Færsluflokkur: Lífstíll

veislur

Ég lenti fyrir því um daginn að mér var boðið í brúðkaup og þar sem um náinn vin er að ræða sem er að fara að gifta sig þá sé ég fram á það að sleppa ekki. Annars er ég með ansi gott safn af afsökunum á reiðum höndum þegar einhverjum dettur í hug að bjóða mér í uppstrýluð samkvæmi þar sem maður þekkir næstum engann eins og giftingar, fermingar, afmæli hjá fjarskildum miðaldra ættingjum, útskriftir og þess háttar

a) nei ég verð í Kúala Lumpur þessa helgi
b) alltaf þennan dag verð ég að fægja silfrið
c) ég þarf að baða kanínurnar
d) ég verð örugglega með botnlangakast þennan dag
e) stjörnuspáin mín fyrir þennan dag lítur ekki vel út
f) en þið búið í Grafarvogi og ég rata svo hræðilega illa úti á landi
g) þetta er einmitt kvöldið sem ég var búin að lofa að taka lagið á söngskemmtun Hjálpræðishersins
o.s.frv, o.s.frv.............

Giftingaveislur eru líka svona veislur þar sem allir þurfa að standa upp og skála í tíma og ótíma og enn verra...halda ræður! Af hverju er ekki hægt að hafa þatta bara almennilegt partý, AC/DC á fóninum og allir í myljandi stuði? En nei, það þarf að búa til úr þessu eintóm leiðindi þar fyrir utan sem giftingaveislur geta endað með ósköpum ef fólk sem talar áður en það hugsar nær að opna munninn. Það er nefnilega ekki sama hvað er sagt í öllum þessum ræðum sem gestir þurfa að sitja undir.

Það er hefð að faðir brúðarinnar taki fyrstur til máls. Þó svo að honum líki ekki við brúðgumann er samt óþarfi að láta í ljós þá skoðun sína að hann telji tilvonandi tengdason varla geta hnítt skóreymar hjálparlaust, að hann sé nýbúinn að læra muninn á hægri og vinstri og að það sé alveg ástæða fyrir því að hann sé kallaður Valur vitlausi og beina að lokum þeirri spurningu til dóttur sinnar hvort hún hafi hugleitt að gerast nunna og voni jafnframt heitt og innilega að það eina sm þau geri saman tvö ein á kvöldin sé að bródera í klukkustrengi.

Næstur á mælendaskrá er gjarnan brúðguminn sjálfur. Þrátt fyrir mikið stress er ekki mælt með að hann hafi innbyrt meira en eins og eitt kampavínsglas áður en hann fer með sína ræðu. Það er heldur ekki mælt með að segja sögur úr steggjapartýinu og lýsingar á því hvað einn rússneski stripparinn var með fáránlega stór sílikonbrjóst en samt ótrúlega raunveruleg er meira en flestir vilja vita. Allra síst brúðurin. Hún vill heldur ekki vita að áður en þið kynntust varstu kallaður Jói höstler og kellingarnar voru alveg sjúkar á eftir þér og hvað þín tilvonandi sé nú heppin að þú valdir hana en ekki einhverja aðra. Þú varst nú einu sinn m.a.s með einni fyrrverandu Ungfrú Reykjavík og margföldum sigurvegara í blautbolakeppni Þjóðhátíðar í Eyjum

Næstur í röðinni er svaramaðurinn sem jafnframt er oftast náinn vinur brúðgumans. Og ef ekki er einhver sér valinn veislustjóri þá sinnir hann oft því hlutverki líka. Hann þarf að vera hnittinn og skemmtilegur og kemur gjarnan með skondnar sögur af brúðhjónunum. Hann má heldur ekki vera búinn að fá sér of mikið neðan í því og fara að telja upp fyrrverandi kærustur brúðgumans og lýsa í smáatriðum hvað þeir félagarnir voru að bralla á Hverfisbarnum hérna back in the days og þó svo að Jói vinur hans sé nú að fara að gifta sig þá þýði það ekki að þeir hætti að horfa saman á enska boltann alla laugardaga og spila pókar með vinnufélögunum á fimmtudögum og kíkja öðru hvoru út á lífið saman strákarnir. Hún hlýtur nú að eiga einhverjar vinkonur sem hún þarf að heimsækja og svona. Og þar sem hann Jói félagi sinn sé hvort eð er getulaus eftir slæma klamedíusýkingu fyrir nokkrum árum þá þurfi þau ekki að hafa neinar áhyggjur af einhverju barnastússi

Í giftingarveislum eru líka oft einhver skemmtiatriði. Þau þarf líka að velja af kostgæfni þannig að þau höfði til allra. Þó að þér finnist Böddi frændi þinn sjúklega fyndinn þegar hann tekur sig til og syngur frumsamndar klámvísur eða litla 5 ára systurdóttir þín hrikalega krúttleg að spila Ísbjarnarblús á blokkflautu þá er nokkuð gefið að einhverjir veislugestir eiga ekki eftir að kunna að meta það.

Er ekki bara best að fá Herbert Guðmundsson og málið er dautt?


Homo erectus extinctus

Nú er illa komið fyrir karlmönnum þessa heims. Það er nefnilega allt útlit fyrir að eftir nokkur ár (125.000 eða svo) verði karlskepnan útdautt fyrirbæri, svona eins og Geirfuglinn. Það er að segja ef ekkert verður að gert til hjálpar.

Það sem greinir karla frá konum er þessi Y litningur sem karlarnir hafa og nánast eini tilgangur þessa litnings er að framleiða sæði til að tegundin geti nú fjölgað sér. Nú er hins vegar svo komið að ófrjósemi karla eykst stöðugt, um 7% allra karlmanna eru ófrjóir og stór hluti þeirra sem þó enn gagnast eitthvað við barnatilbúning eiga í mestu vandræðum með að standa sig í stykkinu sökum arfgengra galla í þessum blessaða Y litningi. Af sömu orsökum verða innlagnir í sæðisbanka rírari með hverju árinu.

En hvcað er til ráða og af hverju eru það bara karlar sem eiga á hættu að deyja út en ekki allt mannkyn sökum getuleysis? Jú, vísindamenn hafa fundið aðferð til að vinna sæði úr beinmerg sem hægt er að frjóvga egg kvenna með (það er allt í fína með framleiðsluna þar) en (og það stórt EN) ekki aðeins úr beinmerg karla heldur alveg eins úr beinmerg kvenna. Það er því fræðilegur möguleiki, og þess verður eflaust ekki langt að bíða að börn eigi bókstaflega tvær mæður.

Til að bæta gráu ofan á svart fyrir framtíðarhorfur karlmanna þá eru það sífellt fleiri konur sem kjósa að ala upp börn án þess að karlmaður komi þar nokkuð nærri. Annað hvort lasbísk pör eða einhleypar gagnkynhneigðar konur sem velja það fjölskyldumunstur fram yfir hefðbundna sambúð (nú eða þá konur sem kjósa að sleppa því algerlega að eignast börn og eru ósköp sáttar við það). Rannsóknir hafa líka sýnt fram á að ef konur sjá fram á það að geta séð sér og sínum farborða með góðu móti án þess að vera í hefðbundnu hjónabandi eða sambúð, auk þess sem þær sjá um stóran hluta allra heimilisstarfa hvort eða er þá eru þær mun líklegri til að velja að búa einar eða með annari konu. Engir skítugir sokkar út um allt, setan alltaf niðri á klósettinu, báðir aðilar full færir um að stjórna þvottavél, helgarnar ekki undirlagðar í fótbolta eða formúlugláp með félögunum sem virðast geta fátt annað en sulla niður bjór og pizzu, ropa og klóra sér í rassinum og það er hlustað á þig þegar þú talar. Ef að svo við bætist sá möguleiki að geta eignast börn án íhlutunar karlmann þá er held ég fokið í flest skjól.

Þróunin á vesturlöndum er líka sú að konur eru orðnar duglegri en karlar að afla sér menntunar og með betri menntun koma oftast betri laun. Því er að vaxa úr grasi kynslóð stelpna sem áttar sig á því að þær geta gert betur en strákarnir. Og svo ég vitni í grein sem ég las um þessi mál: "it is impossible to predict how the male sex will react to a world where “effortless achievement” is no longer their right"

Ég sé því fyrir mér friðsælan og réttlátan heim án ofbeldis og perraskapar, þar sem konur stjórna og lifa saman í sátt og samlyndi...eftir svona 125.000 ár :)


Hann er dýr dropinn...

Aðal umræðuefnið þessa dagana virðist vera bensínverðið. Fólk Jesúsar sig í bak og fyrir þegar á það er minnst og setur upp einhverskonar sambland af armæðu- og skelfingarsvip. Það virðist alla menn vera lifandi að drepa. En þegar bensínið hækkar svona upp úr öllu valdi að fólk þarf áfallahjálp eftir að hafa fyllt á tankinn er þá ekki málið að reyna að nota aðeins minna af því?

Samkvæmt Hagstofunni voru árið 2005, 187.442 fólksbifreiðar á skrá á landinu (þ.e bílar sem taka 8 farþega eða færri) og ég get étið bæði hatt minn og staf ásamt lopasokkum og bróderuðu sængurveri að þeim hefur ekki fækkað síðan þá. Og örugglega hátt í helmingurinn af þessum bílum eru jeppar sem ekki hafa hingað til unnið til verðlauna fyrir sparakstur. Við þessa tölu á svo eftir að bæta sendiferðabílum, rútum, vörubílum, mótorhjólum og alls kyns vinnuvélum. Þurfa þessar 300.000 hræður virkilega að eiga 187.442 fólksbíla?! Og er nauðsynlegt að eiga upphækkaðann jeppa til að komast frá Grafarvogi og upp í Smáralind?

Ég legg til að fólk líti aðeins í eigin barm áður en það óskapast meira yfir bensínverðinu. Hvenær varð það t.d banvænt að ganga á milli húsa, eins og manni finnst fólk stundum láta? Það er alveg merkilegt hvað fólk virðist vera fótafúið. Það gæti jafnvel brennt einhverjum kalóríum á óþarfa labbi! Jedúddamía! Og að minnast á það við fólk hvort að það geti ekki notað Strætó endrum og sinnum og skilið bílinn eftir heima er eins og að leggja til að það flái heimilsköttinn og eldi hann með karrý og hrísgrjónum í kvöldmatinn. Gjörsamlega fráleit hugmynd! Nágrannarnir koma auðvitað til með að halda að viðkomandi hafi misst bílprófið eða hafi ekki efni á að eiga bíl, eða konan hafi farið í fússi með bílinn, krakkana, hundinn og verðbréfin og hvert af þessu er verra veit ég ekki.

Bílar eru líka auðvitað stöðutákn, það lætur enginn heilvita maður með vott af sjálfsvirðingu sjá sig í Strætó með öryrkjum, útlendingum og gamalmennum. Ekki cool að mæta í kokteilboð hjá bankanum í Strætó eða á hjóli. Krakkarnir eru ekki einu sinni látin taka Strætó, þau eru auðvitað keyrð allt sem þau þurfa að fara þar til þau fá bílpróf enda líka alveg jafn slæm til fótanna og foreldrarnir og holdafarið líka orðið eftir því.

Ég skil vel að fólk sem hefur akstur að atvinnu sé ekki mjög hresst þessa dagana en allir hinir eiga bara að hætta að væla og gera eitthvað í málinu. Hvernig væri t.d að byrja á því að eiga einn bíl og það kanski sparneytinn líka?


hamingjan leynir sér ekki á Íslandi í dag

vikings.jpgVið Íslendingar höfum alltaf verið að springa úr hamingju. Forfeður okkar voru sérstaklega hamingjusamir yfir því að geta flust frá iðagrænum sveitum Noregs á rokrassgat norður í ballarhafi. Og ekki minnkaði hamingjan við það að skreppa í leiðinni til Írlands og pikka upp eins og eina eða tvær rjóðar og sællegar sveitastúlkur. Sögum fer þó ekki af þeirra hamingju.

Hér undu menn hag sínum hið besta og brostu út að eyrum meðan þeir drápu hvorn annan og alla húskarlana í hefndarvígum. Að frátalinni stuttri útrás til Grænlands og Vínlands sem ekki þótti borga sig á þeim tíma voru menn bara ánægðir hver í sinni sveit. Vopnin voru lögð til hliðar þar sem þau ryðguðu og skipin fúnuðu þar sem enginn nennti lengur að vera að rápa eitthvað til útlanada og útlendir kóngar þóttu ekki það merkilegur pappír lengur og voru auk þess hættir að skilja dróttkvæði.

Smávegis niðursveifla kom á hamingjustuðulinn á tímum móðuharðinda, nauðsynleg leiðrétting telja sumir, og óumflýjanlegur fórnarkostnaður að u.þ.b helmingur þjóðarinnar dræpist úr hor og vesöld. Þó var það ekki svo slæmt að þurfa að herða sultarólina aðeins því að á eftir kreppu kemur alltaf uppsveifla og menn gátu fljótt tekið gleði sína á ný. Tilgengnir sauðskinnsskór og þurrkað fiskiroð var heldur ekki sem verst og afskaplega próteinríkt.

Það voru svo Danir sem kynntu okkur fyrir alþjóðlegri verslun að nýju og við uppgötvuðum hvað það að versla gerir okkur hamingjusöm. Það var það sama þá og nú, við kaupum hreinlega allt. Skúli Magnússon reyndi svo að koma á fót iðnaði svo við gætum keypt okkar eigið dót en komst að því að íslendingar voru ekki þessar týpur sem nenntu að að vinna heilalausa 9-5 vinnu. En hey, við vorum hamingjusöm í okkar sveit með sauðfé á beit.

Þegar svo seinna stríðið brýst út og erlendir fjárfestar með tyggjó og nælonsokka í öllum vösum fara allt í einu að hrúga í okkur peningum fyrir að moka skurð þá hreinlega görgum við af gleði og þessi gleðivíma var svo mögnuð að við  tókum ekkert eftir því þegar Framsóknarflokkurinn byrjaði að draga okkur hægt og rólega aftur í tímann og var kominn með okkur langt aftur á síð miðaldir þegar við loksins rönkum við okkur og Evrópusambandið í dulargerfi EES kippir okkur inn í nútímann. Síðan hefur þetta allt verið eintóm blússandi hamingja, ja nema þú eigir stóran hlut í FL Group kanski.

 


mbl.is Fengu hamingjuna í arf frá víkingunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

maðurinn sem varð ófrískur

ThomasBeatie.jpgMyndin hér til hliðar er af Thomas Beatie, sem er kominn 5 mánuði á leið og á von á stúlku ásamt sambýliskonu sinni til 10 ára, Nancy. Hjónaleysin eru að vonum afar hamingjusöm.

Til að skýra þetta aðeins þá hét Thomas Beatie, Tracy LaGondino þar til fyrir nokkrum árum síðan og bjó ásamt áðurnefndri sambýliskonu í ástríku sambandi á Hawaii. Þær vildu giftast eins og önnur ástfangin pör en það var víst ekki leyfilegt á Hawaii (og reyndar víðar) svo Tracy brá á það ráð að gangast undir kynskiptiaðgerð og breyta sér í Thomas til að geta gengið að eiga sína heittelskuðu.

Nú auðvitað vildu þær/þau eignast börn og þar sem andstaða við ættleiðingar samkynhneygðra hafði komið í veg fyrir það hingað til þá var ekki um annað að ræða en að búa til sitt eigið. En þá kom babb í bátinn. Nancy gat ekki eignat börn sökum sjúkdóms sem hún hafði átt við að stríða í æsku. Nú voru góð ráð dýr! En Thomas/Tracy er greinilega ekki manneskja sem lætur svo auðveldlega slá sig út af laginu. Hún hafði að vísu farið í hormónameðferð og látið taka af sér brjóstin, en meira hafði hún ekki látið taka. Þannig að Thomas kallinn skellti sér bara í næsta sæðisbanka og keypti góða skvettu af sæði og græjaði þetta bara heima í svefnherbergi, væntanlega með góðri hjálp frá Nancy sinni

Afraksturinn lét svo ekki á sér standa. Thomas kveðst líða mjög vel og vera hress og fullur sjálfsöryggis og finnst það ekki á nokkurn hátt bitna á karlmennsku sinni að ver kasóléttur, síður en svo. Vonum við bara að fjölskyldunni vegni vel í framtíðinni...nema þetta sé bara allt bölvuð þvæla!


loksins það sem vantaði fyrir nútíma konur!

dauckas.jpgÞað er margt sem nútíma konan þarf að eiga. Hún þarf líkamsræktarkort til að hafa réttu línurnar, fallegt heimili, góðan bíl, sérhannaðar innréttingar samkvæmt Feng Shui staðli, rándýrar snyrtivörur í bílfömum, furðulega útlítandi fatnað eftir íslenska hönnuði, eitthvað af börnum og þá helst barnfóstru líka (því hver hefur tíma til að sinna þeim nú til dags?), góða vinnu til að borga fyrir allt saman eða þá kall sem er í góðri vinnu og borgar .

Það eru margir hlutir framleiddir með þarfir kvenna sérstaklega í huga enda konur gjarnan með afbrigðum kaupglaðar. Hvar væru t.d súkkulaðiframleiðendur staddir í dag ef þeir hefðu ekki konur til að kaupa næstum alla framleiðsluna? Þetta væri bara smáiðnaður. Það eru búðir eftir búðir troðfullar af kjólum og pinnahælaskóm sem allt er keypt af konum fyrir utan að inn slæðist einn og einn karlmaður í vonlausri leit að einhverri flík á konuna sína sem hún á ekki eftir að skila þar sem hún er of stór, of víð, of græn, of þykk, of síð, of gegnsæ, of lík einhverju sem einhver annar á, of ódýr, of glyðruleg.......

Nú hafa Rússar loksins sett á markaðinn endurbætta og kvenvænni útgáfu af vörutegund sem hingað til hefur helst höfðað til karla, en það er gamli góði vodkinn. Dauckas vodkinn er eitthvað sem nútíma konan má ekki láta sig vanta. Hann fæst með lime, vanillu og möndlubragði og er tilvalinn til að dreypa á eftir erfiðan dag í vinnunni eða í saumaklúbbnum. Hvað jafnast á við sushi, hreðkusalat og staup af vodka? Eftir ræktina er hægt að fá sér skyrbúst og skola því niður með vanilluvodka on the rocks. Ef börnin eru óþæg og neita að læra heima má alltaf róa taugarnar með tvöföldum möndluvodka út í kaffið því hvað er verra fyrir litlu krílin en taugatrekkt móðir að reyna að halda uppi aga? Í leiðinlegum veislum eins og t.d fermingarveislum má svo alltaf rífa upp stemminguna með vodkasjúss með kransakökunni.

Dauckas vodkinn er drykkur hinnar vel menntuðu, sjálfstæðu konu öfugt við aðrar tegundir sem tengjast frekar þessum sífullu, sjúskuðu, fjórgiftu, 8 barna mæðrum í félagsmálaíbúðum í Fellahverfinu. Dauckas hefur stíl og elegans líkt og tilvonandi kaupendur. Þetta er ekki vodki til að blanda út í goslaust, volgt kók og drekka úr plastglasi í eftirpartýi á þriðjudegi og finna engan mun þótt einhver hafi drepið í sígarettunni sinni í glasinu. Nútíma konan velur vandaða vöru. Hún velur Dauckas


megrun fyrir allan peninginn

slimcof.jpgHver kannast ekki við að hafa einhverntíma farið í megrun? Eða í það minnsta í smá aðhald. Hjá sumum gengur það bara ljómandi vel en fyrir aðra er það álíka erfitt að missa nokkur kíló og það er fyrir íslenska Ædolstjörnu að meika það. Nánast ómögulegt! En af hverju er það?

Það er fyrir löngu vitað að til þess að skafa af sér spikið þarf maður bara að borða minna og hreyfa sig meira, hversu flókið getur það verið? Jú, vandinn er bara sá að þetta tekur allt tíma og voða margir hafa hvorki þolinmæði né viljastyrk til að borða brokkólí í 4 mánuði og þræla sér út í ræktinni á hverjum degi. Þetta er fólkið sem fellur fyrir öllum skyndilausnunum þó að það eigi að geta sagt sér sjálft að þær virka ekki.

Það er nefnilega til endalaust af allkonar drasli sem selt er í bílförmum til fólks sem telur sér trú um að það geti misst fleiri kíló mað því að nota megrunareyrnalokka, megrunarplástur, megrunararmbönd eða sett megrunarinnlegg í skóna sína. Svo ég tali nú ekki um megrunarsápuna sem þú átt að baða þig upp úr á hverjum degi og áður en þú veist af ertu orðin frá því að vera með svipað vaxtarlag og Gunnar Birgisson (undirhaka meðtalin) í það að líta út eins og Nicole Kidman. Allt sápunni að þakka.

Bumbubaninn er apparat sem margir eiga eflaust einhversstaðar í geymslunni. Með því að ýta einhverju plastdóti með handföngum upp að lafandi vömbinni í 20 mínútur á dag átti fólk að geta fengið sixpack sem hefði fengið Arnold Schwarznegger til að skammast sín. Og fyrir þá sem ekki einu sinni nenntu þessu þá var fundið upp apparat sem leyddi rafstraum í sérstakar blöðkur sem fólk festi svo á sig hér og þar. Rafstraumurinn átti svo að plata vöðvana til að halda að þú værir þvílíkt að taka á því þó þú værir í raun og veru bara liggjandi uppi í sófa að horfa á sjónvarpið og kílóin fuku án þess svo mikið sem þú svitnaðir einu sinni. Og tækið seldist eins og kaldur bjór á heitum sumardegi

Allar megrunarvörurnar sem þú átt að láta ofan í þig í staðinn fyrir mat er svo alveg sér kafli út af fyrir sig. Það eru til ótal tegundir af allskonar dufti sem á að hræra upp í vatni og enginn veit nákvæmlega hvað er í. Gæti þess vegna verið endurunnir pappakassar með vanillubragði eða þurrkað fiskihreystur. Svo eru það pillurnar sem á að taka fyrir máltíð sem eiga svo að belgjast út í maganum á þér og hey presto, þú hefur bara ekki lyst á svínarifjunum, frönsku kartöflunum og bananasplittinu sem þú ætlaðir að fara að borða.

Það hafa líka verið fundnir upp allskonar kúrar. Aitkins kúrinn væntanlega þekktastur þar sem að annað hvort léttist fólk eða endaði á spýtala með kransæðastíflu og of háan blóðþrýsting. Það er til kaffikúr þar sem þú átt að drekka sérstakan vítamínbættan kaffidrykk daginn út og inn og hreinlega horfa á kílóin hverfa. Ég meina hvernig er annað hægt þegar þú ert hæper af kaffidrykkju allan daginn, stanslaust á klósettinu og komin með hjartsláttartruflanir? Það eru til kúrar þar sem þú átt bara að borða blómkálssúpu eða harðsoðin egg eða borða bara sveppasoð á mánudögum og þriðjudögum en baunaspírur alla hina dagana

Það næst besta er þó megrunargaffallinn sem virkar þannig að þú mátt ekki stinga honum upp í þig fyrr en hann hefur gefið frá sér píphljóð þannig að þú nærð að tyggja hvern matarbita þrjátíu og tvisvar sinnum og þú borðar því ekki eins mikið. Það besta eru eflaust megrunargleraugun sem eru lituð gleraugu sem þú setur á þig þegar þú ferð að borða og eiga að hafa þau áhrif á heilastarfsemina að matarlystin minnkar. Það eru bara snillingar sem finna upp á svona hlutum!


Árans ólukka

Eitt af því sem móðir mín kenndi mér var að maður á ekki að hlæja að óförum annara. Þess vegna finnst mér það graf alvarlegt mál hversu illa er komið fyrir nýríku fólki á Íslandi í dag og finnst það til skammar þegar öfundsjúkir einstaklingar segja glaðhlakkalega frá hrakförum þess með glott á vör.
Það er örugglega hræðilegt að missa Range Roverinn sinn á uppboð bara vegna þess að hlutabréfin í Japönsku húlahringjaverksmiðjunni eða Búlgarska kleinuhringjaframleiðandanum hafa hrapað í verði. Ég meina hver átti von á því að heimsmarkaðsverð á húlahringjum myndi lækka um 58% á nokkrum vikum?

Íslenskir athafnamenn hafa efnast vel á síðustu árum sökum áræðni og næmni fyrir lögmálum markaðarins en ekki vegna þess að það hefur verið svo mikil uppsveifla að það hafi verið hægt að græða á hvaða rugli sem er, jafnvel framleiðslu á vasaljósum sem ganga fyrir sólarljósi og rafmagns eyrnapinnum eins og illar tungur halda fram.
Mér er ekki hlátur í huga þegar ég sé fréttir af því að menn hafi þurft að selja sérhönnuðu skrifstofurnar sem áttu að bera eigendunum og fáguðum smekk þeirra fagurt vitni og það m.a.s án þess að hafa náð að máta forstjórastólinn. Eða hvarsu erfitt er það fyrir stórhuga fyrirtæki í hringiðu alþjóða viðskipta að geta ekki lengur sent stjórnarmenn á fundi í útlöndum í sinni eigin einkaþotu? Það er bara ekki traustvekjandi að mæta með venjulegu áætlunarflugi sem þú veist aldrei hvort druslast af stað á réttum tíma, maturinn er vondur, flugfreyjurnar gamlar og blaðskellandi kellingar og slompaðir kallar af fyrsta farrými eylíft að rápa inn á Saga Class til að komast á klósettið. Hver getur einbeitt sér að því að rýna í flóknar viðskiptaáætlanir undir svona kringumstæðum?

Og þetta er ekki allt. Núna er eintómt væl og bölmóður í bönkunum og ekki lengur hægt að fá lánaðar svo mikið sem 100 milljónir hvað þá meira! Ég meina hvað fær maður fyrir minna en 100 milljónir í dag? Frystihús á Vestfjörðum kanski, en hver vill það? Þetta er gengið svo langt að bankarnir hafa neyðst til að segja upp gjaldkerum og ræstingafólki í stórum stíl til að lækka rekstrarkostnað og einn bankastjórinn gekk á undan með góðu fordæmi og lækkaði launin hjá sjálfum sér og lætur sér nú duga að lifa einföldu og látlausu lífi af 3 milljónum á mánuði auk þess sem þessar 300 milljónir sem hann fékk fyrir að byrja í vinnunni eiga nú eftir að koma sér vel.

Það er líka af sem áður var þegar ekkert fjármálafyrirtæki með sómatilfinningu gat verið þekkt fyrir annað en að bjóða ubb á heimsþekkta skemmtikrafta á árshátíðum og öðrum stærri samkoum. Nú meiga menn prísa sig sæla ef Herbert Guðmundsson mætir og tekur lagið.
Því segi ég, verum góð við nýríka fólkið, það á bágt


Spáiði í það hvað þið setjið á netið?

browsing-the-net.jpgHver kannast ekki við tengslasíður eins og My Space og Facebook? Vinnuveitandinn ykkar kannast eflaust við þær og er ekki sérlega hrifinn, hvað þá af MSN eða þessu bévítans bloggi. Það byrjar nefnilega enginn að vinna á morgnana nema hafa hangið á netinu í svona klukkutíma fyrst. Jú kanski iðnaðarmenn sem hafa enga tölvu til að slugsa yfir, þeir hanga bara í kaffi í staðinn.

 Anyway, að hanga á netinu er samt ekki bara að hanga á netinu. Það skiptir máli hvernig hangsinu er háttað. Það sem þú setur á netið er þar for everyone to see. Ef fólki er á annað borð annt um mannorð sitt og ímynd út á við þá ætti það að spá í hvað það setur á netið. Ef þú ert t.d að leita þér að góðri vinnu þá skiptir það miklu máli. Það er þér ekki til framdráttar ef tilvonandi vinnuveitandi, sem er t.d virðuleg fjármálastofnun sem ekki má vamm sitt vita googlar þig og það fyrsta sem poppar upp eru myndir frá blautbolakeppni á Fjörukránni eða ef þú ert karlmaður og póstaðir á My Space síðunni þinni vídeói af því þegar þið félagarnir stunguð stjörnuljósum upp í afturendann á hvor öðrum á síðasta gamlárskvöldi. Mjög fyndið þá eflaust en ekki það sem að þú vilt að bossinn þinn sjái.

 Það eru til fyrirtæki úti í hinum stóra heimi sem hafa þá starfsemi að finna upplýsingar um fólk á netinu. Þá annað hvort til að eyða þeim fyrir viðkomandi aðila sem telja þær sér skaðlegar eða að einhver þriðji aðili vill komast að öllu um þig sem hægt er að grafa upp. Þegar þú ert orðinn ráðsettur fjölskyldufaðir með konu, börn og jeppa og ert jafnvel að hugsa um að demba þér í pólitíkina þá viltu alls ekki að myndirnar af þér frá Hróarskeldu ´96 þar sem þú lást inni í tjaldi með jónu á stærð við upprúllaðan sunnudagsmogga og tvær hálfnaktar súludansmeyjar í eggjandi stellingum að halda uppi fjörinu, leki út. Og bloggið þar sem þú segir frá því á hispurslausan hátt að raddirnar í höfðinu á þér hafi sagt þér að það vséu geimverur á meðal vor að reyna að taka yfir heiminn og að þær búi í Vogunum, er heldur ekki gott move.

Og strákar mínir, stelpurnar hafa fyri löngu tekið tæknina í sína þágu. Þú hittir stelpu á djamminu, þið farið að daðra pínu, þið skiptist á símanúmerum og svo fer hver til síns heima (nema auðvitað að báðir aðilar sleppi undanrásunum og fari beint í úrslitaleikinn). En svo hringir daman ekki til baka og svarar ekki þegar þú hringir og þú skilur ekkert í af hverju? Jú, ástæðan er einföld. Það fyrsta sem hún gerði var auðvitað að googla þig og komst að því að þú hljópst allsber inn á Laugardalsvöllinn í landsleik fyrir þrem árum, þú safnar límmiðum af bjórflöskum og að í fyrra fórstu á Star Trek ráðstefnu í Los Angeles, þú kannt Klingónsku og það er mynd af þér í Klíngónabúning á heimasíðunni þinni. Fyrir allt venjulegt kvenfólk þá er þetta ekki mikið turn-on.

Þannig að næst þegar þið setjið eitthvað á netið spáiði í því hvað þið eruð að setja þangað. Og ef þið eruð á 5. glasi, sleppiði því bara alveg!


Hvaða karlmaður vill ekki svona?

Porsche_kitchen_17313a.jpgMyndin hér til hliðar er af nýja Porsche Poggenphol P'7340 eldhúsinu og er eflaust draumur hvers karlmanns að hafa eitt slíkt. Porsche er fyrirtæki sem horfir til framtíðar og lætur sér því ekki nægja að framleiða bíla heldur eru þeir með undir sínum merkjum úr, farsíma, kaffivélar og nú síðast heilt eldhús, hvorki meira né minna. Eins og sést á myndinni er þetta ákaflega stíliserað og mínimalískt og eins og sést líka þá hefur enginn karlmaður enn komið inn í þetta eldhús sem er þarna á myndinni þar sem allt er enn ákaflega snyrtilegt og hreint.

En hvað er það við þetta eldhús sem á að höfða frekar til karlmanna en t.d IKEA gerir? Til að byrja með eru sérstakt efni í öllum ytri flötum sem er sérstaklega hannað til að hrinda frá sér óhreynindum þannig að 5 vikna gamlir tómatsósublettir hreinsast auðveldlega af og sömu leiðis glasaför og kaffislettur. Innbyggði ísskápurinn rúmar 48 bjórdósir og það eru sérstök hólf þar sem hægt er að geyma hálfétnar pizzur og pylsupakka. Annað þarf í raun ekki að komast þar fyrir. Örbylgjuofninn er sérstaklega hannaður til að hita upp Thai take-away á sem skemmstum tíma auk þess sem í honum er sérstök krús sem til að hita upp kalt kaffi án þess að sjóða það. Innbyggt 48 tommu flatskjásjónvarp fylgir þessu eldhúsi auk Playstation tölvu

Engin þörf þótti vera á eldavél en þess í stað var hægt að nýta plássið undir extra stóran vask sem rúmar minnst 20 daga notkun af óhreynu leirtaui. Honum fylgir auk þess sérstakt lok sem hægt er að smella yfir hann ef gesti ber að garði og er það alveg loftþétt þannig að það heldur inni allri óæskilegri lykt ef um viðkvæma aðila er að ræða eins og aldraðar frænkur. Vaskurinn er einnig það stór að með góðu móti mætti nota hann til að baða heimilishundinn, hamfletta 12 gæsir í einu eða þrífa vél úr Ford Mustang ´68.

Þó vaskurinn sé merkileg hönnun þá er hann ekki það sem framleiðendurnir eru stoltastir af. Það mun nefnilega vera innbyggða þvottavélin. Hún er þeim kostum gædd að skynja muninn á ljósum og dökkum þvotti þar sem oft getur reynst erfitt að finna út úr því þegar verið er að setja í vélina um leið og verið er að horfa t.d á fótbolta í sjónvarpinu, og ekki nóg með það heldur getur hún flokkað í sundur þvott eftir litum eftir að hann hefur verið settur í vélina og fært hann í þar til gert hólf þar sem hann blandast ekki öðrum þvotti. Það eina sem þarf að passa er að tæma hólfið minnst einu sinni í mánuði. Það er auk þess bara ein hitastilling og eitt þvottakerfi. Rúsínan í pylsuendanum er svo að þvottavélin er búin sérstakri sugu sem getur sogað upp af eldhúsgólfinu allt smærra tau eins og óhreina sokk, nærföt og skyrtur og fer það þá beint inn í vélina.

Framleiðendurnir vonast til að þetta glæsilega eldhús eigi eftir að slá í gegn meðal karlmanna enda hannað algerlega eftir þeirra þörfum. Þeir munu svo vera með í hönnun bílskúr fyrir konur þar sem gert er ráð fyrir parketlögðu gólfi, 6 fataskápum, mátunarherbergi ef þörf er á að skipta um föt á síðustu stundu, 3ja sæta leðursófa, símatengi sem hægt er að tengja allt að 4 síma við og baðherbergi með freyðibaði. Nú er verið að finna út úr því hvað á að gera við bílinn


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband