkarnir svo fara eiga einhverjir aðrir að taka við, segir svo forsætisráðherra. Mér finnst t.d Ítalir voða fínir í þetta....


mbl.is 100 manna frönsk flugsveit á leið til landsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

...og hvað sagði forsætisráðherra meira?

Í þessari frétt er farið í helstu atriði ræðu forsætisráðherra á Alþingi í dag. Athugull blaðamaður náði hins vegar stuttu spjalli við hann í kaffihlénu meðan hann var að gæða sér á bakkelsi og spurði nánar út í efnahagsástandið og aðgerðir ríkisstjórnarinnar

Blaðamaður (Blm.): Þú minnist þarna á óvæntan skort á gjaldeyri. Hvernig er það, gleymdist að telja í Seðlabankanum?

Forsætisráðherra (Fors.rh.): Það komust víst mýs í peningageymsluna. Nöguðu gat á helling af evrum og dollurum en af einhverjum ástæðum litu þær ekki við krónunum sem voru geymdar í sama herbergi

Blm: Þetta er nú ekki trúleg skýring finnst mér

Fors.rh: Já það sagði ég líka við Seðlabankastjóra, en hann fullyrðir þetta

Blm: Og hvernig var þá umhorfs í peningageymslunni?

Fors.rh: Hvernig ætti ég að vita það? Ég er bara forsætisráðherra!

Blm: Ha...?!

Fors.rh: Já, mér hefur ekki verið hleypt inn í Seðlabankann síðan ég samþykkti að láta endurskoða eftirlaunafrumvarpið. Seðlabankastjóri er víst eitthvað foj ennþá

Blm: En til hvaða aðgerða ætlar Seðlabankinn þá að grípa varðandi gjaldeyrisforðann?

Fors.rh: Ertu að spyrja mig? Síðan ég minntist á um daginn að endurskoða peningastefnu Seðlabankans hefur Seðlabankastjóri ekki svarað símanum og sendi mér SMS þar sem stóð "ég hækka bara vextina eins og mér sýnist, gleraugnaglámur!" Svo endursendi hann mér jólakortið frá því um síðustu jól.

Blm: Ja hérna! En hvert er þá útspil Ríkisstjórnarinnar?

Fors.rh: Alla vega ekki að ganga í Evrópusambandið!

Blm: Nei ég meintu nú bara til skemmri tíma litið

Fors.rh: Þetta vesen er bara ekki okkur að kenna! Þetta eru allt einhverjir illa innrættir braskarar í útlöndum sem eru að eyðileggja allt. Utanríkisráðherra talar ekki við mig af því að ég vil ekki ganga í Evrópusambandið, Seðlabankastjóri talar ekki við mig af því að fólk getur ekki bara gleymt þessu eftirlaunadæmi, borgarstjórinn talar ekki við mig af því að hann man ekki hver ég er, umhverfisráðherra talar ekki við mig af því að ég stakk upp á 2-3 álverum til að redda okkur, fullt af bæjarstjórum úti á landi tala ekki við mig af því að þeir fá ekki álver eða jarðgöng eins og allir hinir, konan mín talar ekki við mig af því að ég gleymdi brúðkaupsdeginum okkar og Ríkislögreglustjóri talar ekki við mig af því að þeir fá ekki nógu margar skyrtur! Svo er alltaf verið að spyrja mig hvernig á að leysa þetta eða hitt og af hverju gengið er svona lágt og og allt verð svona hátt. Ég veit ekkert um þetta og vil bara fá að vera í friði! Hvenær byrjar sumarfríið?!


mbl.is Geir: Tvennskonar vandi í efnahagsmálum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hann er dýr dropinn...

Aðal umræðuefnið þessa dagana virðist vera bensínverðið. Fólk Jesúsar sig í bak og fyrir þegar á það er minnst og setur upp einhverskonar sambland af armæðu- og skelfingarsvip. Það virðist alla menn vera lifandi að drepa. En þegar bensínið hækkar svona upp úr öllu valdi að fólk þarf áfallahjálp eftir að hafa fyllt á tankinn er þá ekki málið að reyna að nota aðeins minna af því?

Samkvæmt Hagstofunni voru árið 2005, 187.442 fólksbifreiðar á skrá á landinu (þ.e bílar sem taka 8 farþega eða færri) og ég get étið bæði hatt minn og staf ásamt lopasokkum og bróderuðu sængurveri að þeim hefur ekki fækkað síðan þá. Og örugglega hátt í helmingurinn af þessum bílum eru jeppar sem ekki hafa hingað til unnið til verðlauna fyrir sparakstur. Við þessa tölu á svo eftir að bæta sendiferðabílum, rútum, vörubílum, mótorhjólum og alls kyns vinnuvélum. Þurfa þessar 300.000 hræður virkilega að eiga 187.442 fólksbíla?! Og er nauðsynlegt að eiga upphækkaðann jeppa til að komast frá Grafarvogi og upp í Smáralind?

Ég legg til að fólk líti aðeins í eigin barm áður en það óskapast meira yfir bensínverðinu. Hvenær varð það t.d banvænt að ganga á milli húsa, eins og manni finnst fólk stundum láta? Það er alveg merkilegt hvað fólk virðist vera fótafúið. Það gæti jafnvel brennt einhverjum kalóríum á óþarfa labbi! Jedúddamía! Og að minnast á það við fólk hvort að það geti ekki notað Strætó endrum og sinnum og skilið bílinn eftir heima er eins og að leggja til að það flái heimilsköttinn og eldi hann með karrý og hrísgrjónum í kvöldmatinn. Gjörsamlega fráleit hugmynd! Nágrannarnir koma auðvitað til með að halda að viðkomandi hafi misst bílprófið eða hafi ekki efni á að eiga bíl, eða konan hafi farið í fússi með bílinn, krakkana, hundinn og verðbréfin og hvert af þessu er verra veit ég ekki.

Bílar eru líka auðvitað stöðutákn, það lætur enginn heilvita maður með vott af sjálfsvirðingu sjá sig í Strætó með öryrkjum, útlendingum og gamalmennum. Ekki cool að mæta í kokteilboð hjá bankanum í Strætó eða á hjóli. Krakkarnir eru ekki einu sinni látin taka Strætó, þau eru auðvitað keyrð allt sem þau þurfa að fara þar til þau fá bílpróf enda líka alveg jafn slæm til fótanna og foreldrarnir og holdafarið líka orðið eftir því.

Ég skil vel að fólk sem hefur akstur að atvinnu sé ekki mjög hresst þessa dagana en allir hinir eiga bara að hætta að væla og gera eitthvað í málinu. Hvernig væri t.d að byrja á því að eiga einn bíl og það kanski sparneytinn líka?


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband