Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Ó Reykjavík, ó Reykjavík...

Það er ekki bara íslenskt efnahagskerfi sem er að fara til fjandans, Reykjavík er líka að fara til fjandans. Og þá sérstaklega miðbærinn.

Þetta byrjaði allt á einhverju grenji frá misvitrum pólitíkusum um að miðborgin væri í dauðategjunum meðan allt væri á blússandi siglingu í Kringlunni og Smáralindinni. Það þyrfti meiri uppbyggingu. Á þessum tíma hafði ég ekki tekið eftir neinum dauðategjum þó svo að ég byggi í miðbænum sjálf og geri enn. En vællinn varð meiri og meiri þannig að á endanum fóru borgaryfirvöld á taugum og áður en menn rönkuðu við sér var búið að leyfa niðurrif á hálfum Laugaveginum og góðum parti af Hverfisgötunni og Skuggahverfið var farið að líta út eins og í Amerískri stórborg. Eintómir forljótir, karakterlausir steypuklumpar gnæfandi yfir eitt og eitt eldra hús sem fyrir náð og miskun fékk að standa áfram. 

Nú eru þessir sömu pólitíkusar og höfðu hvað hæst um "skelfilegt ástand miðborgarinnar" við völd í Reykjavík og útlitið á miðbænum hefur aldrei verið verra þau 15 ár sem ég hef búið þar. Harlem lítur betur út. Gráðugir verktakar og ennþá gráðugri fjárfestar virðast eiga annað hvert hús og það sem ekki hafði fengist leyfi til að rífa með því að sleikja upp pólitíkusana, það er látið grotna niður þannig að á endanum er ekki annað hægt að gera. Svo verður byggður einhver risastór óskapnaður úr stáli og gleri og að sjálfsögðu með 5 hæða bílakjallara því meiri bílaumferð í miðbæinn er einmitt það sem vantaði. Og fjárfestarnir hlæja alla leið í bankann

Núverandi borgarstjórn til varnar má þó benda á að það er eflaust erfitt að hafa borgarstjóra sem þjáist af félagsfælni og lætur helst ekki sjá sig þar sem fleiri en þrír koma saman. Auk þess sem maðurinn er með eindæmum hörundssár og gæti tekið það sem persónulega árás ef einhver spyrði hann hvað klukkan væri. En á móti má spyrja, ræður hann yfir höfuð einhverju?

Borgarstjóri númer 2, Vilhjálmur Þ, var ekki mjög mikið með á nótunum þegar hann fékk að vera aðal hérna um árið og hefur ekkert skánað síðan. Meikar jafn mikinn sens stundum og Sænski kokkurinn í Prúðuleikurunum. Restin af borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins er of upptekin við að skipa sjálf sig í þægileg embætti og dygga stuðningsmenn í nefndir og ráð og díla með alla skrilljarðana sem Orkuveitan á, til að hafa nokkurn tíma til að reka þetta batterí sem Reykjavíkurborg er. Á meðan fer allt hægt og rólega beina leið til fjandans.

 


hamingjan leynir sér ekki á Íslandi í dag

vikings.jpgVið Íslendingar höfum alltaf verið að springa úr hamingju. Forfeður okkar voru sérstaklega hamingjusamir yfir því að geta flust frá iðagrænum sveitum Noregs á rokrassgat norður í ballarhafi. Og ekki minnkaði hamingjan við það að skreppa í leiðinni til Írlands og pikka upp eins og eina eða tvær rjóðar og sællegar sveitastúlkur. Sögum fer þó ekki af þeirra hamingju.

Hér undu menn hag sínum hið besta og brostu út að eyrum meðan þeir drápu hvorn annan og alla húskarlana í hefndarvígum. Að frátalinni stuttri útrás til Grænlands og Vínlands sem ekki þótti borga sig á þeim tíma voru menn bara ánægðir hver í sinni sveit. Vopnin voru lögð til hliðar þar sem þau ryðguðu og skipin fúnuðu þar sem enginn nennti lengur að vera að rápa eitthvað til útlanada og útlendir kóngar þóttu ekki það merkilegur pappír lengur og voru auk þess hættir að skilja dróttkvæði.

Smávegis niðursveifla kom á hamingjustuðulinn á tímum móðuharðinda, nauðsynleg leiðrétting telja sumir, og óumflýjanlegur fórnarkostnaður að u.þ.b helmingur þjóðarinnar dræpist úr hor og vesöld. Þó var það ekki svo slæmt að þurfa að herða sultarólina aðeins því að á eftir kreppu kemur alltaf uppsveifla og menn gátu fljótt tekið gleði sína á ný. Tilgengnir sauðskinnsskór og þurrkað fiskiroð var heldur ekki sem verst og afskaplega próteinríkt.

Það voru svo Danir sem kynntu okkur fyrir alþjóðlegri verslun að nýju og við uppgötvuðum hvað það að versla gerir okkur hamingjusöm. Það var það sama þá og nú, við kaupum hreinlega allt. Skúli Magnússon reyndi svo að koma á fót iðnaði svo við gætum keypt okkar eigið dót en komst að því að íslendingar voru ekki þessar týpur sem nenntu að að vinna heilalausa 9-5 vinnu. En hey, við vorum hamingjusöm í okkar sveit með sauðfé á beit.

Þegar svo seinna stríðið brýst út og erlendir fjárfestar með tyggjó og nælonsokka í öllum vösum fara allt í einu að hrúga í okkur peningum fyrir að moka skurð þá hreinlega görgum við af gleði og þessi gleðivíma var svo mögnuð að við  tókum ekkert eftir því þegar Framsóknarflokkurinn byrjaði að draga okkur hægt og rólega aftur í tímann og var kominn með okkur langt aftur á síð miðaldir þegar við loksins rönkum við okkur og Evrópusambandið í dulargerfi EES kippir okkur inn í nútímann. Síðan hefur þetta allt verið eintóm blússandi hamingja, ja nema þú eigir stóran hlut í FL Group kanski.

 


mbl.is Fengu hamingjuna í arf frá víkingunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

á leið til fjandans

Eins og allir ættu að vita (nema kanski þeir sem vinna í Seðlabankanum) þá er allt að fara til fjandans hérna á Íslandi. Allt hækkar og hækkar og aumingja nýríka fólkið horfir á hlutabréfin sín hrynja í verði og er jafnvel alls ekkert svo ríkt lengur. Til að varpa aðeins ljósi á þessa þróun og grenslast fyrir um hvað er eiginlega í gangi þá er hér stutt viðtal við Seðlabankastjóra.

Blaðamaður (Blm.): Nú eru efnahagshorfur á Íslandi mjög slæmar. Vöruverð hækkar og gengið fellur. Hver er ástæðan?

Seðlabankastjóri (Sbk.stj.): Jú eftir mikla og þrotlausa rannsóknarvinnu síðustu mánuði komumst við af því að þetta er allt spákaupmönnum og þessháttar peningabröskurum að kenna. Eins og ég hef alltaf haldið fram þá er ekkert athugavert við peningastefnu mína...ég meina Seðlabankans.

Blm.: Og hvað er til ráða?

Sbk.stj: Nú auðvitað að hækka vextina. Vaxtahækkun er eins og Panódíl, virkar á allt. Og eins og hendi væri veifað hækkaði úrvalsvísitalan, þökk sé mér....okkur.

Blm: En nú segir Vilhjálmur Egilsson að vísitalan hefði hækkað hvort sem er vegna þróunar á erlendum mörkuðum og það eina sem gerist er að greiðslubyrði heimilanna eykst

Sbk.stj: Sko, Vilhjálmur Egilsson er líka bara vitleysingur og föðurlandssvikari í þokkabót og vill ganga í Evrópusambandið. Og svo er hann með uppsteyt og er hættur að vilja segja það sem ég segi honum að segja. Það var ekki svona upp á honum typpið þegar ég var forsætisráðherra!

Blm: Talandi um Evrópusambandið, er ekki kominn tími til að skoða upptöku ev....

Sbk.stj: Stoppaðu hér væni minn! Þú nefnir ekki þetta orð í mínum húsum. Árið 1989 ákvað ég að Ísland myndi aldrei ganga í þessi bölvuðu samtök og þar við situr og þarf ekki að ræða frekar

Blm: En nú hefur gífurlega margt breyst síðan 1989. Er ekki tími til að endurskoða þessa ákvörðun?

Sbk.stj: Var ég ekki að segja þér að ég hefði ákveðið þetta? Ertu ekkert að hlusta drengur?

Blm: Nú hafa margir bent á þann gríðarlega kostnað og óöryggi sem fylgir því að halda í krónuna?

Sbk.stj: Þeir aðilar tengjast allir Baugi og eins og allir ættu að vita kemur ekkert gott þaðan og ættu þeir menn að vera lokaðir í tukthúsi eins og ég fór fram á, á sínum tíma. Ótrúlegt hvernig tókst að klúðra því. En ég hef nægan tíma og það eru alltaf að losna dómarasæti sem þarf að skipa nýtt fólk í og ég vænti þess að allt það fólk sé jafn réttsýnt og ég

Blm: Það eru ýmis teikn á lofti um að gjaldþrot blasi við mörgum heimilum vegna gríðarlegs vaxtakostnaðar. Hafa menn í Seðlabankanum engar áhyggjur af því?

Sbk.stj: Ég veit ekkert um hvað aðrir eru að hugsa enda kemur það mér ekkert við. Ég verð bara að segja það að þetta er væll og amlóðaháttur. Hér er búið að vera góðæri til fjölda ára þökk sé mér og minni ríkisstjórn og hér þekkist ekki fátækt. Fólk þarf bara að vinna meira til að geta borgað hærri skatta til að fyrirtækin geti borgað lægri skatta og eigendur þeirra grætt meira. Það þarf bara að passa vel að launin hækki ekki því þá verður fólk latt. Þá fara þeir að fjárfesta og stofna fleiri fyrirtæki og fólk eins og þú sem annars sæti með sultardropa á nefinu í kjallarakytru við Bústaðaveginn getur unnið meira og keypt meira af fyrirtækjunum sem græða þá enn meira og allir eru hamingjusamir

Blm: Ha....

Sbk.stj: Veistu hreinlega ekkert um hagfræði?


Ég fer ekki fet...og hananú!

villiÞað átti eflaust að vera gífurlega táknrænt og skapa óttablandna lotningu í hugum fólks að halda blaðamannafundinn um hið margrædda álitamál, fer hann eða fer hann ekki, í Arnarhreiðri þeirra Sjálfstæðismanna frekar en í Ráðhúsinu þar sem ekki virðist vera hægt að hafa hemil á skrílslátum. Það segir svo auðvitað allt um þennan klaufalega borgarstjórnarflokk og Vilhjálm "Hans" Klaufa forsvarsmann flokksins að geta ekki einu sinni riggað upp blaðamannafundi án þess að klúðra því. Á tímabili leit út fyrir að allt leystist upp í handalögmálum þar sem sumir áttu að fá að vera viðstaddir en aðrir ekki en áður höfðu hægri og vinstri höndin flúið um undirgöng í brimvarða bíla sem biðu þeirra til að lenda ekki í því að þurfa að svara blaðasnápunum. 

En þetta hafðist að lokum og fundur var settur. Fyrir þá sem misstu af þessu þá er hér smá úrdráttur

Blm: Muntu axla fulla ábyrgð á REY málinu og segja af þér?

Villi: Ég hef nú þegar axlað ábyrgð! Ég þurfti að hætta sem borgarstjóri, remember! Skila bílnum og skrifstofunni og allt! Fólk gerði grín að mér og ég er viðkvæmur maður og á erfitt með að taka svona gríni.

Blm: En nú ætlarðu að taka aftur við sem borgarstjóri eftir 1 ár, varla kallast það að axla ábyrgð?

Villi: Heyrðu væni minn, ég er eldri en tvævetur og veit hvað ábyrgð er!  Ég er einungis með þeirri ákvörðun að hugsa um hag og heilsu okkar ástsæla borgarstjóra og æskuvinar míns og skólabróður Ólafs R. Magnússonar

Blm: Það er Ólafur F.

Villi: Já og hans líka!

Blm: En þið voruð aldrei skólabræður

Villi: Ja sko ég var í skóla með fyrrverandi bróður hans..

Blm: Hvernig er hægt að vera fyrrverandi bróðir?

Villi: Ég er í fullum rétti að og hef fullt umboð til að..hérna,sko, eehhh.... svara þessu ekki!

Blm: Er þá Ólafur eitthvað tæpur til heilsunnar eftir allt saman?

Villi: Það er alltaf eins með ykkur blaðamennina, alltaf skulið þið ráðast á hundinn þar sem hann er stystur! Ófeigur er við hestaheilsu og t.d í morgun klæddi hann sig hjálparlaust.

Blm: Þú meina Ólafur

Villi: ekki þú vera að leggja mér orð í munn, væni minn. Ég hef fullt umboð til að segja allt sem ég ætla og ætla ekki að segja á þessum fundi!

Blm: En nýtur þú fulls stuðnings borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins?

Villi: Já tvímælalust. Ég hef rætt við fyrrverandi ritara skemmtinefndar flokksins og hann hefur sannfært mig um að allir innan flokksins standi að baki mér í þessum erfiðu og ósanngjörnu ofsóknum sem ég hef þurft að þola undanfarið. Hanna Bára og Gísli Baldur sendu mér t.d stuðningsyfirlýsingu hér áðan

Blm: Þú meinar Hanna Birna og Gísli Marteinn

Villi: Er það ég eða þú sem sit hér fyrir svörum?

Blm: Bíddu, talaðurðu ekki við þau á flokksfundinum áðan?

Villi: Hvaða flokksfundi?´

Blm: Nú sem var að ljúka hér í Valhöll

Villi: Var það? Ég er nú bara búinn að sitja einn og drekka kaffi og lesa Morgunblaðið hér í hádeginu. Ég skildi heldur ekkert í öllu þessu rápi inn og út um kjallaradyrnar. Jæja, en ég hef samt sem áður fullt umboð tið að veraða borgarstjóri aftur enda á ég það bara skilið

 

 

 


vika 1

Jæja, þá er fyrsta vika nýs borgarstjórnarmeirihluta liðin og ekki hægt að segja annað en að aðal leikarar þessa grátbroslega farsa hafi farið á kostum. Stemmingin var kanski ekki alveg eins og nýji meirihlutinn hafði vonað. Í stað þess að ganga brosandi út í fallagan vetrardag undir fagnaðarhrópum og hamingjuóskum þá hrökklaðist hann undan bálreiðum borgarbúum og átti í vandræðum með að halda fyrsta fundinn sökum háværra mótmæla.

Varðhundar Sjálfstæðisflokksins kölluðu þetta auðvitað skríl því innan Flokksins tíðkast ekki að mótmæla þeim sem valdið hefur. Að trufla einhvarn fund er heldur ekki "árás á lýðræðið" eða hvað sem þetta var kallað. Þetta ER einmitt lýðræðið! Þú hefur fullan rétt á að láta í þér heyra ef þér er misboðið og það var svo sannarlega mörgum misboðið með þessum skrýpaleik. Og það er ekki eins og það séu daglegir viðburðir að fólk mæti og sé með háreisti á pöllum borgarstjórnar. Núna er kanski loksins komin kynslóð fólks sem lætur ekki gráðuga og siðblinda stjórnmálamenn vaða yfir sig eins og skítuga Ikea mottu sem á hvort sem er að fara að henda, svona eins og mín kynslóð og flestar þar á undan hafa endalaust gert. Ég vil benda þeim hneykslunargjörnu á að kynna sér hvernig stjórnmálin ganga fyrir sig í Frakklandi enda má segja að Frakkar hafi fundið upp þessa tegund af vestrænu lýðræði sem við erum svo stolt af að búa við (nema auðvitað þegar það hentar ekki, þá eru það bara skrílslæti). Þar fá stjórnmálamenn að heyra það óþvegið ef fólki líkar ekki eitthvað og þykir ekkert athugavert við það. Og ég vil líka benda stjórnmálamönnum á að hugleiða það í umboði hverra þeir hafa þetta vald. Þeir virðast oftast alveg steingleyma því nema nokkrum vikum fyrir kosningar þegar það ryfjast skyndilega upp og skríllinn verður háttvirtir kjósendur.

En aftur að blessaðri borgarstjórninni. Á endanum tókst að halda fundinum áfram og fóru menn í það á fullu að kjósa sjálfa sig í hin ýmsu ráð og nefndir enda var það auðvitað eini tilgangurinn með þessu öllu. Þegar kom svo að því að kjósa forseta borgarstjórnar var Óli F greyið orðinn eitthvað ringlaður og átti í mesta basli með að telja saman atkvæðin. Það fór því svo að Hanna Birna fékk 7, auðir voru 7 og Lína Langsokkur fékk eitt. Þegar þetta kom í ljós varð uppi fótur og fit og menn gláptu hver á annan í forundran. Farið var í saumana á atkvæðagreiðslunni og kom þá í ljós að það hafði gleymst að segja Óla ræflinum hvað hann ætti að kjósa þannig að hann fór á taugum og kaus bara það fyrsta sem honum datt í hug.
En þetta var bara byrjunin. Þegar öll bitastæðustu embættin voru komin í réttar hendur átti eftir að skipa í einhverjar nefndir sem ekki voru alveg eins spennandi þannig að nýji meirihlutinn hafði ekkert verið að spá voða mikið í það. Því kom það Lalla Johns verulega á óvart að hafa verið skipaður í vímuvarnarráð og ekki var Jón Pétursson einhleypur bifvélavirki hjá Stillingu síður hissa að vera skipaður formaður barnavernadarnefndar.
Þá var lagt til að flugvöllurinn færi fyrst en kæmi svo aftur, mislæg gatnamót á allar götur sem byrja á K, Laugavegshúsin keypt en seld svo aftur með afslætti þar sem kom í ljós að þau voru notuð, Strætókerfinu breytt eftir því í hvernig stuði Gísli Marteinn væri og Yoko Ono gerð að heiðurslistamanni Reykjavíkur
Segiði svo að málefnasamningurinn hafi ekki verið gott plagg!


Segiði svo að það gerist ekkert í Reykjavík!

08Já Reykjavík er sko staðurinn þar sem fjörið er í pólitíkinni. Óla F. greyinu verður það á einn daginn að gleyma að taka lyfin sín og og áður en hann rankar aftur við sér er búið að dubba hann upp sem borgarstjóra í nýju meirihlutasamstarfi! Að vísu gleymdist að athuga í öllu havaríinu hvort aðrir fulltrúar flokksins vildu vera með en það þurfti bara að drífa þetta af, það var landsleikur í sjónvarpinu og svona.

Og hver var svo ástæðan? Ja, Óla fannst sem baráttumálum Frjálslyndra hefði ekki verið gert nógu hátt undir höfði sem eru.....uhhh....uummm...hérna...já, niður með kvótakerfið, burt með útlendinga og flugvöllinn heim. Mjög göfug markmið allt saman auðvitað. Eitthvað líkaði honum heldur ekki hvað Bingi var kaupglaður fyrir kosningarnar. Óli hefur kanski ekki áttað sig á því að Bingi er í öðrum flokki og ætti því ekkert að vera að skipta sér að því hvað hann kaupir mörg sokkapör. Bingi er bara nútíma metrómaður sem vill vera fínn í tauinu og hvað er verið að gera veður út af 19 pörum af sokkum? Ég meina hver kannast ekki við að það hverfur alltaf annar sokkurinn í þvottavélinni og kanski var hann líka með fótsvepp, hvað veit maður? Og 27 skyrtur og 8 jakkaföt eru ekki mikið í amstri dagsins. Kanski var líka þvottavélin hans biluð og ekki lætur maður mömmu sína þvo af sér þegar maður er þrjátíuogeitthvað ára gamall (nema maður sé Þorsteinn Davíðsson auðvitað).

Sagt er að einstakur vinskpur Villa Vill og Óla F hafi verið kveikjan að þessu nýja meirihlutasamstarfi  og hef ég heyrt af manni sem var vitni af fundi þeirra tveggja þar sem þetta samstarf var útkljáð. Ég sel þetta að vísu ekki dýrara en ég keypti, en hvarjum á maður að trúa í dag?

Villi: Jæja Óli minn, þetta var nú meira klúðrið þarna um daginn en við vinirnir ættum nú að geta reddað því, er það ekki?

Óli F:eee....

Villi: Já, já Óli minn ég finn örugglega pilluglasið þitt einhversstaðar. En hvernig lýst þér á að verða borgarstjóri? Þú færð skrifstofu og einkaritara og ert boðinn í fullt af veislum, svaka stuð

Óli F: eee...

Villi: Já þá segjum við það. Allt klappað og klárt. Þú skrifar svo bara hérna undir. Nú finnurðu ekki gleraugun þín? Árans. En þetta er svo sem ekkert merkilegt sem stendur. Bara hvaða tegund nýji borgarstjórabíllinn á að vera og svona. Krakkarnir hérna í Valhöll slógu þessu inn fyrir mig, ég er orðinn hrikalega stirður í vélrituninni. Ég er nú eiginlega ekki búinn að lesa þetta sjálfur heldur, en hver þarf að lesa svona plögg þegar maður er orðinn borgarstjóri með aðstoðarmann sem gerir allt fyrir mann, ha?

Óli F: eee...

Villi: Fínt Óli minn. Bíddu, eru nokkuð fleiri en þú í þessum flokki? Ég meina fleiri sem þarf eitthvað að spjalla við? Það má auðvitað alltaf finna einhver þægileg innidjobb ef vantar. Krakkarnir redda því

Óli F: eee....

Villi: Jæja Óli minn best að drífa sig, krakkarnir bíða. Langar að fara að skipa sig í nefndir og allt þetta puð sem tilheyrir því að stjórna. Úps! Heldurðu að ég hafi ekki setið á pilluboxinu þínu allan tímann! Já og taktu bananann úr eyranu á þér Óli minn, ekki gott að láta sjá sig svoleiðis í sjónvarpi

Myndin hér til hægri er svo fyrsta opinbera myndin af nýja borgarstjóranum.


Davíðsson og dómaradjobbið

davidssonEf einhverjum kom hið minnsta á óvart hver var valinn í dómaradjobbið þarna fyrir norðan þá hefur sá hinn sami væntanlega gleymt því í hvaða landi hann býr. Svona er þetta bara hérna og hefur alltaf verið.

Árni Math segist auðvitað hafa valið besta manninn samkvæmt þeim meðmælum sem fyrir lágu og þeim forsendum sem gefnar voru (eftir á, segja illar tungur). Ég skoðaði auðvitað rökstuðninginn fyrir því að Davíðsson var talinn manna hæfastur og allt eru þetta góð og gegn rök. Fyrir þá sem ekki hafa lagt sig eftir því að kynna sér málið nægilega vel og ganga um með sleggjudóma um þennan öðlingsdreng sem Davíðsson eflaust er, þá eru hér helstu atriði.

Ráðherra telur Davíðsson greindan ungan mann sem lauk lögfræðinámi með ágæta einkunn, var duglegur að læra heima auk þess sem hann fór alltaf út með ruslið og ryksugaði herbergið sitt.  Hann starfaði á lögfræðistofu um skeið þar sem hann hafðu umsjón með útsendingum innheimtubréfa og innheimtu bókasafnsskulda. Með elju og þrautsegju vann hann sig upp í það að sjá um skiptingu dánarbúa og fórst það svo vel úr hendi að ekki eru dæmi um svo mikið sem einn óánægðan viðskiptavin. Frami hans innan lögfræðistofunnar hafði ekkert með það að gera að hún var rekin af góðvini og flokksbróður föður hans.

Það kom því ekki á óvart að fyrrum dóms- og kirkjumálaráðherra réði Davíðsson sem aðstoðarmann sinn og þeir sem halda því fram að það hafi einungis verið vegna þess að ráðherrann var góðvinur og flokksbróðir föður hans þá eru þeir hinir sömu haldnir illum hvötum. Þar sá Davíðsson um hin margvíslegu verkefni sem nýtast munu í starfi dómara. Hann hafði t.d umsjón með rauðvínspotti starfsmannafélags ráðuneytisins og þótti sanngjarn og heiðarlegur. Hann sá einnig um að kaupa meðlæti fyrir vikulega morgunfundi starfsfólks ráðuneytisins og kom jafnvel stundum sjálfur með heimabakað bakkelsi og var eftir því tekið að hann tók ekkert aukalega fyrir það.

Hann sat í hinum ýmsu nefndum og starfshópum á vegum ráðuneytisins. Var ritari nefndar sem fjallaði um  innréttingar og aðbúnað dómsala landsins og sá um að velja sófaáklæði og gluggatjöld. Hann stýrði starfshóp sem hafði það verkefni að setja saman stundatöflu fyrir lögregluskólann auk þess sem hann var Ríkislögreglustjóra innan handar með val á einkennisborðum og ermastrýpum og hann hafði það verkefni að sjá til þess að prestshempur bæru ávallt sama lit í öllum kirkjum landsins.

Davíðsson hefur auk þessa alls aflað sér margvíslegrar þekkingar og reynslu sem munu nýtast vel í starfi dómara. Hann þykir smekkmaður á hálstau, hefur lesið Sjálfstætt fólk tvisvar, var dómari í borðtennismótum nemendafélags MR, hefur lokið námskeiði í blómaskreytingum og skrautritun og síðast en ekki síst séð um akstur ellilífeyrisþega á kjörstað og var mál manna að öllum hafi honum tekist að koma inn í kjörklefann hversu farlama sem viðkomandi var og tók það jafnvel oft að sér sjálfur að krossa við á kjörseðlinum ef kjósandinn var gleraugnalaus eða eilítið of skjálfhentur. Hann telur það líka grundvallaratriði í lýðræðisþjóðfélagi að fólk neyti kosningaréttar síns og er boðinn og búinn til að aðstoða við að svo verði. Aldrei lét hann annasmat starf sitt í kjörstjórn Flokksins koma í veg fyrir að hann gæti rétt samborgurunum hjálparhönd.

Ég meina, hvað er svo málið?!

 


Erum við að verða vitlausari?

bushÉg er alltaf að sjá öðru hvoru einhverjar kannanir og rannsóknir sem sýna fram á það að við erum á góðri leið meða að verða ekki bera ólæs heldur plein vitlaus líka.

Við erum hætt að kunna að reikna, en ég meina hver þarf þess, til hvers voru reiknivélar eiginlega fundnar upp? Náttúrufræðiþekking er í tómu tjóni og þar er kanski skýringin á því að okkur er skít sama um náttúruna í kring um okkur. Við förum hvort sem er allt, og þá meina ég ALLT, á bíl og það er ekki hægt að vera að góna eitthvað í kringum sig við aksturinn. Bílastæðið við Smáralindina er líka lásí dæmi um fallega náttúru. Og svo kunnum við varla að lesa lengur. Við getum kanski stautað okkur fram úr einföldum texta eins og Jólagjafahandbók Kringlunnar, enda mikið af myndum sem skýra sig sjálfar. En flóknari hlutir eins og reifari fær heilann í fólki til að snúast í hringi enda bíða bara allir eftir bíómyndinni.

En nú höfum við alla þessa fínu skóla, segja kanski einhverjir. Jú jú, það er fullt af skólum. Það þarf bara að vera kennt eitthvað af viti í þeim og foreldrarnir þurfa víst líka eitthvað örlítið að ýta undir menningarlegt uppeldi afkvæmanna þó mörgum finnist það til of mikils ætlast enda annar hver krakki með ofvirkni og athyglisbrest ofan á misþroska og lesblindu. Venjulegir skólar eins grunnskólar eða menntaskólar hefa heldur ekki þótt mjög smart lengi og hefur ekki þótt neitt sérstök ástæða til að púkka upp á þá að hálfu menntamálayfirvalda. Það eru háskólarnir sem eru hip og kúl þar sem önnin kostar 800.000 kall og allir eiga garanteraða vinnu í banka á eftir. Öll viljum við jú vinna í banka, er það ekki? Það er nóg af Pólverjum og Tælendingum til að gera allt þetta erfiða og leiðinlega eins og að byggja húsin sem við búum í eða sjá um afa okkar og ömmur sem við erum löngu búin að skutla á elliheimili því við erum svo bissí að meika það í útrásinni.

 Það þykir t.d voða fínt hjá fyrirtækjum að styrkja einhvern háskólann og að sama skapi þykir það traustvekjandi ef stjórnmálaflokkar ná að státa af eins og einum háskólarektor á framboðslista hjá sér. Það er því varla lengur til sá bréfaskóli sem ekki er orðinn á háskólastigi. Ég bíð bara eftir að Stöðumælavarðaskólinn verði að háskóla og menn geti orðið MBA í stöðumælavörslu. Ekkert jafnast á við fínan titil þó hann sé byggður á lausamöl. Það er þó alltaf hægt að hugga sig við það, að það er hægt að næla sér í feit embætti þó maður sé ekki eitthvað séní eins og gott dæmi frá Ameríku sannar. Það þarf bara að míngla við rétta fólkið og að það séu fleiri sem eru vitlausari en maður sjálfur

Ofan á allt saman erum við svo að verða eins og Ameríkanar í vaxtarlaginu. Ekki furða þó við séum svona ógeðslega hamingjusöm!


"ég veit ekkert!"

hear no evil.jpgUm fátt er nú meira rætt þessa dagana en hasarinn í Ráðhúsinu og kanski að bera í bakkafullan lækinn að ætla að bæta einhverju við alla þá umræðu. Menn virðast skiptast nokkuð í tvö horn varðandi það hvort þeir trúi því að fyrrverandi borgarstjóri hafi ekkert vitað neitt um hvað var í gangi eða að hann sé ekki að segja allan sannleikann. Til að varpa smá ljósi á allt þetta mál er hér glænýtt viðtal við fyrrum borgarstjóra þar sem hann er spurður út í þetta allt saman.

Blaðamaður: Byrjum á þessum margumrædda fundi sem var haldinn heima hjá þér þar sem Bjarni og félagar mættu til að ræða þennan samruna

Fyrrum borgarstjóri: Ég áttaði mig bara alls ekkert á því að þetta væri einhver fundur, hélt bara að þeir væru að kíkja í kaffi og kanski taka í spil á eftir.

Blm: En ræddu þeir ekki um REI, GGE og OR?

F.Bstj: Æi ég á það til að rugla þessu öllu saman. Hvernig er hægt að muna þetta allt! REI, GGE, BSRB, VSOP, USB, CCR eða HSÍ! Svo töluðu þeir svo mikið að ég varð hreinlega syfjaður og það má vel vera að ég hafi dottað eins og eitt augnarblik.

Blm: Forstjóri REI segist hafa sýnt þér uppkast af samningi þess efnis að hið sameinaða félag REI og GGE, TMR (Take the Money and Run, group) öðlist einkaleyfi á notkun vatns á Íslandi "until hell freezes over" eins og segir í fréttatikynningu  og enginn hafi leyfi til að þvo bílinn, vökva garðinn né fara í bað án þess að greiða TMR þóknun fyrir. Fannst þér þetta eðlilegar kröfur?

F.Bstj: Ég kannast alls ekki við að þetta hafi staðið í þessum samningi. Ég las þetta plagg vel og vandlega yfir og þó svo að það hafi verið á latínu þá skildi ég mæta vel allt sem þar stóð enda dúxaði ég í latínu í TBR á sínum tíma

Blm: Þú meinar MR?

F.Bstj: Já, þar líka

Blm: En hvað stóð þá í þessum samningi?

F.Bstj: Það var bara eitthvað verið að tala um að Bjarni, Hannes og Kristinn og nokkrir kunningjar þeirra gætu fengið fólk lánað frá Orkuveitunni til að ditta að einu og öðru fyrir þá þegar þeir væru í útlöndum, það er víst alltaf svo mikið að gera hjá þessum kaupsýslumönnum.

Blm: Hvað meinarðu með að ditta að?

F.Bstj: Ja svona tæma úr heita pottinum og þrífa útigrillin. Það eru menn frá Orkuveitunni á ferðinni út um allan bæ hvort eð er svo ég sá ekkert athugavert við að lána þá í eitthvað svona smálegt. Og svo koma þessir menn í bakið á mér og segja að ég hafi gefið loforð fyrir því að allir starfsmenn Orkuveitunnar vinni einungis fyrir þá næstu 99 árin. Þetta stóð aldrei í þessu plaggi sem ég sá! Reyndar var líka eitthvað talað þar um að samningar þyrftu að ganga jafn hratt og örugglega og það tæki þrjár kýr að hekla kjötfars og vitneskjan væri best geymd djúpri píparaskoru en ég viðurkenni fúslega að þekkja ekki öll þessi nýmóðins orðatiltæki. En þetta stóð þarna svart á hvítu enda latína mitt annað tungumál og talaði ég hana lengi vel á sunnudögum

Blm: Burt séð frá þessum samningi þá þykir mörgum óeðlilegt hvað margir auðmenn tengdir tveim stjórnmálaflokkum eiga stóra hluti í REI og GGE.

F.Bstj: Ég vissi ekkert um það! Ég sá þarna einhver nöfn á blaði og hélt bara að það væri verið að sýna mér gestalistann í partýið hjá Yoko Ono.

Blm. Kom það þér á óvart að Björn Ingi skuli hafa slitið meirihlutasamstarfinu svona snögglega?

F.Bstj: Mér leið eins og Sesari eftir að Brútus sló hann í höfuðuð með golfkylfunni forðum

Blm: Hann stakk hann í bakið með rýting

F.Bstj: Hugsa sér! Að ráðast aftur á slasaðann manninn sem gat enga björg sér veitt. Einmitt eins og Ingibjörn hefur hagað sér!

Blm: Þú meinar Björn Ingi

F.Bstj: Já gat svo sem verið að þeir væru tveir! Framsóknarflokkurinn er greinilega stærri en ég hélt!

 

Hér í spilaranum við hliðina eru svo nokkur lög tileinkuð borgarstjóranum fyrrverandi

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband