Færsluflokkur: Dægurmál

veislur

Ég lenti fyrir því um daginn að mér var boðið í brúðkaup og þar sem um náinn vin er að ræða sem er að fara að gifta sig þá sé ég fram á það að sleppa ekki. Annars er ég með ansi gott safn af afsökunum á reiðum höndum þegar einhverjum dettur í hug að bjóða mér í uppstrýluð samkvæmi þar sem maður þekkir næstum engann eins og giftingar, fermingar, afmæli hjá fjarskildum miðaldra ættingjum, útskriftir og þess háttar

a) nei ég verð í Kúala Lumpur þessa helgi
b) alltaf þennan dag verð ég að fægja silfrið
c) ég þarf að baða kanínurnar
d) ég verð örugglega með botnlangakast þennan dag
e) stjörnuspáin mín fyrir þennan dag lítur ekki vel út
f) en þið búið í Grafarvogi og ég rata svo hræðilega illa úti á landi
g) þetta er einmitt kvöldið sem ég var búin að lofa að taka lagið á söngskemmtun Hjálpræðishersins
o.s.frv, o.s.frv.............

Giftingaveislur eru líka svona veislur þar sem allir þurfa að standa upp og skála í tíma og ótíma og enn verra...halda ræður! Af hverju er ekki hægt að hafa þatta bara almennilegt partý, AC/DC á fóninum og allir í myljandi stuði? En nei, það þarf að búa til úr þessu eintóm leiðindi þar fyrir utan sem giftingaveislur geta endað með ósköpum ef fólk sem talar áður en það hugsar nær að opna munninn. Það er nefnilega ekki sama hvað er sagt í öllum þessum ræðum sem gestir þurfa að sitja undir.

Það er hefð að faðir brúðarinnar taki fyrstur til máls. Þó svo að honum líki ekki við brúðgumann er samt óþarfi að láta í ljós þá skoðun sína að hann telji tilvonandi tengdason varla geta hnítt skóreymar hjálparlaust, að hann sé nýbúinn að læra muninn á hægri og vinstri og að það sé alveg ástæða fyrir því að hann sé kallaður Valur vitlausi og beina að lokum þeirri spurningu til dóttur sinnar hvort hún hafi hugleitt að gerast nunna og voni jafnframt heitt og innilega að það eina sm þau geri saman tvö ein á kvöldin sé að bródera í klukkustrengi.

Næstur á mælendaskrá er gjarnan brúðguminn sjálfur. Þrátt fyrir mikið stress er ekki mælt með að hann hafi innbyrt meira en eins og eitt kampavínsglas áður en hann fer með sína ræðu. Það er heldur ekki mælt með að segja sögur úr steggjapartýinu og lýsingar á því hvað einn rússneski stripparinn var með fáránlega stór sílikonbrjóst en samt ótrúlega raunveruleg er meira en flestir vilja vita. Allra síst brúðurin. Hún vill heldur ekki vita að áður en þið kynntust varstu kallaður Jói höstler og kellingarnar voru alveg sjúkar á eftir þér og hvað þín tilvonandi sé nú heppin að þú valdir hana en ekki einhverja aðra. Þú varst nú einu sinn m.a.s með einni fyrrverandu Ungfrú Reykjavík og margföldum sigurvegara í blautbolakeppni Þjóðhátíðar í Eyjum

Næstur í röðinni er svaramaðurinn sem jafnframt er oftast náinn vinur brúðgumans. Og ef ekki er einhver sér valinn veislustjóri þá sinnir hann oft því hlutverki líka. Hann þarf að vera hnittinn og skemmtilegur og kemur gjarnan með skondnar sögur af brúðhjónunum. Hann má heldur ekki vera búinn að fá sér of mikið neðan í því og fara að telja upp fyrrverandi kærustur brúðgumans og lýsa í smáatriðum hvað þeir félagarnir voru að bralla á Hverfisbarnum hérna back in the days og þó svo að Jói vinur hans sé nú að fara að gifta sig þá þýði það ekki að þeir hætti að horfa saman á enska boltann alla laugardaga og spila pókar með vinnufélögunum á fimmtudögum og kíkja öðru hvoru út á lífið saman strákarnir. Hún hlýtur nú að eiga einhverjar vinkonur sem hún þarf að heimsækja og svona. Og þar sem hann Jói félagi sinn sé hvort eð er getulaus eftir slæma klamedíusýkingu fyrir nokkrum árum þá þurfi þau ekki að hafa neinar áhyggjur af einhverju barnastússi

Í giftingarveislum eru líka oft einhver skemmtiatriði. Þau þarf líka að velja af kostgæfni þannig að þau höfði til allra. Þó að þér finnist Böddi frændi þinn sjúklega fyndinn þegar hann tekur sig til og syngur frumsamndar klámvísur eða litla 5 ára systurdóttir þín hrikalega krúttleg að spila Ísbjarnarblús á blokkflautu þá er nokkuð gefið að einhverjir veislugestir eiga ekki eftir að kunna að meta það.

Er ekki bara best að fá Herbert Guðmundsson og málið er dautt?


Þessi færsla er ekki um tölvuleiki...

barryEinhverjir virðast hafa tekið síðustu færslu um tölvuleiki óþarflega persónulega og þar sem að ég vil auðvitað ekki særa stolt neins þá lofa ég að tala aldrei um tölvuleiki aftur! Þess í stað ætla ég að segja ykkur aðeins frá Barry Manilow....

  Barry Manilow, eða Barry Alan Pincuseins og hann heitir réttu nafni er fæddur í Brooklyn þann 17. júní 1943 sem gerir þann merka mann sléttu ári eldri en lýðveldið okkar. Sem stráklingur lærði hann á hið þjóðlega hljóðfæri harmónikku og eftir að hafa spilað valsa og polka í nokkur ár auk þess að taka nokkra létta slagara á píanóið kom stóra breikið en það var að semja auglýsingastef fyrir McDonalds og KFC meðal annara.

Um svipað leyti kynntist hann söngkonunni Bette Midler og saman túruðu þau grimmt um alla helstu hommaklúbba New York borgar þar sem sólbrúni glókollurinn með gullkeðjurnar fangaði hug og hjörtu áheyrenda. Fyrsta sólóplatan lýtur svo dagsins ljós 1973. Hún heitir Barry Manilow I og innihldu smellinn víðfræga Mandy, sem reyndar er eftir einhvern Scott English og heitir Brandy. En Scott þessi hafði greinilega ekki sama sjarma og sex appeal og Barry þannig að hann er löngu týndur og tröllum gefinn en fær þó eflaust sendan reglulega vænan tékka sem höfundalaun og hefur því ekki yfir neinu að kvarta.

 Þarna var Barry strax búinn að finna fjölina sína og fer að dæla frá sér ballöðunum í gríð og erg og aðdáendahópurinn sem samanstendur að mestu leyti af konum á miðjum aldri og þar yfir stækkar hratt. Upp úr 1980 fór þó heldur að síga á ógæfuhliðina allt þar til okkar maður uppgötvar tribute plötur. Ekkert vesen við að semja lög eða suða í öðrum til að semja fyrir þig almennileg lög ef þú getur það ekki sjálfur, þú velur bara eitthvað skothelt sem allir þekkja eins og Bítlana eða Elton John, og vola þú selur milljónir.

Þetta hefur Barry sem sagt gert með góðum árangri og fyllir í kjölfarið hvern tónleikasalinn eftir annan þar sem hann situr við fligilinn í glimmergalla með blásið hárið og rúllar í gegn um Bridge over troubled waters og It never rains in Southern California eins og að drekka rándýrt kampavín og konurnar í salnum tárast af hrifningu.

Barry hefur ekki verið mikið í slúðurpressunni í gegn um tíðina þó svo að atvikið þarna um árið þegar hann braut á sér nefið með því að labba á vegg hafi vakið nokkra athygli. En poppstjörnur gera nú margt furðulegra en það og það var áður en Britney Spears fór að brillera. Þökk sé bótoxi, lýtalækningum og næringarráðgjöfum þá hefur kallinn haldið sér ótrúlega vel miðað við að hann sé kominn hátt á sjötugs aldur. Og nú geta aðdáendur kappans heldur betur kæst því 4. og 6. desember heldur hann tónleika í O2 Arena í London þar sem hann mun eflaust taka lög af metsöluplötunum The christmas gift of love og In the swing of christmas ásamt auðvitað öllum ballöðunum. Er ekki bara málið að fólk skelli sér á Barry Manilow um aðventuna?


Homo erectus extinctus

Nú er illa komið fyrir karlmönnum þessa heims. Það er nefnilega allt útlit fyrir að eftir nokkur ár (125.000 eða svo) verði karlskepnan útdautt fyrirbæri, svona eins og Geirfuglinn. Það er að segja ef ekkert verður að gert til hjálpar.

Það sem greinir karla frá konum er þessi Y litningur sem karlarnir hafa og nánast eini tilgangur þessa litnings er að framleiða sæði til að tegundin geti nú fjölgað sér. Nú er hins vegar svo komið að ófrjósemi karla eykst stöðugt, um 7% allra karlmanna eru ófrjóir og stór hluti þeirra sem þó enn gagnast eitthvað við barnatilbúning eiga í mestu vandræðum með að standa sig í stykkinu sökum arfgengra galla í þessum blessaða Y litningi. Af sömu orsökum verða innlagnir í sæðisbanka rírari með hverju árinu.

En hvcað er til ráða og af hverju eru það bara karlar sem eiga á hættu að deyja út en ekki allt mannkyn sökum getuleysis? Jú, vísindamenn hafa fundið aðferð til að vinna sæði úr beinmerg sem hægt er að frjóvga egg kvenna með (það er allt í fína með framleiðsluna þar) en (og það stórt EN) ekki aðeins úr beinmerg karla heldur alveg eins úr beinmerg kvenna. Það er því fræðilegur möguleiki, og þess verður eflaust ekki langt að bíða að börn eigi bókstaflega tvær mæður.

Til að bæta gráu ofan á svart fyrir framtíðarhorfur karlmanna þá eru það sífellt fleiri konur sem kjósa að ala upp börn án þess að karlmaður komi þar nokkuð nærri. Annað hvort lasbísk pör eða einhleypar gagnkynhneigðar konur sem velja það fjölskyldumunstur fram yfir hefðbundna sambúð (nú eða þá konur sem kjósa að sleppa því algerlega að eignast börn og eru ósköp sáttar við það). Rannsóknir hafa líka sýnt fram á að ef konur sjá fram á það að geta séð sér og sínum farborða með góðu móti án þess að vera í hefðbundnu hjónabandi eða sambúð, auk þess sem þær sjá um stóran hluta allra heimilisstarfa hvort eða er þá eru þær mun líklegri til að velja að búa einar eða með annari konu. Engir skítugir sokkar út um allt, setan alltaf niðri á klósettinu, báðir aðilar full færir um að stjórna þvottavél, helgarnar ekki undirlagðar í fótbolta eða formúlugláp með félögunum sem virðast geta fátt annað en sulla niður bjór og pizzu, ropa og klóra sér í rassinum og það er hlustað á þig þegar þú talar. Ef að svo við bætist sá möguleiki að geta eignast börn án íhlutunar karlmann þá er held ég fokið í flest skjól.

Þróunin á vesturlöndum er líka sú að konur eru orðnar duglegri en karlar að afla sér menntunar og með betri menntun koma oftast betri laun. Því er að vaxa úr grasi kynslóð stelpna sem áttar sig á því að þær geta gert betur en strákarnir. Og svo ég vitni í grein sem ég las um þessi mál: "it is impossible to predict how the male sex will react to a world where “effortless achievement” is no longer their right"

Ég sé því fyrir mér friðsælan og réttlátan heim án ofbeldis og perraskapar, þar sem konur stjórna og lifa saman í sátt og samlyndi...eftir svona 125.000 ár :)


Stóra gasmálið

Fáir atburðir hafa í seinni tíð vakið jafn mikil viðbrögð og Stóra gasmálið, eða atvikið þarna á Suðurlandsveginum þegar löggan fór á taugum og byrjaði að úða piparúða á allt sem hreyfðist, eða öllu heldur á allt sem hreyfðist ekki. Forsvarsmenn lögreglunnar hafa verið fámálir um þennan atburð og því er forvitnilegt að heyra hvað lögreglustjórinn í Reykjavík, Herr Flick hefur um þetta mál að segja. Hér er glóðvolgt viðtal.

Blaðamaður (Blm.): Voru þetta ekki allt of harkaleg viðbrögð að hálfu lögreglunnar?

Lögreglustjóri (Lögr.stj.): Nei alls ekki. Þetta varðaði við þjóðaröryggi. Þarna var að safnast saman alls konar lýður með skrýlslæti. Ekki bara þessir bílstjóradurgar sem kunna hvort sem er ekki að keyra og eru stórhættulegir í umferðinni, étandi rækjusamlokur, talandi í símann og skafandi smurolíu undan nöglunum á sér, allt á meðan þeir þjösnast á 120 eftir Bústaðaveginum með fullan pallinn af stórgrýti, heldur líka ofstopafullir menntaskólanemar og umhverfisverndarsinnar. Það hljóta allir að sjá í hvers konar voða stefndi ef við hefðum ekki gripið í taumana

Blm.: En hvaða ástæðu hafði lögreglan til að mæta þarna grá fyrir járnum þar sem engin ástæða hafði þótt fram að þessu til að beita mótmælendur ofbeldi?

Lögr.stj.: Ja....bara!

Blm.: Bara!? Bara er ekkert svar!

Lögr.stj.: Víst! Ef ég segi það!

Blm.: Heyrðu mig nú! Þá skrifa ég bara að þú hafir sagt að allir sem voru þarna væru hálfvitar sem áttu það skilið að vera lamdir í hausinn og....

Lögr.stj.: Rólegur maður! getum við haft þetta off the record?

Blm.: Jú ætli það ekki, þetta fer alla vega ekkert voða langt...kanski..

Lögr.stj.: Ja sko, strákarnir í Sérsveitinni voru búnir að biðja um að fá að prófa smá dót sem þeir áttu og höfðu voða lítið getað notað.

Blm.: Dót?!

Lögr.stj.: Já þegar nýju búningarni komu í vetur þá fengu þeir nýjar græjur eins og þessa flottu skildi og miklu betri kilfur og handjárn. Allt sérpantað frá ameríku, nýjustu týpurnar. Já svo hafa þeir aldrei getað notað piparúða í svona miklu magni áður, það dugar yfirleitt bara smá gusa á þetta sífulla, mígandi lið í miðbænum um helgar. Þeir hafa líka verið mjög duglegir að æfa sig eftir að þeir heyrðu því fleigt að það ætti að koma upp leyniþjónustu og heimavarnarliði. Þeir vildu bara sýna dómsmálaráðherra að þeir væru starfinu vaxnir. Bara svekkjandi að stuðbyssurnar voru ekki komnar

Blm.: En ekki á að halda svona áfram eftir þau hörðu viðbrögð sem komið hafa fram?

Lögr.stj.: Í mínu ungdæmi þótti ekkert athugavert við smá hörku, það sýnir bara hver ræður. En það eru einhverjir metrómenn og kellingar sem vilja að farnar verði aðrar leiðir. Ætli maður gefi því ekki séns þó ég viti alveg að það virkar ekki að taka á ofbeldisbullum með silkihönskum

Blm.: Og hvaða leiðir eru það?

Lögr.stj.: Næst verður Lögreglukórinn sendur á vettvang og mun taka nokkur vel valin lög eins og Brennið þið vitar og Hamraborgina. Ef það dugar ekki til að stökkva mönnum á flótta þá mun Leikfélag lögreglumanna stíga fram og taka nokkra kafla úr Hamlet og Gullna hliðinu. Þá ættu nú flestir að vera búnir að gefast upp. Neiðarúrræðið er svo að senda félaga úr Hvítasunnusöfnuðinum á vettvang til að fara með Biblíutilvitnanir og leggja út frá einhverju guðspjallinu og taka svo nokkur hress lög í lokin. Svo verður öllum boðið upp á spæld egg


Við erum þá alla vega seif í 6 vikur...

Eftir að Kaninn fór og hætti að passa upp á okkur hefur auðvitað verið stór varasamt að lifa á Íslandi. Við hérna algerlega varnarlaus norður í ballarhafi. Við hefðum getað verið hernumin rétt si svona. Það hefðu getað komið útsendarar frá uuuhhh...uummm....hérna....sjáum nú til.....já, bara einhverju landi sem alltaf er að hertaka önnur lönd eins og...uummmm...hérna.....já, hver man ekki eftir innrásinnu í Pólland hérna um árið? Það mættu bara menn á skriðdrekum og Pólverjar voru bara alveg lost. Og svo héldu þessir menn bara áfram og réðust inn í hvert landið eftir annað. Og af hverju var það? Jú, menn pössuðu sig ekki nógu vel.

Hver veit hvað Al-Kaída eru að bralla? Eða Rússneska mafían? Nú eða þá Hells Angels, stór hættulegt fólk. Palestínumenn, femínistar, Rauðu Kmerarnir, Fídel Castro, Bleiku Bastarnir, Spænski Ransóknarrétturinn, Fjögur fræknu, Brakúla greifi...listinn er endalaus. Við meigum ekki láta friðarspilla og ofbeldisbullur eins og Falun Gong komast upp með óspektir þannig að hrikti í stoðum samfélagsins. Ég meina, hver þplir leikfimi í slow motion til lengdar? Við þurfum vernd og ekkert múður meðan afturhaldskommar og kellingar koma í veg fyrir að hér verði stofnaður alvöru her að erlendri fyrirmynd.

Dómsmálaráðherra hefur löngum talað fyrir daufum eyrum þegar kemur að umræðunni um íslenskan her en hefur á lymskulegan hátt, með aðstoð vinar síns Ríkislögreglustjóra tekist að koma upp vísi að her með allar græjur, byssur, júníform, lambhúshettur og alla helstu frasana úr Law & order á hreinu. Við getum þakkað víkingasveitinni og hennar vasklegu framgöngu að hassreykingar á heimavistum virðulegra skólastofnana úti á landi heyra nú sögunni til, að skemmtanalífið í Keflavík er orðið án mikilla óeirða og að drukknir heimilisfeður sem hóta að skjóta konuna og heimilisköttinn með snæri eru handasmaðir og færðir í fangageymslur í járnum...svona þegar þeir hafa vaknað.

Nú hefur forsætisráðherra tilkynnt að loksins sjái fyrir endann á varnarleysinu þar sem franskir dátar ætla að koma hingað í næsta mánuði og verja okkur með kjafti og klóm í 6 vikur. Ég verð samt að viðurkenna að ég er mun spenntari fyrir þeim frönsku en þeim amerísku sem hér voru fyrir. Ég sé fyrir mér huggulega unga menn með alpahúfur í vel hönnuðum einkennisbúningum sem hafa smekk fyrir góðum vínum og ostum og eru fágaðir og kurteisir. Annað en krúnurakaðir fyrirrennarar þeirra með mottu og sítt að aftan, vaxnir eins og Grétar Mar fyrir garnastyttingu hámandi í sig hamborgara fljótandi í majonesi og franskar kartöflur, júmbó stærð. Og haldandi að Ástralía sé bær í Texas og Bulgaria sé átröskunarsjúkdómur. Þegar Frakkarnir svo fara eiga einhverjir aðrir að taka við, segir svo forsætisráðherra. Mér finnst t.d Ítalir voða fínir í þetta....


mbl.is 100 manna frönsk flugsveit á leið til landsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hann er dýr dropinn...

Aðal umræðuefnið þessa dagana virðist vera bensínverðið. Fólk Jesúsar sig í bak og fyrir þegar á það er minnst og setur upp einhverskonar sambland af armæðu- og skelfingarsvip. Það virðist alla menn vera lifandi að drepa. En þegar bensínið hækkar svona upp úr öllu valdi að fólk þarf áfallahjálp eftir að hafa fyllt á tankinn er þá ekki málið að reyna að nota aðeins minna af því?

Samkvæmt Hagstofunni voru árið 2005, 187.442 fólksbifreiðar á skrá á landinu (þ.e bílar sem taka 8 farþega eða færri) og ég get étið bæði hatt minn og staf ásamt lopasokkum og bróderuðu sængurveri að þeim hefur ekki fækkað síðan þá. Og örugglega hátt í helmingurinn af þessum bílum eru jeppar sem ekki hafa hingað til unnið til verðlauna fyrir sparakstur. Við þessa tölu á svo eftir að bæta sendiferðabílum, rútum, vörubílum, mótorhjólum og alls kyns vinnuvélum. Þurfa þessar 300.000 hræður virkilega að eiga 187.442 fólksbíla?! Og er nauðsynlegt að eiga upphækkaðann jeppa til að komast frá Grafarvogi og upp í Smáralind?

Ég legg til að fólk líti aðeins í eigin barm áður en það óskapast meira yfir bensínverðinu. Hvenær varð það t.d banvænt að ganga á milli húsa, eins og manni finnst fólk stundum láta? Það er alveg merkilegt hvað fólk virðist vera fótafúið. Það gæti jafnvel brennt einhverjum kalóríum á óþarfa labbi! Jedúddamía! Og að minnast á það við fólk hvort að það geti ekki notað Strætó endrum og sinnum og skilið bílinn eftir heima er eins og að leggja til að það flái heimilsköttinn og eldi hann með karrý og hrísgrjónum í kvöldmatinn. Gjörsamlega fráleit hugmynd! Nágrannarnir koma auðvitað til með að halda að viðkomandi hafi misst bílprófið eða hafi ekki efni á að eiga bíl, eða konan hafi farið í fússi með bílinn, krakkana, hundinn og verðbréfin og hvert af þessu er verra veit ég ekki.

Bílar eru líka auðvitað stöðutákn, það lætur enginn heilvita maður með vott af sjálfsvirðingu sjá sig í Strætó með öryrkjum, útlendingum og gamalmennum. Ekki cool að mæta í kokteilboð hjá bankanum í Strætó eða á hjóli. Krakkarnir eru ekki einu sinni látin taka Strætó, þau eru auðvitað keyrð allt sem þau þurfa að fara þar til þau fá bílpróf enda líka alveg jafn slæm til fótanna og foreldrarnir og holdafarið líka orðið eftir því.

Ég skil vel að fólk sem hefur akstur að atvinnu sé ekki mjög hresst þessa dagana en allir hinir eiga bara að hætta að væla og gera eitthvað í málinu. Hvernig væri t.d að byrja á því að eiga einn bíl og það kanski sparneytinn líka?


Ó Reykjavík, ó Reykjavík...

Það er ekki bara íslenskt efnahagskerfi sem er að fara til fjandans, Reykjavík er líka að fara til fjandans. Og þá sérstaklega miðbærinn.

Þetta byrjaði allt á einhverju grenji frá misvitrum pólitíkusum um að miðborgin væri í dauðategjunum meðan allt væri á blússandi siglingu í Kringlunni og Smáralindinni. Það þyrfti meiri uppbyggingu. Á þessum tíma hafði ég ekki tekið eftir neinum dauðategjum þó svo að ég byggi í miðbænum sjálf og geri enn. En vællinn varð meiri og meiri þannig að á endanum fóru borgaryfirvöld á taugum og áður en menn rönkuðu við sér var búið að leyfa niðurrif á hálfum Laugaveginum og góðum parti af Hverfisgötunni og Skuggahverfið var farið að líta út eins og í Amerískri stórborg. Eintómir forljótir, karakterlausir steypuklumpar gnæfandi yfir eitt og eitt eldra hús sem fyrir náð og miskun fékk að standa áfram. 

Nú eru þessir sömu pólitíkusar og höfðu hvað hæst um "skelfilegt ástand miðborgarinnar" við völd í Reykjavík og útlitið á miðbænum hefur aldrei verið verra þau 15 ár sem ég hef búið þar. Harlem lítur betur út. Gráðugir verktakar og ennþá gráðugri fjárfestar virðast eiga annað hvert hús og það sem ekki hafði fengist leyfi til að rífa með því að sleikja upp pólitíkusana, það er látið grotna niður þannig að á endanum er ekki annað hægt að gera. Svo verður byggður einhver risastór óskapnaður úr stáli og gleri og að sjálfsögðu með 5 hæða bílakjallara því meiri bílaumferð í miðbæinn er einmitt það sem vantaði. Og fjárfestarnir hlæja alla leið í bankann

Núverandi borgarstjórn til varnar má þó benda á að það er eflaust erfitt að hafa borgarstjóra sem þjáist af félagsfælni og lætur helst ekki sjá sig þar sem fleiri en þrír koma saman. Auk þess sem maðurinn er með eindæmum hörundssár og gæti tekið það sem persónulega árás ef einhver spyrði hann hvað klukkan væri. En á móti má spyrja, ræður hann yfir höfuð einhverju?

Borgarstjóri númer 2, Vilhjálmur Þ, var ekki mjög mikið með á nótunum þegar hann fékk að vera aðal hérna um árið og hefur ekkert skánað síðan. Meikar jafn mikinn sens stundum og Sænski kokkurinn í Prúðuleikurunum. Restin af borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins er of upptekin við að skipa sjálf sig í þægileg embætti og dygga stuðningsmenn í nefndir og ráð og díla með alla skrilljarðana sem Orkuveitan á, til að hafa nokkurn tíma til að reka þetta batterí sem Reykjavíkurborg er. Á meðan fer allt hægt og rólega beina leið til fjandans.

 


hamingjan leynir sér ekki á Íslandi í dag

vikings.jpgVið Íslendingar höfum alltaf verið að springa úr hamingju. Forfeður okkar voru sérstaklega hamingjusamir yfir því að geta flust frá iðagrænum sveitum Noregs á rokrassgat norður í ballarhafi. Og ekki minnkaði hamingjan við það að skreppa í leiðinni til Írlands og pikka upp eins og eina eða tvær rjóðar og sællegar sveitastúlkur. Sögum fer þó ekki af þeirra hamingju.

Hér undu menn hag sínum hið besta og brostu út að eyrum meðan þeir drápu hvorn annan og alla húskarlana í hefndarvígum. Að frátalinni stuttri útrás til Grænlands og Vínlands sem ekki þótti borga sig á þeim tíma voru menn bara ánægðir hver í sinni sveit. Vopnin voru lögð til hliðar þar sem þau ryðguðu og skipin fúnuðu þar sem enginn nennti lengur að vera að rápa eitthvað til útlanada og útlendir kóngar þóttu ekki það merkilegur pappír lengur og voru auk þess hættir að skilja dróttkvæði.

Smávegis niðursveifla kom á hamingjustuðulinn á tímum móðuharðinda, nauðsynleg leiðrétting telja sumir, og óumflýjanlegur fórnarkostnaður að u.þ.b helmingur þjóðarinnar dræpist úr hor og vesöld. Þó var það ekki svo slæmt að þurfa að herða sultarólina aðeins því að á eftir kreppu kemur alltaf uppsveifla og menn gátu fljótt tekið gleði sína á ný. Tilgengnir sauðskinnsskór og þurrkað fiskiroð var heldur ekki sem verst og afskaplega próteinríkt.

Það voru svo Danir sem kynntu okkur fyrir alþjóðlegri verslun að nýju og við uppgötvuðum hvað það að versla gerir okkur hamingjusöm. Það var það sama þá og nú, við kaupum hreinlega allt. Skúli Magnússon reyndi svo að koma á fót iðnaði svo við gætum keypt okkar eigið dót en komst að því að íslendingar voru ekki þessar týpur sem nenntu að að vinna heilalausa 9-5 vinnu. En hey, við vorum hamingjusöm í okkar sveit með sauðfé á beit.

Þegar svo seinna stríðið brýst út og erlendir fjárfestar með tyggjó og nælonsokka í öllum vösum fara allt í einu að hrúga í okkur peningum fyrir að moka skurð þá hreinlega görgum við af gleði og þessi gleðivíma var svo mögnuð að við  tókum ekkert eftir því þegar Framsóknarflokkurinn byrjaði að draga okkur hægt og rólega aftur í tímann og var kominn með okkur langt aftur á síð miðaldir þegar við loksins rönkum við okkur og Evrópusambandið í dulargerfi EES kippir okkur inn í nútímann. Síðan hefur þetta allt verið eintóm blússandi hamingja, ja nema þú eigir stóran hlut í FL Group kanski.

 


mbl.is Fengu hamingjuna í arf frá víkingunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

maðurinn sem varð ófrískur

ThomasBeatie.jpgMyndin hér til hliðar er af Thomas Beatie, sem er kominn 5 mánuði á leið og á von á stúlku ásamt sambýliskonu sinni til 10 ára, Nancy. Hjónaleysin eru að vonum afar hamingjusöm.

Til að skýra þetta aðeins þá hét Thomas Beatie, Tracy LaGondino þar til fyrir nokkrum árum síðan og bjó ásamt áðurnefndri sambýliskonu í ástríku sambandi á Hawaii. Þær vildu giftast eins og önnur ástfangin pör en það var víst ekki leyfilegt á Hawaii (og reyndar víðar) svo Tracy brá á það ráð að gangast undir kynskiptiaðgerð og breyta sér í Thomas til að geta gengið að eiga sína heittelskuðu.

Nú auðvitað vildu þær/þau eignast börn og þar sem andstaða við ættleiðingar samkynhneygðra hafði komið í veg fyrir það hingað til þá var ekki um annað að ræða en að búa til sitt eigið. En þá kom babb í bátinn. Nancy gat ekki eignat börn sökum sjúkdóms sem hún hafði átt við að stríða í æsku. Nú voru góð ráð dýr! En Thomas/Tracy er greinilega ekki manneskja sem lætur svo auðveldlega slá sig út af laginu. Hún hafði að vísu farið í hormónameðferð og látið taka af sér brjóstin, en meira hafði hún ekki látið taka. Þannig að Thomas kallinn skellti sér bara í næsta sæðisbanka og keypti góða skvettu af sæði og græjaði þetta bara heima í svefnherbergi, væntanlega með góðri hjálp frá Nancy sinni

Afraksturinn lét svo ekki á sér standa. Thomas kveðst líða mjög vel og vera hress og fullur sjálfsöryggis og finnst það ekki á nokkurn hátt bitna á karlmennsku sinni að ver kasóléttur, síður en svo. Vonum við bara að fjölskyldunni vegni vel í framtíðinni...nema þetta sé bara allt bölvuð þvæla!


á leið til fjandans

Eins og allir ættu að vita (nema kanski þeir sem vinna í Seðlabankanum) þá er allt að fara til fjandans hérna á Íslandi. Allt hækkar og hækkar og aumingja nýríka fólkið horfir á hlutabréfin sín hrynja í verði og er jafnvel alls ekkert svo ríkt lengur. Til að varpa aðeins ljósi á þessa þróun og grenslast fyrir um hvað er eiginlega í gangi þá er hér stutt viðtal við Seðlabankastjóra.

Blaðamaður (Blm.): Nú eru efnahagshorfur á Íslandi mjög slæmar. Vöruverð hækkar og gengið fellur. Hver er ástæðan?

Seðlabankastjóri (Sbk.stj.): Jú eftir mikla og þrotlausa rannsóknarvinnu síðustu mánuði komumst við af því að þetta er allt spákaupmönnum og þessháttar peningabröskurum að kenna. Eins og ég hef alltaf haldið fram þá er ekkert athugavert við peningastefnu mína...ég meina Seðlabankans.

Blm.: Og hvað er til ráða?

Sbk.stj: Nú auðvitað að hækka vextina. Vaxtahækkun er eins og Panódíl, virkar á allt. Og eins og hendi væri veifað hækkaði úrvalsvísitalan, þökk sé mér....okkur.

Blm: En nú segir Vilhjálmur Egilsson að vísitalan hefði hækkað hvort sem er vegna þróunar á erlendum mörkuðum og það eina sem gerist er að greiðslubyrði heimilanna eykst

Sbk.stj: Sko, Vilhjálmur Egilsson er líka bara vitleysingur og föðurlandssvikari í þokkabót og vill ganga í Evrópusambandið. Og svo er hann með uppsteyt og er hættur að vilja segja það sem ég segi honum að segja. Það var ekki svona upp á honum typpið þegar ég var forsætisráðherra!

Blm: Talandi um Evrópusambandið, er ekki kominn tími til að skoða upptöku ev....

Sbk.stj: Stoppaðu hér væni minn! Þú nefnir ekki þetta orð í mínum húsum. Árið 1989 ákvað ég að Ísland myndi aldrei ganga í þessi bölvuðu samtök og þar við situr og þarf ekki að ræða frekar

Blm: En nú hefur gífurlega margt breyst síðan 1989. Er ekki tími til að endurskoða þessa ákvörðun?

Sbk.stj: Var ég ekki að segja þér að ég hefði ákveðið þetta? Ertu ekkert að hlusta drengur?

Blm: Nú hafa margir bent á þann gríðarlega kostnað og óöryggi sem fylgir því að halda í krónuna?

Sbk.stj: Þeir aðilar tengjast allir Baugi og eins og allir ættu að vita kemur ekkert gott þaðan og ættu þeir menn að vera lokaðir í tukthúsi eins og ég fór fram á, á sínum tíma. Ótrúlegt hvernig tókst að klúðra því. En ég hef nægan tíma og það eru alltaf að losna dómarasæti sem þarf að skipa nýtt fólk í og ég vænti þess að allt það fólk sé jafn réttsýnt og ég

Blm: Það eru ýmis teikn á lofti um að gjaldþrot blasi við mörgum heimilum vegna gríðarlegs vaxtakostnaðar. Hafa menn í Seðlabankanum engar áhyggjur af því?

Sbk.stj: Ég veit ekkert um hvað aðrir eru að hugsa enda kemur það mér ekkert við. Ég verð bara að segja það að þetta er væll og amlóðaháttur. Hér er búið að vera góðæri til fjölda ára þökk sé mér og minni ríkisstjórn og hér þekkist ekki fátækt. Fólk þarf bara að vinna meira til að geta borgað hærri skatta til að fyrirtækin geti borgað lægri skatta og eigendur þeirra grætt meira. Það þarf bara að passa vel að launin hækki ekki því þá verður fólk latt. Þá fara þeir að fjárfesta og stofna fleiri fyrirtæki og fólk eins og þú sem annars sæti með sultardropa á nefinu í kjallarakytru við Bústaðaveginn getur unnið meira og keypt meira af fyrirtækjunum sem græða þá enn meira og allir eru hamingjusamir

Blm: Ha....

Sbk.stj: Veistu hreinlega ekkert um hagfræði?


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband