Færsluflokkur: Dægurmál
5.12.2007 | 22:15
Erum við að verða vitlausari?
Ég er alltaf að sjá öðru hvoru einhverjar kannanir og rannsóknir sem sýna fram á það að við erum á góðri leið meða að verða ekki bera ólæs heldur plein vitlaus líka.
Við erum hætt að kunna að reikna, en ég meina hver þarf þess, til hvers voru reiknivélar eiginlega fundnar upp? Náttúrufræðiþekking er í tómu tjóni og þar er kanski skýringin á því að okkur er skít sama um náttúruna í kring um okkur. Við förum hvort sem er allt, og þá meina ég ALLT, á bíl og það er ekki hægt að vera að góna eitthvað í kringum sig við aksturinn. Bílastæðið við Smáralindina er líka lásí dæmi um fallega náttúru. Og svo kunnum við varla að lesa lengur. Við getum kanski stautað okkur fram úr einföldum texta eins og Jólagjafahandbók Kringlunnar, enda mikið af myndum sem skýra sig sjálfar. En flóknari hlutir eins og reifari fær heilann í fólki til að snúast í hringi enda bíða bara allir eftir bíómyndinni.
En nú höfum við alla þessa fínu skóla, segja kanski einhverjir. Jú jú, það er fullt af skólum. Það þarf bara að vera kennt eitthvað af viti í þeim og foreldrarnir þurfa víst líka eitthvað örlítið að ýta undir menningarlegt uppeldi afkvæmanna þó mörgum finnist það til of mikils ætlast enda annar hver krakki með ofvirkni og athyglisbrest ofan á misþroska og lesblindu. Venjulegir skólar eins grunnskólar eða menntaskólar hefa heldur ekki þótt mjög smart lengi og hefur ekki þótt neitt sérstök ástæða til að púkka upp á þá að hálfu menntamálayfirvalda. Það eru háskólarnir sem eru hip og kúl þar sem önnin kostar 800.000 kall og allir eiga garanteraða vinnu í banka á eftir. Öll viljum við jú vinna í banka, er það ekki? Það er nóg af Pólverjum og Tælendingum til að gera allt þetta erfiða og leiðinlega eins og að byggja húsin sem við búum í eða sjá um afa okkar og ömmur sem við erum löngu búin að skutla á elliheimili því við erum svo bissí að meika það í útrásinni.
Það þykir t.d voða fínt hjá fyrirtækjum að styrkja einhvern háskólann og að sama skapi þykir það traustvekjandi ef stjórnmálaflokkar ná að státa af eins og einum háskólarektor á framboðslista hjá sér. Það er því varla lengur til sá bréfaskóli sem ekki er orðinn á háskólastigi. Ég bíð bara eftir að Stöðumælavarðaskólinn verði að háskóla og menn geti orðið MBA í stöðumælavörslu. Ekkert jafnast á við fínan titil þó hann sé byggður á lausamöl. Það er þó alltaf hægt að hugga sig við það, að það er hægt að næla sér í feit embætti þó maður sé ekki eitthvað séní eins og gott dæmi frá Ameríku sannar. Það þarf bara að míngla við rétta fólkið og að það séu fleiri sem eru vitlausari en maður sjálfur
Ofan á allt saman erum við svo að verða eins og Ameríkanar í vaxtarlaginu. Ekki furða þó við séum svona ógeðslega hamingjusöm!
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
30.10.2007 | 23:26
Leningrad Cowboys
Ég var að fá um daginn plötuna Zombies Paradise með snillingunum í Leningrad Cowboys.Fyrir þá sem ekki þekkja þá er þetta 10 manna stórsveit frá Finnlandi sem er búin að starfa í einhver 15 ár. Þeir eru hljómsveit allra landsmanna þarna í Finnlandi, svona svipað og Stuðmenn eru hér. Aðal munurinn er samt að Leningrad Cowboys er skemmtileg hljómsveit meðan við sitjum uppi með Stuðmenn sem verða leiðinlegri og sjálfumglaðari með hverju árinu.
Þessi plata, Zombies Paradise er tökulagaplata sem er afskaplega mikið "in" núna í seinni tíð að gara en Finnarnir geðþekku hafa reyndar alltaf haft slatta af tökulögum á efnisskránni og gáfu út fyrir nokkrum árum tökulagadisk þar sem kór Rauða hersins syngur með þeim vel valda slagara auk þess sem haldnir voru tvennir risatónleikar, í Helsinkiu og í Berlín (um 60.000 manns á hvorum stað) þar sem hljómsveitin kom fram ásamt 120 manna kór og hljómsveit frá Rauða hernum, afrískum bongótrommuleikurum, balkönskum þjóðdansaflokki og ég veit ekki hvað. Það skal þó skýrt tekið fram að þetta er enginn Ædol karókí væll, hér er rokkað verulega feitt!
Ekki nóg með það þá hafa þeir gert 3 bíómyndir, Leningrad Cowboys go Americam, Leningrad Cowboys meet Moses og LA without a map, leikstýrt af Aki og Mika Kaurismaki sem eru voða merkilegir leikstjórar að mér skilst.
Í spilaranum hér til hliðar eru nokkur lög af Zombies Paradise, þið kannist sjálfsagt strax við þessi lög nema kanski You´re my soul, en það er úr smiðju vel greiddu snyrtimennanna í Modern Talking. Ég ákvað líka að smella með link á tvö vídeó, því þar sem Leningrad Cowboys eru annars vegar þá er sjón sögu ríkari
Njótið vel!
http://youtube.com/watch?v=Y0vZwONKshU
http://youtube.com/watch?v=qKH63LKQBQc
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.10.2007 | 01:40
Íþróttir
Það er eitthvað voðalega mikið verið að velta sér upp úr afleitu gengi fótboltalandsliðsins núna. Fyrst lá það fyrir landsliði Uzbekistan, sem þótti frekar niðurlægjandi þar sem ekki er mikil hefð fyrir fótbolta þar í landi og þurfti t.d að útskýra það í löngu máli fyrir markverði liðsins að hann gæti ekki láta móður sína færa sér heita hænsnasúpu meðan á leiknum stóð auk þess sem vodkadrykkja leikmanna var líka bönnuð inni á vellinum þrátt fyrir hávær mótmæli. Dropinn sem fyllti mælinn var þó tap fyrir 10. bekk Valhúsaskóla í æfingaleik sem átti að vera til þess að auka sjálfstraust leikmanna þó reyndin hafi orðið allt önnur og snautlegt tap staðreynd. Þjálfarinn sá þó einhverja ljósa punkta í leik liðsins eins og t.d að allir leikmenn hefðu hlaupið eitthvað í leiknum og sparkað í boltann og nokkrir jafnvel skallað þó það geti ruglað vandaðri hárgreiðslu og dýrir eyrnalokkar gætu týnst. Þessi viðleitni þótti samt ekki nóg og þjálfarinn ekki endurráðinn.
Ósköp er það samt óréttlátt að þjólfararæfillinn taki alltaf á sig sökina ef illa gengur. Hvernig væri að leikmennirnir gerðu það líka? Það ætti því ekki bara að reka þjálfarann heldur hreinlega allt liðið eins og það leggur sig. Síðan yrði flutt inn nýtt lið frá Póllandi sem kæmi í staðinn fyrir þetta arfaslaka lið sem við sitjum uppi með núna. Sé ekki alveg af hverju Pólverjar ættu ekki að geta mannað fótboltalandsliðið eins og öll önnur djobb á Íslandi sem ekki eru unnin við skrifborð. Þeir eru líka miklu betri í fótbolta en við og KSÍ þyrfti að borga þeim miklu minna fyrir að spila. Það væri jafnvel hægt að leggja fyrir til að geta einn góðan veðurdag látið kvennalandsliðið fá einhverja aura. Tvær flugur í einu höggi.
Annað sem hægt væri að gera væri að hætta hreinlega að spá í þetta fótboltabrölt þar sem við eigum hvort sem er aldrei möguleika og snúa okkur meira að jaðaríþróttum sem fáir stunda eins og handbolta. Þar liggja tvímælalust okkar sóknarfæri. Á heimsvísu erum við nokkuð framarlega í handbolta enda stunda þá íþrótt álíka margir og þeir sem leggja stund á sundballett. Þar erum við því að keppa á jafnréttisgrundvelli þegar höfðatalan sígilda er höfð til viðmiðunar
Það eru margar svona íþróttagreinar sem hægt væri að leggja stund á með góðum árangri. Þar má nefna að mér var nýlega bent á að það er haldið heimsmeistaramót í eltingaleik sem er íþrótt sem við öll kunnum og gætum eflaust staðið okkur vel í. Heimsmeistarakeppnin í að fleyta kerlingar var haldin nýlega í Skotlandi þar sem sigurvegarinn náði að fleyta kerlingar heila 65 metra. Þetta gæti hentað vel hér enda nóg af vatni. Skurðasund gæti líka hentað vel Íslenskum aðstæðum. Svo er líka keppt í túnfiskkasti, reiptogi, ánamaðkatýnslu, geitaveðreiðum, sláturkeppakasti, að rúlla ostum niður brekku og svo kannast allir við hið fræga eiginkonuhlaup. Möguleikarnir eru óþrjótandi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
16.10.2007 | 22:27
"ég veit ekkert!"
Um fátt er nú meira rætt þessa dagana en hasarinn í Ráðhúsinu og kanski að bera í bakkafullan lækinn að ætla að bæta einhverju við alla þá umræðu. Menn virðast skiptast nokkuð í tvö horn varðandi það hvort þeir trúi því að fyrrverandi borgarstjóri hafi ekkert vitað neitt um hvað var í gangi eða að hann sé ekki að segja allan sannleikann. Til að varpa smá ljósi á allt þetta mál er hér glænýtt viðtal við fyrrum borgarstjóra þar sem hann er spurður út í þetta allt saman.
Blaðamaður: Byrjum á þessum margumrædda fundi sem var haldinn heima hjá þér þar sem Bjarni og félagar mættu til að ræða þennan samruna
Fyrrum borgarstjóri: Ég áttaði mig bara alls ekkert á því að þetta væri einhver fundur, hélt bara að þeir væru að kíkja í kaffi og kanski taka í spil á eftir.
Blm: En ræddu þeir ekki um REI, GGE og OR?
F.Bstj: Æi ég á það til að rugla þessu öllu saman. Hvernig er hægt að muna þetta allt! REI, GGE, BSRB, VSOP, USB, CCR eða HSÍ! Svo töluðu þeir svo mikið að ég varð hreinlega syfjaður og það má vel vera að ég hafi dottað eins og eitt augnarblik.
Blm: Forstjóri REI segist hafa sýnt þér uppkast af samningi þess efnis að hið sameinaða félag REI og GGE, TMR (Take the Money and Run, group) öðlist einkaleyfi á notkun vatns á Íslandi "until hell freezes over" eins og segir í fréttatikynningu og enginn hafi leyfi til að þvo bílinn, vökva garðinn né fara í bað án þess að greiða TMR þóknun fyrir. Fannst þér þetta eðlilegar kröfur?
F.Bstj: Ég kannast alls ekki við að þetta hafi staðið í þessum samningi. Ég las þetta plagg vel og vandlega yfir og þó svo að það hafi verið á latínu þá skildi ég mæta vel allt sem þar stóð enda dúxaði ég í latínu í TBR á sínum tíma
Blm: Þú meinar MR?
F.Bstj: Já, þar líka
Blm: En hvað stóð þá í þessum samningi?
F.Bstj: Það var bara eitthvað verið að tala um að Bjarni, Hannes og Kristinn og nokkrir kunningjar þeirra gætu fengið fólk lánað frá Orkuveitunni til að ditta að einu og öðru fyrir þá þegar þeir væru í útlöndum, það er víst alltaf svo mikið að gera hjá þessum kaupsýslumönnum.
Blm: Hvað meinarðu með að ditta að?
F.Bstj: Ja svona tæma úr heita pottinum og þrífa útigrillin. Það eru menn frá Orkuveitunni á ferðinni út um allan bæ hvort eð er svo ég sá ekkert athugavert við að lána þá í eitthvað svona smálegt. Og svo koma þessir menn í bakið á mér og segja að ég hafi gefið loforð fyrir því að allir starfsmenn Orkuveitunnar vinni einungis fyrir þá næstu 99 árin. Þetta stóð aldrei í þessu plaggi sem ég sá! Reyndar var líka eitthvað talað þar um að samningar þyrftu að ganga jafn hratt og örugglega og það tæki þrjár kýr að hekla kjötfars og vitneskjan væri best geymd djúpri píparaskoru en ég viðurkenni fúslega að þekkja ekki öll þessi nýmóðins orðatiltæki. En þetta stóð þarna svart á hvítu enda latína mitt annað tungumál og talaði ég hana lengi vel á sunnudögum
Blm: Burt séð frá þessum samningi þá þykir mörgum óeðlilegt hvað margir auðmenn tengdir tveim stjórnmálaflokkum eiga stóra hluti í REI og GGE.
F.Bstj: Ég vissi ekkert um það! Ég sá þarna einhver nöfn á blaði og hélt bara að það væri verið að sýna mér gestalistann í partýið hjá Yoko Ono.
Blm. Kom það þér á óvart að Björn Ingi skuli hafa slitið meirihlutasamstarfinu svona snögglega?
F.Bstj: Mér leið eins og Sesari eftir að Brútus sló hann í höfuðuð með golfkylfunni forðum
Blm: Hann stakk hann í bakið með rýting
F.Bstj: Hugsa sér! Að ráðast aftur á slasaðann manninn sem gat enga björg sér veitt. Einmitt eins og Ingibjörn hefur hagað sér!
Blm: Þú meinar Björn Ingi
F.Bstj: Já gat svo sem verið að þeir væru tveir! Framsóknarflokkurinn er greinilega stærri en ég hélt!
Hér í spilaranum við hliðina eru svo nokkur lög tileinkuð borgarstjóranum fyrrverandi
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
22.9.2007 | 19:32
Uppskriftir
Þegar maður er farinn að skiptast á mataruppskriftum við vini sína í staðinn fyrir nýjustu djammsögurnar þá er maður formlega orðinn miðaldra. Auk þess sem "nýjustu" djammsögurnar hjá sumum eru síðan fyrir aldamót og ekki lengur sérlega ferskar. Það eru fjölskyldur og starfsframar sem þarf að sinna og allt í einu eru liðin 5 ár síðan viðkomandi sletti úr klaufunum síðast.
Hún Linda vinkona mín er lengi búin að suða í mér að fá eina eða tvær uppskriftir en ég hef þrjóskast við þar sem miðaldramennska er ekki alveg að heilla mig. En svona til að gera henni greiða þar sem hún er kjarnakona austur í sveit með fullt hús af börnum auk þess að vera í fullri vinnu, hugsa um garðinn, vera í kvenfélaginu kirkjukórnum og sóknarnefndinni og er núna eflaust að taka slátur og sjóða niður rabbabarasultu þá kemur þetta hér. Ég geri mér alveg grein fyrir því að það hafa ekki allir tíma til að grúska í matreiðslubókum svona milli þess að sitja á kaffihúsum, lesa skáldsögur, hlusta á tónlist, fara í gönguferðir eða eyða heilu kvöldunum í tölvunni þó ég hafi það. Þetta ætti því að gagnast öllu uppteknu fjölskyldufólki og þeim sem vilja nýta það mikla og góða hráefni sem hér er að finna
Austur í sveit er heldur ekki hægt að hlaupa út í búð ef það vantar eitthvað í matseldina hvað þá að slá bara öllu upp í kæruleysi og panta sér pizzu. Það þarf að hugsa fyrir öllu og þegar við bætist að það eru margir munnnar sem þarf að metta er gott að vera hin hagsýna húsmóðir. Uppskriftirnar taka því mið af því. Það var úr ýmsu að velja eins og uppskrift af Lúðubuffi, Sláturstöppu og Kartöflutertu. Njólajafning og Áfasúpu gæti líka komið sér vel að kunna að matreiða og sömu leiðis Hænu í hlaupi eða Hryggvöðva af hesti ef margir eru í mat. En hér koma þessar uppskriftir Linda mín:
Súrsuð júgur
Skerið júgrið í 2-4 hluta eftir stærð. Skerið upp í spenana og útvatnið júgrið í 1-2 daga. Skiptið oft um vatn til þess að ná mjólkinni úr. Sjóðið júgrið í 1-3 klst. og kælið. Suðutíminn ter eftir tegund og aldri skepnunnar. Súrsið júgrið í skyrmysu. Á sama hátt má sjóða og súrsa lungu og hrútspunga
Fótasulta
Svíðið kindafætur ohreinsið eins og svið. Takið klaufarnar af. Sjóðið fæturna fyrst í saltlausu vatni (vegna fótaolíunnar). Fleytið fótaolíuna ofan af vatninu, það er mjög góð feiti sem nota má í kökur en einnig í smyrsl. Saltið, þegar búið er að ná feitinni, og sjóðið þangað til hægt er að smeygja beinunum úr. Stórgripahausa, ærhausa er ágætt að hafa með í sultunni. Sjóðið beinin í soðinu í dálitla stund og síið þau síðan frá. Sjóðið soðið niður þar til það er hæfilega mikið á móts við kjötið sem á að hafa í sultuna. Látið kjötið út í og sjóðið í 5-10 mín. Ausið síðan sultunni í grunn föt og kælið. Skerið sultuna í bita og geymið í mysu
Verði ykkur að góðu!
Í spilaranum hér til hliðar eru svo nokkur matarlög
Dægurmál | Breytt 23.9.2007 kl. 12:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
17.9.2007 | 22:02
sjónvarpið
Margir reka upp stór augu þegar þeir ætla að fara að ræða eitthvað við mig um sjónvarpsdagskrána og ég segi þeim að ég eigi ekki sjónvarp og hafi ekki átt lengi. "Hvað geri ég þá á kvöldin?" er spurt í forundran eins og það sé það eina sem standi fólki til boða.
Ég á 2 kanínur sem þurfa ást og umhyggju, ég fer á kaffihús (svona meðan Herr Flick lögreglustjóri lætur ekki loka þeim kl. 8 því þá á fólk að vera komið heim til sín), ég les, ég tek mikið af ljósmyndum og síðast en ekki síst sit ég fyrir framan Makkann minn og geri eitthvað skemmtilegt. Nei, ég er ekki í Counter strike eða að skoða sóðasíður á netinu. Tölvur eru ekki bara til þess að hanga á netinu eða myrða cyberskrýmsli í ofbeldisfullum tölvuleikjum. Reynið að vera skapandi! Fáið ykkur Illustrator eða Photoshop og farið að búa eitthvað til. En nei, það er eitthvað í sjónvarpinu sem má ekki missa af segir fólk
En hvað er svona merkilegt í sjónvarpinu að fólk getur setið yfir því frá kvöldmat að háttatíma kvöld eftir kvöld? Ég kíkti aðeins á dagskrána þessa viku og hér er smá brot.
Í Ríkiskassanum var m.a boðið upp á þetta:
"Fadderi ok faddera". Sænsk heimildamynd um Jonas Svenson, 85 ára gamlan harmónikkuleikara og fyrrum póstburðarmann í Uppsala og leit hans að Husqvarna harmónikku sem föðurbróðir hans tapaði á leiðinni milli Ullevalla og Sundsvall í maí árið 1956
"Útnáramótið í fótbolta" Lið Trékyllisvíkur mætir Dolla frá Hólmavík í 16 liða úrslitum en allir lekir mótsins verða sýndir beint og svo endursýndir að loknum fréttum alla daga vikunnar
"Baulaðu nú Búkolla mín" Dúddi Gunnsteinsson ræðir við Jónas fjósamann í Fárviðru á Ströndum um íslensku mjólkurkúna.
"Lúlli snigill skoðar heiminn" Fylgst með ferðum snigilsins Lúlla í heilan mánuð og hvernig hann á þeim tíma ferðast úr örygginu undir rifsberjarunnanum, yfir göngustíginn og í ný heimkynni í túlípanabeðinu.
Það var ekkert sem heillaði mig neitt sérstaklega við dagskrána í Ríkiskassanum svo ég kíkti á hvað frjálsu og óháðu fjölmiðlarnir höfðu upp á að bjóða.
"Ástir og örlög á kennarastofunni" Við höldum áfram að fylgjast með Janis handmenntakennara í St.Slum miðskólanum í Brooklyn og viðleitni hennar til að öðlast ástir Bobbys skólastjóra. Í síðasta þætti hafði Janis fengið nafnlausa ábendingu um það að Bobby væri jafnvl að hitta aðra manneskju. Hún fær Dolly bókhaldskennara í lið með sér til að komast til botns í þessu máli sem leiðir þær í Leather&Latex klúbbinn á Manhattan. 856. þáttur.
"NYPP blue" Vandaðir bandarískir spennuþættir sem fjalla um hið hættulega starf stöðumælavarða í New York
"Desperate midwives" Ljósmæður á bandarísku sjúkrahúsi heyja harða baráttu við flækta naflastrengi, óvænta keisaraskurði, sjálfumglaða fæðingarlækna og taugaveiklaða eiginmenn
"The Bachelorett:Alabama" Ný þáttaröð af þessum vandaða bandaríska raunveruleikaþætti. Mary Lou hefur komið sér fyrir á hinu glæsilega Golden Palace Trailer Park Hostel og tekur þar á móti vonbiðlum sínum. Valið á eftir að vera erfitt því allir eiga þeir Pick-up truck og marghleypu, enginn þeirra er nákyldur ættingi hennar og allir hafa þeir sínar eigin tennur. Að lokum verður það þó aðeins einn sem stendur uppi sem sigurvegari með síðustu Budweiser kippuna
"Dr.Bill" Í þessum vinsæla bandaríska spjallþætti ræðir bókmenntafræðingurinn Dr. Bill við gesti sína um mikilvægi þess að kunna að lesa og bendir þeim á hvar Bandaríkin er að finna á landakortinu. Hann svarar spurningum áhorfenda úti í sal um jafn margvísleg efni og hvað kjúklingar hafi marga fætur, hvað suðumark vatns er hátt og hvernig Hvíta húsið er á litinn. Uppáhaldsþáttur Georga W. Bush
Hér í spilaranum til hliðar eru svo nokkur "sjónvarps" lög
Dægurmál | Breytt 18.9.2007 kl. 00:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
27.7.2007 | 01:12
Skemmtistaðir
Skemmtistaðir eru stór merkilegt fyrirbæri. Þar getur fólk komið saman í hópum og hagað sér eins og fífl ef því er að skipta og engum finnst það neitt sérstaklega athugavert. Þar sættir kvenfólk sig við að láta stara á sig og káfa á sér og er jafnvel til í að slengja brjóstunum framan í hvaða lúða sem er ef hann heldur á myndavél og allt kemur svo á netið daginn eftir. Oft að spá í hvort þessum dömum finnst það jafn sniðugt þá. Getur svo sem vel verið, ég er kanski bara svona old fashioned. Á skemmtistöðum finnst fólki ekkert að því að tapa sér á dansgólfinu og syngja hástöfum með gömlum Michael Jackson lögum og 2Unlimited eru bara cool
Orðatiltækið "allt er gott í hófi" á ekki við á þessum stöðum þar sem þykir ekki tiltöku mál að skvetta í sig eins og hálfri bjórtunnu ásamt öðru áfengi. Sjálfstjórn og sjálfsvirðing eru einhvernvegin ekki efst í huga margra þeirra sem sækja skemmtistaðina. Það er ekkert ömurlegra en gaurar sem hanga utan í hvaða pilsi sem þeir sjá og eru með það á hreinu að þeir séu gjörsamlega ómótstæðilegir þrátt fyrir að geta varla komið út úr sér gáfulegri setningum en "hvasegiru elsskan", eru orðnir glaseygðir og rauðir í framan með þrútin nef, hjólbeinóttir og innskeifir og búnir að týna skónum sínum eða eitthvað álíka. Kvenfólkið er svo oft ekkert skárra og eftir 12 Breezera finnst þeim svona gæjar sjálfsagt bara ómótstæðilegir! Að reyna að klöngrast um á háum hælum eftir 12 Breezera er líka alveg jafn ófoxy og maskari út að eyrum og D&G dressið gyrt oní nærbrækurnar að afta. Trúnó á kvennaklósettinu er líka alger martröð! Sérstaklega þegar 6 gellur eru búnar að loka sig inni á eina klósettinu á staðnum og helmingurinn af þeim er grenjandi og hinn helmingurinn í móðursýkikasti af því að kærastinn hafði talað við sína fyrrverandi í röð í bankanum fyrir 3 vikum síðan! Please, get a grip on yourself!!
Og hvað græðir fólk á þessu öllu saman? Jú, það endar heima með einhverjum sem það myndi ekki einu sinni vilja setjast við hliðina á í bíó undir venjulegum kringumstæðun, ekki einu sinni þó að væri búið að slökkva ljósin í salnum. Er hálf meðvitundarlaust af samkvæmisónotum (dannaða orðið yfir þynnku ) í sólarhring á eftir, hefur móðgað minnst 4 vinkonur í tilviki kvenna en verið laminn fyrir að rífa kjaft í tilviki karla, hefur eytt hálfum mánaðarlaunum á barnum, týnt skóm, símum, fötum, lyklum..., haltrar um í viku eftir að hafa dottið út úr leigubíl og lofar að gera þetta aldrei aftur. Það loforð er að vísu oftast gleymt um næstu helgi. Fólk sem sagt lærir aldrei!
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 01:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)