Árans ólukka

Eitt af því sem móðir mín kenndi mér var að maður á ekki að hlæja að óförum annara. Þess vegna finnst mér það graf alvarlegt mál hversu illa er komið fyrir nýríku fólki á Íslandi í dag og finnst það til skammar þegar öfundsjúkir einstaklingar segja glaðhlakkalega frá hrakförum þess með glott á vör.
Það er örugglega hræðilegt að missa Range Roverinn sinn á uppboð bara vegna þess að hlutabréfin í Japönsku húlahringjaverksmiðjunni eða Búlgarska kleinuhringjaframleiðandanum hafa hrapað í verði. Ég meina hver átti von á því að heimsmarkaðsverð á húlahringjum myndi lækka um 58% á nokkrum vikum?

Íslenskir athafnamenn hafa efnast vel á síðustu árum sökum áræðni og næmni fyrir lögmálum markaðarins en ekki vegna þess að það hefur verið svo mikil uppsveifla að það hafi verið hægt að græða á hvaða rugli sem er, jafnvel framleiðslu á vasaljósum sem ganga fyrir sólarljósi og rafmagns eyrnapinnum eins og illar tungur halda fram.
Mér er ekki hlátur í huga þegar ég sé fréttir af því að menn hafi þurft að selja sérhönnuðu skrifstofurnar sem áttu að bera eigendunum og fáguðum smekk þeirra fagurt vitni og það m.a.s án þess að hafa náð að máta forstjórastólinn. Eða hvarsu erfitt er það fyrir stórhuga fyrirtæki í hringiðu alþjóða viðskipta að geta ekki lengur sent stjórnarmenn á fundi í útlöndum í sinni eigin einkaþotu? Það er bara ekki traustvekjandi að mæta með venjulegu áætlunarflugi sem þú veist aldrei hvort druslast af stað á réttum tíma, maturinn er vondur, flugfreyjurnar gamlar og blaðskellandi kellingar og slompaðir kallar af fyrsta farrými eylíft að rápa inn á Saga Class til að komast á klósettið. Hver getur einbeitt sér að því að rýna í flóknar viðskiptaáætlanir undir svona kringumstæðum?

Og þetta er ekki allt. Núna er eintómt væl og bölmóður í bönkunum og ekki lengur hægt að fá lánaðar svo mikið sem 100 milljónir hvað þá meira! Ég meina hvað fær maður fyrir minna en 100 milljónir í dag? Frystihús á Vestfjörðum kanski, en hver vill það? Þetta er gengið svo langt að bankarnir hafa neyðst til að segja upp gjaldkerum og ræstingafólki í stórum stíl til að lækka rekstrarkostnað og einn bankastjórinn gekk á undan með góðu fordæmi og lækkaði launin hjá sjálfum sér og lætur sér nú duga að lifa einföldu og látlausu lífi af 3 milljónum á mánuði auk þess sem þessar 300 milljónir sem hann fékk fyrir að byrja í vinnunni eiga nú eftir að koma sér vel.

Það er líka af sem áður var þegar ekkert fjármálafyrirtæki með sómatilfinningu gat verið þekkt fyrir annað en að bjóða ubb á heimsþekkta skemmtikrafta á árshátíðum og öðrum stærri samkoum. Nú meiga menn prísa sig sæla ef Herbert Guðmundsson mætir og tekur lagið.
Því segi ég, verum góð við nýríka fólkið, það á bágt


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Og bíðið við - heilu fjölskyldurnar þurfa kannski að fara að þrífa hjá sér, hafa ekki lengur efni á Butler og heimilishjálp? Hvað næst? KFC í stað Holtsins?

Monopoly (IP-tala skráð) 2.3.2008 kl. 17:19

2 Smámynd: Kolgrima

Góður pistill, takk fyrir þetta. Ég er þér hjartanlega sammála

Kolgrima, 2.3.2008 kl. 18:56

3 identicon

Amma mín sagði, alltaf að vera góður við minni máttar!

Ragnar Sigurjónsson (IP-tala skráð) 2.3.2008 kl. 21:46

4 Smámynd: Kristján Kristjánsson

Það þarf að setja saman áfallahjálpsteymi fyrir þennan hóp

Kristján Kristjánsson, 2.3.2008 kl. 22:42

5 Smámynd:  Íris Ásdísardóttir

Fari það í súra ýsu og eineygðan kolkrabba !!! Ertu að segja að húla-hringurinn sem ég pantaði á E-bay sé hættur í framleiðslu ???

oooooo.......ég sé ætlaði að húla mig inn í vorið....

Íris Ásdísardóttir, 4.3.2008 kl. 23:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband