Ó Reykjavík, ó Reykjavík...

Það er ekki bara íslenskt efnahagskerfi sem er að fara til fjandans, Reykjavík er líka að fara til fjandans. Og þá sérstaklega miðbærinn.

Þetta byrjaði allt á einhverju grenji frá misvitrum pólitíkusum um að miðborgin væri í dauðategjunum meðan allt væri á blússandi siglingu í Kringlunni og Smáralindinni. Það þyrfti meiri uppbyggingu. Á þessum tíma hafði ég ekki tekið eftir neinum dauðategjum þó svo að ég byggi í miðbænum sjálf og geri enn. En vællinn varð meiri og meiri þannig að á endanum fóru borgaryfirvöld á taugum og áður en menn rönkuðu við sér var búið að leyfa niðurrif á hálfum Laugaveginum og góðum parti af Hverfisgötunni og Skuggahverfið var farið að líta út eins og í Amerískri stórborg. Eintómir forljótir, karakterlausir steypuklumpar gnæfandi yfir eitt og eitt eldra hús sem fyrir náð og miskun fékk að standa áfram. 

Nú eru þessir sömu pólitíkusar og höfðu hvað hæst um "skelfilegt ástand miðborgarinnar" við völd í Reykjavík og útlitið á miðbænum hefur aldrei verið verra þau 15 ár sem ég hef búið þar. Harlem lítur betur út. Gráðugir verktakar og ennþá gráðugri fjárfestar virðast eiga annað hvert hús og það sem ekki hafði fengist leyfi til að rífa með því að sleikja upp pólitíkusana, það er látið grotna niður þannig að á endanum er ekki annað hægt að gera. Svo verður byggður einhver risastór óskapnaður úr stáli og gleri og að sjálfsögðu með 5 hæða bílakjallara því meiri bílaumferð í miðbæinn er einmitt það sem vantaði. Og fjárfestarnir hlæja alla leið í bankann

Núverandi borgarstjórn til varnar má þó benda á að það er eflaust erfitt að hafa borgarstjóra sem þjáist af félagsfælni og lætur helst ekki sjá sig þar sem fleiri en þrír koma saman. Auk þess sem maðurinn er með eindæmum hörundssár og gæti tekið það sem persónulega árás ef einhver spyrði hann hvað klukkan væri. En á móti má spyrja, ræður hann yfir höfuð einhverju?

Borgarstjóri númer 2, Vilhjálmur Þ, var ekki mjög mikið með á nótunum þegar hann fékk að vera aðal hérna um árið og hefur ekkert skánað síðan. Meikar jafn mikinn sens stundum og Sænski kokkurinn í Prúðuleikurunum. Restin af borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins er of upptekin við að skipa sjálf sig í þægileg embætti og dygga stuðningsmenn í nefndir og ráð og díla með alla skrilljarðana sem Orkuveitan á, til að hafa nokkurn tíma til að reka þetta batterí sem Reykjavíkurborg er. Á meðan fer allt hægt og rólega beina leið til fjandans.

 


hamingjan leynir sér ekki á Íslandi í dag

vikings.jpgVið Íslendingar höfum alltaf verið að springa úr hamingju. Forfeður okkar voru sérstaklega hamingjusamir yfir því að geta flust frá iðagrænum sveitum Noregs á rokrassgat norður í ballarhafi. Og ekki minnkaði hamingjan við það að skreppa í leiðinni til Írlands og pikka upp eins og eina eða tvær rjóðar og sællegar sveitastúlkur. Sögum fer þó ekki af þeirra hamingju.

Hér undu menn hag sínum hið besta og brostu út að eyrum meðan þeir drápu hvorn annan og alla húskarlana í hefndarvígum. Að frátalinni stuttri útrás til Grænlands og Vínlands sem ekki þótti borga sig á þeim tíma voru menn bara ánægðir hver í sinni sveit. Vopnin voru lögð til hliðar þar sem þau ryðguðu og skipin fúnuðu þar sem enginn nennti lengur að vera að rápa eitthvað til útlanada og útlendir kóngar þóttu ekki það merkilegur pappír lengur og voru auk þess hættir að skilja dróttkvæði.

Smávegis niðursveifla kom á hamingjustuðulinn á tímum móðuharðinda, nauðsynleg leiðrétting telja sumir, og óumflýjanlegur fórnarkostnaður að u.þ.b helmingur þjóðarinnar dræpist úr hor og vesöld. Þó var það ekki svo slæmt að þurfa að herða sultarólina aðeins því að á eftir kreppu kemur alltaf uppsveifla og menn gátu fljótt tekið gleði sína á ný. Tilgengnir sauðskinnsskór og þurrkað fiskiroð var heldur ekki sem verst og afskaplega próteinríkt.

Það voru svo Danir sem kynntu okkur fyrir alþjóðlegri verslun að nýju og við uppgötvuðum hvað það að versla gerir okkur hamingjusöm. Það var það sama þá og nú, við kaupum hreinlega allt. Skúli Magnússon reyndi svo að koma á fót iðnaði svo við gætum keypt okkar eigið dót en komst að því að íslendingar voru ekki þessar týpur sem nenntu að að vinna heilalausa 9-5 vinnu. En hey, við vorum hamingjusöm í okkar sveit með sauðfé á beit.

Þegar svo seinna stríðið brýst út og erlendir fjárfestar með tyggjó og nælonsokka í öllum vösum fara allt í einu að hrúga í okkur peningum fyrir að moka skurð þá hreinlega görgum við af gleði og þessi gleðivíma var svo mögnuð að við  tókum ekkert eftir því þegar Framsóknarflokkurinn byrjaði að draga okkur hægt og rólega aftur í tímann og var kominn með okkur langt aftur á síð miðaldir þegar við loksins rönkum við okkur og Evrópusambandið í dulargerfi EES kippir okkur inn í nútímann. Síðan hefur þetta allt verið eintóm blússandi hamingja, ja nema þú eigir stóran hlut í FL Group kanski.

 


mbl.is Fengu hamingjuna í arf frá víkingunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

maðurinn sem varð ófrískur

ThomasBeatie.jpgMyndin hér til hliðar er af Thomas Beatie, sem er kominn 5 mánuði á leið og á von á stúlku ásamt sambýliskonu sinni til 10 ára, Nancy. Hjónaleysin eru að vonum afar hamingjusöm.

Til að skýra þetta aðeins þá hét Thomas Beatie, Tracy LaGondino þar til fyrir nokkrum árum síðan og bjó ásamt áðurnefndri sambýliskonu í ástríku sambandi á Hawaii. Þær vildu giftast eins og önnur ástfangin pör en það var víst ekki leyfilegt á Hawaii (og reyndar víðar) svo Tracy brá á það ráð að gangast undir kynskiptiaðgerð og breyta sér í Thomas til að geta gengið að eiga sína heittelskuðu.

Nú auðvitað vildu þær/þau eignast börn og þar sem andstaða við ættleiðingar samkynhneygðra hafði komið í veg fyrir það hingað til þá var ekki um annað að ræða en að búa til sitt eigið. En þá kom babb í bátinn. Nancy gat ekki eignat börn sökum sjúkdóms sem hún hafði átt við að stríða í æsku. Nú voru góð ráð dýr! En Thomas/Tracy er greinilega ekki manneskja sem lætur svo auðveldlega slá sig út af laginu. Hún hafði að vísu farið í hormónameðferð og látið taka af sér brjóstin, en meira hafði hún ekki látið taka. Þannig að Thomas kallinn skellti sér bara í næsta sæðisbanka og keypti góða skvettu af sæði og græjaði þetta bara heima í svefnherbergi, væntanlega með góðri hjálp frá Nancy sinni

Afraksturinn lét svo ekki á sér standa. Thomas kveðst líða mjög vel og vera hress og fullur sjálfsöryggis og finnst það ekki á nokkurn hátt bitna á karlmennsku sinni að ver kasóléttur, síður en svo. Vonum við bara að fjölskyldunni vegni vel í framtíðinni...nema þetta sé bara allt bölvuð þvæla!


á leið til fjandans

Eins og allir ættu að vita (nema kanski þeir sem vinna í Seðlabankanum) þá er allt að fara til fjandans hérna á Íslandi. Allt hækkar og hækkar og aumingja nýríka fólkið horfir á hlutabréfin sín hrynja í verði og er jafnvel alls ekkert svo ríkt lengur. Til að varpa aðeins ljósi á þessa þróun og grenslast fyrir um hvað er eiginlega í gangi þá er hér stutt viðtal við Seðlabankastjóra.

Blaðamaður (Blm.): Nú eru efnahagshorfur á Íslandi mjög slæmar. Vöruverð hækkar og gengið fellur. Hver er ástæðan?

Seðlabankastjóri (Sbk.stj.): Jú eftir mikla og þrotlausa rannsóknarvinnu síðustu mánuði komumst við af því að þetta er allt spákaupmönnum og þessháttar peningabröskurum að kenna. Eins og ég hef alltaf haldið fram þá er ekkert athugavert við peningastefnu mína...ég meina Seðlabankans.

Blm.: Og hvað er til ráða?

Sbk.stj: Nú auðvitað að hækka vextina. Vaxtahækkun er eins og Panódíl, virkar á allt. Og eins og hendi væri veifað hækkaði úrvalsvísitalan, þökk sé mér....okkur.

Blm: En nú segir Vilhjálmur Egilsson að vísitalan hefði hækkað hvort sem er vegna þróunar á erlendum mörkuðum og það eina sem gerist er að greiðslubyrði heimilanna eykst

Sbk.stj: Sko, Vilhjálmur Egilsson er líka bara vitleysingur og föðurlandssvikari í þokkabót og vill ganga í Evrópusambandið. Og svo er hann með uppsteyt og er hættur að vilja segja það sem ég segi honum að segja. Það var ekki svona upp á honum typpið þegar ég var forsætisráðherra!

Blm: Talandi um Evrópusambandið, er ekki kominn tími til að skoða upptöku ev....

Sbk.stj: Stoppaðu hér væni minn! Þú nefnir ekki þetta orð í mínum húsum. Árið 1989 ákvað ég að Ísland myndi aldrei ganga í þessi bölvuðu samtök og þar við situr og þarf ekki að ræða frekar

Blm: En nú hefur gífurlega margt breyst síðan 1989. Er ekki tími til að endurskoða þessa ákvörðun?

Sbk.stj: Var ég ekki að segja þér að ég hefði ákveðið þetta? Ertu ekkert að hlusta drengur?

Blm: Nú hafa margir bent á þann gríðarlega kostnað og óöryggi sem fylgir því að halda í krónuna?

Sbk.stj: Þeir aðilar tengjast allir Baugi og eins og allir ættu að vita kemur ekkert gott þaðan og ættu þeir menn að vera lokaðir í tukthúsi eins og ég fór fram á, á sínum tíma. Ótrúlegt hvernig tókst að klúðra því. En ég hef nægan tíma og það eru alltaf að losna dómarasæti sem þarf að skipa nýtt fólk í og ég vænti þess að allt það fólk sé jafn réttsýnt og ég

Blm: Það eru ýmis teikn á lofti um að gjaldþrot blasi við mörgum heimilum vegna gríðarlegs vaxtakostnaðar. Hafa menn í Seðlabankanum engar áhyggjur af því?

Sbk.stj: Ég veit ekkert um hvað aðrir eru að hugsa enda kemur það mér ekkert við. Ég verð bara að segja það að þetta er væll og amlóðaháttur. Hér er búið að vera góðæri til fjölda ára þökk sé mér og minni ríkisstjórn og hér þekkist ekki fátækt. Fólk þarf bara að vinna meira til að geta borgað hærri skatta til að fyrirtækin geti borgað lægri skatta og eigendur þeirra grætt meira. Það þarf bara að passa vel að launin hækki ekki því þá verður fólk latt. Þá fara þeir að fjárfesta og stofna fleiri fyrirtæki og fólk eins og þú sem annars sæti með sultardropa á nefinu í kjallarakytru við Bústaðaveginn getur unnið meira og keypt meira af fyrirtækjunum sem græða þá enn meira og allir eru hamingjusamir

Blm: Ha....

Sbk.stj: Veistu hreinlega ekkert um hagfræði?


loksins það sem vantaði fyrir nútíma konur!

dauckas.jpgÞað er margt sem nútíma konan þarf að eiga. Hún þarf líkamsræktarkort til að hafa réttu línurnar, fallegt heimili, góðan bíl, sérhannaðar innréttingar samkvæmt Feng Shui staðli, rándýrar snyrtivörur í bílfömum, furðulega útlítandi fatnað eftir íslenska hönnuði, eitthvað af börnum og þá helst barnfóstru líka (því hver hefur tíma til að sinna þeim nú til dags?), góða vinnu til að borga fyrir allt saman eða þá kall sem er í góðri vinnu og borgar .

Það eru margir hlutir framleiddir með þarfir kvenna sérstaklega í huga enda konur gjarnan með afbrigðum kaupglaðar. Hvar væru t.d súkkulaðiframleiðendur staddir í dag ef þeir hefðu ekki konur til að kaupa næstum alla framleiðsluna? Þetta væri bara smáiðnaður. Það eru búðir eftir búðir troðfullar af kjólum og pinnahælaskóm sem allt er keypt af konum fyrir utan að inn slæðist einn og einn karlmaður í vonlausri leit að einhverri flík á konuna sína sem hún á ekki eftir að skila þar sem hún er of stór, of víð, of græn, of þykk, of síð, of gegnsæ, of lík einhverju sem einhver annar á, of ódýr, of glyðruleg.......

Nú hafa Rússar loksins sett á markaðinn endurbætta og kvenvænni útgáfu af vörutegund sem hingað til hefur helst höfðað til karla, en það er gamli góði vodkinn. Dauckas vodkinn er eitthvað sem nútíma konan má ekki láta sig vanta. Hann fæst með lime, vanillu og möndlubragði og er tilvalinn til að dreypa á eftir erfiðan dag í vinnunni eða í saumaklúbbnum. Hvað jafnast á við sushi, hreðkusalat og staup af vodka? Eftir ræktina er hægt að fá sér skyrbúst og skola því niður með vanilluvodka on the rocks. Ef börnin eru óþæg og neita að læra heima má alltaf róa taugarnar með tvöföldum möndluvodka út í kaffið því hvað er verra fyrir litlu krílin en taugatrekkt móðir að reyna að halda uppi aga? Í leiðinlegum veislum eins og t.d fermingarveislum má svo alltaf rífa upp stemminguna með vodkasjúss með kransakökunni.

Dauckas vodkinn er drykkur hinnar vel menntuðu, sjálfstæðu konu öfugt við aðrar tegundir sem tengjast frekar þessum sífullu, sjúskuðu, fjórgiftu, 8 barna mæðrum í félagsmálaíbúðum í Fellahverfinu. Dauckas hefur stíl og elegans líkt og tilvonandi kaupendur. Þetta er ekki vodki til að blanda út í goslaust, volgt kók og drekka úr plastglasi í eftirpartýi á þriðjudegi og finna engan mun þótt einhver hafi drepið í sígarettunni sinni í glasinu. Nútíma konan velur vandaða vöru. Hún velur Dauckas


megrun fyrir allan peninginn

slimcof.jpgHver kannast ekki við að hafa einhverntíma farið í megrun? Eða í það minnsta í smá aðhald. Hjá sumum gengur það bara ljómandi vel en fyrir aðra er það álíka erfitt að missa nokkur kíló og það er fyrir íslenska Ædolstjörnu að meika það. Nánast ómögulegt! En af hverju er það?

Það er fyrir löngu vitað að til þess að skafa af sér spikið þarf maður bara að borða minna og hreyfa sig meira, hversu flókið getur það verið? Jú, vandinn er bara sá að þetta tekur allt tíma og voða margir hafa hvorki þolinmæði né viljastyrk til að borða brokkólí í 4 mánuði og þræla sér út í ræktinni á hverjum degi. Þetta er fólkið sem fellur fyrir öllum skyndilausnunum þó að það eigi að geta sagt sér sjálft að þær virka ekki.

Það er nefnilega til endalaust af allkonar drasli sem selt er í bílförmum til fólks sem telur sér trú um að það geti misst fleiri kíló mað því að nota megrunareyrnalokka, megrunarplástur, megrunararmbönd eða sett megrunarinnlegg í skóna sína. Svo ég tali nú ekki um megrunarsápuna sem þú átt að baða þig upp úr á hverjum degi og áður en þú veist af ertu orðin frá því að vera með svipað vaxtarlag og Gunnar Birgisson (undirhaka meðtalin) í það að líta út eins og Nicole Kidman. Allt sápunni að þakka.

Bumbubaninn er apparat sem margir eiga eflaust einhversstaðar í geymslunni. Með því að ýta einhverju plastdóti með handföngum upp að lafandi vömbinni í 20 mínútur á dag átti fólk að geta fengið sixpack sem hefði fengið Arnold Schwarznegger til að skammast sín. Og fyrir þá sem ekki einu sinni nenntu þessu þá var fundið upp apparat sem leyddi rafstraum í sérstakar blöðkur sem fólk festi svo á sig hér og þar. Rafstraumurinn átti svo að plata vöðvana til að halda að þú værir þvílíkt að taka á því þó þú værir í raun og veru bara liggjandi uppi í sófa að horfa á sjónvarpið og kílóin fuku án þess svo mikið sem þú svitnaðir einu sinni. Og tækið seldist eins og kaldur bjór á heitum sumardegi

Allar megrunarvörurnar sem þú átt að láta ofan í þig í staðinn fyrir mat er svo alveg sér kafli út af fyrir sig. Það eru til ótal tegundir af allskonar dufti sem á að hræra upp í vatni og enginn veit nákvæmlega hvað er í. Gæti þess vegna verið endurunnir pappakassar með vanillubragði eða þurrkað fiskihreystur. Svo eru það pillurnar sem á að taka fyrir máltíð sem eiga svo að belgjast út í maganum á þér og hey presto, þú hefur bara ekki lyst á svínarifjunum, frönsku kartöflunum og bananasplittinu sem þú ætlaðir að fara að borða.

Það hafa líka verið fundnir upp allskonar kúrar. Aitkins kúrinn væntanlega þekktastur þar sem að annað hvort léttist fólk eða endaði á spýtala með kransæðastíflu og of háan blóðþrýsting. Það er til kaffikúr þar sem þú átt að drekka sérstakan vítamínbættan kaffidrykk daginn út og inn og hreinlega horfa á kílóin hverfa. Ég meina hvernig er annað hægt þegar þú ert hæper af kaffidrykkju allan daginn, stanslaust á klósettinu og komin með hjartsláttartruflanir? Það eru til kúrar þar sem þú átt bara að borða blómkálssúpu eða harðsoðin egg eða borða bara sveppasoð á mánudögum og þriðjudögum en baunaspírur alla hina dagana

Það næst besta er þó megrunargaffallinn sem virkar þannig að þú mátt ekki stinga honum upp í þig fyrr en hann hefur gefið frá sér píphljóð þannig að þú nærð að tyggja hvern matarbita þrjátíu og tvisvar sinnum og þú borðar því ekki eins mikið. Það besta eru eflaust megrunargleraugun sem eru lituð gleraugu sem þú setur á þig þegar þú ferð að borða og eiga að hafa þau áhrif á heilastarfsemina að matarlystin minnkar. Það eru bara snillingar sem finna upp á svona hlutum!


konan með klósettið á rassinum

Fréttin um konuna sem var flutt á spýtala með klósettsetu gróna fasta við rassinn á sér er eflaust eitthvað það undarlegasta sem ég hef heyrt lengi. Samkvæmt fréttum þá hafði hún verið inni á baðinu í um 2 ár og þar af sitjandi á klósettinu í einhverja mánuði án þess að standa upp því rassinn á henni hafði bókstaflega gróið fastur við setuna þannig að það þurfti að fjarlægja hana með skurðaðgerð á sjúkrahúsi.
Og það sem gerir þetta enn furðulegra er að kærastinn hennar bjó í sama húsi allan tímann og færði henni mat og drykk! Hversu krípí er það? Það var svo að lokum hann sem kallaði til lögreglu þegar honum þótti hún vera farin að vera eitthvað slöpp greyið! Það þarf ekki að taka fram að konan hafði ekki farið í bað á þessum tíma auk þess sem hún var komin með drep í fæturnar af allri klósettsetunni.
Hvernig skyldi heimilislífið hafa verið hjá þeim?

Bank, bank...
"Heyrðu elskan, þú ert búin að vera á klósettinu í 6 vikur. Ferðu ekki að verða búin?"
Eða hvernig ætli það hafi verið þegar hann kom með félagana heim til að fá sér bjór?
"Strákar, látiði Siggu ekki trufla ykkur þó hún sitji á klósettinu. Pissiði bara í baðið. Ég geri það alla vega sjálfur."
"Sigga mín, maðurinn í byggingavöruversluninni sem seldi okkur Gustafsberg klósettið spurði mig um daginn hvernig okkur líkaði það og ég sagði að þú gætir ekki slitið þig frá því"
"Hvað segirðu elskan! Kláraðist pappírinn í október og ertu búin að sitja og bíða eftir að ég komi með meiri pappír síðan þá? Ég hef bara alveg stein gleymdi því!"

Ég velti líka fyrir mér að það hafi nú verið lán í óláni að klósettið stíflaðist ekki þessa mánuði sem konan sat þar sem fastast. Og hvernig ætli það hafi verið að sofa sitjandi svona? Og ég hef líka heyrt einhversstaðar að það sé hægt að fá gyllinæð af því að sitja of lengi í einu(þá er væntanlega átt við þá sem hafa það að vana að lesa eins og eitt blað meðan þeir sitja á kamrinum), hvernig ætli ástandið hafi verið hjá þessari ágætu konu?

Og hvar annarsstaðar en í heinhverju trailerpark í ameríku gerast svona hlutir?


Túrismi

Nú er fólk sjálfsagt farið að spá í það hvert skal halda í sumarfríinu. Er það Kanarí 18. árið í röð, er það sumarhús í Danmörku eða á að taka áhættu og skella sér til Krítar? En hvernig væri bara að taka þetta með trompi og fara til Ríó eða Jóhannesaborgar? Þar er nefnilega hægt að fara í svolítið merkilegar skoðunarferðir um alverstu fátækrahverfi þessara borga í fylgd með innlendum leiðsögumanni sem sýnir feitum og pattaralegum vesturlandabúum á miðjum aldri aumust slömm viðkomandi borga. Og allt saman fyrir væna greiðslu auðvitað

En sitt sýnist hverjum um þessar slömm ferðir. Það eru þeir sem lýta á þetta sem hreina niðurlægingu fyrir íbúana. Eða hvernig fyndist okkur t.d að tvisvar á dag stoppaði rúta fyrir framan hjá okkur og út úr henni hrúguðust amerískir kallar og kellingar á sextugsaldri með gullhringi á hverjum fingri, rándýrar myndavélar um hálsinn og bótox þrútið andlit og byrjuðu að smella af okkur myndum í gríð og erg og ég tala nú ekki um ef við byggjum í bárujárnskofa og ættum bara einn umgang af fötum, þau sem við stæðum í? Svo færu allir upp í rútu aftur og stuttu seinn til síns heima á Palm Beach í einbýlishúsin sín. Ekki eitthvað sem okkur myndi langa til að upplifa geri ég ráð fyrir
Svo eru það hinir sem segja að þeir sem fari í þessar skoðunarferðir kaupi alltaf eitthvað af handverksfólkinu í hverfinu og komi jafnvel til með að gefa peninga til menntunar og uppbyggingar á svæðinu eftir að hafa séð fátæktina með eigin augum

Núna þegar allt er að fara til fjandans á Íslandi þá er ekki úr vegi að einhverjir framtakssamir aðilar fari að skoða þennan ferðamöguleika fyrir alvöru hér heima. Við eigum kanski ekki jafn slæm hverfi og þair þarna í Rio en það mætti bjóða ríkum Japönum eða Þjóðverjum upp á skoðunarferð um Fellahverfið og nágrenni. Því þó að Gullfoss og Geysir séu voða fínir staðir og allt það þá gefur það ekki alveg rétta mynd af Íslandi að sjá bara svoleiðis staði. Það mætti t.d taka rútu upp að Fellaskóla og fylgjast með vandræðaunglingum kveikja í ruslatunnum og brjóta nokkrar rúður. Síðan mætti ganga með hópinn um Unufellið og Æsufellið skoða yfirgefin verslunarhús og brotna póstkassa og jafnvel taka Pólska eða Tælenska íbúa hverfisins tali. Síðan mætti rölta um Vesturbergð og í Bakkana, bragða á heimabruggi og örbylgjupizzum og fylgjast með fjölskylduerjum eða handrukkurum að verki á meðan. Að lokum mætti staldra við á hverfispöbbnum Búálfinum og horfa á Leikfélag Fella- og Hóla flytja einþáttungana "Kerfið sveik mig" og "Síðasti sopinn í bænum" og hljómsveitin Búsbandið endaði svo á að taka nokkur Bubba lög.
Ég gæti bara vel trúað að þetta ætti eftir að verða gríðarlega vinsælt


Það kostar peninga að leika sér

ballinface.jpgÉg hef alltaf dáðst að fólki sem hefur atvinnu af því að leika sér að sama skapi og það er ekki laust við að ég öfundi það svolítið líka. Nú er ég ekki að tala um íslenska fjárfesta heldur íþróttamenn. Það er m.a.s fullt af fólki sem fær ógeðslega mikið af peningum fyrir að leika sér fyrir framan aðra.

Ástæðan fyrir því að ég er að tala um þetta er að núna er verið að stækka Laugardalsvöllinn þar sem jafnvel einhverntíma í ófyrirséðri farmtíð, ef við erum heppin og látum okkur dreyma, munu vinnast glæstir sigrar á knattspyrnuvellinum. Það eina sem skyggir á gleði kanttspyrnuforkólfanna er nánasarháttur og væl í einhverjum skrifstofublókum hjá borginni sem eru að gera veður út af smávægilegri umframeyðslu. Til að skýra þetta mál er hér stutt viðtal við Geirmund Þórsteinsson aðstoðar gjaldkera hjá KSÍ

Blm: Nú hefur vinna við stækkun Laugardalsvallar farið 400 milljónum fram úr áætlun, hvernig skýrið þið það?

GÞ: Ja þessi áætlun var nú gerð í fyrra og er klárlega barn síns tíma og margt hefur breyst síðan þá

Blm: Eins og hvað?

GÞ: Tja, fyrir það fyrst er núna árið 2008 sem var klárlega ekki í fyrra og svo er bara allt orðið svo ferlega dýrt!

Blm: Nú eigum við fótboltalandslið sem getur ekki neitt, er einhver ástæða til að vera að púkka undir það?

GÞ: Við hjá KSÍ lítum svo á að nú sé leiðin bara upp á við, sérstaklega eftir frækinn 2-0 sigur á landsliði Tonga í vináttulandsleik nýverið.

Blm: En nú mættu leikmenn Tonga í strápilsum og voru berfættir auk þess sem þeir voru aðeins 10 í liðinu þar sem fundust ekki fleiri í landinu sem kunnu fótbolta

GÞ: Alltaf skulið þið fréttamennirnir þurfa að gera lítið úr afrekum okkar fræknasta íþróttafólks á erlendri grundu! T.d komst íslenskur skíðamaður heilu og höldnu niður  brekku í stórsvigskeppni í Danmörku um daginn og ég minnist þess ekki að það hafi verið eytt mörgum orðum í það í fjölmiðlum

Blm: Þessi brekka var álíka brött og Arnarhóll

GÞ: Arnarhóll getur verið ansi brattur skal ég segja þér væni minn!

Blm: En aftur að vellinum, þykir það eðlilegt að helmingur áhorfendasvæðisins sé undirlagður undir VIP stúkur með 3 börum, lazy-boy stólum, prívat 4 stjörnu veitingastað, mini golfi, nuddi og sánaklefa?

GÞ: Við þurfum auðvitað að gera vel við okkar styrktaraðila, þessir bankakallar eru bara svo góðu vanir.

Blm: En hvað með að eyða 120 milljónum í að innrétta skrifstofur og fundaraðstöðu KSÍ þar sem er m.a 70 manna bíósalur, vísundaskinn á öllum stólum og koníaksstofa sem var sér innflutt í heilu lagi frá Búrgúndí?

GÞ: Við hjá KSÍ erum einfaldlega stórhuga og erum ekki að tjalda til einnar nætur

Blm: Og er það satt að það hafi gleymst að gera ráð fyrir kvennaklósettum og að blaðamannastúkan sé í gámi úti á bílastæði?

GÞ: Ja konan mín hefur nú nokkrum sinnum komið með mér á leiki og ég minnist þess ekki að hún hafi þurft að fara á klósettið

Blm: En nú hljóta að vera spilaðir einhverjir kvennalandsleikir enda íslenska kvennalandsliðið að gera góða hluti?

GÞ: Ha? Hvaða kvennalandslið?

Blm: Í fótbolta

GÞ: Nú, er það til?! Ja ekki er öll vitleysan eins segi ég nú bara! Áður en maður veit af eru þessar kellingar farnar að keyra vörubíla eða skipta sér af stjórnmálum!


Árans ólukka

Eitt af því sem móðir mín kenndi mér var að maður á ekki að hlæja að óförum annara. Þess vegna finnst mér það graf alvarlegt mál hversu illa er komið fyrir nýríku fólki á Íslandi í dag og finnst það til skammar þegar öfundsjúkir einstaklingar segja glaðhlakkalega frá hrakförum þess með glott á vör.
Það er örugglega hræðilegt að missa Range Roverinn sinn á uppboð bara vegna þess að hlutabréfin í Japönsku húlahringjaverksmiðjunni eða Búlgarska kleinuhringjaframleiðandanum hafa hrapað í verði. Ég meina hver átti von á því að heimsmarkaðsverð á húlahringjum myndi lækka um 58% á nokkrum vikum?

Íslenskir athafnamenn hafa efnast vel á síðustu árum sökum áræðni og næmni fyrir lögmálum markaðarins en ekki vegna þess að það hefur verið svo mikil uppsveifla að það hafi verið hægt að græða á hvaða rugli sem er, jafnvel framleiðslu á vasaljósum sem ganga fyrir sólarljósi og rafmagns eyrnapinnum eins og illar tungur halda fram.
Mér er ekki hlátur í huga þegar ég sé fréttir af því að menn hafi þurft að selja sérhönnuðu skrifstofurnar sem áttu að bera eigendunum og fáguðum smekk þeirra fagurt vitni og það m.a.s án þess að hafa náð að máta forstjórastólinn. Eða hvarsu erfitt er það fyrir stórhuga fyrirtæki í hringiðu alþjóða viðskipta að geta ekki lengur sent stjórnarmenn á fundi í útlöndum í sinni eigin einkaþotu? Það er bara ekki traustvekjandi að mæta með venjulegu áætlunarflugi sem þú veist aldrei hvort druslast af stað á réttum tíma, maturinn er vondur, flugfreyjurnar gamlar og blaðskellandi kellingar og slompaðir kallar af fyrsta farrými eylíft að rápa inn á Saga Class til að komast á klósettið. Hver getur einbeitt sér að því að rýna í flóknar viðskiptaáætlanir undir svona kringumstæðum?

Og þetta er ekki allt. Núna er eintómt væl og bölmóður í bönkunum og ekki lengur hægt að fá lánaðar svo mikið sem 100 milljónir hvað þá meira! Ég meina hvað fær maður fyrir minna en 100 milljónir í dag? Frystihús á Vestfjörðum kanski, en hver vill það? Þetta er gengið svo langt að bankarnir hafa neyðst til að segja upp gjaldkerum og ræstingafólki í stórum stíl til að lækka rekstrarkostnað og einn bankastjórinn gekk á undan með góðu fordæmi og lækkaði launin hjá sjálfum sér og lætur sér nú duga að lifa einföldu og látlausu lífi af 3 milljónum á mánuði auk þess sem þessar 300 milljónir sem hann fékk fyrir að byrja í vinnunni eiga nú eftir að koma sér vel.

Það er líka af sem áður var þegar ekkert fjármálafyrirtæki með sómatilfinningu gat verið þekkt fyrir annað en að bjóða ubb á heimsþekkta skemmtikrafta á árshátíðum og öðrum stærri samkoum. Nú meiga menn prísa sig sæla ef Herbert Guðmundsson mætir og tekur lagið.
Því segi ég, verum góð við nýríka fólkið, það á bágt


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband