"Ástandið"

djamm.jpgAlltaf öðru hverju kemur upp á yfirborðið umræðan um "ástandið" í
miðborginni. Þó ég hafi búið í umræddri miðborg síðastliðin 15 ár hef ég
ekki tekið sérstaklega eftir einhverri dramatískri breytingu á þessu
"ástandi" nema þá að margt hefur færst til betri vegar. Veitingastöðum
hefur stór fjölgað og á góðviðrisdögum situr fólk þar fyrir utan og nýtur
veðurblíðunnar (þ.e.a.s þegar Víneftirlitið er upptekið við kontórvinnuna).
Þegar ég flutti til Reykjavíkur 1984 var þessi sama miðborg steindauð eftir
kl. 6 á dagin á virkum dögum og um helgar breyttist hún í vígvöll á slaginu
kl. 3 á nóttunni þegar öllum var rutt út af skemmtistöðunum á sama tíma. En
einhverjum finnst samt að margt mætti betur fara og er það eflaust rétt,
það á alltaf að reyna að gera betur.


Borgarstjórinn kom eins og stormsveipur inn í þessa umræðu og fór fram á að
bjórkælinum í Vínbúðinni í Austurstræti yrði lokað og þar með væri
stórkostlegt vandamál úr sögunni.
Eftirfarandi samtal ku hafa verið hlerað óvart af einum ræstitækni
Ráðhússins sem var að skúra fyrir utan skrifstofu borgarstjórans:


"Við verðum að gera eitthvað í þessu með miðbæinn herra borgarstjóri, það
er neikvæð umfjöllun í gangi í þjóðfélaginu, ekki gott PR"
"Já rífum við hann bara ekki, það vantar alltaf fleiri verslunarmiðstöðvar
og bensínstöðvar. Fór með konunni í Kringluna um daginn, alveg voðalega
huggulegt"
"Við getum víst ekki rifið allt, því miður. Einhverjir
kommaafturhaldstittir vilja halda upp á þessa hænsnakofa. Ég var meira
svona að tala um ólætin um helgar"
"Lokum við þá ekki bara Þórskaffi"
"Þórskaffi er ekki til lengur, herra borgarstjóri"
"Hvað segirðu! Var það rifið"
"Nei, nei, það bara lokaði"
"Já þetta er auðvitað skríllinn sem hangir fyrir utan Klúbbinn"
"Uhumm....Klúbburinn lokaði fyrir 20 árum, herra borgarstjóri"
"Ja hérna hér! Var hann þá rifinn?"
"Hann brann"
"Já það virkar líka voða vel, ættum að gera meira af því. Punktaðu það hjá
þér Guðlaugur, brenna kofa."
"Ég heiti Sigurður, herra borgarstjóri"
"Já auðvitað, sé það núna. Þið eruð bara allir eitthvað svo líkir strákarnir"
.
.
.
.
"Hvað vorum við aftur að tala um?"
"Ástandið í miðbænum, herra borgarstjóri"
"Já einmitt. Lokum við ekki bara þessum skemmtistöðum. Þetta eru hvort eð
er allt subbubúllur uppfullar af óþjóðalýð og eiturlyfjapakki.Þetta fólk
kann ekki að meta góða og heiðarlega skemmtun nú til dags. Kann enginn
bridds lengur eða hvað?"
"Nei það má ekki"
"Heirðu væni minn, er það ég eða þú sem ert borgarstjóri hérna!"
"Nei ég meinti að það mætti ekki loka löglegri atvinnustarfsemi"
"Við flytjum þetta þá bara eitthvert annað, er ekki nóg af húsnæði uppi á
Höfða? Já og kanski Gunni Bigg vilji leyfa þessu að vera í Smiðjuhverfinu.
Hann er alla vega voðalega ánægður með staðinn sem Lettneska
þjóðdansafélagið rekur þar. Fer oft þangað segir hann."
"Ha?!"
"Já þarna Coldsinger"
"Þú meinar Goldfinger"
"Ekki segja mér hvað ég meina, Sigmundur. Ef ég vissi það ekki væri ég ekki
borgarstjóri"
"Það er Sigurður, herra borgarstjóri"
"Já hann líka"
"Jæja, ég má ekkert vera að þessu. Ég þarf að mála grindverk og svo þarf ég
að vera mættur vestur í bæ eftir hálftíma, það er verið að opna
samlokusjálfsala og ég verð auðvitað að vera viðstaddur. Já það er sko nóg
að gera þegar maður er borgarstjóri skal ég segja þér væni minn. Heyrðu,
þið reddið þessu bara strákarnir. Já og ef Björn Ingi spyr, þá er ég ekki
við."

Í spilaranum hér til hægri eru svo nokkur lög sem gætu átt við um "ástandið í miðborginni".


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: halkatla

snilld

gunni bigg og lettneska þjóðdansafélagið ég verð ekki eldri 

halkatla, 2.9.2007 kl. 11:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband